02.02.1977
Neðri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

149. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held því miður að ég hafi ekki misskilið það sem hér er átt við, því að mér heyrðist á hv. flm. og frummælanda að það væri allmikill vafi í hans huga um það með hverjum hætti þetta yrði í reynd. Ég skal á engan hátt kasta rýrð á það sem fulltrúar í Umferðarráði munu hafa sagt, en mér finnst það, sem hv. þm. hafði eftir þeim, ekki vera með þeim hætti fram sett að það sé ótvírætt um að ræða hver muni verða framkvæmd þessa ákvæðis ef það yrði að lögum svona. Hv. þm. sagði reyndar líka að hér yrði fyrst og fremst um að ræða á þéttbýlissvæðunum raunverulegan skóla. Hvað á hitt að vera? Er ekki hér verið að tala um raunverulegt öryggi? (Gripið fram í.) Ímyndun, nei. Hv. þm. sagði að fyrst og fremst yrði hér á þessu svæði um að ræða raunverulega skóla.

Ef ákvæði sem þetta yrði lögfest, þá er ég eindregið þeirrar skoðunar að það sé verið að draga hingað til Reykjavíkur það sem undanfarið hefur farið fram á hinum ýmsu stöðum úti á landi. Mér er ekki kunnugt um að það hafi komið í ljós að þeir ökukennarar úti á landsbyggðinni, sem annast hafa ökukennslu til þessa, hafi ekki verið jafnhæfir hinum, sem kennt hafa hér á Reykjavíkursvæðinu. Mér er a. m. k. ekki ljóst að það liggi fyrir nein gögn um að þeir hafi verið síður hæfir til kennslu, þeir ökukennarar sem hafa annast þetta úti á landsbyggðinni víðs vegar, heldur en þeir sem eru hér á þessu svæði. Þeir hafa uppfyllt sömu skilyrði og þeir sem hafa annast þessa kennslu hér. (Gripið fram í.) Það var orðað af hv. þm. eitthvað á þá leið, að með þessu væri verið að reyna að tryggja að engir nema þeir, sem væru til þess hæfir, gætu annast þetta. Það var orðalagið. Ég vara þess vegna mjög við því að lögfesta ákvæði sem þetta, því að ég er þeirrar skoðunar að það verði til þess að draga enn frekar hingað á þetta svæði hluti sem enn hafa þó verið víðs vegar úti um landsbyggðina og hafa á engan hátt verið verr af hendi leystir að mínu viti en hér á þessu svæði. Það er engin ástæða til þess að vera með neinar vangaveltur um það að menn verði ekki jafnhæfir, hvort sem þeir læra á Ísafirði eða í Reykjavik, til þess að kenna undir ökupróf og meðferð ökutækja. Ég hef enga ástæðu til að ætla það.