10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Sigurður Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég hélt nokkuð langa ræðu í dag undir þessum umr. og hafði ekki í hyggju að bæta við það nú við þessa 1. umr. málsins. En ég sé mig til knúinn að gera stutta aths. eftir þau ummæli sem hæstv. iðnrh. hefur látið sér um munn fara hér í umr. Þar á ég við þær ásakanir sem hann bar á fyrrv. iðnrh., Magnús Kjartansson.

Það er mér á vissan hátt reyndar sérstök lífsreynsla að þurfa að standa hér upp á Alþ. og verja Magnús Kjartansson og hrekja þau ósannindi sem höfð eru um störf hans sem iðnrh. hér á hv. þingi. Ég hygg að Alþ. viti það og allir þm., að Magnús Kjartansson hefur bæði fyrr og síðar verið einn harðasti talsmaður gegn allri erlendri stóriðju á Íslandi, og okkur ætti að vera öllum vel í minni hversu hatrammlega hann barðist gegn áformum víðreisnarstjórnarinnar um áliðnað á Íslandi. Ég hygg að enginn þm. hafi lagt þar stærri hlut af mörkum, bæði í ræðustól hér á Alþ. og í blaðaskrifum á meðan hann var ritstjóri Þjóðviljans. Þetta veit Gunnar Thoroddsen eins vel og ég. Magnús Kjartansson var á þessum árum hundeltur í blöðum íhaldsins og af talsmönnum þess hér á Alþ. fyrir þá stefnu, sem hann boðaði, og fyrir andstöðu sína gegn erlendri stóriðju. Þetta veit Gunnar Thoroddsen líka mætavel. Enda stendur sú staðhæfing mín óhögguð, að þær viðræður, sem Magnús Kjartansson stóð að eða veitti n. um orkufrekan iðnað leyfi til að fara út í við erlenda aðila, voru könnunarviðræður til að kanna um hvaða möguleika væri að ræða fyrir okkur íslendinga í þessum efnum. Þær viðræður fóru fram með allt öðrum hætti en áður hafði átt sér stað við erlenda aðila. Þar var í fyrsta skipti slíkri viðræðunefnd sett það skilyrði að íslenska ríkið þyrfti að eiga meiri hluta í slíkum fyrirtækjum þar sem erlendir aðilar kæmu sem mótaðilar, og fleiri skilyrði voru sett sem ég gat um í fyrri ræðu minni. Þetta var nýtt í umræðum um samskipti við erlenda aðila um atvinnurekstur á Íslandi og skiptir vitaskuld miklu máli.

Það er líka staðreynd, sem stendur óhögguð, að Magnús Kjartansson lagði þetta mál aldrei fyrir Alþ. vegna þess að það voru komin upp ný viðhorf í orkumálum þjóðarinnar og því ekki talin ástæða til að skoða þennan möguleika frekar. Í þessu sambandi getum við skoðað ýmis ummæli sem ráðh. lét hafa eftir sér hér á þingi um þetta mál. Hins vegar reynir Gunnar Thoroddsen nú jafnvel að gera því skóna að Magnús Kjartansson hafi haft í hyggju erlenda stóriðju á Norður- og Austurlandi. Slíkt er alger fásinna. Þegar Magnús Kjartansson svarar þm. hér um það, að hann telji ekki óeðlilegt að það komi upp stóriðnaður á Norður- og Austurlandi, sem hann vissulega gerði, þá var aldrei nefndur erlendur stóriðnaður í því sambandi. Ég hef undirstrikað það hér í máli mínu áður og ýmsir talsmenn Alþb., að ýmis stóriðnaður getur átt sér stað hér í landinu sem vinnur úr íslenskum hráefnum, og hann getur vitaskuld verið á Norðurlandi og Austurlandi ekki síður en hér sunnanlands.

En þetta er ekki ný aðferð misviturra stjórnmálamanna, að reyna að bregða fyrir sig lyginni og ósannindunum þegar ekkert annað gefst. Þetta er þekkt í stjórnmálasögunni og er einmitt eitt af því sem hefur oft og tíðum fjarlægt stjórnmálamenn fólkinu sem þeir eru þó umbjóðendur fyrir. Það hefur t. d. verið reynt að koma að svipuðum ósannindum í sambandi við afstöðu Alþb. og þm. og ráðh. þess til útfærslu fiskveiðilandhelgi okkar. Það hefur verið reynt að halda því fram að Alþb. hafi verið andsnúið útfærslunni í 200 mílur. Og þessu hafa þeir haldið helst fram sem börðust hatrammlega gegn útfærslunni í 50 mílur sem Alþb. hafði forgöngu um. Og þetta hefur íhaldið á Íslandi sagt og reynt að telja fólki trú um þótt það viti manna best, að Alþb. og sósíalistar á Íslandi hafa verið fremstir í flokki alla tíð að verja hagsmuni íslendinga í landhelgismálinu og verið fremstir í flokki að vernda fiskimiðin í kringum landið.

En það hefur verið með þennan áróður að hann hefur misst marks. Fólkið í landinu veit hvað er satt í þessum efnum, og fólkið í landinu veit líka hver hefur verið afstaða Magnúsar Kjartanssonar til erlendrar stóriðju á Íslandi. Það þýðir ekki að ljúga því að þjóðinni að hann hafi og vilji hafa forgöngu um slíkan rekstur á Íslandi. Allar slíkar ásakanir munu missa marks.

Annars verð ég að segja það hér, úr því að ég er kominn upp í ræðustól, að mér fannst innlegg ráðh. í þessar umr. vera skelfilega smátt og ekki margt markvert, sem þar kom fram, eða nýtt. Þó vil ég vekja athygli á einu sem kom fram í máli hans, og það er full ástæða til þess að þm. veiti því eftirtekt. Ef ég hef skilið orð hans rétt, þá tók hann undir þau orð mín og þær spár sem ég hafði í frammi um þær staðreyndir, sem eru í orkumálum okkar, að miklar líkur væru á orkuskorti jafnvel 1979.

Úr því að ráðh. fellst á þessi orð mín, — ég gat ekki skilið hann öðruvísi, — þá vil ég spyrja hann: Hvernig ætlar hann að leysa raforkumál landsins þar til Hrauneyjafossvirkjun kemur til framkvæmda 1982, t. d. ef það gerðist sem ég gaf í skyn í ræðu minni, að það væri alls ekki víst að orkan frá Kröfluvirkjun kæmi inn að fullu eins og ráð var fyrir gert? Ég vildi gjarnan spyrja ráðh.: Ætlar hann að verða við óskum vestfirðinga og koma stofnlínu úr Hrútafirði til Mjólkárvirkjunar til þess að leysa orkuvandana á Vestfjörðum? Ætlar ráðh. að verða við þessum óskum vestfirðinga? Ef hann ætlar að verða við þessum óskum vestfirðinga, þá getur hann ekki gert þann orkusölusamning sem hann vill nú fá samþykktan hér á Alþ. um járnblendiverksmiðjuna, því að þá verður ekki til orka til að verða við þessum innlendu þörfum. Í þessum orkuspám er ekki heldur gert ráð fyrir að verulegt stórátak sé gert í uppbyggingu iðnaðar á Íslandi. Þar er gert ráð fyrir eðlilegri þróun miðað við mannaflaaukningu í landinu, en ekki neinu verulegu stórátaki. Þessi orkusölusamningur, þessi samningur og þetta frv. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði þýðir því hiklaust að þessum áformum verður slegið á frest. Ráðh. hefur með orðum sínum hér í dag viðurkennt þetta, og hann getur ekki tekið þau orð sín til baka. Þetta er kannske mergurinn málsins, og þess vegna vil ég vekja athygli hv. Alþ. á þessari staðreynd.

Hins vegar er það, að mér sýnist að það muni ekki takast hér á Alþ. nú að koma í veg fyrir samþykkt þessa frv. og ber að harma það. Það her að harma það þegar menn geta ekki endurskoðað fyrri afstöðu sína og viðurkennt staðreyndir, — viðurkennt að þeir eru að gera rangt. En ég treysti því að í þeim kosningum, sem fara í hönd, og það kann að vera að það styttist í þær kosningar, muni þjóðin taka afstöðu í þessu máli. Og úr því að það tekst ekki að láta núv. ríkisstj. fá þá ráðningu, sem hún á skilið, hér á Alþ. í þessu máli, þá treysti ég því, að þjóðin geri það við fyrsta tækifæri og það gerist sama í næstu kosningum og gerðist í kosningunum 1971, að hin íslenska stefna, sem Alþb. berst fyrir, um innlenda hagnýtingu orku okkar verði ofan á og þeir stjórnarherrar, sem nú sitja við völd, víki úr sessi. Þá mun renna upp nýr tími á Íslandi og hagsæld í landinu.