08.02.1977
Sameinað þing: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

80. mál, hámarkslaun

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Þessi till. Stefáns Jónssonar og tveggja annarra þm. liggur hér fyrir flutt í annað skipti, fékk ekki afgreiðslu í fyrra, og mér heyrðist nú satt að segja á hv. 1. flm. að hann gerði sér litlar vonir um að hún fengi meiri byr nú en fyrr. Sjálf finnst mér till. að vissu leyti mikillar samúðar verð, en dreg ákaflega í efa að sú aðferð sem hún felur í sér, að undirbúin sé löggjöf um hámarkslaun, að þetta sé í rauninni framkvæmanlegt.

En ég er innilega sammála hv. 1. flm., og ég hygg að alþm. allir séu það, að hið vaxandi launabil í landinu á undanförnum árum er orðið allt of breitt. Verðbólgan hefur gert sitt til þess að auka óhæfilega á þennan ójöfnuð. Hvað er til ráða til að lagfæra þetta? Að sjálfsögðu lægi beinast fyrir að ætla að þarna kæmu hin almennu verklýðssamtök til og reyndu að koma í veg fyrir að launabilið færi svo hraðvaxandi sem það hefur gert í raun.

Það verður að segjast eins og það er, að ég og fleiri íslendingar hafa orðið fyrir vonbrigðum með það æ ofan í æ við undanfarna kjarasamninga, að þrátt fyrir háværar yfirlýsingar úr öllum áttum um að nú væru það láglaunahóparnir — lægst launaða fólkið — sem þyrftu að fá leiðréttingar sinna mála, hinir yrðu að láta nokkuð af kröfunum, sem betur væru eða best settir, það hefur valdið vonbrigðum að sífellt hefur útkoman orðið sú sama: láglaunafólkið hefur fengið þá kjarabót og kauphækkun svo knappt skammtaða sem stætt var á meðan hinir, sem hærri voru og hæstir, hafa fengið margfalda krónuhækkun á við þá sem raunverulega þurftu launahækkunar með.

Ég hef látið það í ljós áður og geri það enn hér, að ég tel að verkalýðssamtökin og landssamtök verkalýðssamtakanna, ASÍ, hafi hér viljandi eða óviljandi, sennilega óviljandi orðið verkfæri — beinlínis verkfæri í höndum ófyrirleitinna kröfugerðarmanna, svokallaðra háþrýstihópa. Það hefur ekki haft kjark eða mátt til þess að standa á móti. En þegar við tölum um láglaunahópa, þá vaknar spurningin: hvar er láglaunafólkið? Það er þetta sem ég hygg að sé hvað mestur vandinn í málinu öllu, vegna þess að það er lýðum ljóst og okkur öllum, að hinir svokölluðu kauptaxtar eru að miklu leyti markleysa ein sem farið er í kringum eftir alls konar krókaleiðum, málaflækjum, sem fæstir þotna nokkuð í, þannig að fjöldi fólks fær tekjur dulbúnar með ýmsum hætti, margfalt hærri en skráðir launataxtar segja til um, þannig að sá, sem býr við ákveðinn launataxta, kann að hafa margfalt meiri rauntekjur en hinn, sem ekki er háður sömu reglum um kaupgjaldsákvarðanir og kaupgjaldsgreiðslur.

Ég held og ég er sannfærð um raunar að þeir kjarasamningar, sem gerðir voru í febr. 1974, voru eitt mesta ógæfuspor sem stigið hefur verið lengi í kaupgjaldsmálum á Íslandi. Það er almennt viðurkennt að þær kauphækkanir, sem þá voru veittar, voru algjörlega á fölskum forsendum byggðar. Þær voru í engu samræmi við þjóðarframleiðslu né heldur getu atvinnuveganna til þess að standa við þær. Síðan er svo í dag hamrað á því að verkalýðurinn hljóti að stefna að því að kaupmátturinn verði hinn sami og hann var að þessum sprengisamningum loknum. Það sem verra er: Í þessum samningum var gefið hið hroðalegasta fordæmi um það að réttur hinna lægst launuðu var fyrir borð borinn á meðan hinir, sem betur voru settir og langsamlega miklu betur settir, fengu allt að því þrefalda kauphækkun á við hina lægstu. Þetta er manni ráðgáta, hvernig þetta gat hent og þá með vinstri menn við völd sem alltaf hafa haft munninn fullan af umhyggju fyrir verkamanninum — hinum óbreytta verkamanni — og þeim sem erfitt eiga uppdráttar. Ég horfi með kvíða til næstu kjarasamninga og kvíði minn er ekki hvað síst í því fólginn, að ég óttast að enn fari á sömu leið og jafnan áður.

Ég er enginn sérfræðingur í verkalýðsmálum, en mér hefur lengi legið á hjarta að eitthvað væri gert raunhæft til þess að laga þann óskapnað sem kjarasamningar hafa verið á undanförnum árum. Mér hefur fundist af mínu leikmannsviti að ein aðferð kæmi fyllilega til greina. Hún er sú einfaldlega — og þetta hafa raunar fleiri en ég bent á, menn úr röðum verkalýðssamtakanna — að að sjálfsögðu eigum við að byrja á því að ákvarða þessu fólki, sem við með rétti teljum okkur vita að sé það lægst launaða í reynd, — við eigum að hækka kaup þess verulega þannig að það geti lifað sómasamlega af sinni dagvinnu, við getum miðað þau við vissa prósentuhækkun, en draga síðan úr eða banna prósentuhækkanir á hærri launaflokkana, bæta við sömu krónutölunni hjá þeim hæst launaða og sá lægst launaði fær. (Gripið fram í: Þannig var stjórnarfrv. 1974.) Ja, illu heilli náði það víst ekki fram að ganga. Það var veik stjórn og ekki nógu samhent sem þá sat að völdum. (Gripið fram í.) Mér finnst líka liggja í augum uppi að við eigum að hækka dagvinnukaupið margfalt meira tiltölulega heldur en eftirvinnu- og næturvinnukaup. Við eigum ekki að sprengja upp eftirvinnu- og næturtaxta þannig að þeir verði jafneftirsóknarverðir fyrir verkafólk og þeir eru í dag. Eitt af því, sem hefur stuðlað að okkar óheillavænlegu verðlagsþróun, er sú feikilega spenna sem eftir- og næturvinna og alls konar yfirboðstaxtar hafa haft í för með sér. Ég hlýt að skora á Eðvarð Sigurðsson, formann Dagsbrúnar, sem ég veit að er einlægur verkalýðssinni og um leið niðri á jörðinni, en ekki uppi í skýjunum, eins og sumir starfsbræður hans, að reyna að beita sér innan Alþýðusambands Íslands og í þessum málum yfirleitt til þess að fá einhverju slíku framgengt án þess að grípa til þess óyndisúrræðis að Alþ. setji lög um hvað kaup manna skuli vera hátt eða lágt. Að sjálfsögðu hljótum við að miða að því og óska þess að hinn frjálsi samningsréttur geti tryggt þolanlegt réttlæti í þessum efnum.

Það er mikið talað um vinnuþrælkun á Íslandi í dag, og það mun sönnu nær að hér er unnið meira en góðu hófi gegnir af stórum hópi fólks. Ég hygg að það sé ekki alltaf það fólk sem minnst ber úr býtum. Það er oft og tíðum fólk sem kann sér ekkert hóf í kröfugerð sinni, sem fórnar frítíma, samvistum með fjölskyldu sinni og öðru, sem við erum vön að telja til verðmæta í lífinu, til þess að fullnægja alls konar gerviþörfum, kapphlaupi um að sýnast meiri og sterkari á svellinu fjárhagslega heldur en nágranninn og til þess að uppfylla alls konar þarfir — það sem á nútímamáli heitir mannsæmandi kjör, mannsæmandi líf. En hvað er mannsæmandi líf í dag? Ef við eigum að miða við að það feli í sér sjálfvirkt eina til tvær sólarlandaferðir á ári, bifreið fyrir einn eða helst fleiri innan fjölskyldunnar og þar fram eftir götunum, þá held ég að þau lífskjör, sem möguleikar eru á í okkar landi, hrökkvi skammt.

En svo ég víki aftur að launabilinu, þá er talað um, þegar farið er fram á aukinn launajöfnuð, að svona sé þetta alls staðar og á Íslandi sé launajöfnuður margfalt meiri en víða annars staðar. Þar kemur sem oftar stöðugur samanburður við grannþjóðir okkar, sumar hverjar háþróaðar, stórefnaðar iðnaðarþjóðir, — milljónaþjóðir sem standa á gömlum merg, — samanburður sem mér finnst vera út í hött oft og tíðum. Við búum í allt öðruvísi landi, og á það benti 1. flm. þessarar till. Við búum í landi sem er af mörgum talið vera á mörkum hins byggilega heims. Við erum dvergþjóð sem mörgum stærri þjóðum finnst vera kraftaverk að skuli hafa efnahagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði.

Ég held að við hljótum í okkar þjóðlífi öllu að miða okkar aðgerðir, okkar kröfur og okkar viðhorf við þessar staðreyndir. Við viljum ekki hér auðmannastétt hafna langt upp yfir þá sem vinna hin daglegu störf. Og ég vil mótmæla því, af því að ég veit að það er af ýmsum talið að minn flokkur sé einmitt hlynntur slíku ástandi, að auðurinn og alísnægtirnar megi gjarnan þrífast í vissum hópi, hvað sem svo líður þeim sem lakast eru settir. Þetta er úrelt viðhorf sem ég hygg að örfáir íslendingar láti sér til hugar koma að lýsa fylgi sínu við. Og einmitt af því að við erum svo sem ekki nema eins og ein stór fjölskylda, þá sæmir okkur ekki að þola það að óviðurkvæmilegt misrétti í þessu efni viðgangist. Ég held að það hljóti að vera mögulegt að breyta þessu. Við skulum ekki grípa til lagasetningar, það þýðir ekki. Það verður alltaf óraunhæft og óframkvæmanlegt. Ég held að landsmenn sjálfir, hver einstaklingur, siðferðilegur styrkur hans, réttlætiskennd og aðrir venjulegir mannlegir eiginleikar þurfi að koma hér til fyrst og fremst.

Ég held líka að við mættum gjarnan, íslendingar allir, ég vil ekki taka neina stétt þar út úr frekar en aðra, — við mættum gjarnan hætta að líta á orð eins og nægjusemi, nýtni og sparsemi sem nokkurs konar skammaryrði sem skömm sé að að taka sér í munn. Öll erum við að sjálfsögðu sannfærð um að þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru ekki miklir peningar á milli handa það æðsta markmið sem við keppum að, þótt að sjálfsögðu verðum við að gera kröfu til að allir hafi það mikið á milli handa að þeir þurfi ekki að kvíða komandi degi.

En ég endurtek: Mér fannst ég verða að segja fáein orð um þessa till., af því líka að ég er ekki viss um að hún eigi eftir að koma hér aftur til umr. Henni var, að ég hygg, vísað til n. síðast og átti þaðan ekki afturkvæmt. En með tilliti til þess að fram undan eru hugsanlega átök á vinnumarkaði, þá vil ég enn sem fyrr láta í ljós þá ósk mína og von að nú takist betur til en orðið hefur að undanförnu og að við höfum það meira en orðin tóm, að við viljum fyrst og fremst bæta hag þeirra sem kauphækkana þurfa við.

Ég vil líka taka fram, af því ég talaði nú um kjarasamninga 1974, að við síðustu kjarasamninga var þó viðleitni höfð í frammi til þess að bæta hér um. Það voru teknar upp svokallaðar láglaunabætur og sérstakar ráðstafanir til handa hinum lægst launuðu. En það hrökk of skammt. Og enn sem fyrr var það prósentureglan sem raskaði myndinni þannig að hún kom út — ekki sem réttlæti, heldur sem ranglæti.