01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

111. mál, kennsla sjúkraliða

Fyrirspyrjandi (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Á þskj. 132 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hvers vegna fer ekki lengur fram á Akureyri kennsla sjúkraliða?“

Haustið 1965 hófst kennsla sjúkraliða við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Hafði slík kennsla ekki farið fram fyrr hér á landi. Námið var í upphafi 8 mánaða nám og sniðið að mestu eftir sambærilegu námi í Danmörku. Fljótlega hófust sjúkraliðanámskeið í Reykjavík og jafnvel víðar og námið var lengt í 12 mánuði.

Á Akureyri hafa verið útskrifaðir 11 árgangar sjúkraliða, sá síðasti vorið 1976. Samtals hafa þar útskrifast 192 sjúkraliðar. Hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri svo og við önnur sjúkrahús í landinu eru not fyrir starfskrafta þessara sjúkraliða, og veit ég ekki annað en menntun þeirra hafi svarað þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra starfa.

Snemma á s. l. ári hófst undirbúningur að því að bóklegt nám í sjúkraliðafræðum yrði flutt inn í Gagnfræðaskólann á Akureyri, en verklega námið yrði áfram í Fjórðungssjúkrahúsinu. Í bréfi heilbr.- og trmrn. frá 15. mars 1976 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar sér þetta rn. ekkert því til fyrirstöðu að Gagnfræðaskóli Akureyrar í samstarfi við Fjórðungssjúkrahúsið komi á fót sjúkraliðanámi hliðstæðu því sem Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur.“

Í bréfi Stefáns Stefánssonar, formanns stjórnar Fjórðungssjúkrahússins, til heilbrrn. 28. júní er gerð grein fyrir frekari undirbúningi málsins frá hálfu ráðamanna og frá því skýrt, að tekist hafi samkomulag á fundi fulltrúa Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, skólastjóra Gagnfræðaskólans á Akureyri og fulltrúa menntmrn. um að taka upp sjúkraliðanám við Gagnfræðaskólann í trausti þess að heilbrrn. samþ. tilhögun kennslunnar. Í bréfi þessu er síðan gerð ítarleg grein fyrir kennslutilhögun. M.a. segir svo í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir að Gagnfræðaskólinn á Akureyri veiti sjúkraliðum hliðstæða menntun í bóklegum fögum og Sjúkraliðskóli Íslands og að námið, svo sem inntökuskilyrði, námstími og námsefni, verði sniðið eftir reglugerð fyrir Sjúkraliðaskóla Íslands. Miðað er við að fyrirkomulag þetta verði tímabundið á meðan ekki hefur verið stofnaður fjölbrautaskóli og ekki liggur fyrir fastmótuð tilhögun á menntun sjúkraliða í fjölbrautakerfinu.“

Till. þessar hlutu ekki samþykki heilbr.- og trmrn. og sjúkraliðanám á Akureyri fellur niður á þessu skólaári. Þess vegna, herra forseti, hef ég leyft mér að bera fram fyrrnefnda fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh.