02.02.1977
Neðri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

149. mál, umferðarlög

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Það var aðeins til að svara spurningu hv. 5. þm. Vestf. Hann lét líka til sín heyra í fyrra og þá var það allt annað atriði sem hann vakti athygli á. En ég ætla að halda mig við það sem hann drap á nú. Ég held að þetta sé alger misskilningur hjá hv. þm., að það eigi að stefna öllum hingað til Reykjavíkur. Það er alger fjarstæða. Ég man ekki betur, án þess að ég þori að slá því fram sem alveg skotheldu, en að ég hafi einmitt spurt menn frá Umferðarráði, þegar við vorum að vinna að þessu frv., hvernig færi með menn út um land og hvort það þyrfti stórt skólabákn utan um þetta á hverjum stað. Hann svaraði því til, ef ég man rétt, að það þyrfti ekki nema einn mann, einn kennara, til að stofna slíkan skóla. En auðvitað verður það fyrst og fremst hér í Reykjavík og á öðrum þéttbýlisstöðum sem um raunverulegan skóla verður að ræða. Hitt er meira löggildingaratriði, að enginn maður, hvort sem hann er hér eða úti á landsbyggðinni, fái að kenna akstur nema hann sé hæfur til þess.

Ég sé það núna að ég hef misskilið aðeins spurningu hv. 5. þm. Vestf. Hann hefur verið að tala um ökukennararéttindin. Það kann vel að vera að menn sleppi ekki svo „billega“ að það sé einn maður sem geti stofnað ökukennaraskóla. En alla vega yrðu þeir víða um landið, í hverjum kaupstað, í hverjum landshluta, þannig að þetta ætti ekki að verða til þess að valda stórkostlegri byggðaröskun. A. m. k. vona ég að það verði eitthvað fremur en þessi ökukennaraákvæði sem valdi því.