03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja neitt að ráði umr. um þáltill. hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar sem þegar hafa orðið allítarlegar. Ég tel að þessi till. og umr., sem hafa orðið um hana, hafi komið fram á allheppilegum tíma eins og hér hefur verið lítillega vikið að, á þeim tíma þegar upp er að koma til endanlegrar afgreiðslu hér á hv. Alþ. sú stóra spurning hvort við eigum að leggja fjármuni þjóðarinnar, þá orku sem hún hefur yfir að búa og vinnuafl hennar heldur í það að nytja gæði lands og sjávar þessari þjóð til hagsældar eða hvort við eigum að leggja þetta allt þrennt fremur af mörkum til þess að nýta innflutt verðmæti með orku og vinnuafli í þágu annarra aðila en íslendinga og þeim til framdráttar.

Því miður er hæstv. sjútvrh. genginn úr salnum, en hann kom hér inn á raunveruleg grundvallaratriði í þessu sambandi og gerði þeim skil öllu ítarlegar en hann hefur gert áður hér á hv. Alþ. í vetur og með nokkuð öðrum tón en hann hefur áður gert, þar sem hann rakti lánveitingar Fiskveiðasjóðs á liðnum árum til sjávarútvegsins og lýsti yfir þeirri skoðun sinni að enn betur yrði að vinna vegna þess að við ættum enn þá óneitanlega mjög mikil verkefni óunnin í sjávarútvegsmálum.

Það gladdi mig rétt einu sinni við þessar umr. að heyra mjög skeleggan tón þm. Framsfl. úr Norðurl. e., þar sem þeir ræða byggðamálín. Ég leyfi mér að staðfesta það sem þeir hafa sjálfir sagt um framgöngu sína og annarra þm. þessa kjördæmis í málefnum Þórshafnar í sambandi við vandamál Þórshafnarbúa í tíð þessarar ríkisstj., og raunar í sambandi við vandamál annarra byggða í Norðurl. e. þar sem við hefur verið að berjast kolsvarta íhaldsstjórn með byggðafjandsamlega stefnu sem þeir sjálfir styðja hér á Alþingi.

Sannleikurinn er sá, að þessir hv. þm. eru sannarlega einlægir í baráttu sinni fyrir nauðsynjamálum þessara byggða. Þeir hafa sýnt það í einu og öllu, það votta ég úr þessum ræðustól, í einu og öllu öðru en því að styðja þá ríkisstj. sem vandræðunum veldur. Ég er ekki að gefa í skyn að þeir séu haldnir neinum pólitískum geðklofa, síður en svo. Ég er aðeins að leyfa mér að ýja í þá átt að þeir hljóti nú senn að gefast upp á þessum stuðningi og taka heldur upp þann háttinn að fella þessa ríkisstj.

Það er rétt, af því að sérstök vandamál Þórshafnar hefur borið hér sérstaklega á góma, að sérstök atvinnuvandamál og efnahagsvandamál Þórshafnar voru og eru viðfangsefni fyrir þm. kjördæmisins. Þar var byrjað á smíði myndarlegs nýtískufrystihúss í tíð vinstri stjórnarinnar og komin vel áleiðis, í þeirri von að síðan fengist það sem við ætti að éta, tækin til að afla hráefnis, sennilega í þeirri von að vinstri stjórnin mundi sitja áfram til þess að fullkomna það byggingarverk sem þar var hafið. Vissulega kom það inn í þetta dæmi að fiskur brást á Þistilfjarðarmiðum, bátafiskurinn. En ætíð var þó reiknað með því, þegar þetta stóra frystihús var teiknað og reist, að afla þyrfti til þess hráefnis lengra að jafnframt. Þörf þórshafnarbúa fyrir skuttogara til að afla þessa hráefnis bar þannig ekki algjörlega upp á að óvörum, en eigi að síður á þeirri tíð þegar tekin var við ný ríkisstj. sem taldi aðra fjárfestingarstefnu nauðsynlegri heldur en að kaupa ný skip eða láta smíða ný skip til hráefnisöflunar fyrir byggðirnar, fyrir fiskiðjuverin. Það var raunverulega ekki alveg rétt, sem hv. þm. Ingvar Gíslason sagði, þó hygg ég að það hafi verið fremur fyrir ónákvæmni í orðalagi — og er raunar alveg víss um það — fremur en hitt, að hann hafi ekki viljað segja rétt frá. Eigi að síður var það rangt að keyptur hefði verið nýr skuttogari eða lagt út í það að afla nýs skuttogara fyrir þá á Þórshöfn. Það var keyptur gamall skuttogari, tiltölulega miklu eldri en árin sögðu til um, ekki nógu gott fiskiskip. Ég ítreka það, að ég veit að hv. þm. Ingvar Gíslason ætlaði alls ekki að koma því inn hjá þm. að þetta hefði verið nýtt skip. Hérna var um að ræða ónákvæmni í orðalagi sem hefur reynst þeim þórshafnarbúum ákaflega dýr, þessi merkingarmunur. Þetta skip hefur gefist ákaflega illa, það hefur bilað mikið, reynst illa þeim þórshafnarbúum eins og fyrri eigendum sínum og skilað litlu aflamagni í land.

Það er náttúrlega mála sannast, að enda þótt lánsfjárbeiðni þeirra þórshafnarbúa hafi ekki verið harðlega neitað, eins og hv. þm. Ingvar Gíslason orðaði það, — sem betur fer hefur henni ekki verið harðlega neitað, en henni hefur verið neitað nógu mikið til þess að síldarverksmiðjuna á Þórshöfn skortir 55–65 millj. upp á að vera starfhæf, nógu mikið til þess að hún hefur ekki komist í gagnið. Hún bræðir ekki loðnu á þessum vetri. Þörf þórshafnarbúa fyrir fé til að gera verksmiðjuna starfhæfa var vitaskuld ljós á s. l. vori. En ríkisstj., sem hér situr, hefur önnur markmið æðri heldur en að sjá byggðunum — þar með byggðunum á Suðurnesjum fyrir því fé, þeim fjármunum sem til þess þarf að nytja gæði lands og sjávar, því fé sem handbært er. Því fé, sem fáanlegt er að láni, er ætlað að þjóna öðrum herrum en þeim sem byggja sjávarplássin kringum þetta land og því er nú komið sem komið er.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson vakti hér athygli á að til væru fleiri verksmiðjur kringum þetta land sem lagðar hafa verið niður að verulegu leyti. Þær eru allmargar. Í Norðurl. e. eigum við brunarústir af síldarverksmiðju við Eyjafjörð, þar sem þó stendur eftir óskemmdur ketill sem metinn er nú á 150–200 millj. Það gæti verið dálaglegur stofn í nýja síldarverksmiðju byggða í þessum sömu rústum.

Ég er nú kominn, eins og raunar fleiri hv. ræðumenn hér, spölkorn burt frá þáltill. sem hér er til umr,, um síldarverksmiðju í Grindavík, sem ég hygg að gæti, a. m. k. samanborið við ýmsar aðrar verksmiðjur sem rætt hefur verið um á Suðurlandi síðustu víkurnar, orðið mesta þjóðþrifafyrirtæki. Þar er m. a. möguleiki á því fremur en víðast annars staðar að reyna hugmyndir sem áður hafa verið settar fram um að nýta jarðgufu til bræðslunnar og spara allverulegt fé í rekstri með þeim hætti.

Vestfirðingarnir okkar sem hér hafa talað, — að vísu hlýt ég að dást að vestfirðingunum okkar yfirleitt þegar þeir tala, bæði fyrir skörungsskap þeirra og þráhyggju um Vestfjarðakjálkann sinn, — ekki má minnast svo á verksmiðju í Grindavík að þeir séu ekki með tiltæk rök fyrir því að vippa henni nú vestur á fjörðu. Hafa tveir þeirra komið að þessu máli, hvor þó með sínum sérstaka hætti. Hv. þm. Karvel Pálmason leyfði sér að nefna Grundartangaverksmiðjuna fyrirhuguðu og Kröfluvirkjun í sömu andránni, greinilega innblásinn af þeirri nálægð sem hann öðlast nú dagfari-náttfari að Alþfl. og þeim heiðarleika sem nú er orðinn að hvað eldfimastri olíu á kyndli hans þegar rætt er um íslensk orkumál almennt, sem er raunar gleðilegt fyrirbæri, sérstaklega þegar tekið er tillit til fyrir fram yfirlýsts stuðnings Alþfl. við fjárfestinguna miklu og fyrirhuguðu uppi á Grundartanga og það orkusöluverð sem nefnt hefur verið í því sambandi. Hins vegar er Gunnlaugur Finnsson sem sá það atriði raunar merkilegast í þessari þáltill. sem varðaði staðsetningu verksmiðjunnar. Það mun láta nærri, að ef við notum mælikvarða fjarlægðar frá loðnumiðunum, eins og við sjáum nú fram á að þau muni verða stunduð á næstu árum með tilkomu sumarloðnunnar, þá mætti kannske segja sem svo að verksmiðja á miðhálendinu lægi landfræðilega séð næst öllum loðnumiðunum, og mætti þá kannske leysa transportið þangað upp eftir á þann hátt að kæmi ýmsum vörubilaeigendum til góða.

Verksmiðjan í Grindavík, sem hér er gert ráð fyrir að reist verði, eða þáltill., sem að henni lýtur, er ekki merkileg fyrst og fremst vegna þess, að henni er ætlaður staður í Grindavík, enda þótt ég segði áðan að þar gæfist kostur á því að reyna þessa nýju, hagkvæmnu tækni sem áður hefur verið um talað, að nota jarðgufuna. Þessi þáltill. er ekki fyrst og fremst merkileg vegna fyrirhugaðrar staðsetningar. Hún á afl sitt fyrst og fremst í nauðsyn þess að einmitt nú þegar það blasir við okkur að því fer víðs fjarri að við séum teknir að ofnytja gjafir sjávar á þessu landi, — því fer víðs fjarri að við séum teknir að ofnytja sjávargagn á þessu landi, — þá er bráðnauðsynlegt, — ég vil leggja á þetta áherslu nú, — að við eigum möguleika á því að leggja það fjármagn, sem við höfum tiltækt, og þá tæknikunnáttu og það vinnuafl og þá orku í miklu arðbærari fyrirtæki heldur en álverkmiðjur, heldur en verksmiðju á borð við Grundartangaverksmiðjuna, með því að nytja þetta fjármagn og það afl, sem við eigum í raforku og vinnufúsum höndum, í fyrirtæki sem okkur varðar meira.

Ég bjóst sannast sagna við því að hv. þm. Sverrir Hermannsson mundi kveðja sér hljóðs áðan eftir að hæstv. sjútvrh. hafði lokið máli sínu, mundi ekki stilla sig um að kveðja sér hljóðs, þó ekki væri nema til þess, sem ég hefði talið mjög þarft, að hann segði hv. alþm. dæmisögu sem hann sagði norður í landi á s. l. vori, minnir mig, á yfirreið þar sem ég var svo heppinn að vera nærstaddur, um tvenns konar aðferðir við skipulag í sjávarútvegsmálum, — dæmisöguna um það með hvaða hætti norðlenskur héraðslæknir barg lífi sjómanns með nákvæmu skipulagi við blöndun lyfja. Ég treysti mér ekki til þess að endursegja þessa sögu hér, ekkert í áttina við það sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði hana fyrir norðan. En ég hefði gjarnan viljað að hann tæki sig nú til og tengdi þessa dæmisögu um hið tvenns konar skipulag við það skipulag sem við sjáum nú örla á hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjölgun í fiskiskipastóli okkar einmitt á þessum mánuðum, þegar allt í einu virðist eiga að láta hið forna gususkipulag ráða og láta þá t. d. hagsmuni innlendra skipasmíðastöðva lönd og leið, heldur hoppa nú út í það með svolitlum rykk að fara að láta smíða allfrjálslega fiskiskip erlendis eftir kröfum eigenda fiskiðjuvera hér við Faxaflóa, og sleppa þá, að því er virðist, óafturkræfri ákvörðun um að láta fljóta með í innkaupunum eitt nótaskip upp á 1700 millj., sem mér er ekki alveg ljóst hvort hæstv. sjútvrh. reiknar með í summunni þegar hann tilkynnir okkur að lán úr Fiskveiðasjóði muni aukast stórlega að nýju á þessu ári.