26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

241. mál, framkvæmd skattalaga

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Þegar sú fsp., sem hér er til umr., hafði komið fram á hv. Alþ. ritaði ég ríkisskattstjóranum, sem er æðsti embættismaður skattamála í landinu, bréf og óskaði grg. hans varðandi þá fsp. sem lögð hafði verið fram. Ég taldi eðlilegt og rétt að hann sem ríkisskattstjóri gerði grein fyrir þessum atriðum, enda kunnugastur sem, eins og ég sagði áðan, æðsti embættismaður skattamálanna. Ég hef síðan fengið þá grg. og leyfi mér að lesa hana hér upp, með leyfi hæstv. forseta.

Svar ríkisskattstjóra við 1. spurningunni er já, og hann bætir við:

„Undirstaða þessa er vitanlega skattalöggjöfin og reglugerðir í sambandi við hana, svo og almennar reglur sem fram koma í leiðbeiningum við útfyllingu skattframtals og í starfsreglum og leiðbeiningum viðkomandi endurskoðun skattaframtala sem útgefnar eru ár hvert af ríkisskattstjóra. Enn fremur sendir ríkisskatt­ stjóri skattstjórum ótalinn fjölda ýmissa upplýsinga og fyrirmæla um ýmis tiltekin atriði eftir því sem ástæður eru til. Hér getur verið um að ræða ýmis túlkunaratriði eða fyrirmæli vegna lagabreytinga, reglugerðarbreytinga, dóma, úrskurða ríkisskattanefndar og ýmissa tilfallandi úrlausnarefna sem sum hver eru tengd ákveðnum fsp. skattstjóra eða annarra aðila. Enn fremur má geta þess, að ríkisskattstjóri heldur fundi með öllum skattstjórum einu sinni til tvisvar á ári.“

Sem svar við 2. fsp. segir ríkisskattstjóri: „Samkv. 1. mgr. 42. gr. skattalaga skal ríkisskattstjóri hafa eftirlit með störfum skattstjóra og gæta þess að samræmi sé í störfum þeirra og skattaákvörðunum. Hann skal setja þeim starfsreglur og verklagsreglur og kynna þeim dóma og úrskurði sem þýðingu hafa. Þessari skyldu sinni fullnægir ríkisskattstjóri með því sem að framan var getið í svari við 1. spurningu.

Öll framkvæmd við álagningu tekjuskatts og eignarskatts er í höndum skattstjóra, sbr. ákvæði 37. gr. skattalaga, og á þeirra ábyrgð. Ríkisskattstjóri hefur enga heimild til afskipta af því, hvernig hver skattstjóri um sig skipuleggur og vinnur verkefnið. Það getur því verið misjafnt milli skattstjóra hversu ítarlega farið er í einstök atriði og hve mörg og þá hvaða atriði eru afgreidd fyrir útkomu skattskrár og hver á síðara stigi úrvinnslu.

Til enn frekari áherslu á samræmingu starfa skattstjóra skulu kæruúrskurðir upp kveðnir af skattstjórum sjálfum eða af þeim starfsmönnum þeirra sem fengið hafa sérstakar heimildir ríkisskattstjóra til þessa starfs. Ljóst má vera að hundruð og jafnvel þúsundir atvika og atriða rísa upp í meðferð skattframtala sem eigi er hægt að setja um fastar og fyrir fram ákveðnar reglur. Hér er fyrst og fremst um að ræða einstaklingsbundin mats- og úrskurðaratriði. Sem dæmi má nefna ákvörðun um hvenær heimila skuli sérsköttun barns, hvort og þá hvenær tekjur giftra kvenna falli undir meðferð 2. eða 3. mgr. 3. gr. skattalaga, hvort, hvenær og að hve miklu leyti fæðishlunnindi og ýmis önnur hlunnindi eru skattskyld, mat á ýmsum atriðum í sambandi við atvinnurekstur sem rekinn er af einstaklingum og skiptum sameignarfélögum og jafnvel óskiptum, hvaða tekna- og útgjaldaliðir snerta einstaklinginn sem einkaaðila annars vegar og atvinnurekstur hans hins vegar.

Í þessum tölulið fsp. er sérstaklega vikið að samræmingu varðandi frádrátt vegna viðhalds íbúðarhúsnæðis. Eins og kunnugt er var ákvæðum 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963 breytt með reglugerð nr. 228/1971 og S55/1972 á þann veg, að viðhaldskostnaður íbúðarbúsnæðis var bundinn við ákveðinn hundraðshluta af fasteignamatsverði íbúðarhúsnæðis í stað raunverulegs viðhaldskostnaðar. Þessi heimild var fyrir hendi samkv. 2. mgr. e-liðar 15. gr. l. nr 68/1971 og hafði verið fyrir hendi a.m.k. síðan 1935, sbr. a-lið 10. gr. l. nr. 6/1935, þótt hún hafi ekki verið notuð af fjmrh. fyrr en við skattlagningu skattárið 1971. Þetta bindingarákvæði var svo afnumið með reglugerð nr. 257/1974, og breytingin kom til framkvæmda við skattlagningu skattárið 1975, þ.e. álagningarárið 1976, eða við skattlagningu á síðasta ári. Þá tóku gildi að nýju ákvæði 25. gr. reglugerðarinnar nr. 245/1963 að því er varðar frádráttarbært viðhald íbúðarhúsnæðis.

Þetta reglugerðarákvæði var ávallt erfitt í framkvæmd á árunum fyrir skattárið 1971 og varð svo að nýju við skattlagningu á s.l. ári. Hér er fyrst og fremst um að ræða ákvörðun á því hvað skuli teljast frádráttarbært sem viðhald og hvað af framlögðum kostnaði skuli teljast til endurbóta og því ekki frádráttarbært frá tekjum. Framkvæmd þessa atriðis var ítarlega rædd á skattstjórafundi í júlí 1975. Auk þess var skattstjórum sendur fjöldi úrskurða ríkisskattanefndar varðandi þetta atriði og þá fyrst og fremst þeirrar ríkisskattanefndar sem að störfum var fram til septemberloka 1972, þar eð ríkisskattanefnd sú, sem við tók 1. okt. 1972, hafði lítið fjallað um kærur vegna þessa, sbr. hvenær reglugerðarbreytingarnar voru útgefnar.

Sé lítið til ákvæða 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963 er auðsætt, að þetta atriði hefur ávallt verið og verður umdeilanlegt milli framteljenda og skattyfirvalda, þar sem hér er oft og iðulega um að ræða matsatriði á því, hvort um viðhald eða endurbætur sé að ræða.

Sem svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda ritar ríkisskattstjóri eftirfarandi:

„Skattalög og reglugerðir eru birt í Stjórnartíðindum. Auk þess hefur ávallt verið fyrir bendi sérprentun þeirra fyrir þá aðila sem þess hafa óskað. Leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtala ásamt skattmati hafa flest árin síðan 1963 verið birtar í öllum dagblöðum landsins, ýmist að fullu eða í styttra máli að ákvörðun dagblaðanna sjálfra. Sérprentun leiðbeininganna ásamt skattmati hefur verið gerð í 1500 eintökum s.l. ár og verið send öllum skattstjórum til afnota fyrir starfsmenn þeirra og umboðsmenn, löggiltum endurskoðendum og fleiri aðilum sem aðstoða við gerð skattaframtala eða álitið er að nauðsynlegt sé að hafa þær undir höndum vegna starfa síns. Í reynd hefur hver sá aðili, sem þess hefur óskað, fengið eintak af leiðbeiningunum. Sérprentun starfsreglna og leiðbeininga viðkomandi endurskoðun skattframtala hefur verið gerð í 500 eintökum s.l. ár og hefur verið dreift til flestra sömu aðila, þ.e. til skattstjóra til afnota fyrir starfsmenn þeirra, einnig til löggiltra endurskoðenda og fleiri aðila sem aðstoða við gerð skattaframtala eða álitið er að nauðsynlegt sé að hafa þær undir höndum vegna starfa síns. Enn fremur hafa þeir aðilar, sem um það hafa beðið vegna starfa síns, fengið eintök af þessum starfsreglum. Það fer eftir eðli málsins hvaða aðrar upplýsingar og fyrirmæli, sem til skattstjóra fara, hafa farið víðar, t.d. til þeirra aðila, sem við framtalsaðstoð starfa, eða t.d. til allra sveitarstjórna, sé um að ræða upplýsingar og fyrirmæli varðandi aðstöðugjöld, útsvör og nú síðast svonefnt sjúkratryggingagjald.“

Ég vonast til þess, að með þessari grg. hafi hv. þm. fengið svör við sínum fsp.