03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég nú að fara að tala á móti þessari till. En ég held að það, sem þyrfti nú að gera í þessum málum, eins og mér skilst raunar að hæstv. sjútvrh. stefni að, sé að athuga hvernig hægt er að leysa þessi mál á sem ódýrastan hátt og nota þá þær verksmiðjur, sem eru fyrir hendi, og auka afköst þeirra.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist einmitt á eina slíka verksmiðju sem er á Þórshöfn og var byggð fyrir 11 árum. Þessi verksmiðja mundi geta brætt um 300 tonn á sólarhring, og fróðir menn telja að ný verksmiðja, sem gæti brætt 300 tonn á sólarhring, mundi kosta nú 400–450 millj. kr. Þeir á Þórshöfn hafa fengið mann, sem mun vera sá færasti, til þess að taka út slíka verksmiðju og gera áætlun um það hvað mundi kosta að koma henni í fullt lag, þannig að hún yrði raunar eins og ný, og áætlun þessa manns er upp á 65 millj. kr. Þarna liggur verulegt fjármagn á þessum stað sem er ónotað, og það þarf ekki til viðbótar meira en það sem ég nefndi. Ég hef heyrt að áætlanir þessa manns hafi yfirleitt staðist, hann sé með áætlanir sínar yfirleitt í hærri kantinum.

Ég held að það þurfi að athuga hvernig ástatt er að þessu leyti bæði á Þórshöfn og annars staðar sem hægt væri að auka afköstin án þess að þyrfti eins mikla fjármuni og til að byggja nýtt. Það hlýtur að vera fyrsta skrefið í þessu. Síðan getur það verið álitamál hvernig eigi að byggja og hvar. Það hlýtur að verða atriði sem þarf að kanna nánar, og sjálfsagt er Grindavík einn af þeim stöðum sem gætu komið vel til greina.

Ég vil bara árétta það, að það þarf endilega að gera eitthvað í þessum málum, t. d. fyrir slíkan stað eins og Þórshöfn, að nota það fjármagn sem þar er fyrir hendi. Þessi verksmiðja var aðeins notuð eitt sumar, og það gefur auga leið að þarna er mikið verðmæti, eins og ég hef komið inn á.