09.02.1977
Efri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

153. mál, áfengislög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. lengi. En ég verð að segja hv. síðasta ræðumanni, að þótt honum finnist ósköp erfitt um öflun áfengis, þá virðist öðru fólki of auðvelt að ná sér í staup af áfengi þrátt fyrir alla erfiðleikana. Það er hins vegar rétt, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði, að það er skortur á aðstöðu fyrir unglingana hér og það er mikil skömm að því. Sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu er þetta vandamál sem mjög lengi hefur verið alvarlegt og virðist alls ekki vera nein von um úrbót. Þetta er örugglega mjög stór líður í því slæma ástandi sem er á þessu svæði. Mig langar aðeins til að lofa hv. þdm. að heyra hvað merkur læknir segir um ástandið hér, með leyfi forseta:

„Annars er drykkjufólk sívaxandi vandamál slysadeildarinnar, og kemur þar til afrakstur gleðihúsa borgarinnar svo og svallveislur í heimahúsum. Einkum ber mikið á þessu síðari hluta vikunnar. Það má heita stanslaus straumur drukkins fólks á öllum aldri alla nóttina.“

Og í þessum dúr heldur hann svo áfram. Varðandi hömlurnar átti ég við það, að með því að hafa verðlag hátt á áfengi tekst að hamla talsvert gegn óhófsneyslu. Þetta er ekki bara okkar reynsla. Þetta er reynsla þeirra sem athugað hafa þessi mál. Þetta er augljóst og skýrir líka hvers vegna við, sem komnir erum yfir miðjan aldur eða á gamalsaldur, við vorum ekki í þessari hættu, því við höfðum bókstaflega aldrei aura til þess að kaupa fyrir brennivín þó við hefðum viljað gera það.

Hvað varðar frekari hömlur, þá veit ég ekki betur en það séu beinlínis lagafyrirmæli hjá Múhameðstrúarmönnum að nota ekki brennivín, og það bjargar þeim. Þeir eru mestu reglumenn á þessu sviði sem til eru í heiminum. En hins vegar er t. d. með Bandaríkin, að þar er banninu kennt um allar mögulegar ávirðingar, en ég held að það sé ekki rétt allt saman. Ég veit ekki betur en að öll sú glæpamennska, sem cowboy-myndirnar geta um, gerðist löngu fyrir bann. Og það er enginn vafi á því, að þar hafa á bannárunum verið framdir glæpir, en vafalaust ekki eins miklir og fyrir og eftir bannið, hef ég trú á.

En ég ætla aðeins að geta um svíana. Það mun vera rétt að það sjáist drukknir svíar erlendis. En þeir eru mjög miklir vísindamenn, svíar, og þeir eru mjög nákvæmir í öllum sínum rannsóknum. Þeir vita líka hvernig þeir eiga að fara að því ef þeir komast að því að þeir eigi við mikið vandamál að stríða. Þá reyna þeir að ráða bót á því. Þeir eru að taka brennivínið í gegn núna, og ég held að þeir séu að snúa til baka með ölið að einhverju leyti, og ég hef trú á því að þeir verði okkur til fyrirmyndar í þeim efnum. En í sambandi við svíana ætlaði ég t. d. að geta þess, að þeir eru farnir að nota sjónvarp sitt til að tilkynna fólki um hvaða matvörur það eigi að nota og borða og hverjar ekki. Sumum finnst þetta óviðfelldið, t. d. að þeim sé sýndur í sjónvarpi munurinn á brauðum, hvaða brauð sé hollt að borða og hvaða brauð sé ekki hollt að borða. Og enn fremur á félagslega sviðinu, þá er þeim beinlínis tilkynnt inn á milli skemmtiþátta hvernig þeir eigi að lifa. Að sjálfsögðu er þetta áróður sem er líklega sú eina raunhæfa fræðsla sem gæti komið að gagni t. d. í þessum málum.