03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera athugasemd við það sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði áðan eða gaf í skyn, að við á Norðurlandi eystra hefðum verið linir að afla fjármagns í þetta á Þórshöfn. Málið er nú kannske ekki svona einfalt. Það var verið að byggja mikið frystihús á s. l. ári á Þórshöfn og þetta frystihús er í raun og veru grundvöllurinn að öllu atvinnulífi á þessum stað. Og það var ekki nóg að fá frystihús, það þurfti líka að fá hráefni í húsið, og það var okkur erfiður og þungur biti að leysa það mál með stjórnvöldum hér.

Það er alveg rétt, að þeir á Þórshöfn fóru fram á það á síðasta ári að fá fjármagn til að byggja upp þessa verksmiðju. En við lítum þannig á að hitt væri enn þá meira aðkallandi. Það virðist nú á fleiri stöðum en Norðurlandi eystra ekki hægt að gera alla hluti í einu. En svo breyttist þessi staða allverulega þegar kom í ljós að við gátum ekki fengið aftur bræðsluskipið frá Noregi. Þá var alveg sýnilegt að við yrðum í vandræðum með að geta tekið á móti þeirri loðnu sem var líklegt að mundi berast á þessari vertíð. Og þá voru það einmitt þm. Norðurl. e. sem fóru að athuga þessi mál, hvort það væri hægt að fá fjármagn, og ef það væri hægt að fá fjármagn, hvort það væri hægt að koma verksmiðjunni í gang á það skömmum tíma að hún gæti náð þessari vertíð núna. En það kom í ljós að það var ekki hægt, jafnvel þó að hefði verið hægt að útvega fjármagnið, þ. e. a. s. þegar fyrir lágu þær upplýsingar að við mundum verða svona staddir með að taka á móti loðnu. Það var talið af Stefáni Erni Stefánssyni að það mundi taka þrjá mánuði að koma verksmiðjunni í lag.

Hins vegar þarf auðvitað nú að athuga þessi mál, og það er búið að ræða við bæði hæstv. sjútvrh. og fleiri aðila í sambandi við þetta mál. Hins vegar liggur ekkert enn þá fyrir um lausn á því máli. En ég get ekki, þegar farið er að ræða um að byggja hér verksmiðjur í landinu, annað en minnt á að þarna er verksmiðja, þarna eru kannske hátt í 400 millj. sem liggja og þarf ekki nema 65–70 millj. til viðbótar til þess að sé hægt að nota hana og hún sé eins og ný.

Ég vildi bara veita þessar upplýsingar vegna þess að hv. þm. Jón Árm. Héðinsson gaf til kynna að þm. þarna í Norðurl. e. mundu vera linir.