10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Frv. um byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði liggur nú fyrir Alþ. í annað sinn með örfárra ára millibili og er þetta næsta óvenjulegt, enda mjög sérkennilegar aðstæður sem valda því. Samið hafði verið við bandaríska auðhringinn Union Carbide Corporation um að reisa þessa verksmiðju og eiga hana með íslenska ríkinu. Hins vegar dró Union Carbide sig í hlé frá málinu áður en það var komið til framkvæmda að heitið gæti, en á skömmum tíma tókst að fá norskt fyrirtæki, Elkem-Spigelverket, til þess að taka við hlutverki Union Carbide og ganga í verkið með íslendingum.

Sú ástæða hefur verið tilgreind að Union Carbide hafi þótt versna afkomumöguleikar verksmiðjunnar út af verðbreytingum á framleiðslu hennar og þess vegna dregið sig í hlé. Mér þykir þessi skýring vera mjög ósennileg. Stórfyrirtæki eins og Union Carbide gerir ekki fjárfestingaráætlanir af neinu tagi án þess að gera sér grein fyrir hvers konar sveiflur geta orðið á markaði fyrir þær vörur sem á að framleiða. Það er mjög ólíkt slíkum hringum að kippa sér upp við sveiflu sem ekki var meiri en svo, að miklu minna fyrirtæki í Noregi þótti hún ekki hættuleg.

Ég hef heyrt aðrar skýringar á þessari skyndilegu breytingu. Ein er sú, að það hafi verið tilgangur Union Carbide með byggingu þessarar verksmiðju að brjótast inn á Evrópumarkaðinn fyrir járnblendi eða ferrosilikon. Það er meiri háttar verkefni fyrir hringa af þessu tagi þegar þeir ætla sér að ná yfirtökum á svo stórum markaði sem Evrópa er. Það getur því staðið í sambandi við ýmislegt fleira en verðhreytingar að Union Carbide hverfitr frá því að gera innrás í Evrópu á þessu sviði.

Þar að auki hef ég heyrt þá skýringu, að mannaskipti hafi orðið í stjórn Union Carbide og hinir nýju herrar hafi orðið að finna eitthvað til að kenna hinum eldri um og þá hafi þessi stefnubreyting varðandi Evrópu veríð gripin sem tilefni.

Í sjálfu sér þarf þetta ekki að skipta okkur miklu máli, því að það er a. m. k. skoðun mín að hér hafi orðið góð skipti og það muni vera betra fyrir okkur að eiga við norskt félag, þó að stórt sé, heldur en hinn ameríska risa, Union Carbide, sem á ýmsum sviðum, þ. á m. mengunarsviðum, hefur ekki á sér allt of gott orð, þó að fyrirtækið sé óneitanlega mjög sterkt. Á norskum markaði hefur orðið sú þróun að virkjanlegt rafmagn er að verða búið. Þegar frá er talið það sem norðmenn ætla sér ekki að virkja af náttúruverndarástæðum sem þeir hafa þegar gert sér grein fyrir, þá mun vatnsvirkjunum hjá þeim ljúka eftir 4–5 ár eða rétt upp úr 1980. Í Noregi hefur því þegar síðustu 2–3 árin verið talað um að draga þyrfti úr orkunotkun þangað til olían og gasið koma til sögunnar. En nú eru vonir norðmanna um áframhaldandi uppbyggingu veigamikils iðnaðar bundnar við petrokemískan iðnað eða annað þar sem þeir gætu notað orkuna úr Norðursjó í staðinn fyrir vatnsorku. Á tímabili var ætlun norðmanna að reisa kjarnorkuver til að brúa bilið eftir að vatnsorkunni lyki, en frá því munu þeir hafa horfið.

Mikill orkufrekur iðnaður er í Noregi sem kunnugt er og var fyrst byggður upp af útlendingum, en norðmenn hafa sýnt óvenjulegan dugnað við að ná þessum iðnaði í eigin hendur og koma upp fyrirtækjum sem reist hafa iðjuver af þessu tagi. Nú er svo komið að mörg þessara iðjuvera eru tæknilega að verða úrelt, enda byggð á fyrstu áratugum aldarinnar. Er því annaðhvort að leggja þau niður eða endurbyggja þau og aðhæfa þau nútímatækni. Við þetta bætist að norðmenn hafa samþykkt mjög strangar kröfur um að stöðva verði iðnaðarmengun, og er ætlun þeirra að útrýma allri teljandi mengun frá iðnaði á ekki meira en 10 árum. Er reiknað með að það muni kosta hálfan annan milljarð norskra króna. Gefur auga leið að þetta muni draga verulega úr hagnaðarmöguleikum, enda hefur áhugi erlendra auðhringa á þessum verksmiðjum minnkað, en norska ríkið hefur í þess stað keypt alger yfirráð í einu stærsta fyrirtækinu og annað minna fyrirtæki hefur norska ríkið keypt algerlega.

Það liggur fyrir í Noregi að orkufrekur iðnaður óskar enn eftir miklu meiri orku en hann getur fengið. Eftir því sem ég hef komist næst við lestur á norskum heimildum er það stórpólitískt mál í Noregi hvort eigi að ætla þessum iðnaði þá orku sem hann þarf til þess að endurbæta verksmiðjurnar, t. d. gömlu álverksmiðjurnar. Mér skilst að Jafnaðarmannaflokkurinn, Kristilegi þjóðarflokkurinn og Hægri flokkurinn séu allir hlynntir því að þessi iðnaður fái orku sem þarf til að gera verksmiðjurnar vel úr garði þannig að atvinna og annað glatist ekki, miðflokkarnir séu eitthvað tvístígandi, en SV, Alþýðubandalagið norska, sé algerlega á móti því. Það vill því svo einkennilega til að þarna virðist vera nákvæmlega sama pólitíska skipting um afstöðu til þessarar stóriðju og verið hefur hér á landi.

Þegar litið er á allt þetta verður skiljanlegt hversu fljótir norðmenn voru að nota tækifærið og ganga inn í Union Carbide-samningana, losna við að heyja samkeppnisstyrjöld við Union Carbide á ferrosilikonmarkaði í Evrópu og komast þar að auki inn í samninga um mjög hagstætt raforkuverð miðað við það verð sem er 3 Noregi, þegar þar að auki eru allar líkur á að ný raforka frá vatnsvirkjunarstöðvum verði lítil sem engin þar á næstu árum.

Þegar rætt er um þá aðila, sem við skiptum við í sambandi við stóriðju, er margs að gæta og þá sérstaklega þess, að ef hringar þessir ráða allri keðju framleiðslunnar, þeim hlekkjum, sem eru á undan og eftir kafla framleiðslunnar sem fram fer á Íslandi, þá er rétt að fara mjög varlega. Við höfum þegar brennt okkur nokkuð á því í sambandi við álverið, að þar skiptum við við fyrirtæki sem á alla keðjuna frá námum og raforkuverum í öðrum löndum og til vöruframleiðslu úr sjálfu álinu og mun hafa jaðrað við að misnota þá aðstöðu, ef það er ekki beinlínis sannað að það hafi misnotað þá aðstöðu.

Um sölu á framleiðslu frá járnblendiverksmiðjunni væntanlegu hér virðist vera nokkuð vel frá gengið að því leyti, að erfitt muni vera samkv. ákvæðunum fyrir Spigelverket að ætla íslensku verksmiðjunni nokkurn annan hlut en öðrum verksmiðjum sem félagið hefur með að gera.

En þá er að athuga hlekkinn á undan framleiðslunni hér, en um hann hef ég ekkert séð í þeim heimildum sem fyrir liggja. Það skiptir e. t. v. mestu máli um afkomu þessarar verksmiðju hvort viðsemjandi okkar getur gert einhverjar kúnstir varðandi verð á þeim hráefnum sem til verksmiðjunnar verða keypt. Einhvers staðar las ég að reiknað væri með í hafnaráætlunum að um 300 þús. smálestir af mismunandi tegundum hráefnis kæmu þar á land. Mér þætti vænt um ef hæstv. iðnrh. gæti gefið nokkrar upplýsingar um þetta, hvort ætlunin er með munnlegu eða skriflegu samkomulagi að Spigelverket selji hráefnin til járnblendiverksmiðjunnar eða hvort það er óbundið og við gætum þá beitt meirihlutaeign okkar til að tryggja að hráefnið verði ávallt keypt þar sem það fæst ódýrast.

Í sambandi við mál þetta allt hafa orðið í landinu mjög almennar umr. um orku, orkunýtingu og iðnað. Er því erfitt að komast hjá því að fara nokkuð inn á almenn svið í umr. um það frv. sem þér liggur fyrir. Afstaða manna til þess, sem kallað er stóriðja og er í raun og veru óljóst og varhugavert hugtak, hefur reynst vera mjög mismunandi. Sumir líta eingöngu á hugsanlega mengun eða mengun eins og hún er í eldri verksmiðjum erlendis og taka út frá því atriði einu harða afstöðu á móti slíkum iðnaði og vilja ekkert hafa með hann að gera. Aðrir líta á það atriði eitt, að við höfum haft og þurfum vafalaust að hafa í einhverjum mæli í framtíðinni samstarf við alþjóðlega auðhringa, og menn taka afstöðu á móti slíkum iðnaði af þeirri ástæðu einni. Fleiri slíkar ástæður eru til. Áróður um þetta er nú orðinn svo mikill að jaðrar við að í munni sumra sé orðið álver eins konar skammaryrði. Ég vil vara við slíkri skoðanamyndun í sambandi við þetta m.al. Ég tel að almenn andstaða gegn orkufrekum iðnaði hér á Íslandi sé hrein íhaldssemi í atvinnumálum og ekki sé annað sjáanlegt, yrði slíkri íhaldsstefnu fylgt, en hún mundi verða til þess að binda lífskjör í landinu eða lækka þau þegar þjóðinni fer fjölgandi. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að líta á þetta mál á allt annan hátt.

Við verðum að byrja á því að líta á þær auðlindir sem við höfum til þess að lifa af í landinu. Þá verða auðvitað fyrst fyrir sjórinn og landið sjálft, landbúnaðurinn, og þarf ekki um það að orðlengja hvernig ástatt er á þeim tveim sviðum. Sammála getum við verið um að hvorugt þeirra muni geta tekið við miklum mannfjölda á komandi árum, því að aukning með fjölbreytni og vonandi vaxandi útgerð og fiskiðnaði verður að öllum líkindum unnin upp með aukinni tækni, þannig að mannfjölgun verður þar ekki veruleg. Búast má við hinn sama í landbúnaði.

Þá er fyrst og fremst eftir ein veruleg auðlind, en það er sú orkuvinnsla sem hugsanleg er frá vatnsföllum og á jarðvarma. Mér er tjáð að ef tekin væri öll sú vatnsorka, sem við getum virkjað og enn er óvirkjuð í landinu, og við drægjum 20% frá vegna náttúruverndar og af því að sumir virkjunarstaðir eru óhóflega dýrir í virkjun, þá mundi þetta afl fullvirkjað, miðað við það verð sem talað er um í sambandi við járnblendiverksmiðjuna sem mönnum þykir ekki mjög hátt, veita þjóðinni um 35 milljarða á ári í tekjur. Þetta er miðað við árið í ár og þetta er miðað við stórnotkunarverð sem flestum þykir vera mjög lágt, hvort sem það telst vera viðunandi eða ekki — 35 milljarðar á ári. Eins og efnahagshorfur þjóðarinnar eru, með gífurlegri skuldasöfnun, fæ ég ekki séð hvernig nokkur maður getur haldið því fram að íslenska þjóðin eigi ekki að stefna að því að nýta þessa orkulind eins og hún framast getur. Að sjálfsögðu kemur enginn ofsahraði til greina í þeim efnum. Það er margt sem veldur því. Bæði má ekki trufla atvinnulíf með slíkum framkvæmdum né heldur eru líkur á, að fjármunir til þeirra séu fáanlegir að láni nema að takmörkuðu leyti.

Ef við föllumst á þá meginskoðun, að hér sé um að ræða auðlind sem þjóðin verði að virkja, þá er næst að varpa fram þeirri spurningu, hvernig við eigum að fara að. Undanfarinn áratug hafa skyndilega komið fram úr fórum ríkisstj. áætlanir um stórvirkjanir og þeim hafa fylgt stórfyrirtæki, a. m. k. tvö, og síðan hefur verið um þau deilt, bæði úti í þjóðlífinu og hér á Alþ., og það mál leitt til lykta. Mér finnst að miðað við það vandamál sem er framundan, hvernig eigi að nota þessa orku til frambúðar til að bæta lífskjör þjóðarinnar og tryggja þau, ætti fyrst að gera tæknilega úttekt á því hvaða mögulegar iðngreinar koma til tals.

Það er auðvitað hægt að finna orkufrekar iðngreinar af ýmsu tagi, og það eru ekki allt saman álver eða málmbræðslur Kunnugur maður hefur t. d. sagt í mín eyru að til sé vaxandi iðnaður úti í löndum, sem noti gífurlega mikla orku, sem framleiði gervidemanta, og þeir eru ekki til skrauts, þeir eru notaðir í stórum stíl í iðnaði. Það hljóta að vera fjölmargir slíkir möguleikar. Ég tel að ríkisstj. beri að láta kanna þetta og leggja hina mismunandi möguleika fyrir Alþ. og þjóðina, þannig að þeir, sem eiga að bera ábyrgð á endanlegum ákvörðunum, geti séð hverra kosta er völ. Þetta hefur, að því er ég best veit, ekki gerst. Það kann að vera að þær nefndir, sem hafa athugað þessi mál á bak við tjöldin. hafi kannað einhverja mismunandi kosti og valið á milli þeirra. Ef svo er, þá skil ég ekki hvers vegna ekki er frá því sagt. Ég tel grundvallaratriði að slík athugun fari fram og að um hana verði engin launung, enda yrði þetta starf tæknilega fróðra manna. Gæti þjóðin þá gert upp við sig hvaða leiðir til þess að nota þá orku, sem við getum beislað í áföngum, eru okkur mest að skapi eða eru hentugastar.

Þetta atriði er auðvitað náskylt þeim umr. sem þegar fara fram í landinu um hvar eigi að ætla slíkum mannvirkjum stað. Þjóðin veit ekki til þess að það sé um annað en álbræðslu að ræða. Menn eru að deila um álbræðslu í Eyjafirði, álbræðslu fyrir austan og álbræðslu á Suðurlandsundirlendi. En það eru e. t. v. til 20 eða 30 aðrar iðngreinar sem eru mjög orkufrekar og gætu allt eins komið til greina. Þó að aðstæður séu þannig t. d. í Eyjafirði að það virðist mjög margt mæla á móti því að setja á stofn málmiðjuver, þá gæti verið að einhverjar aðrar orkufrekar greinar ættu þar ágætlega við og gætu orðið okkur mun hjálplegri við að jafna byggð landsins heldur en málmbræðsla, hvort sem það er ferrosilíkon eða ál.

Hér hefur embættiskerfi okkar ekki gert það, sem er grundvallarhlutverk þess, að beita sérkunnáttu sinni til að setja á blað þá valkosti sem hinir kjörnu ráðamenn þjóðarinnar hafa hverju sinni. En það er ekki aðeins á þessu sviði, heldur er annað athyglisvert dæmi sem er náskylt því frv. sem hér liggur fyrir. Það hefur verið talað um næsta orkuver. Undanfarin ár hefur hæstv. orkumálaráðh. ferðast um landið og að ég hygg lofað orkuverum fyrir austan og norðan og talað af bjartsýni og stórhug hvar sem hann hefur farið. En þegar að því kemur að taka ákvörðun um næstu virkjun og það getur ekki beðið lengur, þá er ekki nema einn kostur til og það er Hrauneyjafoss. Hvað hefur gerst? Jú, þetta stóra embættiskerfi, sem við höfum verið að byggja upp undanfarinn áratug eða rúmlega það, Landsvirkjun, lýtur sínum lögmálum. Þetta er orðið stórt fyrirtæki sem veitir gífurlegum fjármunum. Það kemur sér upp tæknideildum. Það byrjar með margra ára fyrirvara að undirbúa framhald virkjana sinna á starfssvæði sínu. Þetta kerfi er tilbúið með hönnun á næstu virkjun þegar þarf að taka ákvörðun um næstu virkjun. En það er engin hönnun tilbúin, aðeins bráðabirgðaathugun, t. d. á Blöndu, ef nú þjóðin vildi fara út af eldfjallasvæðinu með næstu stórvirkjun eða huga að ýmsum öðrum kostum. Þetta er glöggt dæmi um hvernig kerfið sjálft hefur tekið völdin af mönnum og hinir kjörnu ráðamenn þjóðarinnar sitja og eiga ekki annars kost en að segja já og amen við því sem þetta embættiskerfi segir.

Ég vil benda á þetta af því að það er miltið talað um samskipti t. d. Alþ. og ríkisstj. við embættiskerfið. Þarna er mikilvægt dæmi um það að landsvirkjunarkerfið tekur sjálft þessa ákvörðun — og Alþ. og þjóðin verða að láta sér það vel líka — eða vanrækir málin svo og svo lengi. Ég segi þetta ekki sem ávirðingar við neina einstaklinga persónulega, þeir eru margir sem vinna mjög vel, en þetta er kerfið og því nota ég það orð Þegar minnst er á næsta áfanga er búið að taka ákvörðun um virkjunina.

Sannleikurinn er sá, að það er ekki, eftir því sem kunnugir menn hafa sagt mér, hægt að tala um stórar virkjanir án þess að hafa vitað, um leið og ákvörðun er tekin um þær, hvernig á að nota orkuna. Við þessar stóru virkjanir er hún svo mikil, að það má skipta henni í tvo til þrjá hluta: orku sem er nóg fyrir almenna íslenska notkun þegar virkjunin er tekin í gang, orku sem getur mætt aukinni eftirspurn innanlands á næstu árum, en þar að auki er eftir svo mikil orka að það verður að vera einhver stór kaupandi að henni. Það hefur ekki verið sagt frá því að hugsað væri fyrir neinum slíkum stórum kaupanda varðandi Hrauneyjafossvirkjun. Þó verður þetta að fylgjast að, og það er ekki raunhæft að ræða um stórvirkjanir eða stórkostlega raforkunotendur í landinu án þess að þetta tvennt fari saman. Þegar rætt er um hver notandinn eigi að vera koma jafnframt spurningar um hvar eigi að staðsetja fyrirtækin, hvernig eigi að fella þau inn í íslenskt atvinnulíf og hvernig eigi að hafa þau not af þeim sem tilgangurinn auðvitað er: bætt lífskjör, atvinnu fyrir stækkandi þjóð og annað slíkt.

Þegar við komumst af því stigi, eftir að hafa byrjað á því að skoða orkulindirnar, að við viljum finna stóra notendur, þar sem mönnum kemur fyrst til hugar orkufrekur iðnaður, kemur að minni hyggju að því að athuga hin ýmsu atriði sem oft hafa sterk tilfinningaáhrif á menn. Í fyrsta lagi þarf að athuga valkosti um iðngreinar sem ég hef verið að nefna. Hingað til hefur Alþ. eða alþýða manna á Íslandi aldrei séð slíka valkosti. Allt í einu sprettur upp úr einhverri n., sem er á bak við einhverja ríkisstj., að það á að vera verksmiðja sem á að gera þetta og á að vera á þessum stað.

Staðarvalið er að sjálfsögðu gífurlega mikilvægt, svo mikilvægt að það á að geta haft veruleg áhrif á hvers konar stóriðnaðargreinar eru valdar. Einstakar greinar, sem nota mismunandi mikið mannafl og eru mismunandi hvað vinnuna snertir, hafa að sjálfsögðu stórkostleg áhrif á staðarvalið. Áframhald á stórfelldum málmbræðslufyrirtækjum, eins og allar horfur eru á að verði, — þau eru komin tvö og mætti vel fara svo að þessi stefna leiddi til hins þriðja með Hrauneyjafossvirkjun, — þýðir sennilega að þessi stórfyrirtæki verði öll að vera í grennd við Reykjavík. Athuganir hvað mannfjölda og fjölbreytni annarra atvinnugreina snertir benda til þess að Akureyri gæti vel komið til greina þess vegna. En þar fyrir norðan eru aðrar aðstæður sem mæla mjög á móti því, þannig að allar líkur benda til þess að þessi stefna leiði til þess að þessum stóru iðnverum verði hrúgað hér á suðvesturhornið. Þá er að íhuga hvort það samræmist yfirlýstri stefnu um byggðamál og jafnvægi í byggð landsins og öllu því.

Í þriðja lagi koma í þessu sambandi til íhugunar skiptum okkar við erlenda aðila. Ég hygg að það sé ekki raunhæft að tala um slík stórfyrirtæki sem Hvalfjarðarverksmiðjuna eða álverksmiðjuna án þess að við höfum verulegt samstarf við erlent fyrirtæki. En um það hefur mikið verið skrifað og rætt nú á síðustu árum, að hin fjölþjóðlegu fyrirtæki, sem svo eru kölluð, hafi margar hættur í för með sér, sérstaklega fyrir litlar þjóðir, og beri að gjalda varhug við þeim. Stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar hafa fjallað um þetta í fullri alvöru og reyna að draga fram bæði kosti og galla þessara fyrirtækja.

Við verðum að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því hvað við erum að gera í hvert skipti sem slíkt kemur til greina.

Fyrsta mannvirki hér var álverið og samið við svissneska álhringinn, einn af minni álhringum veraldarinnar. Ýmislegt benti til, úr því að einhvern þeirra átti að velja, að hann væri ekki ólíklegur. Ekki veit ég hvernig menn dæma reynsluna af því samstarfi. En mikið hefur verið rætt undanfarið um stórkostlega áætlun sem Alusuisse hafi gert um fjöldann allan af álverum hér á landi. Mér kemur ekkert á óvart þó að slíkt félag láti gera slíka áætlun. Það er álíka eðlilegt að þeir geri það, eins og það er eðlilegt að Landsvirkjun geri áætlun um næstu stórvirkjun, hafi hana tilbúna. En hitt þykir mér furðulegra, að ráðamenn þessa fyrirtækis, sem ættu að þekkja til íslendinga eftir skipti við þá, skyldu taka þá fáránlegu ákvörðun að sýna íslenskum ráðamönnum þessa áætlun. Ég fagna því að viðbrögð hafa verið slík hjá tveimur ráðh. að þeir hafi ekki sinnt þessu á nokkurn hátt, og vona ég að svo verði áfram. Ef hér hefði verið einvörðungu farið í áframhaldandi aukningu á álframleiðslu og notað meira og meira af óbeislaðri orku okkar í þá iðngrein eina, þá er mikil hætta á því að Ísland hefði smám saman orðið að „állýðveldi“ sem að því leyti til væri sambærilegt við bananalýðveldin í Mið-Ameríku sem eitt eða tvö stórfyrirtæki í Bandaríkjunum hafa til skamms tíma ráðið yfir og ráða kannske einhverjum þeirra enn þá. En það er einmitt allt slíkt sem ég tel að við verðum framar öllu öðru að forðast. Það getur verið óhagkvæmt fyrir okkur að setja of mörg egg í sömu körfu, eins og það er stundum orðað, að hleypa nokkrum einum aðila hingað með of mikil áhrif. Að svo miklu leyti sem við þurfum að hleypa erlendum félögum inn í landið eigum við að reyna að dreifa því og tryggja að ekkert þessara félaga fái hér óeðlilega aðstöðu gagnvart okkur.

Í öðru lagi verðum við að athuga mjög vel alla samningagerð. Mörgum er minnistætt þegar samið var við svissneska álhringinn. Við áttum nokkra lögfræðinga sem voru sérlærðir í þessum efnum, og þeir voru að sjálfsögðu hafðir með í ráðum. Þar að auki leitaði þáv. ríkisstj. til lögfræðingafyrirtækis í New York sem hafði milliríkjasamninga af þessu tagi sem algera sérgrein. Í þriðja lagi hafði Alþjóðabankinn lánað okkur fé í orkuverið og voru því ríkir hagsmunir hans að við semdum ekki af okkur, svo að orkuverið gæti staðið við afborganir sínar og vexti. En þrátt fyrir það að við hefðum þarna, að því er við héldum þrefalda tryggingu í samningunum, hafa komið fram annmarkar á þessum samningum sem hafa valdið okkur vonbrigðum. Ég vil aðeins nefna tvennt án þess að fara frekar út í það. Það er annars vegar framleiðslugjaldið, sem hefur að því er virðist ekki reynst nálægt því eins hagstætt og mönnum var talin trú um hér á Alþ. a. m. k., og hins vegar að svisslendingar hafa í rúman áratug getað smeygt sér undan því að setja hreinsunartæki í verksmiðjuna, enda þótt þeim tækist að sannfæra okkur í upphafi um að mengunarhætta frá henni væri engin. Það var aðallega gert með þeim rökum, að veðurfarsrannsóknir í Straumsvík hefðu leitt í ljós að þar væri svo að segja aldrei logn og það, sem frá verksmiðjunni kæmi af illum öndum, mundi því berast út á sjó fljótlega. Þessu trúðu menn almennt hér og létu þeim þetta eftir. (Gripið fram í.) Er það rangt með farið? (Gripið fram í.) Jæja. En hitt var þó skoðun okkar, að það hefði verið búið þannig um það atriði, að þegar við óskuðum eftir mundu þeir þurfa að setja upp hreinsitæki, og það taldi ég mikilvægt. Engu að síður hefur þeim tekist að draga þetta mjög á langinn.

Við þurfum að sjálfsögðu í sambandi við hvaða fyrirtæki sem er að íhuga mjög vel mengunarmál og læra af þeirri reynslu sem aðrir hafa nú fengið jafnvel enn þá frekar en við. En ég hef ekki trú á að þau séu ekki yfirstíganleg í flestum starfsgreinum nú á dögum, enda þótt fullkomnar mengunarvarnir séu oft mjög dýrar. Þær geta leitt til þess að mörg stórfyrirtæki muni á næstu árum leita til vanþróuðu landanna, þar sem þau vita að mótstaða í þeim efnum er minni en í iðnþróuðu ríkjunum. Svo vill líka til, að þar er víða um stórvirkjanir að ræða þar sem raforkuverð er lágt.

Að lokum verður að huga að félagslegum áhrifum í sambandi við orkufrekan iðnað, og hygg ég að athygli manna á þeim hafi í vaxandi mæli beinst t. d. að reynslu norðmanna. Ýmsir héldu að þegar stórt atvinnufyrirtæki risi á sæmilega góðum stað, þá mundi eðlilega risa byggð í kringum það eða mjög nálægt því á skömmum tíma og gæti það allt saman blessast ágætlega. Reynslan í Noregi hefur því miður orðið önnur, t. d. í Norður-Noregi, þar sem til eru slíkir bæir. Norðmenn eru nú komnir á þá skoðun að það sé mjög óviturlegt að reisa byggðir á þennan hátt, þær verði svo einhæfar, svo háðar þessu eina fyrirtæki, að félagslega sé þróun þeirra engan veginn æskileg og afkoma þeirra engan veginn eins trygg og hún þarf að vera með eðlilegri fjölbreytni. Menn sjá í hendi sér að þetta atriði eitt getur haft mikil áhrif á staðsetningu slíkra fyrirtækja hér á Íslandi.

Á sínum tíma var um það talað, að sjálfsagt væri að reyna að fá erlent fjármagn inn í landið og erlend fyrirtæki, eins mikið og hægt væri. Talið var á árunum eftir heimsstyrjöldina að sjálfsagt væri fyrir flest lönd Vestur-Evrópu að fara þessa leið. Ýmsum er minnistætt að norska ríkisstj., stjórn jafnaðarmanna, fékk Trygve Lie til þess, eftir að hann hafði verið aðalritari Sameinuðu þjóðanna, að taka það verkefni að sér að ferðast land úr landi og reyna að smala fyrirtækjum til Noregs. Ég hygg að skoðanir manna varðandi þetta hafi mjög blandast síðan. Viðhorf okkar í Alþfl. hefur alla tíð verið og er enn að um þessa hluti eigi ekki að setja neinar almennar reglur eða almenn lög, heldur verði hvert fyrirtæki, sem til greina kemur að fái ítök í atvinnurekstri á Íslandi, að takast fyrir á Alþ. sérstaklega. Sú hefur raunar verið venjan og frá henni tel ég að við megum alls ekki víkja, Alþ. verði að fjalla um hvert einstakt atvik, jafnvel þó að sum þeirra séu ekki mjög stór.

Um raforkuverð til málmblendiverksmiðjunnar hefur þegar verið rætt mikið og hef ég litlu við það að bæta að öðru leyti en því, að ég treysti því að þeir sérfræðingar, sem um það hafa fjallað, geri viðunandi grein fyrir að það nái a. m. k. því algera lágmarki að um kostnaðarverð eða eitthvað meira sé að ræða. Virðingarverður er sá áhugi sem kemur fram í flutningi till. sem útbýtt var í dag, um að Alþ. álykti að eftirleiðis sé óheimilt að gera samninga um raforkusölu nema framleiðsluverð sé tryggt. Ég er efnislega sammála þessu. En ég hygg að það sé ekki eftir starfsháttum Alþ. að gera ályktun sem bannar þinginu að gera vitleysur í framtíðinni! Með þál. er ekki hægt að banna Alþ. í framtíðinni að setja lög eða staðfesta samninga nokkurn veginn eftir því sem það vill. En ég skal gjarnan taka viljann fyrir verkið hvað þetta snertir.

Það væri æskilegt, þó að oft sé búið að leggja fram skýrslur um raforkuverðið, að fá þær nýjar, því að margt breytist og marga hluti þarf að endurtaka og gefa mönnum ítrekuð tækifæri til þess að kynna sér. Það er flókið mál hvernig raforkuverð og kostnaðarverð á raforku er reiknað út í stóru kerfi. Ef einhver ætti kost á því að fá keypt Sogsrafmagn núna gæti það orðið ærið ódýrt, enda nálega búið að greiða niður þau orkuverð. En það þarf að blanda saman bæði gömlum orkuverum og nýjum eða hafa eingöngu hliðsjón af nýjustu orkuverunum þegar er ákveðið raforkuverðið á hverjum tíma. Auk þess er ekki nóg að mæna á raforkuverðið eitt, eins og það er við þær aðstæður sem ríkja hverju sinni, heldur verður að bera saman aðra möguleika sem við höfum átt. Ef ekkert álver væri hér, þá væri engin Búrfellsvirkjun, og ef engin Búrfellsvirkjun væri, þá hefðum við ráðist í miklu minni virkjun þar sem rafmagnið hefði orðið miklu dýrara. Allar líkur benda til þess, að ef svo hefði farið væri rafmagnsverðið enn þá hærra í dag og er það þó nógu hátt.

Þessum málum verður að gefa aukinn gaum af því að rafmagnsverðið veldur mjög ört vaxandi áhyggjum almennra neytenda. Þeir eiga margir erfitt með að skilja hvers vegna útlendir sérfræðingar eru að fullyrða að raforkuverð hér sé lágt miðað við það sem er í öðrum löndum. Þar að auki heyra menn um orkuverðið til stórnotendanna svokölluðu. Mér hefur verið sagt að t. d. hér á suðvesturhorni landsins sé heildsöluverðið á rafmagni aðeins 25% eða 1/4 af því sem fólkið verður að borga. Það væri fróðlegt að vita hvort þessu veldur hið dýra dreifikerfi. Það þarf enginn að efast um að dreifikerfi er dýrt í strjálbýlu landi. Þar að auki, þar sem rafmagnshitun hefur farið vaxandi, þarf að stórstyrkja dreifikerfið til þess að hægt sé að leyfa hana. Í þriðja lagi þurfa menn að gera sér ljóst hve mikið við borgum í verðjöfnunarskatt af rafmagninu til þess að jafna hækkun olíuverðsins yfir þjóðina alla. Útskýringar á þessu eru í fyrsta lagi nauðsynlegar, miklu meiri en fram hafa komið, þannig að neytendur geri sér grein fyrir hvernig þetta verð er til komið. Svo verður að reyna að haga raforkumálunum í heild og stefnunni þannig að raforkuverðið til neytenda geti orðið lægra en um er að ræða. Það er ekki hægt fyrir óbreytta alþýðumenn, sem ekki selja sig inn í allar þær upplýsingar sem eru í þykkum doðröntum, eða hvar sem þær eru, eintómar tölur frá byrjun til enda, að skilja hvernig á því stendur að það er alltaf verið að virkja stórt hér til þess að fá ódýrt rafmagn út úr stærðinni, en á sama tíma er rafmagnið til notenda alltaf að hækka.

Ýmislegt er flókið í sambandi við þetta. Mér skilst að verði stórkostleg hækkun á raforku til svokallaðra stórnotenda, þá sé það ekki bara álverið og þessi væntanleg verksmiðja sem um verði að ræða, heldur áburðarverksmiðjan líka og sementsverksmiðjan, þannig að þær hækkanir mundu þá koma fram í verðlagi á öðrum stöðum. En ég vil leggja á það ríka áherslu, að þessi mál í heild eru komin í hreint óefni og verður að taka þau til gagngerðrar endurskoðunar. Það verður að endurskoða heildarstefnuna eða móta heildarstefnu — það er varla hægt að segja að hún hafi verið til undanfarin ár — og sameina allt landið í eitt rafmagnskerfi, a. m. k. eitt kerfi hvað snertir framleiðslu og megindreifiæðar, kannske fleiri rafmagnsseljendur. Það þarf að tryggja almennum íslenskum iðnaði, þ. á m. fiskiðnaði og iðnaði landbúnaðarafurða, betri raforkukjör, að ég ekki tali um hin almennu heimili.

Ýmsar fleiri hliðar eru á þessu verksmiðjumáli í Hvalfirði sem óhjákvæmilegt er að drepa á. Ein er sú, að þar þarf allmikil hafnarmannvirki. Það er í sjálfu sér dálítið óþægileg staðreynd fyrir þjóð, sem byggir alla afkomu sína á sjávarútvegi og þar af leiðandi notkun góðra hafna, þar sem fólk um allt landið er að berjast fyrir oft frumstæðustu hafnarbótum og stundum þaðan af einhverju betra, að í hvert skipti sem reisa þarf erlenda stórverksmiðju er eins og sjálfsagt, varla þurfi að tala um að þar komi hafnarframkvæmdir fyrir stórfé. Nú hefur farið svo t. d. í sambandi við álverið að þar var mjög vel á þessu haldið. Þar var byggð góð og dýr höfn, en það var tryggt að álverið eitt stæði undir þeirri höfn. Hún er samt eign Hafnarfjarðarhafnar að hluta. Það finnst mér vel verjandi. Þar er a. m. k. ekki verið að leggja byrðar á ríkissjóð eða taka fé sem hefði getað runnið til annarra. En í þetta skipti í Hvalfirði er ekki hagað svo til. Að því er ég fæ best séð hefur hafnarmannvirkið ekki verið tengt við verksmiðjuna þannig að hún tryggði afkomu þess, heldur þarf að veita fé á fjárl. til að hefja þessa hafnargerð. Fyrst í stað var leikmönnum, sem fréttu um þróun þessara mála á skotspónum, talin trú um að þarna þyrfti að vera höfn fyrir risaskip, stóriðja notaði ekkert annað en risaskip, og þá e. t. v. átt við 40–50 þús. tonna skip. Jafnvel var gefið í skyn að staðarvalið væri byggt á því, það takmarkaðist við slíka höfn. En síðar heyrðist um það orðrómur sem varð allsterkur, að það væri alís ekki ætlun fyrst ameríska fyrirtækisins né heldur norðmanna að nota svo stór skip, þeir ætluðu sér að nota skip sem væru 2–4 þús. tonn eða svipað og allur þorri Eimskipafélagsskipanna okkar. Þá vaknaði í hugum manna, a. m. k. í því héraði þar sem verksmiðjan á að risa, spurningin: Þurfum við þá að reisa sérstaka höfn sem eftir síðustu áætlunum, sem ég hef séð, á að kosta um 600 millj., en hærri tölur voru nefndar hér í gær? Er ekki hægt að nota höfnina á Akranesi, a. m. k. með breytingum sem hvort eð er þarf að gera á henni á allra næstu árum? Ekki veit ég hversu nákvæmlega þetta mál var kannað. Auðséð er að flutningur á efni frá höfninni að verksmiðjustað mundi verða dýr. Þó veit maður ekki hvort það er óyfirstíganlegt. Vegalengdin er stutt, mjög stutt, svipuð og á milli vestustu og austustu hverfa í Reykjavík, að ég hygg. Mér er kunnugt um að það vaknaði mikill áhugi á þessu máli hjá bæjarforustu á Akranesi. En það virðist ekkert hafa orðið úr því, því að enn eru uppi áform um að gera þarna höfn, sem hefur að vísu tekið miklum breytingum í meðförum. Samkvæmt síðustu upplýsingum, sem ég hef fengið, var aftur farið að tala um að það þyrfti að vera hægt að losa 20 þús. tonna skip í höfninni, en ekki veit ég hvort það er brýn nauðsyn. Það stendur að meginhluti skipanna verði miklu minni. Ég hygg að allir þeir sjómenn og útgerðarmenn og aðrir tengdir þeim, hafnarnefndarmenn og bæjarstjórnarmenn, kringum allt land, sem standa í baráttu um hverjar 10 milljónirnar til þess að geta bætt hafnarskilyrði hjá sér, mundu verða því fegnir ef hægt væri að dreifa á fiskihafnirnar 600 millj. kr. eða hvað það nú verður, endanlegt verð þessarar Hvalfjarðarhafnar, í stað þess að þurfa að setja það fé í höfn sem fyrst um sinn mun þjóna aðeins þessari verksmiðju einni, þó að því sé ekki að neita að möguleikar séu á því að hagnýta höfnina frekar síðar. Það var talað mikið um það á sínum tíma, að Straumsvíkurhöfnina mætti nota til margs annars, en af því hefur, að ég best veit, lítið sem ekkert orðið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gerst nokkuð langorður um þetta mál og er mál að linni. Ég hef dregið fram ýmis atriði, sem hafa orðið mér og félögum mínum í Alþfl. umhugsunarefni í sambandi við þróun þessa máls, og ýmsa gagnrýni varðandi verksmiðjumálíð og sérstaklega bakgrunninn, þ. e. rafmagnsmálin í heild. Engu að síður studdi Alþfl. frv. um verksmiðjuna þegar það var flutt á sínum tíma og mun gera það aftur. Við teljum að breytingin við það að losna við Union Carbide og ná sambandi við norska fyrirtækið ætti að vera til bóta. Við trúum því að þrátt fyrir allt muni Sigölduvirkjun og þessi verksmiðja reynast þjóðinni hagkvæmar í framtíðinni og góð viðbót við atvinnulíf okkar. Það er mikið deilt um álverið enn í dag, en í öllum þeim deilum og skrifum hef ég ekki heyrt einn einasta mann, hversu ofstækisfullur sem hann annars er í málflutningi, láta í ljós ósk um að álverið væri ekki þar sem það er. Enda býst ég ekki við að það þýddi mikið fyrir þá menn að fara í framboð í umhverfinu þar sem fólkið hefur notið atvinnunnar og alls þess óbeina hagnaðar sem atvinnulíf hefur af slíkum mannvirkjum.

Þá er þess að gæta, að ef nú væri hætt við byggingu þessarar verksmiðju, þá mundi ekkert breytast varðandi Sigölduvirkjun. Hún er þegar staðreynd. Við erum búnir að stofna til skulda við byggingu hennar og við yrðum að standa við að greiða afborganir og vexti af þeim skuldum. Ef hætt er við þessa verksmiðju í dag án þess að komi með sama hraða annar stór orkunotandi, þá er verið að leggja á íslenska rafmagnsnotendur margra milljarða hækkun á rafmagnsverði frá því sem er í dag. Hjá þessu er ómögulegt að komast. Ef menn vildu hugsa rökrétt ættu jafnvel þeir, sem voru upphaflega á móti verksmiðjunni, að sætta sig við hana í dag, þó ekki væri af annarri ástæðu en þessari.

Mér segja sérfróðir menn að ekki sé raunhæft að tala um að það sé hægt að hefja rafmagnshitun um allt land þegar í stað og nota þetta orkuver til þess. Í fyrsta lagi þurfi gífurlega fjárfestingu til að styrkja dreifikerfið og í öðru lagi muni slík notkun, jafnvel þó að dreifikerfi væri fyrir hendi, ekki taka svo mikið að hún þyrfti á öllu því rafmagni að halda sem þarna er. Það er því hægt að fylgja stóraukinni rafmagnshitun húsa án þess að grundvallaratriði þessa máls breytist.

Ég vil svo að lokum vænta þess að gefnar verði frekari upplýsingar, sérstaklega varðandi raforkuverð, varðandi hafnarmálin og annað það sem fram hefur komið í máli mínu, en áskil mér rétt til þess, eftir að n. hefur farið yfir einstök atriði, að taka afstöðu til þeirra ef tilefni gefst til.