07.02.1977
Neðri deild: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tómas Árnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert ítarlega grein fyrir frv. því til l. um tekjuskatt og eignarskatt sem hér er til umr. Frv. þetta er stór og viðamikill bálkur sem fjallar um mjög flókin og margþætt viðfangsefni.

Um meðferð málsins og vinnubrögð vildi ég segja að skiptar skoðanir voru um það hvort tímabært hafi verið að leggja málið fram á Alþ. fyrir áramót, sérstaklega með tilliti til þess að ekki hafði unnist tími til að kanna það til hlítar hvaða heildaráhrif frv. hefði á skattlagninguna. En öll er þessi vinna mjög tímafrek og vandasöm og því ekkert um að sakast þótt tímaáætlanir um meðferð málsins standist ekki til fulls. Það kann að vera matsatriði hvenær slíkur bálkur er nægilega vel undirbúinn til þess að leggjast fyrir Alþ. og enn fremur hve mikið svigrúm ríkisstj. er viljug til að gefa Alþ. til breytinga. Ljóst er að hæstv. fjmrh. hefur gert ráð fyrir því að ýmis ákvæði frv. gætu tekið meiri eða minni breytingum í meðferð Alþ. innan ramma þeirrar meginstefnu sem frv. byggir á.

Gildandi lög um tekjuskatt og eignarskatt eru orðin mjög gömul að stofni til, að ég ætla yfir 40 ára gömul. Þeim hefur að vísu verið breytt eða við þau aukið — oftar en flestum öðrum lögum í landinu. Þær breytingar hafa yfirleitt varðað skattstiga og þess háttar, þannig að grundvöllurinn mun að mestu hafa verið lagður með skattalögunum frá 1935. Á fast að hálfri öld hafa orðið gífurlegar breytingar á lifnaðarháttum þjóðarinnar sem ætla má að gefi tilefni til verulegra grundvallarbreytinga á skattalögum.

Nefnd, sem Halldór E. Sigurðsson, þáv. fjmrh., skipaði í ágústmánuði 1971, skilaði mjög ítarlegri skýrslu til fjmrh. í nóv. 1973 um tekjuöflun ríkisins. Skýrslan er mjög viðamikil og hefur að geyma mjög fróðlega úttekt á tekjuöflunarkerfi ríkisins og var ætlað það sérstaka hlutverk að draga saman á einn stað þau efnislegu aðalatriði sem þurfa að vera grundvöllur að mótun heildarstefnu í skattamálum.

Það er fróðlegt að bera heildarskattaálögur á Íslandi saman við heildarskattaálögur á hinum Norðurlöndunum, ekki síst í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Austurl. sem kom dálítið inn á þetta mál áðan. Síðustu tölur, sem ég þekki um þessi efni, eru frá árinu 1974. Þá voru heildarskattaálögur ríkis og sveitarfélaga hér á Íslandi 32.2% af vergum þjóðartekjum. Á hinum Norðurlöndunum var sambærileg hlutfallstala 43–46%. Þetta prósentuhlutfall var aðeins hærra hérlendis árið 1975 eða 34.8% og árið 1976 35.9%. Innifaldir í þessu prósentuhlutfalli eru skattar eins og viðlagasjóðsgjald, olíugjald og fleiri minni háttar gjöld.

Í Danmörku hefur þróun heildartekna miðað við þjóðarframleiðslu verið þannig, að í kringum aldamótin var þetta hlutfall um 9% og fór vaxandi upp í 11–12% í kringum 1914. Árið 1935 var heildarskattálagningin orðin 15% af þjóðarframleiðslunni, árið 1950 var þetta hlutfall komið upp í 25% og var um 40% árið 1970. Álítið er að þessi prósenta muni hækka upp í 60% af vergum þjóðartekjum á miðjum næsta áratug.

Þessi þróun mála í Danmörku hefur leitt til þess að nýlega varð til nýr stjórnmálaflokkur, Glistrup-flokkurinn, sem hefur það á stefnuskrá sinni að lækka skatta. Þessi flokkur hefur náð verulegu fylgi í Danmörku eins og kunnugt er.

Ég rifja þetta upp hér til þess að bregða nokkru ljósi á, hvar við erum á vegi staddir samanborið við nágrannaþjóðir okkar í sambandi við heildarskattálögur miðað við þjóðarframleiðslu.

Að sjálfsögðu skiptir miklu hvernig löggjöfin er úr garði gerð varðandi skattamálin, en framkvæmd löggjafarinnar er sérstaklega þýðingarmikil. Verður aldrei lögð of mikil áhersla á það. Borgararnir eru mjög næmir á að réttlætis sé gætt í skattamálum. Þess vegna hefur það mikla þýðingu að endanleg skattálagning sé birt almenningi. Svo hefur ekki verið hér á landi. Endanleg skattálagning er ekki birt, heldur niðurstaða fyrstu skattálagningar samkv. framtölum. Hin birta skattaálagning breytist oft þegar skattyfirvöld fara betur ofan í saumana. En viðbótarálagning eða hækkun skatta hefur ekki verið birt og því koma endanlegir skattar ekki fyrir sjónir almennings. Frv. gerir ráð fyrir að bæta úr þessu með því að framlagningu skattskrár verði seinkað þar til meginhluti úrskurða um kærur hefur verið felldur.

Sjálfsagt er að reyna að hafa skattalögin eins einföld og auðskilin og kostur er á og að því er stefnt. Ég hef þó ekki trú á því að hægt sé að setja einföld skattalög nema þá á kostnað félagslegra sjónarmiða. Mannlífið er flókið og margþætt. Þess vegna hljóta lagaákvæði, sem taka tillit til margbreytilegra tilvika og réttlætis, að verða nokkuð flókin, enda ber hagfræðingum saman um að skattamál og skattalög séu eitthvert flóknasta fyrirbrigði í þeirra fræðigrein.

Við samningu skattalaga þarf að taka mið af nokkrum grundvallaratriðum sem eiga að vera ráðandi.

Menn eiga t. d. ekki að greiða skatta af þurftarlaunum.

Í öðru lagi eiga þeir að greiða mestan skatt sem mest bera úr býtum. Breiðu bökin eiga að bera meiri skatta en hin veikbyggðari.

Þá eiga skattalög að hvetja til dugnaðar og sparsemi. Það á ekki að knésetja slíkar fornar dyggðir með óhóflegum skattaálögum.

Þá koma til almannahagsmunir. Það á að hvetja menn til að viðhalda mannvirkjum. Ég er t. d. þeirrar skoðunar, að það eigi að taka til frádráttar í sambandi við skattálagningu kostnað af viðhaldi íbúðarhúnæðis, og álít að það séu þó nokkrar röksemdir sem styðja að því. Það er t. d. algengt í okkar þjóðfélagi að menn byggja íbúðarhús sin á miðjum aldri, þegar menn hafa bestar og mestar tekjur. Síðar fara þau að ganga úr sér þegar menn verða eldri, og menn búa í þeim áfram. Það þarf að fara að halda þeim við. Og það er eðlilegt af þeirri ástæðu að tekið sé tillit til viðhaldskostnaðar í sambandi við skattálagningu. Þá hefur það einnig þjóðhagslega þýðingu að hvetja menn til þess að halda vel við íbúðarhúsum, og það þarf að vera einhver hvatning að mínu mati í skattalögum í þá átt. Í þriðja lagi þrýstir slíkt á að vinna við viðhald á húsnæði sé gefin upp til skatts. Það er enginn efi á því. Það er t. d. íhugunarefni ef eldri húsum, svo að dæmi sé tekið hér í Reykjavík eða annars staðar á landinu er ekki haldið nægilega vel við og ekki nýtt sem skyldi til þess að draga úr útþenslu byggðar. Ný hverfi og nýjar byggðir kosta samfélagið ógrynni fjár, m. a. vegna nauðsynlegrar þjónustu. Að sjálfsögðu þarf einnig að koma til skynsamleg lánastefna sem gerir mönnum kleift að halda við eldri byggingum. Það er í þágu þjóðarinnar og framtíðarinnar. Einnig á að hvetja til verðmætasköpunar til þess að sem mest verði til skiptanna í þjóðfélaginu.

Þá á að samræma skattalög og tryggingalög til þess að tryggja félagslegt réttlæti.

Með hliðsjón af því, sem ég sagði áður um að reiknað væri með að frv. mundi án efa taka breytingum í meðförum Alþ., vil ég leggja sérstaka áherslu á nokkur tiltekin atriði sem þarf að endurskoða og lögfesta fyrr en seinna.

Í fyrsta lagi vil ég víkja sérstaklega að ákvörðun um skattlagningu hjóna. Þá vaknar spurningin um hvaða helstu gallar séu á núgildandi skattalögum í þessum efnum og að hvaða markmiðum skuli stefnt með setningu nýrra lagaákvæða.

Í fyrsta lagi er reglan um 54% frádrátt af tekjum konu, sem vinnur utan heimilis hjá öðrum, fráleit þegar um hátekjukonur er að ræða eða þegar konan hefur hærri tekjur en maðurinn. Í öðru lagi er hún ranglát gagnvart konum sem ekki geta unnið úti við. Hvers eiga húsmæður að gjalda af þjóðfélaginu? Þær vinna mjög þýðingarmikil störf við að ala upp nýja þjóðfélagsborgara. Hér verður að finna einhverja reglu sem gengur til móts við þessar konur. Húsmæður, sem ekki geta unnið úti, hafa ekki haft jafnræði og jafnrétti á við aðra. Úr þessu þarf að bæta.

Inn í þessa umr. fléttast raunar afstaðan til heimilisins sem stofnunar í þjóðfélaginu. Það er því ástæða til að minna á þá stefnu að heimilið eigi að vera hornsteinn þjóðfélagsins sem um aldir hefur gegnt þýðingarmiklu menningar- og uppeldishlutverki, þótt mikil breyting hafi orðið í þessum efnum á undanförnum árum. Ég álít að þjóðin ofmeti seint hlutverk húsmóðurinnar í íslensku þjóðfélagi. Þessi afstaða til heimilisins, sem ég hef verið að lýsa, er eitt af stefnuskráratriðum Framsfl., svo mikla áherslu leggjum við á þetta atriði.

Þá vil ég aftur víkja að 50% frádráttarreglunni. Hún hefur haft mikla þýðingu til að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu. Að þessu þarf fjh.- og viðskn. að hyggja þegar hún fjallar um málið. Það verður þó að hafa sterkt í huga að ýmis önnur ákvæði skattalaga koma til með að hafa áhrif á skatta, eins og hæstv. fjmrh. gerði glögglega grein fyrir í framsöguræðu sinni. En það er að sjálfsögðu heildarniðurstaðan sem mestu máli skiptir. Ég álít það rétta stefnu að hjónum skuli reiknaður tekjuskattur og eignarskattur hvoru í sínu lagi og jafnframt sé reiknaður heimilisafsláttur og barnabætur. Hins vegar þarf að leggja áherslu á þau sjónarmið, sem ég hef lýst hér að framan, áður en lagaákvæðin eru endanlega ákveðin. Ég vil þó að fram komi að niðurstaða þessarar endurskoðunar leiði ekki til mikilla breytinga á skattlagningu hátekjumanna borið saman við aðra, og ekki sýnist ástæða til að hækka skatta á einstæðum foreldrum.

Í öðru lagi þarf að endurskoða ákvæðin um vaxtafrádrátt. Í því sambandi er mjög nauðsynlegt að greina á milli vaxta, sem verða til vegna atvinnurekstrar, og vaxta, sem skapast af einkaneyslu, eins og t. d. vegna kaupa eða byggingar íbúðarhúsnæðis. Með tilliti til ástæðna unga fólksins kemur ekki til álíta að leggja niður vaxtafrádrátt vegna íbúðarhúsnæðis. Hins vegar þarf að setja þak á vaxtafrádráttinn þegar um er að ræða vaxtagreiðslur vegna atvinnurekstrar, til þess að koma í veg fyrir að menn hreinlega geti í senn spilað á verðbólguna og lækkað skatta sína umfram það sem eðlilegt má telja. Oft er erfitt í framkvæmd að greina til hvers lán eru notuð. Verður sjálfsagt í því efni að meta málið eftir aðstæðum og málavöxtum. Hér sem annars staðar grípa önnur ákvæði skattalaga inn í, svo sem ákvörðunin um eigin húsaleigu, skuldir, leigugreiðslur o. fl. Mér hefur fundist sanngjarnt að leigugreiðslur þeirra, sem greiða húsaleigu, komi til álíta við skattlagningu.

Í þriðja lagi þarf að flýta endurskoðun á ákvæðum um skattlagningu söluhagnaðar og fyrningar. Í frv. eru ákvæði sem ganga í rétta átt, t. d. að reyna að koma í veg fyrir að unnt sé að skapa nýjan fyrningargrunn með málamyndagerningum á milli lögpersóna, bæði félaga og einstaklinga. Varðandi fyrningar þarf þó að tryggja áfram nauðsynlega endurnýjun atvinnutækja og uppbyggingu í atvinnulífinu sem horfir til hagræðingar og framfara og hv. 2. þm. Austurl. kom inn á í sinni ræðu hér áðan.

Fjórða atriðið, sem ég vildi sérstaklega nefna, eru vandkvæðin á því að skattleggja réttilega launafólk annars vegar og þá, sem hafa með höndum atvinnurekstur, hins vegar, ekki síst þegar um smærri atvinnurekstur er að ræða. Það, sem mestu máli skiptir, er að koma á skattaframkvæmd sem tryggi réttlæti. Það er ótæk niðurstaða að tekjuskatturinn verði fyrst og fremst skattur á launafólk og þeir, sem fást við atvinnurekstur og sýnilega hafa einkaneyslu á við launamenn, skuli ekki greiða sambærilega skatta á við þá.

Frv. gerir ráð fyrir verulegum breytingum frá gildandi lögum. Ekki álít ég að rétt sé að gera mönnum skatt án tillits til rekstrarafkomu. Þjóðfélagið á mikið undir ýmiss konar smáatvinnurekstri, þ. á m. búrekstri, svo að dæmi sé tekið. Ekki verður mögulegt að greiða tekjuskatt nema af raunverulegum tekjum. Það liggur ekki í eðli málsins að greiða tekjuskatt af tekjum sem engar eru. Skattalög mega ekki drepa niður eðlilega og nauðsynlega löngun manna til að stofna til smærri atvinnurekstrar. Aðgæsla er því nauðsynleg þótt tryggja verði að smáatvinnurekendur greiði skatta á borð við aðra þjóðfélagsþegna.

En hvernig á þá að fara með þá sem aldrei greiða sambærilega skatta á við aðra og geysileg gagnrýni hefur komið á í hvert sinn svo að segja sem skattskráin kemur út? Rétt er að vitna til þess, sem ég sagði áður, að skattskráin gefur ekki rétta mynd af endanlegri skattálagningu, vegna þess að þar er aðeins skattálagning sem er gerð í samræmi við framtöl. Ég álít, að það eigi að áætla þeim mönnum skatt og þeir fái síðan færi á að skýra mál sitt. Í þessum efnum er rétt að skattyfirvöld hafi hliðsjón af einkaneyslu manna og gangi ríkt eftir framtölum. Þá kemur mjög til álita að innleiða brúttóskatt og skattstofn verði hinn sami til útsvars og tekjuskatts.

Í umr. um skattalög ber að hafa í huga að skattamál eru mjög flókin, Sá frumvarpsbálkur um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér er til umr., er bæði flókinn og þess eðlis að mörg ákvæði hans hafa áhrif á önnur ákvæði. Þess vegna er ekki rétt að ræða einangrað um áhrif hvers ákvæðis því að önnur hafa einnig áhrif. Þessi mál verða því ekki ljós að mínu mati nema þau séu rædd af mönnum sem gjörþekkja lagabálkinn í einstökum atriðum svo og samverkandi áhrif hinna ýmsu greina frv.

Að lokum vil ég undirstrika þá stefnu, sem fram kemur í frv., að þyngja verulega refsingar við brotum á skattalögum.