02.02.1977
Efri deild: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

151. mál, tollskrá

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg að hér sé á ferðinni nauðsynjamál þar sem er frv. hv. þm. Alberts Guðmundssonar, 12. þm. Reykv. Að vísu er mér nokkur vandi á höndum að styðja þetta mál hans eftir stutta yfirlýsingu sem hann flutti í Sþ. í gær, á þá lund að ég hefði æ rangt fyrir mér er ég stigi hér upp í ræðustól. Ég hygg að þar hafi verið um algjöra fullyrðingu af hálfu hv. þm. að ræða, en um nánari skýringar á henni verðum við að bítast innbyrðis.

Mér er kunnugt um það að notkun vörupalla úr tré í fiskiðjuverunum hefur valdið talsverðum vandræðum og gerir það enn. Þó mun það ekki vera rétt að Framleiðslueftirlitið hafi bannað þessa palla, heldur hafa öll þau ílát og tæki úr tré verið bönnuð sem fiskur hefur verið látinn liggja á eða verið geymdur í. Orsökin er sú, að tré virðist taka í sig með undraskjótum hætti svepp sem veldur svokallaðri slagvatnsskemmd í fiskinum. Að öðru jöfnu þarf fiskur ekki að snerta þessa palla eða liggja á þeim, en eigi að síður hafa verið uppi grunsemdir um það á liðnum árum að vatn, sem runnið hefur frá þessum pöllum, sem venjulega er staflað í móttökusal frystihúsanna, og runnið hefur undir fisk, hafi valdið þess háttar skemmdum, og þær geta orðið mjög verulegar í frystum fiski og eru ákaflega hvimleiðar.

Ég vildi gjarnan að gengið yrði úr skugga um það að ekki séu fáanlegir vörupallar úr öðrum ólífrænum efnum en plasti. Ef mig minnir rétt sá ég í fyrravetur auglýsingar á vörupöllum úr áli, bylgjuðu áli, og vildi gjarnan að hugað yrði að því hvort ekki mætti orða ákvæði lagagreinarinnar á þá lund að þetta gæti náð til vörupalla, sem hæfir þættu til þessarar notkunar, úr öðrum efnum sem ekki valda hættu á slagvatni ef þess háttar verkfæri þættu heppileg. Og það er fleira, sem til kemur um þessa vörupalla úr tré, heldur en beinlínis þessi smithætta. Þeir eru ákaflega þungir og erfiðir í vöfum, valda oft erfiðleikum í móttökusal frystihúss, þegar flytja þarf þá til með handafli, og taka öllu meira pláss, að því er sérfróðir menn segja mér, heldur en þessir léttu vörupallar.

Það hefur viljað við brenna í fiskiðnaði okkar að við höfum verið fullseinir að taka upp nýjungar í tæknibúnaði og vinnuhagræðingu og stundum svo að algjörri furðu sætir. Ég tel æskilegt að fremur verði að því stuðlað heldur en hitt, að við fylgjumst vel með nýjungum á þessu sviði sem upp koma erlendis og reynst hafa þar vel og flýtum okkur að tileinka okkur þær. En ég tel æskilegt að leitað verði álits Framleiðslueftirlits sjávarafurða í sambandi við þetta mál og einnig að fyrir lægju vottorð eða bréf varðandi þetta mál bæði frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og sjávarafurðadeild Sambandsins.