26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

Varamaður tekur þingsæti

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Mér hefur borist eftirfarandi bréf:

„Reykjavík, 25. okt. 1976.

Formaður þingflokks Framsfl. hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Samkv. beiðni Jóns Skaftasonar, 4. þm. Reykn., sem nú er erlendis í opinberum erindum, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að vegna forfalla 1. varamanns taki 2. varamaður Framsfl. í Reykjaneskjördæmi, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir bæjarfulltrúi, sæti á Alþ. í fjarveru hans.

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti Nd.

Til forseta Sþ

Þá hefur borist eftirfarandi símskeyti frá Keflavík:

„Skrifstofa Alþingis, Reykjavík.

Vegna sérstakra ástæðna get ég ekki tekið sæti Jóns Skaftasonar alþm. í fjarveru hans.

Gunnar Sveinsson.“

Undirskrift staðfestir Erla Sveinsdóttir símavörður.

Það þarf ekki að rannsaka kjörbréf frú Ragnheiðar, hún hefur áður setið á Alþ., og býð ég hana velkomna til starfa.