02.02.1977
Efri deild: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

151. mál, tollskrá

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Fyrir ekki löngu var allmikið um það rætt að breyta umbúðum um frystan fisk sem fluttur er til Bandaríkjanna, og var þá mikið talað um að spara ystu kassana sem þeir eru látnir í, en sveipa þá plasthjúp, og til þess þurftu kassarnir að leggjast á sérstaka gerð af pallettum eða pöllum. Var ætlað að þessar pallettur eða hvað það nú heitir mundu verða hagkvæmastar úr stáli. Þessa palla var bægt að framleiða hér heima og þeir voru taldir ódýrir, hagkvæmir og öryggir. Þetta mál var komið alllangt. Það var gerð tilraun með þetta í Vestmannaeyjum, fengin sérstök vél sem gekk þannig frá plastumbúðum að þetta var talið mjög hagkvæmt og mundi draga allmikið úr kostnaði. Eini ókosturinn var sá, að það mundi ekki rúmast eins mikið í skipunum á þennan hátt og ella. Þó mun þetta mál ekki vera alveg dautt enn þá. Og eitt er víst, að þetta mundi spara allmikið af þeim pappírsumbúðum sem nú fara utan um frystan fisk. En þarna var sem sagt gert ráð fyrir að stálpallar væru það hagkvæmasta sem um væri að ræða og talið mjög auðvelt að framleiða þá hér heima.

Ég vil vekja athygli þeirrar n., sem fær þetta mál, á því að það væri þess virði að fá upplýsingar hjá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda um hvernig á því stóð að þetta mál komst ekki lengra þá. En ég veit að Coldwater í Bandaríkjunum hafði mikinn áhuga á því að þessi breyting yrði gerð.