08.02.1977
Sameinað þing: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

80. mál, hámarkslaun

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það er nú ekki till. sjálf, sem hér er til umr., sem ég ætlaði að gera að umræðuefni, henni voru gerð ágæt skil í framsöguræðu og þarf ekki þar um að bæta. En það er sérstaklega ræða hv. 9. landsk. þm., Sigurlaugar Bjarnadóttur, sem kom mér til þess að standa hér upp. Hún kom inn á býsna mörg atriði varðandi samningamál og launamál, stöðu þeirra í dag og þróun þeirra undanfarið. Það gerði einnig hv. síðasti ræðumaður Ingvar Gíslason. Það eru þessi atriði sem ég vildi koma hér nokkuð inn á.

Það var að skilja á ræðu hv. 9. landsk. þm., frú Sigurlaugar, að aðalvandinn — og ekki aðeins aðalvandinn, heldur aðalsyndin í þessu öllu saman — væri fólginn í þeim samningum, sem hin almennu verkalýðsfélög og Alþýðusambandið — alþýðusambandsfélögin — hafa gert, þar væri rót launamismunarins sérstaklega, verkalýðshreyfingin hefði látið undan þrýstihópum í þessum efnum og hefði jafnvel farið á annan veg heldur en ætlast hafi verið til, og samningarnir frá 1974 væru sérstakt dæmi þessa. Í fyrsta lagi vil ég segja það um samninga verkalýðsfélaga innan Alþýðusambandsins, þeirra sem hafa tímakaup, vikukaup, mánaðarkaup, þ. e. a. s. fast kaup miðað við tímaeiningu, að hjá svo til öllum fjöldanum af félagsmönnum Alþýðusambandsins, sem er á slíkum launum, er launamismunur alls ekki mikill. Það er mikill misskilningur að halda það. Það finnast að vísu einstakir hópar sem eru hærri en almennt hjá verkafólki í Alþýðusambandinu. Síðan koma til einstök launakerfi önnur, þau þekkja menn og ég þarf ekki að fara út í það, þ. e. a. s. ákvæðisvinnuhóparnir. Þeir geta farið býsna hátt í launum í samanburði við vinnutíma fastlaunamannanna. Það er þess vegna reginmisskilningur að halda að launamismunur í landinu sé á þessum vettvangi. Þetta geta hv. þm. sjálfir sannfært sig um með því að fletta upp í þeim heftum af tímariti kjararannsóknarnefndar sem eru á borðum þm. Janúarheftið lýsir þessu alveg svart á hvítu ef menn vilja skoða það nánar.

Þá gat hv. þm. þess, Sigurlaug Bjarnadóttir, að launatekjur eftir töxtum væru sjálfsagt oft og tíðum einvörðungu blekking, rauntekjur væru allt annað. Það er rétt að nokkru leyti, yfirborganir þekkjast. En það að rauntekjur yfirleitt eru allt aðrar en það sem dagvinnutaxtar gefa til kynna að tekjur manna ættu að vera, það er fyrst og fremst vegna hins langa vinnutíma sem fólk leggur á sig til þess að afla teknanna. Þar kemur það fyrst og fremst fram.

Slysið 1974, sem ég hef gjarnan viljað kalla það og hef rætt úr þessum ræðustól áður og skal ekki fara að endurtaka núna, það lá einmitt í því að atvinnurekendur í vissum starfsgreinum og viðsemjendur þeirra í launastétt höfðu komið sér saman um að taka yfirgreiðslurnar inn í samningana sjálfa og gera að hinu skráða kaupi. Þetta gerðist að vísu ekki, en nokkuð var gengið til móts við þá. Þetta var ekki heildarsamningur verkalýðsfélaganna. Þarna var um sérsamning að ræða, en ekki heildarsamninga. Og þessir samningar voru þó ekki þannig, eins og hv. ræðumaður vildi vera láta, að réttur hinna lægst launuðu hefði verið algerlega fyrir borð borinn, en þeir hærra launuðu hefðu þá fengið þrefalt meira en láglaunafólkið. Þetta skrifaði ég hjá mér og held að sé rétt eftir haft. Munurinn var sá, að meðan þeir, sem minnst fengu, fengu rétt um 20% kauphækkun, þá náðu þeir, sem lengst teygðu sig í sérsamningum, upp undir 30% hækkun. Þetta var munurinn þá. En ef þið skoðið síðan þetta rit sem ég var að benda á áðan, Fréttabréf kjararannsóknarnefndar, þá er hægt að sjá að á árinu 1975 var þessi munur jafnaður út og hefur ekki orðið mikil breyting á því síðan.

Það er þess vegna mikill misskilningur að launamismunur í landinu liggi í gerð þessara kjarasamninga, sá munur sé á launum hins almenna verkafólks í Alþýðusambandinu og ég segi raunar þorrans, ekki þó jafnstórs hluta, innan BSRB, en þar er líka stór hluti fólks sem er á svipuðum kjörum, lágum tekjum, þó að þar séu meiri undantekningar.

Hv. 9. landsk. þm. lagði áherslu á að það yrði að finna einhver ráð til þess að laga þennan óskapnað, kjarasamninga, eins og það var orðað, taldi, að nauðsynlegt væri að finna einhver ráð til þess. Ráðið, sem henni kom fyrst og fremst í hug var að afnema prósenturegluna alveg eða sem allra mest og taka upp krónutöluhækkunina, þ. e. a. s. að þeir hærra launuðu fengju ekki fleiri krónur í hækkun heldur en þeir sem lægra eru launaðir. Þetta er nákvæmlega sú stefna sem mörkuð var á þingi Alþýðusambandsins í lok nóv. s. l. Þessa stefnu hefur verkalýðshreyfingin, þ. e. a. s. almennu verkalýðsfélögin innan Alþýðusambandsins, sett fram ákaflega oft í sínum samningum. En það verður að segjast og hefur verið sagt áður úr þessum ræðustól, að það eru gjarnan atvinnurekendurnir sem strandar á að þessi regla sé framkvæmd. Þeir hafa ýmislegt fram að færa sem ég ætla ekki að tíunda hér. En það er augljóst hins vegar og það er best að allir geri sér grein fyrir því, að í jafn-óhemjumikilli dýrtíð og verðbólguflóði og hér hefur verið og sýnist nú ætla að verða þetta árið ekki síður, þá er ákaflega erfitt að halda þessari reglu til lengdar. Þetta sprengir af sér þau bönd, sem hærri taxtar eru reyrðir í með þessari reglu, og það eru nóg öfl og nægjanlegur styrkleiki hjá mörgum af þeim hópum til þess að brjóta þessi bönd af sér, og þau gera það þegar til lengdar lætur. Þetta var reynsla áður, þegar þetta hefur verið framkvæmt hér, og þetta er einnig reynslan í öðrum löndum. Þá kemur til það sem að mínum dómi er ekki ákjósanlegra en beinir almennir kjarasamningar, þá kemur til launaskrið — ekki aðeins launaskrið með ýmsum hætti sem við þekkjum hér, heldur með þeim hætti að verkalýðsfélög og einstakir hópar í verkalýðshreyfingunni brjóta sig út úr í svokölluðum ólöglegum verkföllum erlendis. Við höfum haft ákaflega lítið af slíku að segja hér og ég held þá fyrst og fremst vegna þess að við höfum gert samninga sem hafa verið meira í samræmi oft og tíðum við hagsmuni fólksins heldur en stundum hefur viljað við brenna jafnvel annars staðar og kannske ekki síst þegar löggjafinn hefur gripið beint inn í samningana.

En er þá ekkert launamisræmi í landinu? Jú sannarlega og það hefur farið vaxandi. En orsakanna er ekki að leita þar sem hv. 9. landsk. vildi áðan vera láta. Orsakirnar eru allt aðrar. Við höfum tiltölulega lág laun í þessu landi, og launastig almenns verkafólks er nú þannig að Ísland er orðið láglaunaland.

Ég get út af fyrir sig verið sammála um að að samanburður við önnur lönd getur verið mjög tvíræður og það er ekki mjög auðvelt að gera beinan samanburð oft og tíðum. En hvað um það, það fer ekkert á milli mála varðandi kjör almenns verkafólks hér á landi núna og kjör sambærilegs verkafólks í nágrannalöndunum, að kaupið er þar um helmingi hærra en það er hér. Þetta er staðreynd. Síðan er svo það í þessum samanburði, að við höfum æðimikið orðið hér í okkar landi af fólki sem er með menntun sem gengur hvar sem er í heiminum. Þetta er fólk sem getur boðið sig fram á alþjóðlegum vinnumarkaði. Þetta fólk lætur sér ekki nægja samanburðurinn og hafa uppi áróður um hann hér. Ef það fær ekki hér nokkurn veginn sambærileg kjör við það sem það getur fengið á heimsmarkaðinum, þá fer það. Við erum að sjálfsögðu neydd til þess að hlíta þessum lögmálum. Og það er hjá þessum stéttum sem kaup og kjör eru þannig, að það er hægt að tala um mjög mikið misræmi í kaupgjaldi hér hjá okkur. Þarna liggur þetta fyrst og fremst. Það er mjög vaxandi að ýmsir tæknilærðir menn þjálfa gott fólk, hærra setta starfsmenn ýmiss konar, sem geta farið eða hafa a. m. k. getað farið á uppboðsmarkaðinn. Við sjáum hve opinberum fyrirtækjum gengur illa að halda slíkum starfskröftum. Opinberar stofnanir og ekki síst þær stofnanir, sem þurfa á vísindamönnum eða verkfræðimenntuðum mönnum o. s. frv. að halda, kvartanir frá þeim, að þær geti ekki keppt við einkaatvinnureksturinn, þekkja allir. Þarna liggur fyrst og fremst launamismunurinn og rótin að launamismuninum í landinu.

Ég skal ekki tefja miklu lengur þessar umr. Hér er fengist við mál sem eru ákaflega vandasöm, viðkvæm. Það er tiltölulega einfalt að setja fram eina og aðra fullyrðingu, en það er erfiðara þegar að framkvæmdinni kemur. Hér er ekki verið að ráðstafa dauðum hlutum. Hér er verið að tefla með lifandi fólk.

Hv. þm. Ingvar Gíslason kom hér inn á ýmis atriði. Það er aðeins tvennt sem ég vil minnast á. Hann varpaði fram þeirri spurningu, hvort hinn víðtæki samningsréttur, frjálsi samningsréttur, tryggði það réttlæti í launamálum og kjaramálum sem við sjálfsagt keppum flest að. Ég held að það sé óhætt að segja að það er út af fyrir sig ekkert eitt form, ef menn eru að leita að formi, sem gæti tryggt fullkomið réttlæti í þessum efnum. En sannfærður er ég þó um að fullkomlega frjáls samningsréttur tryggir þetta best og það kannske ekki síst vegna þess að hann leggur ábyrgðina á samtökin sem hafa þennan rétt til þess ekki aðeins að gera kröfur til annarra, heldur og kröfur til sjálfs sín um að vinna að þessu réttlæti, ekki síður innan samtakanna heldur en utan. Og mjög teldi ég það hættulegt ef menn færu, vegna þess að misræmi og óréttlæti er til í launamálum, að talda að ríkisvaldið eða löggjafarvaldið í einhverri mynd gæti gert þetta betur en frjáls samtök fólksins sjálfs.

Í öðru lagi er atriði sem ég vil rétt koma að. Hv. þm. spurði hvers vegna daglaunamennirnir, þeir sem byggju við mest öryggisleysi á allan hátt, hvers vegna þetta fólk væri jafnframt lægst launaða fólkið. Við höfum staðið frammi fyrir því ákaflega lengi og gerum það enn að einmitt það fólkið, sem vinnur að framleiðslustörfunum, grundvallar-framleiðslustörfunum í landi okkar, það er um leið lægst launaða fólkið, fólkið með minnsta öryggið. Og eftir stendur þá hvers vegna. Það eru sjálfsagt mörg svör við þessu. En það svarið, sem alltaf hefur blasað við mér — og hef ég fengist nokkrum sinnum við þessi mál — er einfaldlega að þessar grundvallar-atvinnugreinar okkar eru það, sem allt er miðað við, og fólkið, sem vinnur þessi störf, er einnig viðmiðunin, má segja, fyrir alla aðra. Þetta er eins konar gullfótur sem byggt er á. Ef kjör þessa fólks hækkuðu, eins og hv. 9. landsk. var að tala um áðan að þyrfti að gera, hvað er þá sagt? Ja, við sjáum hvað við blasir núna. Hvað segja þeir sem helst fást við þjóðhagsmálin hjá okkur í dag? Þó að það hafi orðið mjög miklar hækkanir á útflutningsvörum okkar og þá fyrst og fremst í fiskiðnaðinum, þá breytast menn ekki á að prédika fyrir þessu fólki, náttúrlega fyrst og fremst lægst launaða fólkinu, að það sé svei mér ekki neitt tilefni til veisluhalda. Og ef kaup þessa fólks hækkar núna, þrátt fyrir það að afurðirnar rafi hækkað mjög verulega, hafi aldrei verið í hærra verði en nú á erlendum markaði, — ef þetta fólk ætlar virkilega að fá einhverjar launabætur svo að um munar, þá er búið að kippa öllum grundvellinum undan jafnvæginu í þjóðfélaginu, batanum og ég tala nú ekki um hvað og hvað. Þetta er það sem alltaf glymur við og er alltaf þau rök sem eru höfð í frammi við verkafólkið þegar það ætlar að reyna að sækja um einhverja kjarabót.

Það skeður ekki neitt þó að þær stéttir, sem ég var áðan að tala um, þessar sem eru með alþjóðlega menntun, geta selt sig hvar sem er, — það skeður í rauninni ekki neitt, verður enginn var við það þó að kaup þessa fólks hækki verulega. Vísitalan hreyfist ekki neitt að marki og allt í lagi. En ef lægst launaða fólkið fær eitthvað í sinn hlut, þá fer allt af stað. Það er þetta kerfi sem þarf að koma við og breyta. Við lögum ekki kaup lægst launaða fólksins sem neinu nemur nema skera þetta kerfi upp. Ef það er svo að t. d. fiskvinnslan, fiskframleiðslan getur ekki borið annað kaup en nú er boðið í þeirri grein, þú verður að flytja til í þjóðfélaginu annars staðar frá. Það eru þá einhverjir aðrir sem taka of mikið. Það er þannig sem við verðum í raun og veru að vinna að því að það mark náist, sem hv. 9. landsk. nefndi áðan, að bæta fyrst og fremst kjör þeirra sem helst þurfa þess, eru lægst launaðir.