01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að till. sú, sem hér er um að ræða sé í sjálfu sér góðra gjalda verð, að æskilegt geti verið að athugun af þessu tagi, sem hv. flm. gerir ráð fyrir, fari fram. Er þá að sjálfsögðu mikils um vert að þessi athugun verði vel og ærlega gerð í þeim tilgangi að afla okkur upplýsinga sem við getum haft hliðsjón af í sambandi við frekari fjárveitingar til þess að viðhalda byggð í landinu, eins og ráð er fyrir gert í lögum um Byggðasjóð. Ég tel það ekki nein mótrök gegn orðanna hljóðan í þessari till. þótt tveir alþm. sitji þarna í æðstu stjórn. Það er alveg rétt sem hv. síðasti ræðumaður, Tómas Árnason, sagði, að þessi stofnun hefur látið í té mun ítarlegri upplýsingar, eftir því sem ég best veit, en aðrar lánastofnanir um ráðstöfun fjár. En hinu er ekki í móti mælt, sem hv. flm. till. segir, að nokkuð skorti á að fyrir liggi haldgóðar upplýsingar um hvernig þetta fé hefur nýst, hvernig þetta fé hefur í einstökum tilfellum orðið að því gagni sem til var ætlast. Og mér skilst eftir hljóðan orðanna að það sé þetta sem hv. flm. ætlast til að gert verði.

Nú er því ekki að leyna að hv. þm. Albert Guðmundsson hefur komist í þá stöðu að við því er búist af honum nær því hvert sinn sem hann tekur til máls hér í hv. Alþ., að ég segi ekki ætlast til af honum, að hann agnúist við landsbyggðina í þágu Reykjavíkur. Má vel vera að þarna komi nokkuð til það garpsorð sem af honum fór fyrrum, er hann þótti allra manna marksæknastur. Ég verð að játa að mér fannst af málflutningi hans upprunalega, er hann mælti með þessari till., að hann væri enn haldinn nokkuð þessum forna móði, þ. e. a. s. að hann keppti þarna fyrir eitt lið á móti öðru, enda hefur hann haft það gjarnan uppi í ræðum sínum hér á Alþ. að kreppt væri að Reykjavík til hagsbóta eða ávinnings fyrir landsbyggðina. En þetta breytir ekki þeirri staðreynd, að ég hygg, að sú úttekt, sem hann gerir ráð fyrir í þessari till. sinni, gæti orðið okkur að miklu gagni. Það er nefnilega sérlega mikið til í því, sem hv. þm. Lárus Jónsson kom inn á í ágætri ræðu sinni áðan, að það er ekki síður mikið í húfi fyrir byggðina hér við Faxaflóa, að málum verði svo komið fyrir að byggðin haldist úti á landi og menn haldi áfram að nytja þar gæði sjávar og lands, heldur en fyrir þessar byggðir sjálfar. Við höfum fullkomna ástæðu til þess að ætla að sneiða hefði mátt hjá ýmsum alvarlegustu vandamálum samfélagsins hér við Faxaflóa og þá fyrst og fremst í Reykjavík ef því hefði verið betur sinnt fyrr að efla byggðirnar úti um landið.

Hinu er ekki að leyna, að þetta verður ekki gert eingöngu með fjárveitingum, og það er síður en svo að há fjárveiting sem slík sé nein trygging fyrir því að það fyrirtæki, sem fyrir hana verður reist, verði til blessunar fyrir byggð. Ég gæti nefnt ykkur þó nokkrar fyrirhugaðar framkvæmdir, þó ekki sé í bili á vegum Byggðasjóðs, sem orðaðar hafa verið við byggðastefnu á síðustu missirum, en síður en svo eru líklegar til þess að verða landsbyggðinni eða hinni nánustu byggð, er þar að kemur, til mikillar blessunar, heldur eru beinlínis til þess fallnar að leggja okkar fornu atvinnuvegi í rúst, að verða mannlífi og byggð til skaða og raunverulega til því meira tjóns því meira fé sem hugsað er til slíkra framkvæmda. Þar á ég við ýmsar stóriðjuframkvæmdir sem nú eru ofarlega í hugum manna og hafa verið taldar til byggðastefnu í ýmsum sveitum þessa lands.

Ég tel ákaflega þýðingarmikið að hv. Alþ. fylgist mjög vel með árangrinum af fjárfestingarstefnunni, og til þess þarf meira en aðeins upplýsingar um upphæðir þær sem veittar eru í þessu skyni.

Ég hlustaði allvel á umr. sem fram fóru fyrir jólin um þessa þáltill., m. a. á ítarlega og snjalla ræðu sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir flutti um þessa þáltill., ræðu sem hv. þm. Oddur Ólafsson vék að áðan eða öllu heldur þeim atriðum í ræðu hennar sem lutu að vandamálum útgerðarinnar á Suðurnesjum. Ég hygg að hv. þm. hafi farið með alveg rétt mál er hann tilgreindi tvær af orsökunum fyrir þeim vandræðum sem útvegurinn á Suðurnesjum á í nú. En hann sleppti einni meginorsök sem ég hygg að sé til þess arna, þar sem er sú samkeppni sem útvegurinn á Suðurnesjum hefur mátt heyja við annarlegan atvinnurekstur á þessu svæði. Það er rétt að nú munu vinna við sjósókn og úrvinnslu sjá varafla á Suðurnesjum um það bil 2000 manns. Mun fleiri hygg ég að hafi framfæri sitt af Keflavíkurflugvelli og taki þar hærri laun. Og enn önnur iðja hefur til komið á þessu svæði sem hefur fjárhagslegt bolmagn til þess að kaupa úrvalsvinnuafl burt frá fiskiðnaðinum og sjávarútveginum, þar sem er álverið í Straumsvík. Sannleikurinn er sá, að á Suðurnesjum er nú svo komið málum — og þar er ekki um að kenna útvegsmönnum á þessu svæði eða sjómönnum — þar er nú komið svo málum að þorrinn af fólkinu lifir ekki lengur af landsins gæðum, að sjávarútvegurinn er orðinn hornreka og meiri áhersla hefur verið lögð á annað en uppbyggingu sjávarútvegsins á þessum slóðum og fiskiðnaðarins. Það er rétt að frystihúsin á þessu svæði eru sum hver orðin gömul. En þau hefðu líka átt líkindum samkv. að vera búin að borga sig niður. Við höfum á þessu svæði eitt allra fullkomnasta frystihús á Íslandi sem byggt var af hálfu Útvegsbankans sem fyrirmyndar frystihús, það frystihús sem skyldi verða öðrum frystihúsum eða fiskiðjuverum á Íslandi til fyrirmyndar um tæknilegan búnað, þrifnað og hagkvæmni, þar sem er frystihús Sjöstjörnunnar. Síðast þegar ég vissi til námu skuldir þessa fiskiðjuvers orðið fjórföldum upprunalegum stofnkostnaði. Það vantaði ekki að þarna var nógu vel búið frystihús, en það vantaði ýmislegt annað sem við átti að éta. Enn kem ég að þessu. Ég játa það að verstöðvarfiskiríið á þessum slóðum hefur frá upphafi verið vandamál í útgerðinni á Suðurnesjum, — vandamál sem hefur vaxið með rýrnandi fiskigengd. En það er rekin ábatasöm útgerð — svo undarlega vill til — með smærri bátum og a. m. k. jafngömlum frá verstöðvum sem liggja mun verr við fiskigengd heldur en verstöðvarnar hérna við Faxaflóann. En þar vill svo til að fólkið, sem byggir þessi sjávarpláss, lifir á landsins gæðum. Það hefur tileinkað sér þau vinnubrögð og þann dug sem til þess þarf að sækja fiskinn og vinna hann, og útgerðarmenn þar og eigendur fiskiðjuvera eiga ekki við að stríða þess háttar samkeppni sem útgerðarmenn og eigendur fiskiðjuvera hér við Faxaflóa eiga við að stríða.

Mér er það minnisstætt þegar þáltill. þessi var til umr. fyrir jólin að hv. þm. Albert Guðmundsson, flm. þessarar till., hafði orðið að lokinni framsöguræðu sinni að yfirgefa þingsalinn vegna skyldustarfa annars staðar og var fjarverandi af þeim sökum þegar aðalumr. um þessa till. áttu sér stað. Hv. þm. Tómas Árnason óskaði þess, áður en hann tæki til máls öðru sinni, að umr. yrði frestað. Ég er ekki viss um að umr. um þessa till. nú í dag hafi skýrt málið öllu betur en það var skýrt þennan fyrsta dag við umr.

Ég ítreka það að ég vildi gjarnan að rannsóknin, sem hér er gert ráð fyrir, gæti farið fram og verið myndarlega framkvæmd. Og ég hef tröllatrú á því að hún mundi leiða í ljós að það fé, sem fjárfest hefur verið á vegum Byggðasjóðs, hafi í heild orðið til mikillar blessunar, ekki aðeins fyrir byggðirnar, sem urðu þessara fjárveitinga eða þessara lána aðnjótandi, heldur einnig fyrir Reykjavík.