26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

242. mál, heyverkunaraðferðir

Fyrirspyrjandi (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og upplýsingar sem komu fram í bréfi Ólafs Guðmundssonar fulltrúa. Það kemur mér ekkert á óvart sem þar kemur fram, að það þurfi fjármuni til þess að koma fram þeim rannsóknum sem nauðsynlegar eru. Það kemur mér heldur ekki á óvart eftir sumarið í sumar og eftir reynsluna af sumrinu í fyrra einnig að tap vegna óþurrkanna og þess, hvernig bændur hafa möguleika á að standa að heyskap, skuli nema hundruðum millj. kr. Það má því segja að það komi manni kannske meira á óvart, að það skuli vera sérstakir erfiðleikar á því að fá eitthvert fjármagn inn á fjárlög til þess að sinna þessu brýna verkefni sem mundi vissulega geta leitt af sér björgun á þeim verðmætum svo að nemur hundruðum milljóna króna.

Eins og fram kom í svari ráðh., þá beinist margra hugur að því að fara meira inn á votheysverkun heldur en gert hefur verið, og ég er ekkert í vafa um að það er verulegt atriði til bjargar að gera það. En það er einnig á því sviði margt ógert til þess að sýna fram á, á hvern hátt verði best staðið að votheysgerð. Mér þykir eftirtektarvert að leiðangrar, sem gerðir voru af Rannsóknastofnun landbúnaðarins norður í Strandasýslu, bæði seinni partinn á s.l. vetri og eins í sumar, sanna manni að það er ekki sama hvernig að votheysverkuninni er staðið, og það þarf einnig að huga að því, hvers konar gras er verið með í votheysverkuninni. Það lítur út fyrir það, eftir því sem þessir rannsóknarmenn frá Rannsóknastofnuninni segja að grasið á Ströndum sé blaðríkara heldur en það er um Suðurland og það sé ein af skýringunum á því, að votheysverkun er vinsælli þar í sveit heldur en um Suðurland. Það er annað líka sem er mjög nauðsynlegt að kanna og meta þegar um votheysgjöf er að ræða, að hversu miklu leyti er hægt að nota vothey til fóðrunar. Það virðist vera nokkurn veginn fullsannað, að það er mögulegt að fóðra sauðfé algerlega á votheyi, gefa því það eingöngu. Hins vegar hafa verið gerðar tilraunir með það, hversu mikið sé hægt að hagnýta það til að fóðra kýr, og það hefur verið gerð um það tilraun, en enn þá vantar mannafla til að gera upp þá tilraun. Útlit er fyrir að kýr þurfi að éta um 60 kg af votheyi á sólarhring, en það virðist vera erfiðleikum bundið að fá þær til að éta meira en 25–30 kg. Þess vegna hygg ég að þar sem um verulega mjólkurframleiðslu er að ræða, þá muni votheysverkunin ekki geta fullnægt þeim heyöflunarmöguleikum sem þeir menn þurfa að hafa sem búa með kýr.

Þetta og margt fleira þarf að rannsaka í þessu efni, og ég vænti þess fastlega, sem raunar kom fram í svari hæstv. landbrh., að hann hlutist til um það að fé fáist til rannsókna á heyverkun og notagildi hinna ýmsu aðferða. Ég vona að ekki þurfi fleiri óþurrkasumur til þess að við hér á Alþ. getum sameinast um að hrinda fram umbótum í þessum málum.