10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Jónas Árnason:

Herra forseti. Enn er komin til umr. hér á hinu háa Alþ. Grundartangaverksmiðjan. Og enn lemja stjórnvöld járnblendihausnum við steininn. Og enn er maður kominn í þennan ræðustól til að lýsa yfir eindreginni andstöðu við þessa verksmiðju, þó að nú hafi orðið lítils háttar breytingar á með nýjum félagsskap við framkvæmdina.

Hv. síðasti ræðumaður sagðist svartsýnn á það að Alþ. bæri gæfu til að fella þetta frv. Nokkru áður hafði hann í ræðu sinni beint því til hv. þm. Benedikts Gröndal að hann flytti till. um það í þingflokki Alþfl. að flokkurinn gerði ekki vitleysu. Hvers vegna er hv. þm. Páll Pétursson svona bölsýnn á að þessi d. eða hv. Alþ. felli þetta frv.? Það er vegna þess að hann veit ætlan flokksbræðra sinna um atkvgr. Og þó að mikil sé þörfin á því að þingflokkar yfirleitt geri samþykktir um að gera ekki vitleysu, þá held ég að sú þörf sé í þessu máli brýnust í Framsfl. Við þyrftum ekki að standa hér upp hver á fætur öðrum og láta í ljós þann ugg, að þetta sé tapað mál, ef hv. þm. Páll Pétursson og félagi hans Ingvar Gíslason hefðu borið gæfu til þess að koma vitinu fyrir þingflokk Framsfl. — eða eigum við kannske að segja: ef óbreyttir kjósendur Framsfl. hefðu borið gæfu til þess.

Úrslit í þessu máli ráðast hér á Alþ. Það er að líkindum orðið of seint að koma í veg fyrir þetta óheillaspor. En það er ekki orðið of seint að koma í veg fyrir önnur slík. Það gæti t. d. gerst með því að hv. þm. Páll Pétursson fengi samþykkt í þingflokki Framsfl., að horfið skuli frá þessari stefnu. En áður þyrftu úrslit að fást úti á meðal þjóðarinnar.

Eyfirðingar risu nýlega upp og mótmæltu því að byggt yrði álver við Eyjafjörð. Það dugði. Stjórnvöld sáu að sér. Að vísu var strax reynd önnur leið, og hún var sú að æra sunnlendinga upp í kröfu um að fá álíka álver til sín. Og þó að hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, gangi nú í að koma þessu frv. í gegn, þá má hann eiga það, að honum ofbauð upphlaupið á Suðurlandi. Og hann lét hafa eftir sér í blaði að því færi fjarri að framtíð giftusamlegs mannlífs og hagsældar á Suðurlandi væri tengd stóriðju, — því færi fjarri. Auðvitað var hann að segja að þetta væri eitt hið versta sem menn gætu fengið þarna. Þessi gamli bóndi, nákunnugur bændum og hugsunarhætti þeirra, hann lét landslýðinn vita það og mælti af stolti að Suðurlandið gæti brauðfætt þessa þjóð og mörgum sinnum það, minnir mig. Vel mælt og drengilega. Ef Ingólfur Jónsson léti sér eins annt um mannlíf í Borgarfirðinum og á Suðurlandi, þá mundi hann í krafti áhrifa sinna segja slíkt hið sama um Grundartangaverksmiðjuna.

Stuðningur við þetta sérstaka mál, opinber stuðningur við þetta sérstaka frv., þýðir ekki endilega að menn séu skilningslausir á það, hvað boðar gæfu fyrir þessa þjóð og hvað ekki. Ég hef ástæðu til þess að ætla að meiri hl. þingflokks Framsfl., — það eru allmargir góðir bændur og menn sem skilja hugsunarhátt íslenskra bænda, — ég hef ástæðu til þess að ætla að þeir í hjarta sínu skilji hver alvara er hér á ferðum. Það er eitt til marks um að þeir skilji þetta, að þeir treysta sér ekki til þess að vera víðstaddir þessa umr. Heyrandi nær sýnist mér núna, þegar ég lít yfir salinn, að sé aðeins einn framsóknarmaður. Framsóknarmenn láta hins vegar dragast til stuðnings við málið af því að forustumenn þeirra segja að það sé ýmislegt í húfi, fyrst og fremst náttúrlega stjórnarsamstarfið.

Eins og öllum er orðið ljóst leggur Sjálfstfl. undir forustu hæstv. iðnrh. Gunnars Thoroddsens mikla áherslu á að koma þessu máli fram, þrátt fyrir reynsluna sem við höfum fengið. Þrátt fyrir þá hlálegu útreið sem ríkisstj. fékk af hálfu þess aðila sem fyrr skyldi vera samstarfsaðill, Union Carbide, er þessi ráðh. heldur en ekki kominn á stúfana aftur með þessa verksmiðju, ætlar sér fram með hana. Þessi þrjóska er býsna ríkur þáttur í svonefndu íslendingseðli, þessi þvermóðska. Menn vilja ekki viðurkenna að þeir hafi haft á röngu að standa. Og þetta getur magnast töluvert eftir því sem menn komast hærra í valdastiganum. En þetta er alls staðar til. Ég veit t. d. um mann sem vann í fiskiðjuveri vestur á landi. Hann var svo þrjóskur að hann viðurkenndi aldrei nein mistök. Eitt sinn ætlaði hann að svala þorsta sínum. Það voru þarna tvær slöngur, önnur með köldu vatni, hin með sjóðheitu. Og maðurinn tók óvart heitu slönguna og fékk sér sopa úr henni. Og þegar hann tók eftir því að vinnufélagarnir kímdu, þá fékk hann sér umsvifalaust annan stóran sopa úr sömu slöngunni. Svipað sýnist mér að hæstv. iðnrh. sé að gera í sambandi við Grundartangaverksmiðjuna. Hann skal ekki viðurkenna, hvað sem tautar og raular, að hafa fengið sér gúlsopa af heitu slöngunni eða látið sér bregða við það.

Þau mál, sem hér eru til umræðu, varða framtíð þessarar þjóðar, hvort við ætlum að halda áfram að lifa sem íslendingur í þeim skilningi sem við höfum lagt í orðið. Það hefur verið sannað á ríkisstj. að uppi eru áætlanir um að gjörbreyta svo þessu þjóðfélagi að ef þær áætlanir ná fram að ganga er lokið sögu okkar sem íslendinga í þeim skilningi sem við höfum lagt í orðið. Þá er lokið sögu þess þjóðfélags sem byggt hefur afkomu sína fyrst og fremst á landinu sjálfu og sjónum í kringum það. Allt þetta átti sinn þátt í því að skapa það sem stundum er nefnt þjóðarsál. Verðmætamat okkar íslendinga er meira og minna tengt þessu og hamingja okkar fyrst og fremst. Hamingja þessarar þjóðar, íslendinga sem slíkra, hefur verið tengd því að rækta landið, lifa á afrakstri þeirrar vinnu og að nýta fiskimiðin. Þegar upp væru komnar allar þessar verksmiðjur væri búið með þennan ríka þátt í þjóðarsálinni, allt mundi endurmetast.

Ég veit að það er enginn vandi fyrir hagspekinga að sýna fram á það tölulega, sýna fram á það í dálkunum „debet“ og „kredit“, að við gætum orðið stórríkir hver og einn, ef við vildum taka þeim tilboðum sem okkur hafa borist og eiga eftir að berast. Það er ég viss um að tvö stórveldi a. m. k. mundu vilja borga svo ríflega fyrir þennan hólma okkar — ef við settum hann á uppboð — að við gætum í staðinn keypt okkur sælueyju einhvers staðar suður í höfum og lifað þar það sem eftir væri í sundfötum, sólbakaðir. En það er ekki þar með sagt að við yrðum að sama skapi hamingjusamir.

Það vill svo til að við erum tengdir þessu landi. Hamingja okkar er tengd þessu landi. Og hún verður fyrir bí um leið og við tökum upp þá stefnu sem ríkisstj. vinnur að. Hún verður fyrir bí, ekki hvað síst vegna þess að þjóðin mun eftir það finna að hún hefur svikið þetta land. Við erum afkomendur fólks sem þrátt fyrir allt og allt vildi setjast hér að. Eitt af því ríkasta í fari okkar er það sem við erfðum frá þessu fólki sem þótti landið vænlegt til þess að leita þar hamingjunnar. Í verksmiðjum glatast þetta allt saman. Í tengslum við stóriðjuna og það nýja verðmætamat, sem henni mun fylgja, mun íslensk hamingja glatast. Fyrir mér má hver sem er eiga þá milljarða og aftur milljarða sem okkur kunna að verða boðnir. Mig gildir einu um allt þetta tal um að ef við gerum þetta ekki þá kunni kannske að vera hæpið að tryggja svokölluð mannsæmandi lífskjör. Þessi stefna öll og öll þau fyrirheit, sem henni fylgja, eru af hinu illa.

Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði áðan að okkur væri nauðugur einn kostur að taka upp þessa stefnu. Ef við gerðum það ekki, þá mundi það binda lífskjörin eða a. m. k. rýra þau og slíkt væri hrein íhaldssemi. Álítur formaður Alþfl. að það sé ekki nógu mikil verðmætasköpun í þessu landi til að tryggja þjóðinni mannsæmandi lífskjör? Það vantar réttlátari skiptingu arðsins, ekki annað. Verðmætasköpunin er yfrið nóg til að tryggja öllum íslendingum mannsæmandi lífskjör. Heldur þessi hv. þm. að þetta mundi eitthvað batna ef fram næði sú stefna sem ríkisstj. vinnur að? Heldur hann að með stóriðju mundu jafnast eitthvað kjörin í þessu landi, að eitthvað mundi draga úr þeirri vinnuþrælkun alþýðunnar sem er komin á það stig að til háborinnar skammar er fyrir þetta þjóðfélag? Þvert á móti: Eðli sínu samkvæmt mun stóriðjustefnan magna misrétti, — auka þrældóm alþýðunnar.

Um leið og Benedikt Gröndal lýsti yfir stuðningi við stóriðju í ræðu sinni áðan sagði hann: Það má ekki trufla atvinnulíf með neinum slíkum framkvæmdum. Álítur hann að Grundartangaverksmiðjan trufli ekkert atvinnulíf? Er hann alveg hættur að skreppa upp á Skaga? Veit hann ekki að hjá verkalýðsfélaginu þar eru þegar komin hátt í 100 nöfn á listann yfir þá sem bíða þess að komast í byggingarvinnu á Grundartanga? Það er næg atvinna uppi á Skaga. Allt þetta fólk er að fara úr vinnu sem þegar er þar fyrir hendi, frá atvinnurekstri sem er þar í gangi. Þetta fólk ætlar allt að steðja frá þeim atvinnurekstri og inn á Grundartanga. Ef Benedikt Gröndal hefur nýlega komið t. d. í Dráttarbrautina, þá á hann að vita að það eru allar líkur á því að þetta þýðingarmikla fyrirtæki á Skaganum, Dráttarbrautin, verði að stórdraga úr skipasmíðum sínum og skipaviðgerðum þegar Grundartangaframkvæmdirnar fara að soga til sín vinnuaflið, jafnvel hætta. Mörg fleiri slík fyrirtæki mætti nefna.

En hvað skeður svo eftir 2–3 ár, þegar þessum byggingarframkvæmdum á Grundartanga lýkur, en til þeirra mun þurfa um 300 manns. Atvinnureksturinn, sem þeir hurfu frá, hefur stöðvast. Þeir eiga ekki lengur afturkvæmt þangað. Þarf mikla spádómsgáfu til að átta sig á hvernig kringumstæðurnar verða þá? Þá kemur auðvitað einhver fabrikkuráðh., hvort sem það verður núv. fabrikkuráðh. eða einhver annar, og leggur fyrir þetta fólk áætlun um nýja verksmiðju. Og þá reynir á siðferðisþrekið. Þá reynir líka á það að þm. meti málið út frá einhverju öðru sjónarmiði en því sem kom fram hjá Benedikt Gröndal áðan, þegar hann spurði: Þorir nokkur þm. að lýsa því yfir í dag að hann vildi gjarnan að burtu væri álverið? — Ég þori að gera það. Ég geri það hér með. Hann bætti við að slíkum manni mundi lítt þýða að fara í framboð. Mig varðar ekkert um atkv. í þessu sambandi. Ég læt mig einu gilda þótt það mundi kosta svo og svo mörg atkv. að beita sér gegn því að reist yrði önnur verksmiðja, eftir að búið væri að reisa þessa verksmiðju, sem mundi halda um 300 manns í vinnu í 2–3 ár í viðbót.

Hvað er að ske? Til hvers leiðir þessi stefna? Til hvers leiðir þessi stigmögnun stóriðjuframkvæmda?

Ég segi enn: Við, sem erum andstæðingar þessarar stefnu, ættum að gera okkur ljóst að það er ekki hérna, það er ekki í þessum sal sem úrslit þessara mála ráðast. Það er úti á meðal fólksins. Og þar kemur til okkar kasta að taka höndum saman. Ég vil beina því til þm. eins og Páls Péturssonar að við athugum hvað við getum gert. Þeir framsóknarmenn beiti áhrifum sínum í bændasamtökunum, og aðrir, sem áhrif hafa í verkalýðshreyfingunni, beita áhrifum sínum þar, til þess að þessar tvær voldugu alþýðuhreyfingar sameinist gegn þessum voða. Það er eina leiðin. Það er þýðingarlaust að standa í þessum ræðustól og tala yfir manni eins og Gunnari Thoroddsen — alveg þýðingarlaust. Hann er tilbúinn að taka þriðja, fjórða, fimmta gúlsopann úr heitu slöngunni hvenær sem er.

Það gleður mig að hér eru farin að sjást fleiri framsóknarandlit núna, þau hafa fjórfaldast í salnum. Ég vona að siðferðisþrek Framsóknar margfaldist að sama skapi í þessu máli í náinni framtíð.

Þá ætla ég að víkja að máli sem snertir Grundartangaverksmiðjuna, þó annars eðlis sé en þau mál sem ég hef nú rætt. Upphaflega var gert ráð fyrir að byggðalínan, sú sem Grundartangi á að fá rafmagn úr, færi yfir Hvalfjörðinn. Það átti að vera sæstrengur frá Hvalfjarðareyri og yfir að Grundartanga. Svo er þessari áætlun breytt. Það er tilkynnt að nú eigi að leggja hana inn fyrir fjörðinn. Einhverjir skrifstofumenn komast að þeirri niðurstöðu, að það sé best að leggja hana inn fyrir fjörðinn. Þá er það að hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps samþykkir í júní s. l. mótmæli gegn þessu, og rökstyður þau á ýmsan hátt, hún telji að það séu spjöll á náttúru og spjöll á náttúrufegurð að leggja línuna svona.

Ég hygg að allir hv. þm. hafi farið það oft um Hvalfjörðinn að þeir geri sér ljóst hvað gerist þarna, með þessari lagningu línunnar. Ef maður kemur t. d. yfir Tíðaskarðið eða við skulum segja að maður sé kominn að Kiðafelli, þá blasir við þessi fagra hlíð að norðanverðu Hvalfjarðar. Eftir að þessi lína er komin eftir þessari hlíð blasir líka við manni röðin af þessum mekkanóþursum sem halda uppi raflínunni. Ég segi „mekkanóþursum“, ekki fyrir það að ég sé að kasta rýrð á viðleitni þeirra manna sem vilja dreifa rafmagni um landið, en það er mikil óprýði að þessu. Ég held að allir séu sammála um að reyna beri að gera allt sem hægt er til að forða náttúru okkar frá slíkri óprýði. En þegar við komum þarna blasir sem sé við marsérandi röð af þessum mekkanóþursum ef þeirri áætlun verður haldið sem nú hefur verið tilkynnt.

Það er eins með vinnubrögðin og fyrri daginn. Í Þjóðviljanum 26. jan., þar sem segir í fyrirsögn: „Flýta ber sem unnt er lagningu byggðalínunnar frá Geithálsi í Andakíl“, er vitnað í verkfræðing sem Jóhann heitir Már, settan yfirverkfræðing Landsvirkjunar, að þarna sé ekkert til fyrirstöðu. Jóhann Már segir að þegar hefði verið samið við flesta landeigendur.

„Samið við flesta landeigendur,“ segir hann. Sama dag og hann lætur blaðíð hafa þetta eftir sér, — og blaðið hefði að sjálfsögðu ekki þurft að hafa þessa vitleysu eftir ef það hefði hringt í bændur uppi á Hvalfjarðarströnd eða einhvern forsvarsmenn þeirra, — þá standa málin þannig að það er búið að semja við 10 af 24 landeigendum. Tíu eru „flestir“ samkv. skilgreiningu Landsvirkjunar. Skylt er að virða það, að Landsvirkjun ræddi þó við viðkomandi bændur. Virkjunarmenn fóru ekki eins að og þeir hafa oft gert. Þeir eru farnir að læra mannasiði. Mývetningar kenndu þeim mannasiði. Ýmsir aðrir hafa gert það. Þeir fara því ekki fram með sama offorsi og frekju gagnvart bændum og þeir tíðkuðu áður.

Þrátt fyrir þessa samþykkt, sem hreppsnefndin gerði, fullyrðir Landsvirkjun í bréfi, að það sé „samhljóða“ álit bænda á þessu svæði að þetta sé hagkvæmasta leiðin. Það er ekki meira „samhljóða“ en svo, að eina ályktunin, sem hægt er að vitna til, er ályktunin, sem ég nefndi, frá hreppsnefndinni á Hvalfjarðarströndinni. Það er eina ályktunin, eina formlega afstaða landeigenda. Þó að mannasiðir landsvirkjunarmanna hafi skánað, eru þeir ekki alveg orðnir fullkomnir. Í ályktun sinni beinir hreppsnefndin því til Landsvirkjunar að haldinn verði fundur um þetta mál, menn fái að segja álit sitt. Það er ekki gert. Hins vegar eru sendir sendimenn, kurteisir agentar, heim á bæina til þess að tala við einn og einn. Og þannig hefur talan þokast upp í 10 þegar yfirlýsing kemur um að flestir séu búnir að samþykkja.

Það, sem bændum er boðið, er þetta: Fyrir staura á óræktanlegu landi greiðist 10 þús. kr. á staur. Fyrir staura á ræktanlegu landi greiðist 25 þús. Ef staur stendur á túni eða öðru ræktuðu landi eru það 50 þús. kr. Þetta eru að sjálfsögðu hundsbætur. En þetta hafa þó nokkrir bændur samþykkt. Aftur á móti hafa ýmsir aðrir staðið hart gegn þessu.

Ég veit ekki hvað landslög segja um það, en sannleikurinn er sá, að þarna eru margir bændur mjög harðir gegn þessu. Og fremstur í flokki er séra Jón Einarsson í Saurbæ. Hann hefur skrifað Landsvirkjun og minnir þar á þessa hreppsnefndarsamþykkt, sem ég var að nefna áðan og var gerð 26. júní s. l., en bréfið er skrifað í des.:

„Hreppsnefndin ákvað að mótmæla þessari framkvæmd, þar eð slík lína með svo háum möstrum mundi verða til stórra lýta í landslaginu og af framkvæmdinni mundi óhjákvæmilega hljótast jarðrask og tjón, jafnvel á ræktuðu landi, svo og á varplendi og skóglendi, en áformað er að setja möstur í Saurbæjarhlið og Þyrilsey.“

Þeir bændur eru ekki sannfærðir um að þeir fái sitt fram gagnvart stjórnvöldum og segja þess vegna:

„Til vara gerir hreppsnefndin þá kröfu, að ef ekki verði hjá þessu komist, þá skuldbindi Landsvirkjun sig til þess að leggja rafmagn á þá tvo bæi í sveitinni sem ekki hafa rafmagn frá Rafmagnsveitum ríkisins.“

Ég beini því til hæstv. ráðh. hvort ekki ekki hafi a. m. k. verið gengið að þessum varaskilyrðum hreppsnefndarinnar.

Presturinn vísar algerlega á bug þeim ummælum, að það sé „samdóma“ álit bænda á Hvalfjarðarströndinni að þessi staðsetning sé hentugust, vísar til fyrri samþykktar og spyr hvað Landsvirkjun hafi fyrir sér í þessu. Hann bendir líka á ýmsa annmarka sem náttúran veldur eða náttúruhættir þarna, veðurfar sérstaklega, að láta línuna liggja svona, fyrir utan þau spjöll sem hún muni vinna náttúrufegurð og náttúru að öðru leyti. Og hann lýkur bréfi sínu til Landsvirkjunar með þessum orðum, sem ég vildi óska að gætu orðið einkunnarorð — eða eitthvað í þeim anda gæti orðið einkunnarorð fleiri manna í Framsfl. en t. d. Páls Péturssonar.

„Það er embættisskylda mín að standa vörð um réttindi prestssetursins og kirkjunnar. Ég áskil mér því að beita öllum löglegum aðferðum til að koma í veg fyrir það, að á þann rétt sé gengið og að spillt verði því landi og þeirri fegurð sem mér hefur verið trúað fyrir og fengið til varðveislu.“

Það er verst að hæstv. kirkjumrh. skuli ekki vera hér. Hver verða viðbrögð Landsvirkjunar eða rn. ef klerkurinn í Saurbæ stendur harður á þessu? (Gripið fram í.) Já, er það? Það er vonandi að hann taki þetta til rækilegrar íhugunar.

Þetta var það sem ég vildi segja við þessa 1. umr.

Ég ítreka það, sem ég hef áður sagt, að þetta er allt saman algerlega óviðkomandi hagsæld íslensku þjóðarinnar. Það er ekkert annað en blekkingar að blanda þessu saman. Hér eru að sjálfsögðu að baki þeir peningaspekúlantar sem því miður hafa æ meiri áhrif á þróun mála í þessu landi, seilast æ lengra inn í líf þessarar þjóðar til þess að kremja þar ýmislegt verðmætt. Það eru þeir sem munu hagnast á þessu. Menn standa hér í ræðustól og þylja gríðarlega háar tölur um erlendan gjaldeyri sem við munum hafa upp úr þessu. Það á að vera einhver fagnaðarboðskapur fyrir gömlu konurnar í fiskiðjuverunum og útslitna verkamenn sem vinna myrkranna á milli. Halda menn að hagur þeirra hækki eitthvað við þessa gjaldeyrisveltu alla saman? Það er af og frá. Það eru peningaspekúlantar sem græða á þessu eins og öðru slíku. Þetta er fyrst og fremst þeirra hagur. Þeir braska með gjaldeyri, hafa braskað með gjaldeyri og eiga eftir að braska með gjaldeyri þangað til við breytum þessu þjóðfélagi þannig að endir verði bundinn á allt þeirra brambolt. Ég sé ekki að það verði alveg á næstunni. Maður var farinn að vona það um tíma að í stjórnarandstöðunni væri Alþfl. orðinn það sem nefnt hefur verið „afturbatapíka“. En því miður, eftir ræðu Benedikts Gröndals áðan, get ég ekki séð að hann sé líklegar til stórræðanna í baráttunni fyrir réttlátara þjóðfélagi. (Gripið fram í.) Ég efast um það. Ég veit reyndar ekki hvað það var langur tími samkv. ritúali kaþólsku kirkjunnar sem gat gert spjallaða konu aftur að því sem ég nefndi áðan. En það var einhver tiltekinn tími skírlífis, líklega lengri tími en Alþfl. hefur haft.

Og enn að lokum: Þessu verður ekki bjargað með öðru en því að þjóðin rísi upp. Og ég held að þrátt fyrir allan hégómann sem veður nú uppi í þessu þjóðfélagi og allar stéttir taka þátt í, þrátt fyrir allt þetta átakanlega Majorkahúmbúki og annað því skylt, þrátt fyrir keppnina um fáránlegan lúxus, sem allar stéttir taka þátt í, þá sé með þjóðinni enn svo stór óspilltur kjarni að það megi takast að bjarga okkur frá stóriðjuvoðanum. En frumskilyrðið er að við stóriðjuandstæðingar tökum höndum saman og förum út til fólksins og leiðum því fyrir sjónir, að ef takast á að þægja frá þjóðinni þessari ógæfu, þá verður hún sjálf að rísa upp.