10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Satt að segja var ég ekkert viss um að ég mundi fara að ræða mikið um þetta mál, kannske ekki síst vegna þess að í gær gerði hv. 2. þm. Austurl. ákaflega glögga grein fyrir meginatriðum hvað snerti efnahagslega hlið þess, um sölu raforku, um raforkuverð í Noregi og allt þar fram eftir götunum. Þess vegna er kannske ekki ástæða til að fara að fjalla um þá hlið málsins sérstaklega. En ég var svo sem ekkert hissa á því þó hæstv. iðnrh. ákvæði það, eins og hann sagði sjálfur áðan, að láta alveg liggja á milli hluta hvað hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði um raforkuverðið, sem hæstv. ráðh. gat þó um að hefði verið aðalinntak hans ræðu sem stóð í 21/2 klst. Ég get mér þess til og þykist vita að hann hafi ekki viljað fara að fjalla um ræðu hans hvað snerti peningahlið þessara mála ósköp einfaldlega vegna þess, að ég get ekki séð að hæstv. ráðh. hafi nokkurn möguleika til þess að hrekja þær niðurstöður sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson komst að í sinni ræðu.

Hæstv. ráðh. fjallaði nokkuð um það sem Magnús Kjartansson fyrrv. hæstv. iðnrh. hefði gert í sinni stjórnartíð, og er slæmt að Magnús Kjartansson skuli ekki geta verið hér sjálfur til andsvara. Hæstv. ráðh. leyfði sér að fara afar frjálslega með sannleikann, en á ákaflega penan hátt, eins og sagt er á góðu máli, enda af skáldum kominn. En ég vil segja það varðandi þau ummæli hæstv. ráðh., að álverið í Eyjafirði hafi verið einhver póstur Magnúsar Kjartanssonar hér í embætti, að þá er það algjörlega rangt því að Magnúsi Kjartanssyni hefði aldrei dottið í hug að semja um slíka verksmiðju.

Hæstv. ráðh. fjallaði einnig um það í sinni ræðu að samningar við útlendinga af þessu tagi væru okkar hagur, kastaði fram þeirri spurningu að við þyrftum að rannsaka það vel hvort slíkir samningar væru okkur til hagsbóta eða ekki, en nefndi það sérstaklega að gjaldeyrislega kæmum við mjög vel út úr þessum viðskiptum. Mér þykir afar einkennilegt að komast að þessari niðurstöðu með tilliti til þess ef litið er á samninginn um álverið í Straumsvík, þar sem ljóst er að við þurfum að greiða með raforkuverðinu og auk þess höfum við þurft að greiða ótaldar milljónir dollara í neikvæðan skatt til fyrirtækisins. Sá gjaldeyrir, sem við fáum út úr fyrirtækinu, er þar með keyptur á allt öðru gengi en því sem skráð er, og ég fæ ekki séð að það sé okkar hagur.

Auk þess þýða þessir samningar það, að við þurfum sífellt að vera að ráðast í nýjar og nýjar virkjanir, um leið og við vanrækjum ár eftir ár uppbyggingu okkar eigin rafveitukerfis og það í stórum landshlutum sem enn eru í raforkusvelti. Þrátt fyrir það að nú sé þegar búið að taka ákvörðun um að smíða þriðju stórvirkjunina í landinu og þó þessar stóru virkjanir væru komnar upp, þá get ég ekki séð að með því verði í neinu komið í veg fyrir þann orkuskort sem hefur verið viðvarandi, ekki síst á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þessir landshlutar þurfa á orku að halda í sín stóriðjuver sem heita í daglegu máli hraðfrystihús og fiskbræðslur, og sannleikurinn er að frá þessum landshlutum kemur megnið af þeim fiski og fiskafurðum og megnið af þeim gjaldeyri sem stendur undir hinu íslenska þjóðarbúi.

Með þessari stefnu erum við sífellt að halda lengra á þeirri braut að selja óunnið hráefni, sem sagt raforku, til útlendinga og um leið að vanrækja að styðja við okkar þjóðlegu atvinnuvegi sem fram á þennan dag, og um langa framtíð eiga eftir að vera meginundirstaða íslensks atvinnulífs.

Hæstv. ráðh. gerði það að umtalsefni, að við þm. Alþb. gagnrýndum nú hver á eftir öðrum stofnun járnblendifélagsins í samvinnu við norðmenn, og öll okkar stóryrði í þessum efnum, sem hann kallar svo, séu markleysa, en það er þó ekkert annað en upplesnar staðreyndir sem hafðar eru upp úr opinberum skýrslum. Hann víkur einnig að því, að Magnús Kjartansson hafi í sinni iðnrh.-tíð staðið í samningum við þessa menn. Það er þó staðreynd að Magnús Kjartansson samdi aldrei við þessa menn, og það er aðalatriðið. Þingfl. Alþb. var alltaf á móti þessum samningum.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja meira það sem þá gerðist í sambandi við þær hugmyndir, sem upp höfðu komið og ræddar höfðu verið í þessari svokölluðu viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, en um það mætti vissulega margt segja og greinilega fleira, þó ekki væri nema til þess að upplýsa hæstv. iðnrh. um meginstaðreyndirnar á þessu sviði. Það var ekki aðeins ástæðan, sem hann segir að Magnús Kjartansson hafi gefið um í sínu bréfi, að hér væri óviss stjórnmálastaða. Það var auðvitað fyrst og fremst vegna þess að þingfl. snerist á móti þessu, og það ætti hæstv. iðnrh. að vera fullkunnugt og raunar öllum landsmönnum ljóst og það fyrir löngu, að í okkar þingfl. hafa verið frá öndverðu, frá því að þetta mál bar fyrst á góma, allra hörðustu og sterkustu og bestu baráttumenn gegn stóriðjustefnunni. Það fer ekkert á milli mála og ætti alls ekki að geta vafist fyrir hæstv. ráðh., jafnvel þó að hann vilji líta á þetta mál og þessa forsögu í gegnum þau sérkennilegu gleraugu sem gefa honum alveg nákvæmlega öfugar niðurstöður ef ætlast er til að sannleikurinn komi upp.

Ég vil samt sem áður, þó ég vilji ekki gera þetta að sérstöku umtalsefni, nefna eitt enn máli mínu til stuðnings, og það er sú staðreynd að landsfundur Alþb. tók stóriðjumálin til meðferðar á þessum tíma sem hæstv. ráðh. nefnir. Þar var mörkuð alveg skýr stefna sem síðan var gefin út og stóð öllum landsmönnum opið að lesa. Frá þessu var greint í öllum helstu fjölmiðlum landsins þegar samþykktin var gerð, og hún var í þá veru að snúast gegn stóriðjustefnunni. Að vera núna í trausti þess, að menn séu búnir að gleyma þessum staðreyndum, að velta sér upp úr því að Magnús Kjartansson og þingfl. Alþb. og okkar flokkur hafi verið æstir í stóriðju á þessum tíma, það eru hinar mestu rangfærslur og slíkur málflutningur sæmir ekki að mínum dómi hæstv. iðnrh. (Gripið fram í.) Ég veit allt um þetta mál. Eins og ég sagði áðan, þá ætla ég ekki að eyða öllum mínum ræðutíma, sem verður líklega ekki mjög langur, í það að ræða um þetta. En ég hygg að það, sem ég hef nú þegar sagt í þessum efnum sé og eigi að vera nægjanlegt fyrir hæstv. ráðh. til þess að reyna ekki að vekja upp drauga sem endanlega höfðu verið kveðnir niður af þeim stofnunum í okkar flokki sem ráðin hafa.

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég ákvað að taka þátt í þessum umr., var ekki síst sú að ég var hérna kallaður íhaldsmaður. Nú er það svo að það má leggja ýmsar merkingar í orðið íhaldsmaður, og ég vil leyfa mér að halda því fram að sumar þeirra séu góðar. Í vissum efnum er nauðsynlegt að sýna ákveðna íhaldssemi. Það er öllum ljóst, sem eru komnir á miðjan aldur eins og ég, að ekki þýðir ævinlega að hlaupa eftir hvers kyns nýbreytni sem í boði er. Þvert á móti er nauðsynlegt að reyna að staldra við og koma í veg fyrir eyðileggingu gamalla og nýrra verðmæta í þessu þjóðfélagi. Það er einnig vegna þess að þegar slík mál eru á dagskrá eins og hér um ræðir, þá neyðast þeir til þess, sem að jafnaði eru ekki íhaldssamir, að reyna að gera sér grein fyrir því, hverjar afleiðingar það geti haft fyrir þjóðina, fyrir félagslega röskun, fyrir verndun náttúruverðmæta, og fyrir margra hluta sakir að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slík skref geta haft. Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði sem sé að við værum íhaldsmenn, alþb.-menn, vegna þess að við vildum ekki álverksmiðjur. Alþfl. hefur nú um alllangt skeið legið undir því ámæli að hafa nálgast íhaldsflokkinn okkar raunverulega, Sjálfstfl., meir og meir og stefnt sífellt meir í íhaldsátt, og kannske eru þessi orð hv. þm. Benedikts Gröndals, formanns hins litla Alþfl., ein lítil. en þó misheppnuð tilraun til þess að koma íhaldsnafninu yfir á aðra. (Gripið fram í. )

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka það sem ég sagði meðan hæstv. ráðh. var frammi, en hann hefur greinilega misst af því þegar ég sagði að þetta orð, íhaldssemi, mætti skilja á ýmsa vegu og ég vildi gjarnan teljast íhaldsmaður í vissum skilningi a. m. k. En ég á við Sjálfstfl. þegar ég segi að hv. þm. Benedikt Gröndal sé að nálgast íhaldið. Það var það sem ég var að segja nú. En það vill nú svo til að hv. þm. Alþfl. hafa rifið sig mest á þessu þingi, sem nú stendur yfir, út af alls kyns málum og komið þar með meira og minna órökstuddar fullyrðingar sem þeir naga sig nú í handabökin sjálfsagt fyrir að hafa látið renna fram af sínum munni og þarf ekki að rekja það nánar, T. d. hafa þeir ráðist heiftarlega á allt sem viðkemur Kröfluvirkjun, og ætla ég ekki heldur að eyða tíma í að fara að ræða um það mál. En sannleikurinn er sá, að þeir hafa tekið þátt í hneyksli, sem er mörgum sinnum verra en svokallað Kröfluhneyksli, eins og þeir alþfl.-menn nefna það, jafnvel þó að það væri allt satt og rétt sem þeir segja, sem er auðvitað ekki. Þeir hafa nefnilega tekið þátt í því að gera samninginn við Alusuisse um álverið í Straumsvík, og sá samningur er með þeim endemum, svo sem alþjóð má nú vera ljóst orðið, að nánast engu tali tekur. Við höfum þurft að greiða niður raforkuverðið fyrir Alusuisse, og það er staðreynd að verð til neytenda hefur sjöfaldast á meðan verð til álversins hefur aðeins tvöfaldast. Við höfum sem sagt þurft að velta yfir á raforkuneytendur í landinu því sem við höfum tapað í raforkusölu til álversins. Þessar upphæðir eru talsvert á annað þús. millj. kr. — þessar upphæðir einar. Er það íhaldssemi að berjast gegn slíkum samningum? Er það virkilega íhaldssemi í hugum alþfl-manna þegar við viljum ekki endurtaka aðra eins dómadagsvitleysu og þarna er um að ræða?

Í samningnum við Alusuisse var um það samið að þeir greiddu framleiðslugjald svokallað á hvert tonn af áli. Þó skyldi það aldrei fara hærra en svo að það næmi meiru en 55% af nettótekjum fyrirtækisins. En þannig er þetta mál vaxið að þeir Alusuisse-menn geta alveg ráðið því sjálfir og hafa það í hendi sinni hver verður nettóhagnaður hjá þessu fyrirtæki hér á Íslandi. Þegar deilan stóð um þetta á sínum tíma 1974, þegar myndast hafði neikvæður skattur upp á 4.4 millj. dollara, um 550 millj. kr., þá var hlutlausu bresku fyrirtæki, endurskoðunarfyrirtæki, falið af ríkisstj. að fara yfir reikninga Alusuisse. Þeir gerðu það auðvitað sómasamlega, tæknimenn í þessum efnum og hlutlausir, eins og ég sagði áðan. Það er óþarfi að segja frá því öllu sem þar kom fram, en ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp örfá orð úr ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar sem hann flutti í hv. Ed. 31. mars 1976. Hann segir svo:

„Ítarleg endurskoðun fór fram á reikningum þess (ÍSALs). Endurskoðun framkvæmdi breskt endurskoðunarfyrirtæki. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar varð sú, að fyrirtækið taldi að ýmislegt mætti finna athugunarvert við reikningsuppgjör ÍSALs og þá fyrst og fremst að þar væri ekki þess gætt að viðskipti við móður- og dótturfyrirtæki færu þannig fram að gætu talist á milli óskyldra aðila, en sú grundvallarstefna er mörkuð í upphaflegum samningi við ÍSAL. Einkum taldi endurskoðunarfyrirtækið vafasama þá verðlagningu sem fram kemur á súráli til ÍSALs. Þar er um að ræða kaup frá öðru dótturfyrirtæki Suisse Aluminium og verðlagningin að sjálfsögðu þar algjörlega á valdi Suisse Aluminium. Engu að síður kom í ljós að ekki var unnt að lækka þessa inneign fyrirtækisins að neinu ráði, þannig að 1. okt. 1975 mun ÍSAL hafa átt innistæðu hjá íslenska ríkinu sem nam 4.4 millj. dollara.“

Það er sem sagt niðurstaða þessa hlutlausa breska endurskoðunarfyrirtækis að Suisse Aluminium geti haft nákvæmlega í hendi sér hver verður nettóhagnaður fyrirtækisins hér á landi. Það getur haft þennan hagnað svo lítinn að við fáum afar takmarkað af framleiðslugjaldinu. Hins vegar hefur nú orðið nokkur breyting á þessu í nýjum samningi við Alusuisse, en þannig var hinn upphaflegi samningur sem nú er verið að fordæma og hefur alltaf verið gert af okkar hálfu, jafnvel þó hv. þm. og núv. hæstv. ráðh. Sjálfstfl. hafi látið blekkjast af útreikningum misviturra manna sem þrátt fyrir þessa reikningsvitleysu eru sí og æ notaðir til sama verkefnisins.

Neikvæð skattgreiðsla Suísse Aluminium nam í októberbyrjun 1975 aðeins 4.4 millj. dollara. En vegna afkomunnar — hinnar lélegu afkomu á árinu 1975 og fyrri hluta árs 1976, og eins og ég sagði áðan var það niðurstaða breska fyrirtækisins að þeir geti skammtað sér þessa afkomu og það er þeirra hagur að hafa sem minnst út úr þessu, en sem mest út úr súrálinu, skattainneignin neikvæða stækkar alltaf og stækkar, — þá var áætlað að í lok ársins 1975 yrði inneignin 8–9 millj. dollara. En menn skyldu athuga það, að á þessum tíma höfðu hinar nýju reglur tekið gildi, þannig að það var sífellt verið að borga þetta niður. Það er því ekki óeðlilegt að það sé réttari tala, þegar það er frá dregið, sem fram kemur í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. frá 9. febr. árið 1976. En þar segir hann á einum stað orðrétt, ég leyfi mér að lesa það hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar um er að ræða 5 ára tímabil er greiðsla samkv. núgildandi samningum vegna orkusölu 14.1 millj. dollarar, skattgreiðslur 10.6 millj. dollarar, skattinneign 12 millj. dollarar.“

12 millj. dollarar eru 2 300 millj. ísl. kr., og ef ég man nokkurn veginn rétt, þá mun þetta vera ekki langt innan við helming af öllum tekjuskatti, sem þjóðin greiddi í ríkissjóð 1975. Þó að sú tala væri ekki alveg rétt, þá vegur þetta örugglega á milli þess að vera þriðjungur og helmingur þess tekjuskatts, sem þjóðin borgaði. Nú er haft sérstakt lag á því að greiða þessa skuld, það er rétt. En ef hún væri ekki til, þá færu þessir peningar í ríkissjóð, þannig að það má segja að íslenskir skattborgarar láti þriðjunginn af tekjuskatti sínum á þessu ári renna til fyrirtækisins Suisse Aluminium. Það er ekki nóg að við borgum fyrir þá rafmagnið — við borgum á annan milljarð fyrir það — heldur er það upphæð á þriðja milljarð kr. sem við greiðum þeim í skatt, sem svo sannarlega síst skyldi, vegna þess að þetta fyrirtæki hefur ekki verið skattpínt hér á Íslandi. Mér þætti gaman að sjá framan í þann mann sem héldi því fram. Þeir fengu allar sínar vörur og allan efnivið og útbúnað fluttan til landsins án þess að borga nokkurn toll, og þar gilda yfirleitt allt aðrar reglur en gagnvart íslensku fyrirtæki. Ofan á þetta þurfum við að greiða þeim fyrir raforku og fyrir skattgreiðslu hátt á 4. þús. milljóna.

Ég hef ekki valið tilvitnanir hér af neinu handahófi. Ég leitaði eftir þeim hjá formönnum iðnn. í báðum hv. d. þingsins, merkum og gamalreyndum þm. Þau orð, sem ég hef lesið, eru eftir Steingrími Hermannssyni, hv. þm., og hv. 1. þm. Suðurl., og ég hygg að þau verði ekki hrakin. Kannske vill hæstv. ráðh. gera það.

Hv. þm. Benedikt Gröndal vill kannske kalla það íhaldssemi af okkur alþb.-mönnum að taka ekki þátt í slíkri vitleysu. Við erum kannske íhaldsmenn í augum þessa sósíaldemókrata fyrir að vilja ekki taka út úr höndum þjóðarinnar talsvert á 4. þús. millj. í þetta gímald fyrir ekki neitt. Það er ekki svo að við séum að fá neitt í staðinn. Ef þetta er að vera íhaldssamur, þá vil ég vera íhaldssamur.

Herra forseti. Svo sannarlega mætti ræða miklu lengur alla þessa hluti, hvernig samninginn við álverið bar að, hvernig hann var gerður, hvernig hann var útlits og hvernig hann hefur verkað. En satt að segja hefur það verið gert hér áður svo rækilega og röggsamlega að ég sé ekki ástæðu til að gera nú enn á ný. Hins vegar er þetta aðeins 1. umr. og þar af leiðandi tvær eftir í þessari deild, og getur þá verið tækifæri til þess að láta menn finna fyrir stórskotahríð réttlætisins í þessum efnum. Verður það ekki mikið tilhlökkunarefni fyrir hæstv. núv. iðnrh. að verjast því og síst með tilliti til þess að hann þarf nú að fara að hrekja orð hv. þm. Ingólfs Jónssonar. Ég hef ekki staðið í því í mínu kjördæmi að fara að veitast mikið að svo gömlum og reyndum höfuðsmanni úr þeirri sveit. Kannske verður hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen fyrri til. Og ekki hygg ég að samkomulagið á hæstv. stjórnarheimili kunni að batna að mun ef hæstv. ráðh. ætlar að leyfa sér að fara að taka hv. þm. Steingrím Hermannsson á hné sér fyrir að hafa látið hafa þetta eftir sér.

Nú hefur hins vegar komið geysilegur fjörkippur í stóriðju á Íslandi og við höfum margir orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá heilmikið prógram sem gert hefur verið um áframhaldandi stórkostlegar stóriðjuframkvæmdir á Íslandi, í áföngum að vísu. Fyrsta áfanga er nú þegar lokið, þ.e.a.s. það er búið að ákveða að stækka um 10 þús. tonn álverið í Straumsvik. Hæstv. iðnrh. fer nú um miðjan mánuðinn til Zürich eða eitthvað annað suður eftir til að ræða við Suisse Aluminium um enn frekari stækkun á verksmiðjunni í Straumsvík, kannske 40 þús. tonna stækkun, þ. e. a. s. bæta einum nýjum kerskála við. Þetta atriði er líka á áætluninni sem þeir Alusuisse-menn hafa gert. Mér býður í grun að hæstv. iðnrh. sé nú ekki að gera sér sérstaka ferð til þess að ræða við þá um það mál erlendis sem auðvitað hefur oft verið rætt, það vitum við. Það hafa verið haldnir stöðugir fundir um þetta efni í mörg ár. (Gripið fram í: Mörg ár?) Alveg stöðugir fundir. (Gripið fram í: Hvað mörg ár?) Alllangan tíma. Það vill svo til að þetta plagg hefur ekki legið alveg í þagnargildi eða innihald þessa plaggs. Við vitum hvað þar stendur og við vitum hverju við eigum von á ef haldið verður áfram að stefna í stóriðjuátt.

Það er sem sagt fyrsta stækkun í Straumsvík. Á fundinum um miðjan mánuðinn verður rætt um stóru stækkunina í Straumsvík. Og nú í dag erum við að ræða um stóriðjuna á Grundartanga. Það er ekki aðeins þetta sem hefur verið á dagskrá að undanförnu.

Einn daginn kvað einn ágætur bóndi norður í Eyjafirði upp úr um það, að það var búið að teikna verksmiðju á hlaðið hjá honum, álverksmiðju. Það var ekki aðeins verið að ræða það lauslega hvað þar væri í bígerð. Það var búið að teikna verksmiðjuna.

Það kom að því að eyfirðingar neituðu þessu alveg, þeir vildu alls ekki sjá fyrirtækið. En hæstv. iðnrh. hafði gert ráð fyrir að menn yrðu bara býsna ánægðir með þetta, og hann hefur kannske verið búinn að gefa Norsk Hydro eitthvert vilyrði fyrir því að fá að reisa þarna verksmiðju, því það er vitað mál að Norsk Hydro hefur gefið út skýrslu um athugun á möguleika á verksmiðju í Eyjafirði, um mögulega álverksmiðju á Húsavík og um mögulega álverksmiðju á Reyðarfirði. En þarna kom allt í einu babb í bátinn, að eyfirðingar afpöntuðu fyrirtækið. Nokkrir — fáir samt — forustumenn á svæðinu voru samt með þessu og eru enn.

Þetta var auðvitað áfall fyrir hæstv. ráðh. og stóriðjudrauma hans, að svo skyldi fara að eyfirðingar væru svona voðalega lítið hrifnir af verksmiðjunni. Og hvað var þá til ráða? Þá vantaði pantanir annars staðar að af landinu.

Það varð að fá einhverja landsmenn til þess að biðja um álverksmiðju. Og eins og segir í gömlu máltæki: Þegar neyðin er stærst, þá er hjálpin næst.

Upp úr þessum ógnarlegu vandræðum birtist einn virðulegur öldungur hér í höfuðborginni, Sveinbjörn í Ofnasmiðjunni, sem kallaður er, og hann lýsti miklum áhuga á vaxandi stóriðju á Íslandi og sagðist ekki vilja kalla sig Sveinbjörn Jónsson lengur, heldur nefndi hann sig „vin norðmanna“ þar sem hann fór. Þessi „vinur norðmanna“ hafði að hætti konunga með sér hirðfífl nokkurt sem ég hafði þá ánægju að berjast á móti í kosningum í Suðurlandi fyrir síðustu kosningar og einn af fyrrv. þm. einmitt krata hér á hv. Alþ. Nú tók þessi umtalaði „vinur norðmanna“ á rás með þennan aðstoðarmann sinn með sér og hafði samband við stjórn sveitarfélaganna á Suðurlandi og þeir gerðu mikla reisu um Suðurland, enda hafði þá „vinur norðmanna“ og kannske einhverjir aðstandendur hans reynt að leggja niður fyrir sér dæmin, hvar væri líklegast að koma, hvar væru mestar líkur á að menn færu að velta þessu fyrir sér eða jafnvel yrðu svo fljótir að gleypa beituna hráa og það strax. Þeir hugsuðu sér: Hvar er nú minnst um atvinnu. En einhvers staðar, þar sem atvinna er að minnka, vandræðaástand? Getur það verið að það sé til staður þar sem hlutaðeigandi menn hafi eitthvert forgangsáhugamál, alveg sama hvað það kostar, sem unnt væri að nota sem beitu? Og það skaðaði ekki heldur að reyna að finna eins og einn þm. úr Framsfl. til þess að standa með sér í þessu, til þess að aðstoða við að ýta á starthnappinn, því að Framsfl. hafði tekið nokkuð aðra afstöðu í þessum efnum í fyrri ríkisstj.

Þeir hugsuðu sig um góða stund, öldungurinn og aðstandendur hans, og komust að þeirri niðurstöðu að líklegast væri að bera niður í Skaftafellssýslu, og þá var Vík í Mýrdal auðvitað staðurinn. Þar flutti hinn virðulegi öldungur þau boð, að hann vissi um það, skilst mér að það hafi verið orðað, að Norsk Hydro hefði áhuga á því að gera höfn í Dyrhólaey í því skyni að geta komið þar upp aðstöðu fyrir álverksmiðju.

Það gefur auga leið og þarf ekkert að skýra það mjög náið, að þetta var auðvitað allt saman tóm blekking, gerð í ákveðnum tilgangi, eins og ég sagði áðan, til þess að framkalla pantanir annars staðar af landinu, ósköp einfaldlega. Ef flett er upp í skýrslu Norsk Hydro, þá höfðu þeir sjálfir komist að þeirri niðurstöðu að eini staðurinn af þeim þrem sem ég nefndi áðan: Akureyri, Húsavík og Reyðarfirði, sem til greina kæmi, þar sem ekki yrði um mjög mikla félagslega röskun að ræða, þar væri nægilegur fólksfjöldi, að vísu yrði félagsleg röskun mikil vegna þess, hvernig atvinnuástandið og atvinnuvegirnir eru þar á staðnum, og kannske einnig vegna þess, að það er sett í miðju blómlegu landbúnaðarhéraði, en þó völdu þeir samt Akureyri nr. eitt.

Um Reyðarfjörð var það að segja, að þó þeir vissu það auðvitað og sæju strax að Reyðarfjörður hefur sem sagt tilbúna höfn fyrir hvað stór skip sem er, djúpur, langur, kyrr fjörður þar sem hægt er að setja bryggjukant hvar sem er næstum því undir fjallshlíðinni, þannig að hafnarframkvæmdir þar kosta ekki neitt, a. m. k. ef miðað er við þær upphæðir sem þar er yfirleitt um að ræða. En þeir höfnuðu þessu algjörlega eða svo gott sem. Þeir höfðu það að vísu nr. tvö, en höfðu alla fyrirvara á samkv. eigin reynslu í Noregi og samkv. þeirri stefnu sem þeir höfðu tekið upp þar og höfðu orðið fyrir biturri reynslu af, að flytja stóriðjuver til Norður-Noregs þar sem um fátt fólk var að ræða og þeir höfðu gjörsamlega sett byggðarlög um koll eyðilagt þar allt eðlilegt líf sem fyrir hafði verið. Þeir höfnuðu Reyðarfirði vegna þess að þar væri allt of fátt fólk — og ekki aðeins fátt fólk á Reyðarfirði, heldur tóku þeir líka með og lögðu saman fólksfjöldann á Reyðarfirði, nálægum fjörðum og á Egilsstöðum með. Samt þótti þeim útilokað að koma með slíka verksmiðju, 100 þús. tonna álverksmiðju á þann stað.

Það skyldi maður ætla að Húsavík væri næst, en sú varð raunin og norðmenn höfnuðu líka Húsavík. Þeir bentu einnig þar á alvarlega félagslega röskun, en þeir bentu fyrst og fremst á að þar væri ekki nægileg hafnaraðstaða.

Svo kemur maður til þeirra í Vík í Mýrdal og segir að Norsk Hydro hafi áhuga á að gera höfn við Vík í Mýrdal til þess að koma upp álverksmiðju. Það má vera meira en lítið blindur maður sem sér ekki strax að þetta er hrein blekking, þetta er bara bragð, því höfn í Vík í Mýrdal kostar ekki aðeins milljarð, heldur tugi milljarða. Það er áætlað að höfn í Vík í Mýrdal fyrir skip að stærð 40–60 þús. tonn, sem notuð eru, kosti a. m. k. 10–12 þús. millj. Hafnargarður á Húsavík, sem hefði getað tekið við þessum skipum, vestur í flóann hefði kostað kannske nokkur hundruð millj. kr. En Húsavík var hafnað. Dettur þá nokkrum í hug að þeir hafi ætlað sér að fara að gera höfn í Vík í Mýrdal fyrir 10–12 þús. millj. kr.? Auðvitað var augljóst hverjum manni að það gat ekki átt sér stað.

En nokkrir forustumenn þar eystra létu blekkjast. Þeir voru teknir með trompi. Þetta gekk yfir með mikilli sveiflu og þeir létu blekkjast. Það var auðvitað fyrst og fremst þeirra draumur um að fá þarna höfn sem vafðist fyrir þeim. Það var þessi aldagamli draumur um höfn í Vík í Mýrdal sem sló ryki í augu þessara manna og sumir létu hafa sig að ginningarfíflum.

Það er ekki ný hugmynd, höfn við Dyrhólaey, hún er 250 ára gömul sú elsta, en á annað hundrað ár hafa menn alltaf verið að halda því fram að þarna þyrfti að koma höfn fyrst suðurströndin var til skamms tíma hafnlaus.

Sama er að segja um ferðalag þessara manna, öldungsins og hirðfíflsins með fylgdarliði, í Þykkvabæ og á Þorlákshöfn. En það var aðeins eitt sem þeir pössuðu sig á — kannske tvennt: Í fyrsta lagi að láta ekki nokkurn mann vita af þessu nema bara þá sem til fundar voru kvaddir. Það mátti undir engum kringumstæðum bera þetta undir fólkið. Og ekki nóg með það, þær samþykktir, sem þar eystra voru gerðar, t. d. í Þorlákshöfn, svo að við förum ekki lengra, voru afbakaðar á leiðinni frá Þorlákshöfn til Reykjavikur svo að þar var um hreinar rangfærslur að ræða. Það var sagt að allir hefðu verið sammála um að láta athuga um álverið og helst að fá álver. En það kom þó greinilega í ljós að einn hreppsnefndarmanna, Hrafnkell bóndi á Hrauni í Ölfusi, hafði lagst á móti málinu af fullum þunga og vildi hvorki sjá né heyra og þaðan af síður kanna. En ólánið skeði, þeir létu blekkjast af þessari tálbeitu, sem var fals, og tilganginum var náð, sem heyrðist fljótt í fréttum, það kom hver álverksmiðjupöntunin á fætur annarri frá þröngum hópi manna á hverjum stað.

En von hæstv. ráðh. og sjálfsagt „vinar norðmanna“, öldungsins hér í bænum, rættist. Þeir vöktu upp aftur álverksmiðjuhugmyndir norðlendinga, ekki aðeins á Melrakkasléttu, heldur fóru nú álpostularnir að taka við sér í Eyjafirði líka. Til þess var líka leikurinn allur gerður. Það er illa gert að beita svona bragði og misnota vonir manna um bætta aðstöðu, meiri atvinnu og höfn í því skyni að koma hér allsherjar álvæðingu af stað.

Um þetta mál mætti auðvitað segja margt fleira, en ég tel ekki ástæðu til að fjalla lengur um það atriði, en vik nú örfáum orðum að þeirri verksmiðju, annarri stórverksmiðjunni af þessu tagi hér á Íslandi, þeirri sem nú er til umr.

Þó að ég hafi sagt áðan að ekki væri ástæða til þess að minnast mikið á raforkuverð, þá held ég að það sé rétt að nefna hér örfáar staðreyndir. Við vitum að lægsta verð af þessu tagi er 6.6 norskir aurar í Noregi, þ. e. a. s. 2.36 kr., en hér á sem sagt að selja orkuna til Grundartangaverksmiðjunnar á 91/2 millj., þ. e. a. s. helminginn af orkunni. Það er forgangsorkan sem talað er um. Hinn helmingurinn af orkunni er kallaður afgangsorka, en er það ekki vegna þess að sú „afgangsorka“ er bundin ströngum skilyrðum þegar tekið er tillit til þess hvað verksmiðjan á að skila í afköstum á árinu. Hér er einnig um orku að ræða sem gæti verið óhætt að nefna forgangsorku. Þó skal ég viðurkenna að þarna er ekki um nákvæmlega sams konar forgangsorku að ræða og hina, því að þarna má rjúfa strauminn á vissum tímum, en þó ekki meira en svo að það þarf að skila til verksmiðjunnar á ári hverju nokkurn veginn sem samsvarar fullri keyrslu á báðum ofnunum. Ef notuð væri regla norðmanna að hafa skilyrta forgangsorku reiknaða með 75% af forgangsorkuverði, þá ætti verðið hér ekki að vera 0.5 fyrir afgangsorkuna, heldur miklu meira, ef við fengjum sama verð hér og fæst í Noregi. Verðið á forgangsorkunni er þar 0.62 aurar, og verðið á afgangsorkunni, miðað við þær útreikningsreglur sem ég nefndi áðan, 4.95 aurar norskir, og meðaltalið af þessu er 5.8 aurar norskir. En við ætlum að selja þetta á 31/2 eyri.

Afgangsorkan fyrstu tvö árin er aðeins 0.5 millj., þ. e. a. s. hálfur þúsundasti hluti úr dollar. Það er ekki stór upphæð. Þeir eiga að fá helminginn af raforkunni í tvö ár á 10 aura kw. Þetta stendur í samningnum. Ef menn trúa því ekki, þá skulu þeir bara skoða það sjálfir. Þeir eiga að fá helminginn af orkunni fyrir þessa stóriðju á 10 aura, meðan íslendingar borga — ja, ég veit ekki hvað mikið núna, 12 kr. á kw. M. ö. o.: íslenskir notendur, að vísu t smásölu, ég skal taka það fram greiða meira en 120 sinnum hærra verð heldur en norðmenn fyrir þessa orku. Þar sem þessi forgangsorka og svokallaða afgangsorka, sem er forgangsorka að langmestu leyti, er seld á annars vegar 9.5 millj. og hins vegar 0.5 millj., þá er meðaltalið innan við 5 millj. í raun. Mér skilst að með þeirri breytingu, sem gerð var á samningnum, sé verðið nokkru hærra fyrst í stað, þ. e. a. s. nálægt 6 millj., en heildarorkuverðið allan samningstímann á að vera það sama og var í gamla samningnum við Union Carbide og á þar að standa.

Það, sem ég hef nú verið að segja hérna, hefur að vísu verið úr ýmsum áttum. Það er í fyrsta lagi um það, hvernig álsamningurinn var, hvaða áhrif hann hefði. Hann kostar okkur við að greiða niður raforkuna á 2. þús. millj., hann kostar okkur í skattgreiðslu til álfélagsins talsvert á 3. milljarð kr., eða samtals tæplega 4000 millj. kr. Ég greindi svolítið frá þeirri blekkingaraðferð sem öldungurinn var sendur í hér á Suðurlandi og er til mikillar skammar. Eins reyndi ég að gera ofurlitla grein fyrir því hversu hraksmánarlega er samið um orkuverð við þessa verksmiðju. Sá sem hefur talið, að þetta verð væri gott, hvort sem hann hefur talið það fyrr eða síðar, hefur ekki viljað sjá hinar raunverulegu staðreyndir, því að staðreyndin er sú, að helmingur orkunnar er seldur á 10 aura íslenska kw. núna fyrst um sinn, a. m. k. fyrstu tvö árin.