09.02.1977
Efri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

153. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. flutti hér mjög athyglisverða ræðu um þessi mál, og ég held, að það væri mjög gagnlegt mörgum, sem virðast hafa ótvíræðan áhuga á því að draga úr drykkjuskap, að kynna sér örlítið betur staðreyndir erlendra þjóða um það, hvar þær standa í þessum málum. Og mér þætti fróðlegt að vita hvaða þjóðir það eru sem eru komnar langt á þroskabraut siðgæðis og menningar fyrir áhrif sterks öls.

Aftur á móti er það eitt atriði í þessu frv. sem ég vil sérstaklega gera að umræðuefni, og það er 3. gr. Þann veg hagar til hér á Reykjavíkursvæðinu, að skemmtistaðir fyrir ungt fólk á aldrinum 17–24 ára eru ekki til staðar til að taka á móti þeirri æsku sem leitar að heiman frá sér á laugardagskvöldum og vill njóta samvista. Það tel ég að sé mjög alvarlegt mál, vegna þess að ég er sannfærður um að á skemmtihúsum, þar sem hægt er að koma við einhverjum lögum og reglum, boðum og bönnum, er hægt að hafa meira eftirlít með hegðun þessara unglinga heldur en með því að ýta þeim út frá þessum stöðum. Ég vil þess vegna draga mjög í efa að það sé rétt, eins og hagað er málum hér á þessu svæði í dag, að banna unglingum að fara inn á vínveitingahúsin fyrr en þeir eru 20 ára. Engu að síður hlusta ég til þeirra raka sem hér komu fram, að unglingar undir tvítugu þyrfti margfalt styttri tíma til að verða að ofdrykkjumanni heldur en maður sem hefur drykkju eftir það. En það verður þá annaðhvort, er þetta er gert, að byggja hús, skemmtistaði fyrir þetta fólk, þar sem það getur komið saman og verið saman, eða þá að opna skólana og gera þeim að skyldu að hafa samkomur, til þess að ekki skapist öngþveitisástand sem fyrirsjáanlegt er, helmingi verra en Hallærisplansins, ef við ýtum út af skemmtistöðunum öllum unglingum sem eru á bilinu frá 18–20 ára. Þess vegna vil ég lýsa því hér yfir, að ég áskil mér rétt til að gera athugasemdir við 3. gr. síðar, og vil skora á flm. að athuga það mál mjög svo náið, hvaða hliðarráðstafanir þeir teldu að væru skynsamlegar til þess að sjá til þess að þetta fólk safnaðist ekki saman í hópum í borginni, heldur nyti einhvers staðar heilbrigðrar skemmtunar.