11.02.1977
Sameinað þing: 50. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

107. mál, söfnun og úrvinnsla íslenskra þjóðfræða

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við þessa till. sem hér er komin fram. Mér er persónulega kunnugt um hvílíkt afbragðsverk var unnið á vegum þjóðháttadeildar s. l. sumar, þar sem unnið var fyrst og fremst að tveimur afmörkuðum verkefnum. Annars vegar var safnað upplýsingum um fráfærur á Íslandi, til þess kostað að reyna að ná tali af öllu því fólki sem mundi fráfærur, hafði starfað við fráfærur. Ég veit að mjög miklum upplýsingum var safnað með þessum hætti í sumar, einnig upplýsingum sem varða vindmyllur á Íslandi, og gæti verið fróðlegt fyrir ýmsa hv. alþm. að kynna sér þær upplýsingar sem þarna var safnað um e. t. v. höfuðandstæðing þeirra.

Ég vil undirstrika og taka undir það sem hv. frsm. sagði áðan um hættuna sem nú vofir yfir okkur á þessu sviði, raunverulega þau áföll sem við verðum fyrir daglega núna. Þeir menn eru að falla frá sem ólust upp við nokkurn veginn sömu atvinnuhætti, störf með sömu verkfærum og landnámsmenn beittu, hafa lifað þrenna tíma í atvinnuháttum: fyrst handverkfærin, árina og orfið, síðan hestverkfæri og seglið á fiskiskipunum okkar og nú síðast vélaöldina. Þessir menn, sem kunna að gefa eðlilegar orðskýringar, útskýra með hvaða hætti einstök orð, sem nú eru notuð af takmörkuðum skilningi og jafnvel skilningsleysi á uppruna, — með hvaða hætti þau spruttu upp úr starfi fólksins. En svo er um velflest orð þessarar tungu, að þau eiga sér rætur í starfi þessarar þjóðar, starfi liðinna kynslóða og stöku orð í starfi þeirrar kynslóðar sem nú er uppi og í fullu fjöri.

Ég leyfi mér að rifja upp í þessu sambandi fyrir hv. alþm. sögu sem ég hygg að sé sönn, sem sögð hefur verið í salarkynnum þessa virðulega húss um það með hvaða hætti merking orða hefur viljað falla í gleymsku, jafnvel hv. alþm., þar sem ónefndur forseti Alþ. sagði í votta viðurvist fyrir 6 árum: „Nú er svo komið að ungir alþm. vita ekki einu sinni hvað skreið merkir. Ég hef heyrt ungan alþm. segja að það sé ekki nema svo sem eins og ein skreið af barnum á Borginni yfir í alþingishúsið.“

Ég ítreka stuðning minn við þessa till. Ég er þess fullviss að ef við látum hjá líða að stuðla að því að þjóðháttadeild verði séð fyrir nauðsynlegum fjármunum til þess að vinna nú á þessum síðasta snúningi úr visku þeirra manna sem unnu, eins og ég áðan sagði, með hinum fornu verkfærum við hinar gömlu aðstæður sem ríktu á þessu landi frá því að það var numið í byrjun, — ef við látum hjá líða að sjá þjóðháttadeild fyrir því fé sem til þess þarf að ræða við þetta roskna fólk, safna þeim upplýsingum og þeim fróðleik sem það býr yfir, þá fer þessi fróðleikur, með gamla fólkinu í gröfina og þaðan náum við honum ekki. Og það er ákaflega skammur tími til stefnu.