03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa neitt á móti þeirri till. sem hér er sérstaklega til umr., en mig langar til þess að taka undir orð hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem hér talaði áðan, um þessi efni.

Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það er býsna mikill verksmiðjuskortur í landinu, m. a. á Norðurlandi og það er full ástæða til að nýta þann verksmiðjukost áður en farið er að leggja út í stórfyrirtæki í sambandi við nýjar verksmiðjur. Við höfum nokkra reynslu frá fyrri tíð í sambandi við þetta, frá síldarárunum fyrir 10–12 árum eða raunar fyrr, að þá var allmikið rokið til að byggja upp verksmiðjur hér og þar og jafnvel að verksmiðjur voru fluttar frá Norðurlandi í aðra landshluta ok illa séð fyrir því að þær verksmiðjur, sem þá voru til á Norðurlandi væru nýttar. Þó voru til þeir möguleikar þá þegar eins og enn er, að flytja hráefnið til verksmiðjanna þar sem þær eru staðsettar. Ég held að við þurfum að hafa þetta mjög vel í huga nú eins og þá, að það á að nýta þann verksmiðjukost í landinu sem fyrir er.

Verksmiðjur slíkar sem þessar eru víða til á Norðurlandi. Hér hefur verið minnst á Siglufjörð, en mig langar til að minnast á einn stað sem hefur oft átt í atvinnulegum erfiðleikum, Þórshöfn. Þar er síldarverksmiðja sem reist var fyrir u. þ. b. 12 árum, u. þ. b. sem síldin lagðist endanlega frá landinu og síldarleysisárin hófust, þannig að í þessari verksmiðju var lítið sem ekkert unnið. Með tiltölulega mjög litlum breytingum er hægt að gera þessa verksmiðju afkastamikla loðnuverksmiðju. Ég vil í sambandi við þessar umr. minna sérstaklega á þennan stað og þá alveg sérstaklega beina máli mínu til hæstv. sjútvrh. í þessu sambandi. Ég vænti þess að hann kynni sér aðstæður í Þórshöfn í þessu tilliti.

Þó ég mæli þannig er ég út af fyrir sig ekki að mæla gegn verksmiðju í Grindavík eða annars staðar, það er síður en svo. Ég held samt að það sé réttmætt og eðlilegt að við minnum á þetta sjónarmið, að það er möguleiki á flutningi hráefnis og að verksmiðjukostur er mikill í landinu sem sjálfsagt er að líta á áður en rokið er til að byggja mjög dýrar verksmiðjur.