01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls í þessum umr., en mér fannst vanta svolítið inn í myndina í sambandi við umr. um byggðamál fyrst umr. hafa farið eins og hér, að menn hafa rætt hér vítt og breitt um byggðamálin. Ég vil taka skýrt fram, að ég lít svo á að þessi till., sem hv. þm. Albert Guðmundsson hefur lagt fram og er hér til umr. eigi fyllsta rétt á sér. Hann hefur að vísu bent á að henni sé ætlað að athuga hvort ekki hafi farið fram umdeilanleg fjárfesting á landsbyggðinni, og það er út af fyrir sig gott og blessað. Sjálfsagt hafa orðið mistök í fjárfestingu á landsbyggðinni, og það er góðra gjalda vert að reyna að finna út hvort svo hefur orðið og hvort við getum bætt þar um betur og náð betri árangri í þróun landsbyggðarinnar með því fjármagni sem við höfum milli handa. Ég vil hins vegar benda á það, að það er ekkert einkamál landsbyggðarinnar að þar hafi verið lagt í hæpna fjárfestingu, það hefur líka verið gert hér á höfuðborgarsvæðinu, a. m. k. að margra mati, og væri kannske þess vegna eðlilegra að till. væri almennara orðuð, þannig að stefnan í fjárfestingarmálum í landinu öllu væri skoðuð. Ég bendi t. d. á það, að ýmsir hafa talið vafasamt að þyrfti svo mikla fjárfestingu í bankabyggingum hér á höfuðborgarsvæðinu eins og orðið hefur að undanförnu, og ýmsir hafa líka bent á að það væri óeðlileg þróun að það þyrfti að byggja skóla á Reykjavíkursvæðinu fyrir hundruð millj., þegar nemendum fjölgaði ekki í heild í borginni. Nemendum fækkar mjög í sumum skólum hér, eins og við vitum, en síðan þarf að leggja hundruð millj. í að byggja yfir þessa nemendur í öðrum hverfum borgarinnar. Þannig má benda á ýmislegt misgott í okkar fjárfestingarmálum og stjórn á okkar málum, sjálfsagt bæði á landsbyggðinni og eins hér í Reykjavík.

En það er ekki þetta sem ég ætlaði að fjalla hér um. Eins og ég vil taka enn fram, þá tel ég till. alls ekkert óeðlilega og sjálfsagt að kanna hvort þarna sé pottur brotinn. En það, sem ég vildi gera hér að umræðuefni, var að draga upp mynd af því hvað í rauninni er um að ræða í byggðamálunum og þá horfa pínulítið fram í tímann. Ég held að við gerum þá skyssu, þegar við erum að ræða byggðamál, að við horfum of skammt. Ef við horfum fram til aldamóta og hugsum dæmið og hugsum sem svo: Íslendingum hlýtur að fjölga fram að aldamótum, og við skulum giska á einhverja tölu, mannfjölgunartölu, taka t. d. 50 þús. manns — hvar sest þá þetta fólk að, hvar mundi það setjast að ef ekki væri gert neitt til þess að beina þessu fólki í einhver ákveðin byggðarlög með einhverjum opinberum aðgerðum? Ég er ekki í neinum vafa um að verulegur hluti þessa fólks, segjum 40–45 þús. manns, mundi setjast að á höfuðborgarsvæðinu, ekki í Reykjavik sjálfri, heldur á höfuðborgarsvæðinu. Og við verðum að líta á höfuðborgarsvæðið sem eitt byggðasvæði, þetta er samfelld byggð, suður í Hafnarfjörð og norður fyrir Mosfellssveit. Ég er alveg sannfærður um að þetta mundi gerast. Raunar er þetta sú þróun sem hefur gerst á síðustu áratugum. Og þá er að athuga hvaða áhrif þetta hefði á þjóðarbúskap okkar og okkar þjóðlíf.

Þetta mundi verða til þess að byggð yrði nokkuð samfelld upp undir Esjuhlíðar og suður í Hafnarfjörð, það yrði veruleg aukning á umferð hér að sjálfsögðu og umfram fólksfjölgunina yrði náttúrlega bílaaukning enn meiri. Það yrði að leysa marga umferðarhnúta hér með því að byggja brýr yfir gatnamót, það yrði að leysa hér holræsisvandamál sem eru þegar orðin, mengunarvandamál hér í Skerjafirði og hérna í kring, það yrði dýrari vatnsöflun fyrir þetta byggðarlag o. s. frv., o. s frv. Fjárfestingin, sem þyrfti til þess að koma þessu fólki fyrir á þessu svæði, yrði mjög mikil. Ýmsir sérfróðir menn um þessa hluti segja að þegar byggð er komin yfir það mark sem hún er hér nú, þá fari fjárfestingin að fara mjög ört vaxandi, þ. e. a. s. grunnfjárfesting hins opinbera, sveitarfélaganna og ríkisins að fara mjög ört vaxandi á hvern íbúa sem bætist við. Þetta er önnur hliðin á málinu.

Hin hliðin er sú, að úti um land mundi verða hæg framþróun. Mannvirki, sem þar yrðu hvort sem er að vera, ef einhver byggð á að vera þar, mundu nýtast verr og aðstaða okkar til þess að nýta auðlindir okkar, t. d. okkar 200 mílna lögsögu, yrði verri.

Þetta er hin stóra mynd sem blasir við okkur ef við lítum fram í tímann og hugleiðum byggðamál af raunsæi. Þess vegna þarf að vera til í þessu landi og er í öllum vestrænum löndum — ég undirstrika það: öllum vestrænum löndum viðleitni af hálfu hins opinbera bæði að stýra þessari þróun með fjármagni og öðrum opinberum aðgerðum.

Við getum sjálfsagt lengi fílósóferað um það hver sé undirrótin að þessari misþróun í byggð. Við vitum margar orsakirnar. Ein er sú, að það er og hefur orðið atvinnubylting í landinu. Fólk flykkist í iðnað og iðnaðargreinar, úrvinnslugreinar og þjónustugreinar, og þær atvinnugreinar hafa besta vaxtarmöguleika þar sem mest þéttbýli er. Þetta er ein undirrótin. Síðan eru auðvitað gífurlegir fjármagnsflutningar af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðis. Það er alveg sama hvort það er hér á landi eða annars staðar, auðvitað verða alltaf slíkir fjármagnsflutningar, alveg sérstaklega þegar eins er ástatt og hér, að höfuðborgin er um leið verslunarmiðstöð landsins, bæði í útflutningsverslun og innflutningsverslun. Það fer auðvitað ekki hjá því að gífurlegir fjármagnsstraumar renna því frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, líka á þann hátt að hér eru stofnanir fyrir þjóðina í heild. Við skulum taka Háskóla Íslands. Öll þjóðin rekur Háskóla Íslands. Hvort sem fólk á heima í Reykjavík eða á Raufarhöfn greiðir það laun prófessora. Síðan leggur Reykjavíkurborg útsvar á laun prófessora og prófessorar standa undir margvíslegri þjónustu sem þeir kaupa í Reykjavík, sem er enn undirstaða undir skattöflun borgarinnar, og svo má lengi telja. Ég hef bara aðeins stiklað á stóru í því skyni að sýna fram á hvað miklir fjármagnsflutningar eru auðvitað til höfuðborgarinnar frá landsbyggðinni. Að auki eru svo líka verulegir atgervísflutningar til höfuðborgarinnar. Það hafa verið kallaðir atgervisflutningar, vegna þess að sérfræðingar á ýmsum sviðum, sem alast upp úti um land, hljóta menntun sína kannske erlendis, setjast síður að úti á landi heldur en á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þeir hafa betri atvinnumöguleika þar. Atgervi hefur flust frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar.

Þannig eru að verki og verða alltaf ákveðin öfl í hvaða þjóðfélagi sem er sem stuðla að því að fólk flytjist frá landsbyggðinni og til höfuðborgarsvæðis. Þess vegna verða alltaf, ef vel á að fara og menn vilja stýra þessari þróun og ekki bara láta skeika að sköpuðu, að vera til stofnanir sem geta stýrt þessu, geta beint fjármagni aftur út á landsbyggðina til þess að byggja þar upp.

Það er mikil spurning, eins og í öllu, hvernig á að framkvæma slíka hluti. Og það er ekkert við það að athuga þótt það sé gagnrýnt í einstökum atriðum hvernig til tekst stundum þegar á að framkvæma slíka stefnu. En í grundvallaratriðum er þessi stefna rétt. Hún er rétt ekki bara fyrir fólkið úti á landsbyggðinni, hún er rétt fyrir þjóðina í heild. Það er allt annað mál, sem vinur minn Oddur Ólafsson kom hér inn á áðan, um almenna stjórn á atvinnulífi í landinu. Ég er honum algerlega sammála um að það geta verið atvinnuvandamál og að vissu marki byggðavandamál í slíkum byggðarlögum eins og á Suðurnesjum. Jafnvel þótt Reykjanessvæðið í heild sé mesta fólksfjölgunarsvæði á landinu á síðustu áratugum getur þar verið um viss vandamál slík að ræða. En þau eru í eðli sínu allt, allt önnur heldur en ég er að tala um. Þar er grundvallarmismunur, og þess vegna þarf að taka á þeim með öðrum hætti.

Menn hafa rekið sig á það, t. d í sambandi við lán til Reykjanessvæðisins í sjávarútvegi, að það væri óeðlilegt að gera upp á milli báta sem væru gerðir út frá Reykjanesi og öðrum stöðum á landinu. Ég er algerlega sammála þessu. Ég álít að það sé útilokað að beita slíkri lánapólitík, að það sé ekki hægt að flytja slík atvinnutæki, sem eru flytjanleg, á eðlilegan hátt milli svæða, þar sé gert upp á milli manna. En aftur á móti varðandi almenn atvinnumál þessara byggðarlaga er um að ræða allt annað en það stóra mál að jafna til frambúðar almenna byggðaþróun í landi eins og Íslandi. Það er allt önnur saga. Og slík starfsemi eins og rekin hefur verið af Byggðasjóði, eins og rekin hefur verið af ríkisvaldinu í heild á undanförnum árum er grundvallarnauðsyn í þessu skyni. Einstök atriði í framkvæmd slíkrar byggðastefnu eru hins vegar, eins og ég sagði áðan, alltaf til endurskoðunar.