02.02.1977
Neðri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

147. mál, Utanríkismálastofnun Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til þess að taka undir það með flm. þessa máls, að það er þarft mál, sem hér er hreyft, og það er mikil þörf á því að farið sé að vinna að því verkefni sem liggur að baki flutningi þessa frv. Um hitt geta svo verið skiptar skoðanir, hvort nauðsynlegt sé nú þegar á þessu stigi að efna til sérstakrar stofnunar til að vinna að því verkefni sem ég tel að eigi að koma í fyrstu röð og sé fyrst og fremst það sem okkur skortir, en þar er um að ræða heimildaöflunina og í öðru lagi útgáfustarfsemi, en rannsóknarstörf koma svo síðar og geta að sjálfsögðu verið framkvæmd utan stofnunar. Grundvöllur slíkrar rannsóknastarfsemi hlýtur að vera sú upplýsinga- og heimildasöfnun og sú útgáfustarfsemi sem ég tel að allt of lengi hafi dregist að hrinda hér af stokkunum.

Þetta er svo brýnt mál margra hluta vegna, að ég hygg að það þurfi ekki að færa að því rök í löngu máli. Ef við ætlum á annað borð að koma umr. um utanríkismál á það stig, sem æskilegt væri, og af því karpstigi, sem allt of lengi hefur viðgengist, þá þurfum við slíka starfsemi sem hér er um talað, — starfsemi sem felst í því fyrst og fremst að safna saman heimildum og starfa að fræðilegum útgáfum í sambandi við utanríkismálin.

Ég get við þetta mál aðeins bent á það, að ef mönnum þykir í of mikið ráðist nú þegar að efna til sérstakrar stofnunar til að hafa málin með höndum, þá væri vissulega hugsanlegt að fara einhverjar millileiðir til bráðabirgða. Hér er starfandi nú þegar sagnfræðistofnun við Háskóla Íslands. Hún er að vísu veikburða vegna fjárskorts, en vitanlega væri hugsanlegt að fela henni til bráðabirgða a. m. k. slíkt verkefni sem þetta, veita henni fjárstyrk til þess að vinna að því og tengja til að mynda slíka deild við sagnfræðistofnun við Alþingi með þeim hætti að til að mynda utanríkismn. kæmi þar við sögu. Einnig væri vissulega vel hugsanlegt og strax til mikilla bóta frá því, sem nú er, að utanrmn. tæki að sér að vinna að þessu nauðsynlega verkefni, heimildasöfnuninni, og réði til þess dugandi mann, einn eða tvo eftir atvíkum. Þetta gæti verið skref í rétta átt ef mönnum þætti að svo komnu máli í of mikið ráðist að setja slíka stofnun á fót sem talað er um í þessu frv. En hvað sem hugleiðingum um þetta líður, þá vil ég leggja á það áherslu að hér er hreyft mjög mikilvægu máli. Okkur hefur skort lengi þessa framkvæmd, að safnað sé upplýsingum, raunverulegum staðreyndum um utanríkismál og slíkar staðreyndir gefnar út eftir því sem ástæða þykir til og þegar nokkuð hefur frá liðið, eins og tíðkast með öðrum þjóðum. Þá fyrst, þegar slík upplýsingasöfnun er í lagi og heimildir tiltölulega aðgengilegar fyrir fræðimenn, er hægt að fara að vinna úr þessum mikilvæga málaflokki á málefnalegan og fræðilegan hátt betur en gert hefur verið og hægt hefur verið að gera fram að þessu. Ég tel, að þetta sé málefni sem Alþ. eigi að láta sig miklu skipta, og mæli mjög eindregið með því, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki það fullkomlega alvarlega og geri um það jákvæðar og raunhæfar till. sem leiði til þess að eitthvað jákvætt gerist í málinu.