26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

241. mál, framkvæmd skattalaga

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á undanförnum árum og þó sérstaklega tveim síðustu hafa miklar og almennar umr. átt sér stað um skattamál og þá skattalöggjöf sem gildandi er í landinu. Ég skal ekki fara út í umr. um það hér. En jafnframt þessum umr. hafa einnig átt sér stað miklar umr. um framkvæmd skattalaga milli hinna einstöku skattumdæma í landinu. Sérstaklega hefur borið á að eitt skattumdæmi landsins, þ.e.a.s. skattumdæmi Vestfjarða, hefur verið mikið í sviðsljós í þessu sambandi og opinbert a.m.k. hefur það verið gert í umr. um skattheimtu og skattálagningu.

Í sept. s.l. var haldinn aðalfundur Búnaðarsambands strandamanna sem m.a. ályktaði um þessi mál, og þar er að vonum kveðið fast að orði eins og vestfirðinga er siður og ekkert undan dregið í ályktunum þeirra og orðum um það. hvað þeim virðist vera að gerast og hafa gerst í skattheimtu að því er bændastéttina varðar og Búnaðarsambandið á undanförnu ári á Vestfjörðum. Þó að ég hafi hér haft á orði þessa ályktun, þá hef ég sjálfur orðið fyrir því persónulega að aðferðum er beitt í skattheimtu á Vestfjörðum að því er varðar álagningu og frádrátt ýmsan sem ekki virðast gerast í öðrum skattumdæmum hér á landi, að því er ég best veit. annars staðar en á Vestfjörðum. Ég skal þó ekki gera það dæmi að umtalsefni nú, en vísa til þeirrar ályktunar sem gerð var á aðalfundi Búnaðarsambands strandamanna 12. og 13. sent. s.l. og skýrir allvel, að ég held, hugarfar skattþegna á Vestfjörðum almennt til þeirra vinnubragða, vil ég segja, sem virðist beitt í skattheimtu þar.

Ég hef því leyft mér að leggja fram á þskj. 17 fsp. til hæstv. fjmrh., sem hljóðar svo:

„1. Eru í gildi samræmdar reglur milli skattumdæma um framkvæmd skattalaga?

2. Ef svo er, liggja þá fyrir upplýsingar um hvort framkvæmd slíkra reglna er með sama hætti í öllum skattumdæmum landsins, þannig að ljóst sé hvort allir skattþegnar sitji við sama borð varðandi framkvæmdina, t.d. að því er varðar frádrátt vegna viðhalds íbúðarhúsnæðis svo dæmi sé nefnt.

3. Ef slíkar reglur eru til, eru þær þá heimilar almenningi til upplýsinga?“

Ég held að það sé nauðsynlegt að við skattborgararnir fáum um það að vita með hvaða hætti skattarnir eru framkvæmdir. Við vitum um hina mjög svo ójöfnu aðstöðu sem gefin er í gildandi skattalögum, óréttlæti og ójöfnuð. En þegar þar við bætist að framkvæmd skattalaga milli hinna ýmsu skattumdæma virðist vera með þeim hætti að það er ekki sama hvar viðkomandi skattþegn er búsettur á landinu, þá fyrst kastar tólfunum. Það er því nauðsynlegt að fá um það upplýsingar, hvort í gildi eru reglur um samræmdar starfsaðferðir hinna ýmsu skattumdæma í landinu. Ég vænti þess að við fáum í svari hæstv. fjmrh. vitneskju um þetta. Ég vænti þess, að slíkar reglur séu til og svarið verði í þeim dúr, hins vegar hafi það einungis gerst, að það hafi skort samræmingu á framkvæmd laganna hjá hinum ýmsu skattstofum. En við bíðum og sjáum hvað setur, hvað felst í svari hæstv. ráðh. hér um.