01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Það er nokkuð rétt að ég hafði hugsað mér að taka til máls.

Hv. 4. þm. Austurl., Tómas Árnason, varði stöðu sína nokkuð vel. Það segir sig sjálft að jafnvel þeir, sem hvað mest voru á móti tilvist þessarar stofnunar, Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs, áður fyrr, eftir því sem mér hefur verið sagt frá umr. sem hér áttu sér stað áður en ég kom til setu á Alþ., þeir gerast nú bestir talsmenn þessarar stofnunar. En ég vil, þrátt fyrir það að ég er búinn að gleyma mörgu af því sem hér féll í umr. á fyrra stigi þegar þessi till. mín var til umr., reyna að rifja þetta dálítið upp, og þó er kannske ekki mikil ástæða til þess þar sem hv. 1. þm. Suðurl., formaður þeirrar stofnunar sem hér er til umr., gaf sögulegt yfirlit yfir tilvist þessarar stofnunar frá upphafi til þessa dags, og ég sé ekki neina ástæðu til annars en þakka honum fyrir þann fyrirlestur. Ég vona að hann verði sama sinnis hvað tilvist þessarar stofnunar snertir eftir að hann er hættur að starfa fyrir hana eins og hann er nú, þótt hann sé nú kominn á þá skoðun sem hann var áður andstæður eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið.

Till. mín fjallar ekki um að veita Reykjavík nein forréttindi á einn eða annan hátt, þannig að fyrirlestur hv. 4. þm. Austurl. um Reykjavík í sambandi við þessa till. er e. t. v. hugarfóstur vegna þeirra umr. sem áður hafa átt sér stað, bæði hér á Alþ. og annars staðar, um hvað Reykjavík er að verða afskipt við úthlutanir til ýmissa sameiginlegra þarfa sem Reykjavík þarf að gegna sem höfuðborg. Reykjavík hefur alls konar höfuðborgarskyldum að gegna sem hún kemst ekki hjá. Það er ekki hægt að ætlast til þess að Reykjavík ein standi undir þeim á einn eða annan hátt. Þessi ræða hv. þm. var því langtum lengri en hún þurfti að vera. Hann gat sleppt öllu því tali. Ég veit ekki hvort það væri mikil eftirsjá í því þó að háskólar kæmu úti um land alveg á sama hátt og menntaskólar eru nú að koma úti um land. Menntastofnanir og menntaskólar voru eingöngu í Reykjavík á sínum tíma. Nú eru þeir komnir víða úti um land, og Reykjavík gerir ekkert, ekki nokkurn skapaðan hlut til þess að hindra að þeim stofnunum verði dreift um landið. Ég skal taka undir ef hv. 4. þm. Austurl. vill koma með þá till. að háskólar rísi upp annars staðar en í Reykjavík. Ég hugsa að Reykjavíkurborg yrði betur úti fjárhagslega því að það er talsverður baggi á Reykjavík að hún hefur þurft að styðja við alls konar félagslegar framkvæmdir á vegum háskólastúdenta. Við gerð hverrar einustu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar koma þeir með lánaumsóknir. Það getur vel verið að byggðafélögin úti á landi vilji fá þær umsóknir.

Ég vil taka undir það að auðvitað eru mikil tengsl á milli Alþ. og Framkvæmdastofnunar þar sem hér sitja á Alþ. bæði stjórnendur og framkvæmdastjórar Framkvæmdastofnunarinnar. Það er ekki nema eðlilegt að þeir standi upp og verji stofnunina hvenær sem er að því vegið að hún gefi ekki nógar upplýsingar. Till. mín felur aðeins í sér að fá að vita meira um hvað er að ske vegna fjárfestinga bæði Framkvæmdastofnunarinnar og Byggðasjóðs, og ég sé ekkert í minni framsöguræðu sem ruglar þeim tveimur stofnunum saman.

Ég hefði t. d. gaman af að vita hvað skeði þegar fiskiðjuver er stækkað á einhverjum stað úti á landi fram yfir það sem eðlilegt er í viðkomandi byggðarlagi. Ég hef óljósan grun um að sá staður dragi þá að sér vinnuafl frá öðrum atvinnuvegum, kannske úr nálægum sveitum. Hvaðan kemur þá vinnuafl til baka í sveitirnar, ef það þá fæst? Hvaða áhrif hefur fjárfesting þegar hún verður óeðlilega mikil skyndilega á tiltölulega litlum stöðum? Það er til eðlileg fjárfesting, það er til eðlileg þróun, það er til lítil fjárfesting fram yfir eðlilega fjárfestingu og það er til mikil fjárfesting sem er óeðlileg. Við höfum hlustað á dæmi hér í þingsölum um að fjárfestingin hafi verið óeðlileg. Við höfum heyrt um uppbyggingu á frystihúsum sem ekki eru starfrækt þrátt fyrir mikið fé úr Byggðasjóði til þeirra. Við höfum heyrt um bátakaup. Við höfum heyrt um sölu á bátum frá stöðunum aftur svo til samdægurs. Og þá hugsa ég að það hafi verið mjög vanhugsuð fjárfesting eða kannske of hröð fjárfesting. Og hvaða áhrif hefur þessi fjárfesting? Hvaða áhrif hefur það fyrir lítið byggðarlag að vera með þungan bagga, eins og kom fram í síðasta máli sem var hér til umr., 22% vaxtabagga, ef um eðlilegt lán er að ræða, en gæti farið miklu hærra þegar það er komið í vanskil? Hvaða áhrif hefur þetta fyrir byggðarlög úti á landi? Af hverju má ekki rannsaka þetta? Hvers vegna eru framkv.stjóri og form. þessara stofnana komnir hér upp eins og veggur til þess að telja Alþingi íslendinga trú um að hluta af fjárl., þeim hluta sem upp undir helmingur af þjóðinni á ekki að hafa aðgang að, eigi að ráðstafa í myrkri í einhverri nefnd eða stofnun, og þegar er verið að biðja um upplýsingar, þá skuli þeir standa upp og mynda vegg gegn því að upplýsingarnar séu veittar, að það sé kannað hvaða áhrif það hefur? Ég get ekki ímyndað mér að í þessu sé neitt sem þarf að fela. Það hefur ekki hvarflað að mér. Ég vil bara tala um hvaða áhrif fjárfestingarnar hafa á hinum ýmsu stöðum.

Ég get ekki fundið, eftir því sem ég hef séð í þeirri skýrslu sem forsrh. flytur Alþ. um störf stofnananna, að það liggi nokkuð fyrir um það sem ég er að fara fram á að verði kannað. Það kemur kannske fram hve vel viðkomandi stofnun starfar að því að úthluta. Það getur vel verið. En hvaða áhrif úthlutanirnar hafa, það kemur ekki fram þar nema að mjög óverulegu leyti. Maður sér að vísu á skýrslunum að þangað hafa farið peningar, þarna hefur verið byggt upp stórt og mikið þetta og þetta fyrirtæki, þarna starfa svo og svo margir. En hver er svo árangurinn af því? Það er hægt að veiða kannske mjög mikið magn af fiski, en þannig er hægt að vinna að það verði lítið verðmæti úr honum. Það er hægt að veiða lítið magn og gera úr því mikið verðmæti. Þetta er allt og sumt sem ég er að biðja um að fá athugað, hvaða áhrif fjárfestingarnar hafa haft. Ég ætlaðist ekki til að fá hér framhald af sögulegum þræði uppbyggingar stofnananna frá framkvæmdastjóranum, það var komið frá formanninum. En ég talaði um að það væri brot á grundvallarreglum lýðræðis að taka hluta undan af því ráðstöfunarfé sem Alþ. hefur á hverjum tíma við gerð fjárl. lagt í sérsjóði, afhenda það tiltölulega fámennum hópi, eins og hægt er að kalla þá alþm. sem stjórna stofnununum, og segja: Hér eru 10% eða 5% eða hvað það er af fjárl. Alþ., af sameiginlegu fé þjóðarinnar, ráðstafið því bara ekki í þennan hóp, til allra annarra. — Þetta segi ég að sé brot á grundvallarreglum lýðræðisins. Hitt er annað mál, að ég ætla að leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp úr ræðu minni svo að það fari ekkert á milli mála, eins og hv. 4. þm. Austurl. gerði. Þar segi ég:

„Það, sem ég ætlast sérstaklega til að Alþ. láti kanna, er hvaða röskun þessi starfsemi kann að hafa haft — ekki til þess að vinna gegn uppbyggingu landsbyggðarinnar, þess er vissulega þörf að sinna henni, heldur þvert á móti til þess að kanna hvort hagsmunir einstakra landshluta hafa ekki verið fyrir borð bornir, og þar má nefna hagsmuni Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis.“

Það er hvergi lagt til að það sé hætt við byggðastefnuna eða hætt að gera það sem vit er í að gera. Ég vil bara núna á 5 ára afmæli þessarar stofnunar láta fara að gera úttekt og vita hvort hún hefur starfað til góðs eða ills og hvað hefur þá farið aflaga. Ég er ekki í nokkrum vafa um að eitthvað hlýtur að fara aflaga eftir þeim málflutningi sem hér hefur verið áður en ég kom hingað á þing.

Það er auðvitað hártogun sem á sér tæplega stað í þessum umr., hvort einn eða annar þm. vill hverfa aftur til frumstæðustu byggðarskilyrða á Íslandi vegna þess að hann vill láta athuga hvaða áhrif fjárstreymi úr opinberum sjóði hefur á byggðaþróun í dag. Mér finnst það vera fyrir neðan virðingu þm. að tala svona. Þetta á víst að vera grín og er það, ég tek það sem slíkt, en það á ekki heima í þessum umr.

Hitt er annað mál, að ég er þeirrar skoðunar að frelsi einstaklingsins til orða og athafna á öllum sviðum eigi að vera sem allra mest. Það getur verið að þar komi til með að stangast á pólitískar skoðanir. Ég er þessarar skoðunar, aðrir eru annarrar skoðunar, og ég ætla ekki að fara að túlka það neitt sérstaklega. Ég ætlast ekki heldur til að aðrir þm. túlki annað en það sem ég læt sjálfur fram í skoðunum.

Það getur vel verið, svo að ég hlaupi aftur í það sem hv. 4. þm. Austurl. tók fram í sínu máli, í beinu framhaldi af þessu, að skoðanir manna geti stangast á um hvað er frelsi og hvað er ekki frelsi. Hann segir: „Allt of mörg fyrirtæki í Reykjavík.“ Það getur vel verið, ég ætla ekki að leggja neitt mat á það. Ég segi bara að ég sé ekki þeirrar skoðunar að þau séu of mörg meðan þau lifa. Ef þau geta haldið sér gangandi miðað við þau höft sem sett eru á þau, þá má segja að það sé stórfurðulegt hvað það eru mörg fyrirtæki sem lifa í Reykjavík. En nú eru lífsskoðanir okkar ekki þær sömu. Ég aðhyllist einstaklingsverslun. Hv. 4. þm. Austurl. hefur hingað til að mínu mati, eftir því sem ég hef heyrt hann segja, aðhyllst frekar samvinnuverslun. Þess vegna kemur það náttúrlega fram að það séu allt of mörg fyrirtæki í Reykjavík. Ég get skilið það, að það ætti helst ekki að vera nema eitt að hans mati, eftir því sem ég skildi hann, og það er nú ekki í fyrsta skipti sem það kemur fram.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram að gefnu tilefni, að það er mjög langt frá því að ég sé á móti aðstoð við byggðarlög eða að það sé eitthvert keppikefli hjá mér eða öðrum reykvíkingum að vinna gegn uppbyggingu landsins alls. Þetta er mesti misskilningur. Það þarf bara að vita hvort þessi byggðaröskun, sem hv. þm. talaði um, er ekki að snúast við þannig að byggðaröskunin sé að verða hér á þessum kjarna frekar en úti á landi eins og komið er. Það hlýtur að koma að einhverju marki þar sem fjárfestingin úti um land er komin í það sem byggðarlögin þola, og þá fara aðrir landshlutar að líða fyrir það. Ég held að það sé tilefni til að rannsaka þetta. Ég er ekki að fara fram á neitt annað en að kanna hver orsökin að þessum fjárfestingum er, hver afleiðingin er og hvað það hefur gert til góðs og til ills. Ég vil bara benda á að það er mjög hættulegt að heyra það frá framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar að það eigi að vera atriði í heildaruppbyggingu að fjárfesta úti á landi bara til þess að gera eignir einhverra — það kom ekki fram hverra — arðvænlegri eða verðmeiri, ég veit ekki hvort hann meinar til notkunar eða til sölu.

Nei, ég vil ítreka það og það kom fram í ræðu minni, að það frjálsræði, sem ég tala um, er ekki að fara aftur til frummannsins. Það er bara frjálsræði til búsetu og athafna eftir því sem hver og einn ákveður að velja sér, og þar á hann að fá þá fyrirgreiðslu sem eðlilegt er að þjóðfélagið veiti honum, en að fjármagn sé ekki notað til fólksflutninga, ef svo má að orði komast. Að sjálfsögðu á maðurinn ekki að elta fjármagnið. Fjármagnið hlýtur að skapast þar sem menn vinna og hasla sér völl. Fjármagnið þjónar, má segja, áformum mannsins eftir að hann hefur skapað það. Verðmæti myndast af ýmsum gerðum. Ef við öll hættum að vinna myndast ekkert fjármagn. Þá myndast ekki nein verðmæti. Þau myndast þar sem maðurinn er, og þau myndast þar sem helst er hægt að skapa þau á eðlilegan hátt. Annað er ekki arðbært, hvorki fyrir einstaklinginn né heldur þjóðina í heild. Hitt er svo annað mál, að við getum kannske haldið gangandi hverju sem er ef ótakmarkað fé er fyrir hendi. Ég vil ekki bera þetta saman við að þjóðir heims hafa sameinast um að byggja upp þriðja heiminn, vanþróuðu löndin. Það er allt annað mál. Það er talið að við vestrænir menn höfum arðrænt, þ. e. a. s. notið auðæfa þessa heims um aldir, og við erum að endurgreiða það sem við höfum tekið frá þessum þjóðum. Er það virkilega meining hv. 4. þm. Austurl. að við, sem búum á suðvesturhorninu, höfum arðrænt eða dregið til okkar frá landsbyggðinni og við þurfum nú að endurgjalda það af sömu ástæðu og alþjóðastofnanir styrkja nú vanþróuðu löndin? Ég trúi því ekki, að hv. þm. meini það sem ég a. m. k. las á milli orða hans, og tel ég ekki nokkuð sambærilegt hægt að finna í þessum tveimur athöfnum.

Ég tel að fjármagnsflutningur geti verið hættulegur. Við getum lifað í þeirri blekkingu að hann sé góður allan tímann, en hann er það ekki. Hann getur líka verið slæmur. Við heyrðum hér um daginn talað um frystihús sem eru ekki í gangi lengur, það er búið að henda í þau hundruðum milljóna. Nú upplýsir hv. 4. þm. Austurl. að í hraðfrystihúsaáætlun hafi samtals verið fjárfest milli 14 og 15 milljarða (TÁ: Miðað við verðlag í sumar.) Miðað við verðlag í sumar. Já, ég skildi það. Það er upplýst að a. m. k. þetta eina frystihús, sem kom hér á dagskrá um daginn, er ekki rekið með hagnaði, ef það er þá rekið, og það eru kannske fleiri slík. Það þarf að fara á staðinn, það þarf að skoða það og það þarf að spýta enn þá meiri peningum í það. Er þetta arðvænt? Er þetta rétt fyrir fólkið sjálft á staðnum? Hver er skuldabagginn, bara vaxtaskuldabagginn á þessu fólki? Stendur fólk undir því eða verður að afskrifa þetta bara til þess að byggðarlagið fari ekki á hausinn vegna offjárfestingar? Ég skal ekki segja um það.

Ég hjó eftir því að hv. 4. þm. Austurl. sagði að ég hefði ekki gert nógu mikinn greinarmun á Framkvæmdasjóði annars vegar og Byggðasjóði hins vegar. Ég ætla þess vegna — með leyfi forseta — að lesa upp þann kafla úr ræðu minni, en hann hljóðar svo:

„Fram kemur í ársskýrslu Framkvæmdastofnunarinnar árið 1975 að lán Framkvæmdasjóðs, sem einkum lánar til stofnlánasjóða atvinnuveganna, nema samtals það árið á fimmta þúsund millj. kr., þar af fara aðeins 25 millj. til verslunarlánasjóðs og ekkert til Ferðamálasjóðs. Aftur á móti fær Stofnlánadeild landbúnaðarins lánaðar 1387 millj. úr Framkvæmdasjóði“ — ég undirstrika það — „sem er 2 millj. kr. meira en nemur heildarútlánum Stofnlánadeildarinnar. M. ö. o. hefur Stofnlánadeild landbúnaðarins árið 1975 ekki getað endurlánað allt það fé sem hún fékk úr Framkvæmdasjóði.“

Þetta sagði ég um Framkvæmdasjóð. Ég vil leyfa mér máli mínu til stuðnings að biðja hv. þm., ef þeir eru með ársskýrslu Framkvæmdastofnunar fyrir 1975, að fletta upp á bls. 68, en þar kemur í kafla nr. XVIII, það er greiðsluyfirlit fjárfestingarlánasjóða 1975, að Framkvæmdasjóður hefur látið til Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1387 millj. Ég er ekki að telja önnur framlög, en þau eru samtals upp á 2399 millj. En þegar kemur að ráðstöfun fjár heldur neðar á bls., þá kemur: Bein útlán og framlög úr sjóðnum eru 1385 millj. Það er sem sagt 2 millj. minna, sem Stofnlánadeildin lánar út, heldur en hún fékk frá Framkvæmdastofnuninni einni saman. En þar fyrir utan hefur hún tekjur annars staðar frá sem ég hirði ekki um að lesa upp.

Þá vil ég — með leyfi forseta — vitna í það sem ég sagði um Byggðasjóðinn. Það er alveg aðskilið hér og alls ekki ruglað saman, þannig að það er engin ástæða fyrir hv. 4. þm. Austurl. að reyna að gera mál mitt — við skulum segja kauðalegra en það þarf að vera, miðað við það sem ég sagði. En þar segi ég eftirfarandi:

„Árið 1975 voru samþykkt 425 ný lán úr Byggðasjóði að upphæð 1603 millj. kr. Þar af fóru tvö lán til Reykjavíkur að upphæð 15 millj. og 13 lán til Reykjaness að upphæð 148 millj. kr. Aftur á móti fær Austurland“ — ég tók það að sjálfsögðu viljandi — „97 lán að upphæð 317 millj.“

Ég get ekki séð að ég hafi ruglað þarna saman þessum tveimur sjóðum. Það er engin ástæða til þess að láta skína í að ég geri það. Þetta kemur fram síðast á bls. 81, ef menn rengja þessa tölu. Það eru 14 millj. 350 þús. kr. sem fara til Reykjavíkur. Gunnar I. Hafsteinsson fær lán til kaupa á skuttogara frá Englandi, 14 millj. 350 þús, af 1 milljarði 237 millj. 252 þús. kr. Þetta er á bls. 81 í sama bæklingi, ef menn vilja kynna sér það.

Ég er þeirrar skoðunar að allir landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að Framkvæmdasjóði og Byggðasjóði og Byggðasjóður eigi að notast svo lengi sem hann kemur að góðu gagni úti á landi umfram það sem notað er hér á þessu svæði. Annars hafði ég ekki hugsað mér að gera þetta svæði, hvorki Reykjavík né Reykjanes, að sérstöku umræðuefni í sambandi við till., aðeins athuga hvaða áhrif fjárfestingar þessa mikla sjóðs hafa víðs vegar um landið, því að eins og ég sagði áðan og ítreka er þetta hluti af framlagi á fjárl. sem fer fram hjá fjárveitingum Alþ. út í sérstofnun sem úthlutar þar með hluta af fjárl. án beinnar íhlutunar Alþingis. En ég skal viðurkenna það og undirstrika að markmið Byggðasjóðs er göfugt. Það á að byggja upp þar sem þarf að byggja upp. Það á að láta peninga þangað sem þeirra er þörf. Ég vil þó fá að vita að það sé gert á þann hátt sem til var stofnað og ætlast er til að sé gert. En því er ekki að leyna að hér sunnanlands er mikil þörf fyrir fjárfestingu þó að heyrist kannske lítið í þm. Reykv. þegar þeir kvarta. Það getur vel verið að vandamálið sé nær mér hér í Reykjavik vegna þess að ég er ekki bara borgarfulltrúi heldur borgarráðsmaður og sit hér í hafnarstjórn og víðar og sé hvernig málum er komið þar vegna féleysis, þar sem jafnvel rekstrartap fæst ekki bætt með eðlilegum hækkunum tekna, heldur verður það mörgum sinnum hærra en nauðsynlegt er þegar loksins fæst að hækka, vegna þess að okkur hefur verið sagt á vissu tímabili, erfiðleikatímabilinu, að taka erlend lán til að brúa rekstrarskuldir. Það veit hæstv. forsrh. og fyrrv. borgarstjóri sem er nú því miður fjarverandi.

Ég skal ekki tala mikið um aðstöðumun í Reykjavík og úti á landsbyggðinni. Það er að sjálfsögðu aðstöðumunur. Ég hef búið erlendis, og ég hef búið úti á landi erlendis þótt ég hafi ekki búið úti á landi hér. En ég hef verið í sveit og að sjálfsögðu er mikill aðstöðumunur. Ég hugsa að engum manni detti í hug að París bjóði það sama og Nizza, eða Naney, sem er tiltölulega lítil borg við Miðjarðarhaf, það sama sem höfuðborgin. Það getur aldrei orðið, það er útilokað. En það er sjálfsagt að gera allt sem hægt er til þess að gera líf þeirra, sem ekki hafa öll þægindi sem höfuðborgir yfirleitt hafa að bjóða, eins þægilegt og létt og mögulegt er. Meira verður aldrei hægt að gera. Nýjungarnar hljóta alltaf að skapast þar sem fjölmennið er og samtakamátturinn hvað mestur, og þar munu nýjungar oftast nær skapa þægindi. Sú hefur verið þróunin hér þó Akureyri hafi ekki komið mikið til umræðu, en Akureyri kemur þó næst Reykjavík hvað það snertir. Það dettur engum í hug að ætlast til þess að nágrannabyggðir Akureyrar hafi allt það sama og akureyringar hafa. En það er alltaf talað um Reykjavík. Af hverju ekki að bera það saman við mismunandi staði úti á landi?

Að sjálfsögðu er alveg óþarfi að taka það fram, það er eins og að tala bara til að tala um eitthvað, að tala um að opinberar stofnanir séu byggðar fyrir landsfé. Fyrir hvað ætti að byggja þær? Opinberar stofnanir margar eru auðvitað í Reykjavík vegna þess að Reykjavík hefur verið valin sem höfuðborg. Reykjavík hefur höfuðborgarskyldum að gegna,það er alveg rétt. Það eru margir utan af landi sem vinna í ríkisstofnununum og borga þá kannske skatt í Reykjavík og útsvör. Það eru líka margir sem vinna í Reykjavík og borga útsvör sín í Kópavogi eða í Garðabæ eða á Seltjarnarnesi, þ. á m. hv. 4. þm. Austurl., ef ég veit rétt., þannig að Reykjavík sleikir ekki bara rjómann af vinnumarkaðinum. Þetta gengur svona til alls staðar. Það eru margir sem vinna rétt fyrir utan hvaða bæ og þorp sem er á landinu og borga sín gjöld til sveitarfélagsins sem þeir tilheyra. En að það séu einhver sérstök hlunnindi fyrir Reykjavík að sameiginlegar þjónustustofnanir séu byggðar af opinberu fé í höfuðborginni, ég skil ekki hvaða erindi það á inn í till. um að athuga hvaða áhrif fjárveitingar eða lán úr Byggðasjóði eða fjárfestingar Byggðasjóðs og Framkvæmdasjóðs hafa á uppbygginguna úti á landi.

Ég get ekki rætt núna um aðra þá fjárfestingarsjóði sem hv. þm. gerði hér að umræðuefni. Ég gæti að sjálfsögðu flett því upp hvað mikið hefur farið í hvern landshluta frá Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði og svo aftur bönkunum hér, en það hlýtur að fara eftir umsvifum iðnfyrirtækja á hverjum stað. Ég hef ekki trú á því að í skipasmíðar í Reykjavík hafi farið meira undanfarin ár heldur en í skipasmíðar á Akureyri eða skipasmíðar í Garðabæ. Ég hef ekki trú á því. Það er mjög mikið vandamál hjá skipasmíðastöðvum í Reykjavík, hvar þær eigi að fá peninga, rekstrarfé, hvað þá til að stækka og nota þá aðstöðu sem Reykjavíkurborg eða Reykjavíkurhöfn vill skapa þeim til þess að gegna því þjónustuhlutverki sem er gerð krafa til þeirra að þau geri. Þau hafa ekki aðgang að fé til þess. Ef það er laust fé í Framkvæmdastofnuninni til þess að styrkja Slippfélagið eða Slippinn og Stálsmiðjuna og fleiri hér í Reykjavík, þá þætti mér vænt um að framkvæmdastjóri stofnunarinnar kæmi þeim boðum áleiðis. Ég skal bera þau á milli ef hann óskar eftir. En það verður þá að standa að viðkomandi aðili geti fengið fé til uppbyggingar. Ég er því miður ekki með yfirlit yfir þessa sjóði. En ég tel ekkert óeðlilegt að sú myndarlega stofnun, Slippstöðin á Akureyri, hafi fengið verulegt framlag úr Iðnþróunarsjóði þó hann sé staðsettur hér í Reykjavik, vegna þess að það er meiri kraftur í þeim, en nú undanfarið hefur verið talsverð lægð í slippfélögunum hér í Reykjavík vegna þess að þau hafa ekki sömu sterku aðstöðu til þess að fá lán. Það getur líka vel verið, ég hef ekki kynnt mér það, að Byggðasjóður hafi fjárfest í skipasmiðastöð á Akureyri, en ekki í Reykjavík. Ég skal kynna mér það. Ef hv. 4. þm. Austurl. getur upplýst um það og hve mikið hefur farið til slippfélaganna hér í Reykjavík á móti slippfélögum annars staðar, þá þætti mér vænt um að fá að vita það.

Hitt er annað, að bankarnir í Reykjavík lána meira í upphæðum til Reykjavíkur eða reykvíkinga heldur en út á landsbyggðina. Það er e. t. v. ekki óeðlilegt því að ráðstöfunarfé bankanna er aðallega sparifé fólksins á hverjum stað. Ég held að það væri talið óeðlilegt ef sparifé fólksins úti á landi færi að streyma til Reykjavíkur, á sama hátt og það væri óeðlilegt ef sparifé streymdi í meira magni en það gerir þegar frá Reykjavík út til sparisjóðanna því að spariféð er vinnufé fólksins á stöðunum. Það er kannske m. a. þess vegna sem full ástæða er til að athuga fjárfestingu og starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs, vegna þess að þau ern í beinni samkeppni við bankakerfið sem er fjárvana á sama tíma sem Byggðasjóði eru tryggðir ákveðnir milljarðar. Ég hugsa að það nálgist meira 2 milljarða núna heldur en 1600 millj. sem voru til ráðstöfunar á s. l. ári. Ég ítreka það að ég tel vafasamt hvort það er lýðræðislega rétt að taka hluta af fjárlögum þjóðarinnar og leggja í hendurnar á fáum mönnum til ráðstöfunar „prívat“ í þær þarfir sem sótt er um til þeirra. Ég kalla það „prívat“, vegna þess að þeir eru ekki margir sem hafa umráð yfir þeim stóra sjóði. En till. — ég ítreka það enn þá einu sinni — hún er um það að Alþingi Íslendinga fái að vita í hvað þetta fé ekki aðeins fer, heldur hvort það kemur að gagni, hvort það kemur á rétta staði og hvort það ber tilætlaðan árangur á þeim stöðum sem því er beint til.

Ég er alveg sammála hv. 4. þm. Austurl. um að Reykjavík á að stækka af sjálfu sér. Þetta er alveg rétt. En er þetta ekki jafnrétt um alla staði? Offjárfesting, of mikið fjárstreymi í staði sem þola það ekki, litla staði, getur verkað öfugt, það hlýtur hv. þm. að vera mér sammála um. En ég tek alveg undir það, að Reykjavík á að stækka af sjálfu sér, og vil ítreka það, að það á ekkert að vera að takmarka við Reykjavík. Allir þurfa alltaf að vaxa eðlilega. Það getur vel verið rétt sú fullyrðing framkvæmdastjóra stofnunarinnar og formanns, sem verja náttúrlega sinn unga og lifibrauð, að hún hafi haft afgerandi áhrif til góðs. Það hefur enginn, síst af öllum ég, sagt annað. Og ég sé ekki ástæðu til þess fyrir framkvæmdastjórann, hv. 4. þm. Austurl., að taka það sérstaklega fram. Það er oft þegar maður tekur slíkt sérstaklega fram, að maður finnur hvöt hjá sér til þess að athuga hvort það sé rétt. En við skulum vona að það sé rétt. Og tal um hvort það hefði verið rétt að láta byggðum úti á landi blæða út ég get svarað því mjög stuttlega: Auðvitað ekki. Það hefur aldrei staðið til. Eða er eitthvað í till. minni sem gefur tilefni til þess að ætla að ég sé að flytja þessa till. fyrir einhverja vonda menn sem vilja láta byggðarlögum úti á landi blæða út?

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lesa aftur það sem ég las upp áðan, ég gríp þar inn í setninguna: „ekki til þess að vinna gegn uppbyggingu landsbyggðarinnar, þess er vissulega þörf að sinna henni.“ Er þetta nóg? Og hver er þá ástæðan til þess að vitna í mitt mál og tala um að ég sé að gefa í skyn með till. minni sé verið að vinna að því að byggðarlög úti á landi blæði út? Ég vil bara undirstrika það og biðja blaðamann Tímans, ef hann er þarna, um leið og hann birtir ræðu hv. 4. þm. Austurl., að taka þetta sérstaklega fram fyrir mig. Það hefur aldrei verið ásetningur minn að stuðla að því að einni byggð eða annarri blæði út. En að sjálfsögðu — og ég tek undir það — að sjálfsögðu er rétt að fjárfesta á þeim stöðum sem eru arðbærir fyrir þjóðarbúið í heild, að nýta auðlindir landsins, auðlindir sjávarins. Það hefur verið gert á mörgum stöðum og mjög vel, ég tek alveg undir það. En hvaða áhrif hefur það haft fyrir landið, fyrir aðrar atvinnugreinar, fyrir landbúnaðinn? Hefur það dregið fólk úr landbúnaðinum? Hefur það skapað erfiðleika á öðrum sviðum? Halda kaupfélögin á stöðunum mannskapnum, eða fer allt fólkið í frystihús? Það er þetta sem ég vil láta athuga, hvort fjárfestingar yfirleitt hafa komið að tilætluðum notum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég hafði satt að segja ekki sérstaklega ætlað mér að standa upp aftur og bjóst ekki við að tilefni gæfist til þess. En það var margt sem var fullyrt þarna og snúið á annan veg, túlkað öðruvísi en ég bjóst við eða ég hafði sagt, og ég er reiðubúinn til þess að lána þeim, sem ætla að tala frekar í þessu máli, ræðu mína, þannig að hún verði ekki rangtúlkuð á einn eða annan hátt, áður en þeir fara upp í ræðustól.

Ég vil ítreka það að lokum, að hvorki ég né nokkur annar, sem ég hef hitt á þeim árum sem ég hef búið í Reykjavík, hefur nokkurn tíma látið orð falla um það að Reykjavík væri á móti uppbyggingu úti á landi á einn eða annan hátt, að Reykjavík eða Reykvíkingur hafi nokkurn tíma hugsað sér að láta einhverri byggð úti á landi blæða út.

Að lokum, herra forseti, vona ég að þm. sjái sér fært að samþykkja að fela ríkisstj. að láta kanna hvaða áhrif fjárhagsleg fyrirgreiðsla Framkvæmdastofnunar ríkisins, sérstaklega Byggðasjóðs, hefur haft á atvinnu- og byggðaþróun í landinu. Ég sé ekkert skemmandi við að þessi till. verði samþ, og þessi könnun verði látin fara fram.