10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Það er nauðsynlegt að leiðrétta vissar missagnir hjá hv. þm.

Hann minntist á orkuspá í fyrri ræðu sinni, sem er á þá lund og ég hef áður skýrt frá opinberlega, að talið er að hér verði aflskortur 1981 ef ekki verði komin ný virkjun. Af þeirri ástæðu var ákveðið að veita virkjunarleyfi fyrir Hrauneyjafossvirkjun sem er sú eina sem er tilbúin til útboðs. Þurfti að veita það virkjunarleyfi nú til þess að hún yrði tilbúin í tæka tíð.

Hv. þm. segir að ég hafi viðurkennt að það yrði orkuskortur árið 1979. Þetta er tilbúningur einn. Orkuspáin, sem ég hef gengið út frá og virkjunarleyfið er byggt á, er um árið 1981. Mér dettur ekki í hug að fara að deila við hv. þm. frekar um viðhorf Magnúsar Kjartanssonar til stóriðju.

Ég held að þessi hv. þm. ætti að athuga betur sinn gang áður en lengra er haldið á stjórnmálabrautinni, því að það er ekki álitlegt ef hann ætlar að haga málflutningi sínum með þeim endemum sem hann gerir hér. Þó að búið sé að lesa upp og skýra frá skipun n. um orkufrekan iðnað haustið 1971, sem Magnús Kjartansson iðnrh. skipaði til þess að eiga viðræður við erlenda aðila um orkufrekan iðnað hér á landi, þá skiptir það hann engu máli. Það skiptir hann engu máli þó að fyrir liggi bréf frá Magnúsi Kjartanssyni til Union Carbide frá 21. maí 1974 þar sem hann lýsir gangi þessara mála, eftir að hann hefur unnið í þrjú ár að samningum um járnblendiverksmiðju í samlögum við Union Carbide, og lýsir yfir brennandi áhuga sínum á því máli, leiður yfir því að vegna þingflokksins hafi hann ekki getað lagt fram frv, um þetta, en vonast til að það geti orðið sem fyrst eftir að þing kemur saman að nýju. Ég er sannast sagna óvanur því, þó að ég hafi verið samtímis mörgum þm. á þingi, bæði ungum og eldri, að ungur þm. skuli leyfa sér að berja svona höfðinu við steininn og halda fram hlutum alveg þvert ofan í staðreyndir; bréf, sem liggja fyrir, og skjöl. Svo heldur hann lofræðu um Magnús Kjartansson, að hann hafi alltaf verið mesti baráttumaður gegn stóriðju, þó að þetta liggi allt saman skjallega, sannanlega fyrir, að í þrjú ár er hann að beita sór fyrir stóriðju í samlögum við erlendan aðila. Ég þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum.