10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Svo bar til á allra síðustu dögum fyrir jól, um það leyti sem Alþ. var að fara í jólaleyfi, að hér kvaddi sér hljóðs utan dagskrár hv. 5. þm. Vesturl. og gerði að umræðuefni það sem hann taldi óeðlileg vinnubrögð við meðferð þess máls sem hér er nú til umr. Þessi óeðlilegu vinnubrögð, sem hann taldi vera og lýsti, voru á þann veg að hæstv. iðnrh. mun hafa dreift því frv., sem hér er nú til umr., til hluta hv. þm. en aðrir teknir út úr óverðugir og fengu ekki að sjá málið. Þessi hv. þm. taldi að einungis þeir alþb.-menn hefðu verið settir á óæðri bekk í þessu sambandi. En svo var ekki, því að a. m. k. fékk ég ekki þetta merka plagg til aflestrar fyrr en ég sá því dreift og fékk það hér á þingborðið. Þessi hv. þm. gagnrýndi að sjálfsögðu og réttilega vinnubrögð af þessu tagi. Hæstv. iðnrh. sagði hér á Alþ. í ræðu af þessu tilefni að hann hefði talið ástæðulaust að senda þeim þm. þetta frv. sem vitað var að voru á móti málinu. Þeim kom það sem sagt ekkert við hvað hér væri að gerast. Óneitanlega hlýtur að koma upp í hugann, þegar hæstv. ráðh. gefur yfirlýsingu af þessu tagi, hvað hafi gerst með þá stjórnarliða sem greiddu atkvæði gegn lögunum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði vorið 1975 þ. e. a. s. hv. þm. Pál Pétursson, þm. úr Framsfl., stjórnarliða, og hv. þm. Jón G. Sólnes, þm. úr Sjálfstfl. sem barðist hatrammri baráttu gegn þessu frv. Voru þeir þess verðugir, þessir hv. þm., að fá þessa sendingu frá hæstv. iðnrh. á þessum tíma? Það væri fróðlegt að fá upplýst hvort svo hafi verið eða hvort þeir hafi lent á hinum óæðri bekk meðal okkar hinna sem ekki fengum málið.

Ég tek undir þá gagnrýni sem fram kom hjá hv. 5. þm. Vesturl. um meðferð málsins af þessu tagi. Það er auðvitað óeðlilegt að þm. allir eigi ekki til þess rétt og hafi til þess aðgang að fá að sjá plögg af þessu tagi þegar þau eru tilbúin, eins og í þessu tilvíki var. Þetta ber því að gagnrýna og fordæma vinnubrögð af þessu tagi, enda er mér ekki um það kunnugt að neinn annar hæstv. ráðh. hafi meðhöndlað mál með þessum hætti.

Fyrir tveim árum var hér til umr. á Alþ. svo til sams konar frv. og það sem nú er hér til umr. Það fór ekkert leynt að það frv. sætti mjög mikilli og harðri andstöðu og gagnrýni hér á Alþ., ekki bara frá stjórnarandstæðingum, heldur og frá sumum hv. þm. stjórnarliðsins. Sumir þeirra tóku virkan þátt í andstöðunni gegn frv. og greiddu atkv. gegn því, aðrir voru sáróánægðir, tjáðu sig með óánægjuröddum, en voru með einhverjum hætti til þess knúðir í lokin að fylgja þessu máli, meira og minna óánægðir og særðir í hjarta sínu, þessir hv. stjórnarþm. Þannig var ljóst að hér var um að ræða mál sem mjög voru skiptar skoðanir um, og fór það ekki eftir pólitískum flokkum, ég hygg að einum undanskildum.

Í því frv. var, eins og hér hefur komið fram og þarf ekki að ítreka, gert ráð fyrir samvinnu við Union Carbide. Í umr., sem þá áttu sér stað, mátti heyra forsvarsmenn þess frv. blessa þann aðila, Union Carbide, í bak og fyrir og með öllum hætti réttlæta það að slík samvinna yrði tekin upp, a. m.. k. mætti treysta því að þeir aðilar vissu svo sannarlega hvað þeir væru að gera í þessum efnum. Öllum er kunnugt hvað hefur gerst síðan. Þessi hinn sterki aðili hefur kúplað sér út úr þessari samvinnu og hefur kosið að borga hundruð milljóna til þess að losa sig út úr fyrirtækinu,mér skilst um 800 milljónir sem sá aðili bauðst til að borga til þess að hann losnaði. Hann hafði ekki meiri trú á fyrirtækinu en það, að hann vildi leggja þetta af mörkum til þess að losa sig við það.

Maður skyldi ætla að eftir þessa reynslu hefðu þeir, sem mest og harðast börðust fyrir því að koma þessu samstarfi á og koma þessu fyrirtæki upp í hinu mikla trausti á þennan aðila. endurskoðað hug sinn og farið hægar í sakir með tilliti til þeirrar reynslu sem hafði fengist í samskiptunum við Union Carbide, — menn hefðu farið hægar og velt því betur fyrir sér og ígrundað betur hvort hér væri í raun og veru verið að leggja grunn að jafngóðu, arðbæru og þjóðhagslega hagkvæmu fyrirtæki og þessir sömu aðilar létu í veðri vaka í öllum sínum lofræðum um fyrirtækið á sínum tíma. En á því frv., sem hér er nú til umr., er ekki að sjá, að nein breyting hafi orðið á hugarfari þeirra sem ferðinni ráða í þessu máli. Nú fáum við málið í annað sinn, að vísu með smávægilegum breytingum, en í grundvallaratriðum eins og í fyrra.

Ég hef lýst því hér áður á Alþ., að ég er enginn höfuðandstæðingur þess að taka upp samstarf við útlendinga um rekstur fyrirtækja ef mér sýnist það vera á góðum grunni og með eðlilegum hætti og þá auðvitað fyrst og fremst okkur í hag. Þá getur það vissulega komið til mála. En fyrir tveim árum, þegar þetta mál var hér til umr. og afgreiðslu, tókum við þm. SF afstöðu gegn því, fyrst og fremst á þeirri forsendu að kringumstæður allar í landinu mæltu síður en svo með því að í slíkt yrði ráðist á þeim tíma og enn síður að mínu viti mæla þær með því nú. Við vorum í andstöðu við þetta mál þá vegna þess að við töldum að það bæri fremur að snúa sér að því í þeirri gífurlegu orkukreppu sem þá hafði gengið yfir og margir landshlutar í okkar landi höfðu svo sannarlega orðið varir við varðandi orkuskortinn, þá bæri fremur að snúa sér að því að leysa úr þeim vanda og létta þær gífurlegu byrðar sem lagðar hafa verið á fólk víðs vegar úti um land vegna ört hækkandi markaðsverðs á þeim orkugjafa sem við höfum notast við, þ. e. a. s. olíunni. Þá var, eins og nú er, orkuskortur í heilum landsfjórðungum. Og mönnum hlýtur að vera í fersku minni það ástand sem verið hefur á Austurlandi t. d. að undanförnu. Á Vestfjörðum er orkuskortur og hann verður gífurlegur innan örstutts tíma. Og á Norðurlandi er sömu sögu að segja. Við töldum því og teljum enn að fremur beri að snúa sér að því verkefni að leysa þetta vandamál áður en farið er að gera sérstakar ráðstafanir til þess að reisa orkufrekt fyrirtæki með erlendum aðilum og selja þeim orkuna undir eða í besta falli á kostnaðarverði. En það er ljóst að það er nú eins og það var þá, að hæstv. ríkisstj. er á allt öðru máli.

Á sama tíma og þetta gerðist fyrir tveim árum, að lagt var til að fara út í stórkostlega fjárfrekar framkvæmdir sem ríkissjóður varð að leggja til milljarða, var framkvæmdur stórkostlegur niðurskurður á framkvæmdum í orkumálum í þessum hinum sömu landsfjórðungum sem ég hef verið að tala um og eru í orkusvelti. Það var ekki síst á þessari forsendu sem við byggðum andstöðu okkar gegn þessu máli og gerum enn.

Það er auðvitað lágmarkskrafa, ef mönnum á annað borð sýnist réttlætanlegt að fara út í byggingu og rekstur slíks fyrirtækis sem hér er, að það sé ekki gert á kostnað okkar sjálfra, að þessir aðilar njóti ekki sérstakra fríðinda umfram íslendinga sjálfa. Það hefur mikið verið rætt, ekki bara núna á síðustu vikum eða mánuðum, heldur á miklu lengri tíma, hversu mikið í raun og veru við íslendingar sjálfir þurfum að borga með þeirri raforku sem álverið í Straumsvík notar. Það er orðið upplýst og hefur mér vitanlega ekki verið vefengt af neinum, að á árunum frá 1974–1977 er þetta 1/4 milljarður sem við höfum þurft að borga með rafmagnsverðinu til þessa fyrirtækis. Ég sé að hv. 1. þm. Suðurl. brosir í kampinn og honum þykir greinilega ekki mikið þó að þessar byrðar séu lagðar á umbjóðendur hans í landinu. Þessu hefur verið haldið fram alllengi af ýmsum aðilum, að það væri svo og svo mikið greidd niður af okkur íslendingum sjálfum sú orka sem til álversins færi. Stuðningsmenn þessa samnings, sem var á sínum tíma gerður og í gildi er, hafa eytt þessu tali. (Grípið fram í.) Þeir hafa leiðrétt það, segir hv. þm. Jóhann Hafstein. Nú liggur fyrir niðurstaða manns sem ég held að allir geti orðið sammála að telja hlutlausan í þessu máli, og hún er birt í einu af stuðningsmálgögnum hæstv. ríkisstj., tekin þar upp og birt, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Óhlutdræg rannsókn sérfræðings á þessu hefur ekki legið fyrir fyrr en nú.“ — Þetta er leiðari úr Dagblaðinu í síðustu viku. — „Samkvæmt beiðni Dagblaðsins gerði Gísli Jónsson prófessor úttekt á málinu og komst að því, að rafmagnsverð til álversins er stórlega niðurgreitt og almenningur borgar brúsann. Margur kann sjálfsagt að spyrja,“ segja þeir áfram, „hvaða áhrif niðurgreiðslan á raforkuverði til stóriðju hefur á verð til hins almenna neytanda. Árið 1974 hefur niðurgreiðslan valdið um það bil 30% hærra útsöluverði, en árið 1976 um það bil 20% hærra verði,“ segir Gísli Jónsson.“ Og áfram segja þeir Dagblaðsmenn, stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. „Menn rekur í rogastans yfir þessari niðurstöðu. Almenningur hafði ekki hugsað til þess þegar hann greiddi hina háu rafmagnsreikninga, að allt að þriðjungur verðsins væri vegna niðurgreiðslna vegna álversins. Vinir Alusuisse munu enn halda því fram að rétt hafi verið að fá álverið hingað vegna þess að það gerði Búrfellsvirkjun mögulega og gjaldeyristekjur séu okkur svo mikilvægar. Þó má nú öllum vera ljóst að upphaflegi samningurinn við Alusuisse var vondur samningur, svisslendingum tókst að plata sveitamanninn,“ segir Dagblaðið. „Reynslan síðar, t. d. gífurlegur áhugi Alusuisse á frekari útfærslu hér, sýnir okkur glöggt, að við þurfum ekki að betla til að fá hingað erlenda stóriðju.“ En svo kemur í áframhaldi: „Hroðalegast í þessu máli,“ segir Dagblaðið, „er hvernig stjórnmálamenn hafa haft almenning að fíflum með þögn sinni og vífilengjum um niðurgreiðslurnar. Reglur lýðræðisskipulagsins hafa verið þverbrotnar. Auðvitað hefði hið eina heiðarlega verið að leggja spilin á borðið þegar í upphafi. Sérfræðingar ríkisvaldsins áttu að skýra frá um hversu mikla niðurgreiðslu væri að ræða, svo gátu menn út frá því rætt um rökin fyrir byggingu álversins.“

Svo mörg eru þau orð í einu af málgögnum og stuðningsblöðum núv. hæstv. ríkisstj. um það sem verið hefur að gerast varðandi orkusölumálin og orkuverðið til álversins í Straumsvík. Og ég held að það sé nokkuð ljóst, að það er meiningin að halda nákvæmlega sömu stefnu og sömu braut varðandi Grundartangaævintýrið í því plaggi sem hér er lagt til. Ég hef ekki neins staðar séð koma fram á prenti eða í fjölmiðlum eða frá einum eða neinum aðila athugasemd eða leiðréttingu við þetta. Og ég er sannfærður um það, að ef einhverjir hefðu talið að hér væri farið með fleipur eitt, þá væri slík athugasemd komin fram og hefði komið strax. Ég held því að það sé nokkuð ljóst hverjar staðreyndirnar eru varðandi álverið. Það er einnig ljóst hverjar staðreyndirnar verða ef úr því verður að reist verður járnblendiverksmiðja á Grundartanga og samningarnir byggðir á því sem hér liggur fyrir.

Ég vék að því aðeins áðan sem gerst hafði í á framhaldi af lögunum sem samþ. voru hér á Alþ. fyrir tveim árum, þegar Union Carbide fór út úr spilinu og teknir voru upp samningar við aðra aðila, norska. Mér finnst ástæða til að vekja á því athygli hvernig vinnubrögð voru viðhöfð varðandi þetta, — ekki að það sé neitt nýtt í sögunni hér á hv. Alþ. ríkisstj. hagi vinnubrögðum sínum með þessum hætti, — þ. e. a. s. með þeim hætti að ganga fullkomlega frá samningum, í þessu tilfelli um þetta mál, og láta síðan Alþ. standa frammi fyrir gerðum hlut, segja við stuðningsmenn ríkisstj. úr stjórnarflokkunum: Svona er þetta, svona verður þetta að vera og þið skuluð fylgja því. — Þetta eru auðvitað ólýðræðisleg og óþingræðisleg vinnubrögð. Því er nú verr að það eru allt of margir hv. stjórnarþm. veikir fyrir því að gera eins og forustan segir, hvað svo sem sannfæringunni líður eða réttlætinu. Með þessum hætti er mönnum stillt upp við vegg og þeir knúðir til þess að fylgja málinu, nema því aðeins að þeir hafi nægilegt mótstöðuafl til þess að standa á móti, en það hefur viljað brenna við allt of oft að því hafi núv. hv. stjórnarliðar allt of lítið af.

Ég tala nú kannske í svolítið öðrum dúr en þeir hv. þm., sem hér hafa talað um þetta mál áður, og kannske út frá öðrum forsendum og kem kannske minna inn á ýmislegt í frv. sem vissulega er ástæða til að ræða, en hefur verið rætt hér. Ég kem þeim mun frekar að þeim verkunum, sem þetta hlýtur að hafa á annað í landinu, og þá ekki síður þeirri efnahagsmálastefnu, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur, og hvaða afleiðingar það hefur haft og kemur til með að hafa.

Það er auðvitað meginmálið varðandi þetta, að hér er verið að leggja til að selja þessum aðila orkuna í besta falli á kostnaðarverði, um 1 kr. kwst. Þegar íslensk iðnfyrirtæki og íslenskur atvinnurekstur er látinn borga allt upp í 19 kr., þá eiga þessir aðilar að fá orkuna á 1 kr. Það eru engir smápeningar, hefðu a. m. k. ekki verið taldir smápeningar ef einhver þm. utan af landi, ég eða hv. þm. Sverrir Hermannsson, svo að dæmi sé tekið og nafn nefnt eða einhver annar hefði beðið um í einu 2.5 milljarða í hlutafé til þess að koma á fót fiskvinnslufyrirtæki einhvers staðar úti á landi, sem er þó grundvöllurinn að öllu því sem við erum að gera, en hér ætlar hæstv. ríkisstj. að leggja með sér strax í upphafi 2.5 milljarða í hlutafé í fyrirtækið. Hér er sennilega um að ræða framkvæmdir upp á 14–16 milljarða eða eitthvað ekki langt frá því. (Gripið fram í.) 18, segir hv. þm. Jónas Árnason, og ekki förlast honum í reikningnum. En burtséð frá því, það skiptir kannske ekki meginmáli hvort það er 14 eða 18, allavega er þetta stórfjárhæð á okkar mælikvarða. Og þetta á að gera á sama tíma og þessir hæstv. ráðh., ekki síst hæstv. iðnrh. og fjmrh., margítreka það hér á Alþ. að það sé gjörsamlega útilokað að veita eina eða neina fyrirgreiðslu til uppbyggingar í fiskiðnaði, hversu brýnt og nauðsynlegt sem það er, til þess að auka útflutningsverðmæti, skapa gjaldeyri.

Þessum 2.5 milljörðum í hlutafé eiga svo að fylgja ca. 800 millj. úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda. Það er nærri því sama fjárupphæð og er á fjárl. ársins 1977 til allra fiskihafna í landinu. Það kostaði ekkert lítið að kreista rúmar 900 millj. undan nöglunum á hæstv. samgrh. og fjmrh. í allar fiskihafnir í landinu, þó að það sé hægt að rétta svo til umyrðalaust 800 millj. til hafnargerðar á Grundartanga. Þá er ekki fjárskorturinn. Nei, það er ekki að sjá á gerðum hæstv. iðnrh. eða hæstv. ríkisstj. eða stuðningsliðs hennar hér á Alþ. að það sé neinn fjárskortur, ef marka má það sem hér er lagt til. Hér er sem sagt lagt til að láta hafa forgang uppbyggingu atvinnurekstrar af þessu tagi, sem fyrir fram er sýnilegt að er ekki jafnþjóðhagslega hagkvæmur og nauðsynlegur og ýmsar þær framkvæmdir sem beðið hefur verið um, en hafnað hefur verið fjármagni til.

En þetta hefur verið og virðist eiga að vera efnahagsstefna hæstv. ríkisstj. þ. e. að stuðla fyrst og fremst að áframhaldandi byggðaröskun, stuðla fyrst og fremst að uppbyggingu alls konar stórframkvæmda hér á suðvesturhorni landsins, en skera niður nauðsynlegar framkvæmdir úti á landsbyggðinni.

Ég get ekki stillt mig um að geta þess í þessu sambandi, af því að það er auðvitað nátengt þessu í sambandi við orkumál, að á sama tíma og þetta átti að gerast, þó ekki hefði orðið af því vegna þess að Union Carbide taldi fyrirtækið a. m. k. vafasamt, ef ekki glatað, og dró sig út úr, þá var á sama tíma af hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðum hér á Alþ. staðið fyrir því að skera niður ákveðnar framkvæmdir í fjárlögum ársins 1976 í orkumálum til Vestfjarða um 200 millj. kr., á sama tíma og hægt var að verja fjármagni af þessari stærð í byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Og það er allt útlit fyrir að sama eigi að endurtaka sig á árinu 1977, að eins eigi að fara með vestfirðinga, að það eigi að skera á bilinu 150–200 millj. af fjárveitingum ársins 1977 til orkuframkvæmda á Vestfjörðum. Það kallast að vísu ekki beinn niðurskurður, en kerfið er látið sjá um það. Það eru settar í fjárl. ákveðnar framkvæmdir, ákveðnir verkþættir, en það er ekki búið að panta efni til þeirra enn, þannig að það verður ekki unnið. Það er hinn óformlegi niðurskurður sem kerfið er látið sjá um, og það gerðist líka 1976. Þetta er talið sjálfsagt gagnvart landsfjórðungi eins og Vestfjörðum sem eru í orkusvelti og verður þar enn verra ástand áður en langt um líður. Og það er ekki ýkjalangt síðan, þó að það sé að vísu ekki tengt þessu máli, en það er ekki ýkjalangt síðan hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar hér á Alþ. neitaði fyrirgreiðslu til uppbyggingar hafnaraðstöðu í litlu sjávarþorpi vestur á fjörðum til þess að hægt væri að gera ráðstafanir til þess að mæta því breytta og góða viðhorfi sem átt hefur sér stað varðandi loðnuveiðar. Það þurfti að fá 100 millj. kr. til þess að flýta um tvö ár framkvæmdum í höfn vestur í Bolungarvík til þess að væri hægt að mæta þeirri miklu þörf, sem þar hefur skapast, og sinna loðnuflotanum. Þessu var hafnað. Þetta var talinn of góður biti vestfirðingum til handa og þjóðinni til handa, því að hér var ekki bara um að ræða Bolungarvík og Vestfirði, hér var um að ræða þjóðarhagsæld. Þetta var þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki, átti að kosta 100 millj., og það átti að tvöfalda afköst viðkomandi verksmiðju, loðnuverksmiðju, en því var samt hafnað. En þetta er hægt að gera sem hér er lagt til, upp á marga milljarða.

Þetta er það, sem við höfum ótal dæmi um, það er í hnotskurn byggðastefna hæstv. ríkisstj. En það er talið sjálfsagt, á sama tíma og neitað er um 100 millj. fer til þessara framkvæmda, að setja 800 millj. í höfn í Hvalfirði. Það er ekkert við það að athuga, að því er virðist, þó að mér heyrðist á hv. síðasta ræðumanni að verði eitthvað til þess að koma hiki á hann við fylgi þessa máls, þá er kannske fyrst og fremst spurningin um höfnina. (Gripið fram í.) Nei, hér geysist hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar fram í þessu máli. En hann er ekki jafnhraðstigur, hæstv. orkumrh., í sambandi við framkvæmd þeirra laga sem samþ. voru hér á Alþ. fyrir skömmu varðandi Orkubú Vestfjarða. Þar eru skrefin styttri. Þar er hægar farið, að því er virðist, og kannske á það við í því máli að áliti hæstv. ráðh. að kapp sé best með forsjá. En því er ekki stillt á þann veg varðandi þetta mál. Mér vitanlega er legið á því máli og er það þó brennandi spursmál fyrir þann landsfjórðung. En þar virðist ekkert gert, að því er best verður séð, eða a. m. k. hef ég ekki um það upplýsingar að neitt hafi frekar gerst né sé að gerast varðandi það mál. Það er þó orkumál og á heima undir þessum líð.

Ég var ekkert hissa á því þó að hv. þm. Benedikt Gröndal kæmi inn á það hér að það þyrfti vissulega að hafa í huga varðandi ákvörðun um slíkt sem þetta jafnvægi í byggð landsins, byggðastefnuna, hvort ákvörðun af því tagi sem hér er verið taka eða ætlast til að tekin verði samrýmist því að hér sé verið að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Mér urðu það mikil vonbrigði að heyra formann Alþfl. svo gott sem lýsa því ákveðið að hann teldi að hér væri verið að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, vegna þess að hann lýsti fylgi sínu við frv. Mér urðu það mikil vonbrigði og ég fyrir mitt leyti skil ekkert í því hvernig hv. þm. dreifbýliskjördæma, — kjördæma sem eru í algjöru orkusvelti eða er fyrirsjáanlegt að þau verða það á allra næstu tímum, — hvernig í ósköpunum þm. slíkra kjördæma, t. d. Austfjarða, Vestfjarða eða Norðurlands, geta léð stuðning sinn við slíkt fyrirtæki eða mál eins og hér er á ferðinni. Mér er ómögulegt að skilja það. Hvort sem þessir hv. þm. eru í liði stjórnarflokkanna, stuðningsmanna ríkisstj., eða í stjórnarandstöðu, þá á ég ómögulegt með að skilja hvernig þeir geta varið það fyrir sinni sannfæringu og fyrir réttlætinu gagnvart sínum umbjóðendum að ætla sér að stuðla að því að slíkt mál eins og hér er nú til umr. nái fram að ganga á kostnað sinna umbjóðenda, því að það er augljóst mál að það verður það.

Nei, hér er enn eitt og kannske hvað augljósasta dæmið um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. sem er andstæð byggðaþróun. Hér er lagt til að hefja framkvæmdir við fyrirtæki sem kostar 14–18 milljarða kr., á sama tíma og neitun á neitun ofan er hjá hæstv. ríkisstj. um að fá tiltölulega litla fyrirgreiðslu til þess að bæta aðstöðu undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar, sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar. Auk þess er nokkurn veginn fyrirsjáanlegt að orkan til þessa fyrirtækis á að vera seld á kostnað íslendinga. Þeir eiga að borga svo og svo mikið með henni. Eins og ég sagði áðan, er lágmark að þeir erlendir aðilar, sem teknir eru í samstarf með þessum hætti, séu látnir borga fyrir sig. Og mér sýnist að allt bendi til þess að hæstv. ríkisstj. ætli að halda áfram uppteknum hætti að vera í andstöðu við uppbyggingu á þeim stöðum sem hennar er fyrst og fremst þörf, en setja strikið þess í stað á stórframkvæmdir á því sama horni sem uppbyggingin hefur verið hvað mest og örust á undanförnum árum.

Það hefur í þessum umr. verið nokkuð minnst á væntanlega næstu stórvirkjun. Við umr. fyrir jólin um fjárl. og lánsfjáráætlun, framkvæmdaáætlun, var því hvað eftir annað lýst yfir af hæstv. fjmrh. að engar hugmyndir væru uppi um það að ráðist yrði í að virkja Hrauneyjafoss. En tiltölulega fljótlega eftir að Alþ. hafði farið í þingleyfi kom tilkynning um að búið væri að ákveða, hvar virkja skyldi næst, og farið að undirbúa á þessu ári næstu stórvirkjun við Hrauneyjafoss. Og ég hallast að því að það sé rétt, sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði áðan, að hér er það kerfið sem ræður. Stjórnvöld hafa ekki tilbúnar neinar fyrirætlanir eða áætlanir um virkjanir á öðrum svæðum en því svæði sem Landsvirkjun sér um, og það má raunar segja að stjórnvöld hafi engar áætlanir tiltækar á því svæði. En landsvirkjunarstjórn hefur tilbúnar áætlanir um framkvæmdir á því svæði sem hún hefur umsjón yfir, og það er því í raun og veru hún, það er kerfið, það eru embættismennirnir sem ráða ferðinni í þessu tilfelli. Þetta kemur þvert ofan í allar yfirlýsingar hæstv. iðnrh. hér á Alþ. Hæstv. iðnrh. var ekki aldeilis á þeim buxunum að næsta stórvirkjun ætti að vera við Hrauneyjafoss. Hún skyldi vera á Norðurlandi og Blanda skyldi það verða. En þarna hefur kerfið gripið fram fyrir hendurnar á hæstv. ráðh. Og það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir það í framtíðinni að slíkt sem þetta endurtaki sig, ekki bara á þessu sviði, við höfum um það ótalmörg dæmi hvernig embættismannakerfið tröllríður öllu í landinu að því er varðar að taka fram fyrir hendur löggjafans og fjárveitingavaldsins. Þannig standa í þessu tilfelli ráðh. frammi fyrir þessu og verða að segja já og amen við öllu sem landsvirkjunarstjórn leggur til. Það er mál að slíku linni.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan hef ég hér viljandi talað út frá talsvert öðrum forsendum varðandi þetta mál heldur en aðrir hv. þm. sem hér hafa talað. En ég taldi rétt og raunar nauðsynlegt að koma inn í umr., ekki síst um þetta mál, hvernig í raun og veru hæstv. ríkisstj. hefur staðið að málum varðandi framkvæmd stefnu í efnahagsmálum og ekki síður varðandi byggðastefnuna margumtöluðu sem ekki var svo lítið gert úr í stjórnarsamningi núv. hæstv. ríkisstj.

Ég tel að ef hér fer fram sem horfir, að úr því verður að Alþ. fallist á það sem hér er um beðið, þá sé það enn eitt áfallið fyrir þá sem í raun og veru vilja snúa þróuninni við til hins betra varðandi uppbyggingu landsbyggðarinnar og stuðla að vaxandi jafnvægi í byggð landsins. Ef þetta mál nær fram að ganga eins og það nú liggur fyrir verður það enn eitt áfallið fyrir þá menn sem vilja berjast fyrir aukinni uppbyggingu úti á landsbyggðinni og þróttmeiri byggðastefnu. Ég vænti þess fastlega að þeir hv. þm., ekki síst úr stjórnarliðinu, sem greinilegt var að voru í hjarta sínu andvígir þessu máli þegar það var afgreitt hér á Alþ. fyrir tveim árum, hafi nú séð að hverju fer og að þeir endurskoði afstöðu sína til atkvgr. Hugarfarið þarf ábyggilega ekki að endurskoða. Ég geri ráð fyrir að það sé með sama hætti og var áður, að þeir séu í hjarta sínu andvígir því. En ég vænti þess að þeir endurskoði afstöðuna til atkvgr. og að þeir sjái um það ásamt mér og öðrum, sem vilja koma í veg fyrir að þetta sé gert, að málið verði fellt hér í atkvgr.