03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og 1. flm. þessarar till. gat um í sinni framsöguræðu er nú starfandi n. sem hefur það hlutverk að gera athugun á því hver eru heildarafköst loðnuverksmiðja um allt land, þróarrými þeirra og hugsanleg stækkun á þeim verksmiðjum, og jafnframt að gera athugun á því og þá í samráði við Hafrannsóknastofnun hvar mundi best henta að stækka verksmiðjur, sem fyrir eru, til þess að ná sem mestri hagkvæmni og samræmingu á milli vinnslu og veiða.

Ég hygg að það sé fulllágt, sem flm. nefndi, að segja að heildarafkastageta loðnuverksmiðja sé um 10 þús. tonn á sólarhring. Ég hygg að hún muni vera nálægt 12 þús. tonnum, heildarafkastagetan, en heildargeymslurými loðnuverksmiðja á öllu landinu er nú um 150 þús. tonn. Miðað við 500 þús. tonna afla á vetrarvertíð yrði það minnst 42 daga vinnsla fyrir verksmiðjurnar við mestu afköst. Loðnuvertíð hefur lengst staðið hér á landi 80 daga áður en sumarveiðarnar hófust, þannig að verksmiðjur hefðu næstum því undan ef þær væru alltaf allar á réttum stað eða loðnan bærist nokkurn veginn jafnt til þeirra hvar sem þær svo eru staðsettar.

Veiðiafköst íslenska loðnuskipaflotans gætu orðið 30–35 þús. tonn á sólarhring. Þá miða ég við t. d. 100 skip að meðalstærð 300–350 tonn. Nú eru við loðnuveiðar um 35 stór skip með yfir 350 tonna burðarþol sem afkasta tæplega 20 þús. tonnum, og það eru núna 60–75 bátar sem ættu að geta afkastað um 12–15 þús. tonnum. Þetta gætu þá orðið um 35 þús. tonn.

Það hafa þegar komið til þeirrar n., sem er að kanna þessi mál, beiðnir og ábendingar frá eigendum lítilla verksmiðja, sem fyrir hendi eru, um stækkun þeirra og aukið þróarrými. Enn fremur hafa komið fram beiðnir um tvær nýjar verksmiðjur fyrir utan þetta mál sem hér liggur fyrir. Verksmiðjur eru til sem hafa ekki verið reknar í allmörg undanfarin ár. Ég tel að þetta álit þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin. Ég átti síðast í gær tal við formann þessarar n., en hún vinnur mjög kappsamlega að þessum málum, reynir að hraða störfum þó ekki væri skilað nema bráðabirgðaáliti til að byrja með, því þá fyrst förum við að geta gert okkur í hugarlund, hve mikið fjármagn við þurfum í raun og veru að fá til að byggja upp þessa starfsgrein.

En það er fleira en loðnan sem kemur til greina. Það kemur auðvitað einnig til greina stórvaxandi veiði á spærlingi og á kolmunna, bæði innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og sömuleiðis opnast möguleikar til veiði á kolmunna ef við semjum við Færeyinga um loðnuveiðar og kolmunnaveiðar, sem hefur verið rætt um. Þeir samningafundir byrja á morgun. Þá er tímabil sem hentar okkur vel að fá veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögu færeyinga til kolmunnaveiða. Það hefur einnig komið í ljós að það er mikið kolmunnamagn hér djúpt út af, sennilega út af Látrabjargi eða úti á Dornbanka, nokkurn veginn mitt á milli Íslands og Grænlands. Þar hafa íslensk rannsóknarskip fundið mjög stórar og miklar torfur. Allt þetta rennir stoðum undir miklu öflugri rekstur þessara verksmiðja.

Það hefur svo að segja enginn minnst á að byggja slíka verksmiðju á undanförnum árum vegna þess hvað afurðaverðið hefur verið lágt. Það hefur verið gengið mjög nærri verksmiðjunum, vegna þess að útgerðin hefur engan veginn getað staðið undir rekstri sínum nema ganga nærri verksmiðjunum, og því hefur ekki verið neinn áhugi eða réttara sagt engin geta til að byggja þessa grein sjávarútvegsins upp. En nú er algjörlega breytt um og þá megum við ekki fara of óðslega í það. Við verðum að taka það sem við teljum skynsamlegast að gera, það sem er ódýrast, til þess að auka framleiðsluna, til þess að ýta undir veiðarnar og fara þá eftir einhverri heildaráætlun sem nær yfir eitthvert ákveðið tímabil, en fara ekki í alt of mörg verkefni í einu.

Það má enginn skilja þessi orð mín á þann veg að ég sé að mæla efnislega á móti þessari till. Ég tel þessa till. eiga fyllilega rétt á sér. En mér er kunnugt um að ein verksmiðja hefur gert áætlun um að tvöfalda afköst sín úr 250 tonnum í 500 tonn, og áætlun um þá stækkun er upp á nálægt 265 millj. kr., svo að þessi till. felur vafalaust í sér fjárfestingu á annan milljarð, miðað við þessa áætlun sem hér liggur fyrir.

Mesta vandamálið í sambandi við loðnuveiðar og loðnuvinnslu er ósamræmið á milli veiða og vinnslu, sérstaklega það að loðnuverksmiðjurnar eru dreifðar vítt og breitt um landið og margar þeirra fá lítið sem ekkert hráefni. Þegar lokið er löndun t. d. á Austfjörðum og loðnan er komin hér að Reykjanesi, þá fer að minnka um afköst á Austfjörðum, að ég tali ekki um Norðausturlandið og Norðurland. Þetta vandamál er auðvelt að leysa með flutningum, en þar hefur því miður ekki ríkt nógu mikil víðsýni hjá sjómönnum og útgerðarmönnum og skipstjórnarmönnum. Það hafa verið aðallega skipstjórnarmenn og útgerðarmenn sem þar hafa gengið fram fyrir skjöldu að taka það af verði loðnunnar, að það sé mönnum tiltölulega skaðlaust að sigla alllangan veg með loðnuna til þess að jafna hráefninu á milli verksmiðjanna. En þetta er auðvitað ekki gert nema með því eina móti að allir aðilar taki þátt í þessum kostnaði.

Það var lagt fyrir Nd. rétt fyrir jól frv. sem gerði ráð fyrir að auka vald loðnunefndar. Það frv. var látið liggja vegna andstöðu tiltekinna manna úr þessari útgerðargrein. Hins vegar skal ég segja það þeim til lofs, að þeir skildu, áður en verðlagningin fór fram, að það var ekki hægt og ekki rétt að ganga fram hjá því að leggja ákveðinn hluta í flutningasjóðinn, en þar var samt ekki nóg að gert.

Fróðir menn telja að leiga eða kaup á sérstöku flutningaskipi til þess að flytja loðnuna til þeirra verksmiðja, sem vantar hráefni, geti kostað um 2 kr. á hvert kg, að flytja hana allt að því kringum hálft landið. Þó er þessi tala ekki örugg. En þetta getur verið og verður sennilega það sem við þurfum að búa okkur miklu betur undir fyrir næstu vetrarvertíð á loðnu. Og þá eigum við auðvitað að geta aukið bæði afköst, veiðar og vinnslu mjög verulega, því að þetta er sú framleiðslugrein í sjávarútvegi sem fiskifræðingar og Hafrannsóknastofnun telja að megi stórlega auka, þó að ég kæri mig ekki um að fara með ákveðnar tölur í því sambandi. En ég held að við eigum a. m. k. að hafa þær veiðar sjálfir í byrjun, en ekki ýta undir beiðni útlendinga um veiðar á þeirri forsendu að við nýtum ekki til fulls aflamöguleika þessarar fisktegundar.

Ég taldi rétt að þessar hugrenningar kæmu hér fram. Ég endurtek það að ég er ekki að leggja neinn stein í götu þessarar till. eða leggja efnismat á till. sjálfa. Ég tel að hana þurfi að skoða eins og allt annað er lýtur að þessum málum.