25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það stóðst nokkurn veginn á endum í haust, að Alþ. kom saman til að skipa málum lands og þjóðar og Seðlabanki Íslands setti í umferð nýja sláttu grundvallareiningar íslenskrar myntar, nýja krónu. Þessi nýlega króna er æði-frábrugðin eldri sláttu sem hún á að ryðja til hliðar, og þótti það einkum fréttnæmt þegar nýslegna krónan var kynnt, að peningur þessi er svo fisléttur að hann flýtur á vatni sé hann látinn falla nógu varlega á vatnsflötinn.

Króna, sem flýtur á vatni, getur sannarlega talist viðeigandi tákn um ríkjandi ástanda í efnahags- og fjármálum okkar íslendinga. Aðaleinkenni efnahagsframvindunnar síðustu ár hafa verið versnandi staða þjóðarbúsins út á við og skert kjör þorra landsmanna, stórfelldar gengisfellingar í upphafi valdaferils núv. ríkisstj. og sífellt gengissig síðan. Ég lái stjórnendum Seðlabankans það hreint ekki þótt þeir leitist við að leiða fólki fyrir sjónir, hvernig komið er, með því að fá því í hendur pening sem er jafnlítilmótlegur í útliti og léttur í vasa og flotkrónan nýja.

Lakara er að ríkisstj. virðist einráðin í að draga dám af gárungsskap seðlabankastjóranna í langtum afdrifaríkari efnum en myntsláttu. Ekki fer milli mála að grunntónninn í stefnuræðunni, sem hæstv. forsrh. flutti í upphafi þessarar umr., var þýðing þess að finna ráð til að hemja verðbólguna áður en hún magnar kjaramisrétti, aflagar atvinnuvegina og grefur undan fjármálasíðgæði meira en orðið er. En einmitt í stefnuræðunni er leitt í ljós, að þrátt fyrir yfirlýstan góðan ásetning hefur ríkisstj. beitt í þessu meginmáli slíkum lausatökum að furðu gegnir.

Forsrh. vakti rækilega athygli á því í ræðu sinni, að sett hefur verið á laggirnar nefnd, skipuð fulltrúum ríkisstj., þingfl. og helstu aðilum vinnumarkaðarins, til þess að kanna orsakir verðbólgunnar í landinu og gera till. um ráðstafanir til að draga úr henni. En það er síður en svo að hugmyndin um slíka athugun þessara aðila á verðbólguvandanum sé ný bóla hjá ríkisstj. eða a.m.k. hjá forsrh. Hugmynd sú kom fram af hans hálfu fyrir ári og einmitt í stefnuræðunni sem hann flutti þá fyrir ríkisstj. hönd. Á fundi Sþ. 23. okt. 1975 sagði forsrh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er því brýnna en nokkru sinni... að ná víðtækri samstöðu um sameiginlegt viðnám gegn verðbólgunni. Ríkisstj. mun beita sér fyrir viðræðum allra aðila um samræmda launastefnu og leiðir til að komast fyrir rætur verðbólgunnar... Öll þjóðfélagsöfl, innan Alþingis og utan, verða að leggjast á eitt til að finna sanngjarna lausn kjaramála í þeirri vandasömu aðstöðu sem við okkur blasir.“

Þótt þarna sé sérstaklega vikið að ríkjandi aðstæðum s.l. haust, er deginum ljósara að ár er liðið síðan forsrh. setti fram hugmyndina um viðræður allra aðila, innan Alþ. og utan, um leiðir til að komast fyrir rætur verðbólgunnar. Síðan er liðið rétt ár og þó tveim dögum betur. Það hefur tekið allan þennan tíma að koma hugmyndinni í framkvæmd.

Á slíkum drætti eru aðeins hugsanlegar tvær skýringar. Önnur er sú, að forsrh. sé ekki alvara með brýningum sínum, uppástungum og nefndarskipun, þetta sé haft í frammi til að sýnast og firra ríkisstj. gagnrýni fyrir að hafast ekki að. Þessari skýringu hafna ég algerlega. Verðbólguvandinn og kjaramálin eru miklu viðurhlutameiri en svo, að jafnreyndur stjórnmálamaður og forsrh, láti sér koma til hugar að leika skollaleik með þau frammi fyrir alþjóð. En hvernig stendur þá á seinaganginum, árs drætti í framkvæmd uppástungunnar úr stefnuræðunni frá í fyrra?

Hin skýringin, sem til greina kemur og hér á við, er að stjórnarflokkarnir séu alls ekki samstiga og samhentir í þessu máli frekar en svo mörgum öðrum. Árstöf á að framkvæma hugmynd forsrh. um meðferð á vandasamasta viðfangsefni ríkisstj. mun, ef að líkum lætur, stafa af því öðru fremur að meðráðh. hans hafa ekki allir verið jafnhrifnir af áformi hans. Það er líka mála sannast að nefndarskipun eins og hér er um að ræða, til þess að fjalla um mál sem hlýtur eðli sínu samkvæmt að vera helsta viðfangsefni ríkisstj , kemur að ýmsu leyti kynlega fyrir sjónir. Tilboð til þingfl. stjórnarandstöðunnar um að skipa menn í n. ásamt stjórnarfl. til að fjalla um verðbólguvandann, sem stjórnarfl. tóku að sér að fást við þegar þeir mynduðu stjórn, jaðrar við það að í frammi séu hafðar af ríkisstj. hálfu áþreifingar um myndun þjóðstjórnar. af því að hún vantreysti sjálfri sér til að ráða fram úr málum á eigin spýtur þrátt fyrir yfirgnæfandi þingmeirihl. Á hinn bóginn samrýmist slíkur tilgangur trauðla vali ríkisstj. á fulltrúum í n., því þar skipar hún ráðunauta sína og sérfræðinga til forustu, en ráðh. sjálfir koma hvergi nærri. Allt ber þetta verðbólgunefndarmál því vott að um sé að ræða málamiðlun milli ósammála ráðh. í sundurþykkri ríkisstj.

Aldrei hefur það farið milli mála að myndun núv. ríkisstj. vakti siður en svo fögnuð í þingliði stjórnarfl. þegar til stjórnarsamstarfsins var efnt. Fjarri fer því að ánægjan hafi aukist meðal stjórnarþm. árin sem síðan eru liðin. Vitneskjan um þessar ástæður á stjórnarheimilinu hefur orðið formanni þingfl. Alþfl hvöt til að slá fram þeim möguleika að hrífa Sjálfstfl. úr faðmi Framsóknar með því að bjóða honum í nýja nýsköpunarstjórn ásamt Alþfl. og Alþb. Ekki er vafi á, að sumum sjálfstæðismönnum finnist hugmyndin freistandi og Framsóknarforustan veit það mætavel. Í ljósi þeirrar vitneskju verður skiljanlegra en ella hvers vegna framkvæmd á hugmynd forsrh. um verðbólgunefnd dróst svo mjög og hvers vegna fulltrúar ríkisstj. eru valdir eins og raun ber vitni.

Víst er það hverju orði sannara, að verðbólgan er meinvættur sem margs konar vanda mundi leysa ef sígraður yrði. Verðbólgan er undirrótin að því að kjaraskipting landsmanna eftir stétt og stöðu hefur skekkst svo gífurlega úr sanngjörnu horfi að gersamlega er orðið óviðunandi fyrir þá, starfshópa sem dregist hafa aftur úr í kjarakapphlaupinu. Það er verðbólgan öllu öðru fremur sem veldur því að Ísland er orðið láglaunasvæði miðað við sambærileg lönd. Þótt þjóðartekjur á mann séu hér vel sambærilegar við það sem gerist í nálægum löndum, eru launataxtar í fjölmennum starfsgreinum hér einatt hálfu lægri. Menn velta að vonum fyrir sér hvernig á slíku standi. Ráðning þeirrar gátu er eðlilega margþætt, en gildasti þátturinn er sá, að verðbólgan ýtir undir ofsafengna fjárfestingu, óarðbæra fyrir þjóðarheildina, í því skyni að handsama verðbólgugróða með eignaaukningu. Fjárfesting, sem frá þjóðhagslegu sjónarmiði er gagnslaus eða jafnvel neikvæð, getur orðið þeim auðsuppspretta sem með aðgangi að tiltölulega ódýru fjármagni, af sparifé eða úr opinberum sjóðum, láta verðbólguna um að færa eignir í sína vasa úr vösum sparifjáreigenda og skattgreiðenda. Hvílíkar óhemjuupphæðir hér getur verið um að ræða má marka af því, að á árinu 1975 nam fjármunamyndun, sem er aðallega fjárfesting, hérlendis ríflega þriðjungi af allri þjóðarframleiðslunni, eða nánar tiltekið 36.7%, og hafði hækkað úr 27% árið 1972.

Þegar svo við beinan verðbólgugróða af eignamyndun af þessu tagi bætist að skattreglur um fyrningu og sölugróða ásamt ákvæðum laga um hlutafélög gera fært að margfyrna sömu eignina og að draga frá skattskyldum tekjum af rekstri fyrningu sem nemur kostnaðarverði, að viðbættri verðhækkun, á litlum hluta þess tíma sem eign endist, er óhjákvæmilegt að hlutföll milli arðsemi fjármagns annars vegar og endurgjalds fyrir vinnu hins vegar fari herfilega úr skorðum. Lagfæring tekjuskiptingar í réttlátara horf en ríkt hefur undanfarið, veruleg leiðrétting á kjörum þeirra, sem bera skarðan hlut frá borði, fæst því ekki nema með margþættum aðgerðum sem taka verða til skattamála, tryggingamála og lánamála. Á mestu ríður þó að takist að hemja verðbólguna að því marki sem ríkisstj. réttilega setti sér í upphafi valdaferils síns, að koma henni niður á svipað stig og ríkir í helstu viðskintalöndum okkar.

Herra forseti Ef ríkisstj. ætlar að taka á þessu örlagamáli þjóðarinnar í alvöru, gefst henni úrslitatækifærið á því þingi sem nú er nýhafið. Frammistaða hennar hingað til vekur ekki miklar vonir. En nú verður hún að hrökkva eða stökkva. Málatilbúnaður stjórnarfl. á þessu þingi verður tekinn til marks um það, hvort þeir taka þegar á reynir meira tillit til hagsmuna verðbólgubraskara eða auðsærra almenningsþarfa.

Reyndar verður ekki sagt að orðaskipti málgagna stjórnarfl. upp á síðkastið bendi til að stjórnarherrarnir viti hvað til þeirra friðar heyrir. Morgunblaðinu og Tímanum hefur orðið einna tíðræddast um það síðustu vikurnar hverjum leyfist að skera hrúta á Sauðárkróki og hverjir megi ekki slíkt þar um pláss, og koma þar ráðh. nokkuð við sögu. — Þökk þeim sem hlýddu.