14.02.1977
Neðri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta síðbúna, en mikilvæga frv. er því miður um annað en vera ætti. Ég segi að þetta frv. sé síðbúið, vegna þess að því var þegar heitið í stjórnarsamningi núv. hæstv. ríkisstj. að endurskoða hin stórgölluðu lög um tekjuskatt og eignarskatt sem sett voru í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj. Um það getur enginn ágreiningur verið, að skattalöggjöfin undanfarið og þá einkum og sér í lagi sú löggjöf, sem sett var í tíð síðustu hæstv. ríkisstj., er svo meingölluð að hina brýnustu nauðsyn ber til þess að endurskoða hana. Þess vegna segi ég að nýtt frv. um endurskipun tekju- og eignarskattálagningar af hálfu ríkisins sé mikilvægt mál.

Ég endurtek að þetta frv. ætti að vera um annað en það er í raun og veru. Grundvallaratriðum gildandi löggjafar um tekju- og eignarskatt er haldið, þó að ýmis ákvæði löggjafarinnar séu vissulega lagfærð, eins og ég mun síðar víkja að. Það, sem við þm. Alþfl. hins vegar teljum að gera hefði átt, þegar nýtt frv. væri borið fram um tekju- og eignarskatt, er gagnger breyting á grundvallaratriðum tekjuskattsheimtu af hálfu ríkissjóðs, þ. e. að afnema að fullu og öllu tekjuskattsgreiðslu af hálfu launþega nema þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Frv. hefði eiginlega átt að fjalla um og heita frv. til l. um afnám tekjuskatts af launatekjum nema hátekjum. Um þetta höfum við flutt till. í nokkur skipti á hinu háa Alþ. M. a. liggur fyrir þessu háa Alþ. till. frá okkur þm. Alþfl. í Sþ. um þetta efni, um að sú endurskoðun, sem nú hefur staðið hátt á þriðja ár, skuli miða að því að afnema tekjuskatt af launatekjum nema af hátekjum. En vegna þess að frá þingbyrjun hefur þess verið vænst að hæstv. fjmrh. legði frv. þetta, sem lagt var fram skömmu fyrir jól, fyrir hið háa Alþ., hefur það orðið að samkomulagi milli okkar í þingflokki Alþfl. annars vegar og hæstv. fjmrh. hins vegar að till. okkar kæmi ekki á dagskrá í Sþ., heldur biði málflutningur okkar, rökstuðningur fyrir skoðunum okkar þess að 1. umr. um frv. hæstv. ríkisstj. kæmi fram.

Þegar við leggjum til að afnema tekjuskatt af launatekjum öðrum en hátekjum á að sjálfsögðu að vera ljóst, að um það má deila hvað telja skuli hátekjur. Við höfum lagt til að við það yrði miðað, að hátekjur yrðu taldar tekjur sem væru tvöfalt hærri en meðaltekjur kvæntra karla næsta skattár á undan. En okkur er ljóst og erum til viðræðu um að ákveða þetta tekjumark með öðrum hætti, enda hlýtur slíkt að verða samkomulagsatriði.

En hver eru þá meginrök okkar þm. Alþfl. fyrir því að afnema beri tekjuskatt af venjulegum launatekjum? Meginrökin eru þau, að tekjur af tekjuskatti eru nú orðnar sáralítill hluti af tekjuöflun ríkissjóðs og miklu minni en hann var í upphafi, þegar fyrst voru sett lög um tekjuskatt, og verið hefur undanfarna áratugi. Hlutdeild tekjuskatts hefur farið síminnkandi í heildartekjum ríkissjóðs og er satt að segja nú orðin svo hverfandi lítil að við teljum þegar orðið tímabært að afnema að fullu og öllu tekjuskatt af venjulegum launatekjum.

Í fyrra nam upphæð fjárlaga um 60 þús. millj. kr. — um 60 milljörðum. Ef tekjuskattur hefði ekki verið innheimtur í fyrra hefði ríkisstj. misst 6600 millj. kr. tekjur, en sú upphæð, sem ríkissjóður greiddi til einstaklinga vegna barnabóta eða til sveitarfélaga vegna útsvars, nam 1200 millj. kr. Heildartekjumissir ríkissjóðs í fyrra hefði orðið 7800 millj. kr. af rúmlega 60 þús. millj. kr. fjárlögum ef tekjuskattur af launatekjum hefði verið afnuminn að fullu. Sjá væntanlega allir að hér er engan veginn um þann fjárhagsvanda að ræða sem menn virðast telja og hafa erft frá fyrri tímum, þegar tekjuskattur skipti meira máli í fjármálakerfi ríkisins heldur en nú á sér stað.

Fyrstu rök okkar eru þau að benda á að innheimta tekjuskatts af launatekjum hefur nú orðið hverfandi litla þýðingu fyrir heildarfjármál ríkisins þar eð tekjuskattsheimtan er ekki nema rúmlega 10% af heildartekjuöflun ríkissjóðs. Hefur þessi breyting smám saman verið að eiga sér stað á undanförnum áratugum.

Meginrök fyrir afnámi tekjuskatts af launaskattstekjum eru þó ekki þau að í raun og veru skiptir tekjuskatturinn litlu máli fyrir ríkissjóð. Meginrökin eru fólgin í hinu, að tekjuskatturinn er orðinn launamannaskattur. Hann er orðinn skattur svo að segja eingöngu á launþega. Þetta er breyting sem hefur verið að eiga sér stað á allra síðustu árum. Launþegar greiddu í fyrra 6600 millj. kr. í tekjuskatt. Félög, sem stunduðu atvinnurekstur, greiddu aðeins 1750 millj. kr. í tekjuskatt. Og einstaklingar, er stunduðu atvinnurekstur, greiddu 1200 millj. kr. Hér er um grundvallarstaðreyndir að ræða í augum okkar þm. Alþfl. Af öllum atvinnurekstri í landinu var í fyrra greiddur 2 900 millj. kr. tekjuskattur meðan launþegar voru látnir greiða 6 600 millj. kr. í tekjuskatt af launum sínum. M. ö. o.: launþegar greiddu meira en helmingi meiri tekjuskatt af launum sínum heldur en allur atvinnurekstur í landinu var látinn greiða af atvinnutekjum sínum. Þó er þessi athyglisverða saga ekki sögð að fullu með þessum orðum. Það verður enn fremur að hafa í huga að þeir atvinnurekendur, bæði félög og einstaklingar, sem greiddu tekjuskatt af tekjum sínum, voru ekki nema 55–60% af öllum þeim aðilum í landinu sem stunda atvinnurekstur. 40–45% af atvinnurekendum í landinu greiddu í fyrra alls engan tekjuskatt, og þó telja sérfræðingar að heildarvelta atvinnurekenda í fyrra, félaga og einstaklinga, hafi aldrei verið undir 300 milljörðum kr. En af þessari 300 milljarða kr. veltu var aðeins greiddur 2900 millj. kr. tekjuskattur.

Þetta er skýrasta dæmi þess — skýrara dæmi verður ekki fundið — að gildandi tekjuskattskerfi er hrunið til grunna. Það verður ekki talið viðunandi kerfi sem ætlar launþegum að greiða af tekjum sínum 6600 millj. kr. í skatt, miðað við aðstæður í fyrra, en hins vegar lætur aðeins 55–60% af þeim, sem stunda atvinnurekstur, greiða tekjuskatt, en sleppir 40–45% af því að þeir eru ekki taldir hafa tekjur sem skattskyldan nær til, og heildartekjuskattsgreiðslan af 300 millj. kr. veltu til ríkisins er aðeins 2900 millj. kr. Í þessum einföldu staðreyndum er að mínum dómi fólginn dauðadómur yfir því tekjuskattskerfi, sem enn á þó að viðhalda á þessu landi.

Auðvitað voru á sínum tíma góð og gild rök fyrir því að taka upp almennan tekjuskatt, eins og hér var gert árið 1921 og gert hafði verið áður í fjölmörgum löndum, enda er tekjuskattur enn víða innheimtur í þeim mæli að hann er í raun og veru aðaltekjustofn ríkisins eða a. m. k. færir ríkisvaldinu mjög verulegan hluta af tekjum þess, mér er nær að halda hvarvetna mun hærri hlutfallstölu af heildartekjum ríkisins en á sér stað hér á Íslandi.

Rökin fyrir því að taka upp og viðhalda tekjuskatti hafa sem kunnugt er fyrst og fremst verið þau, að það sé eðlilegt að menn greiði til sameiginlegra þarfa af tekjum sínum, það eigi bæði atvinnurekendur og einstaklingar að gera, og menn greiði stighækkandi tekjuskatt af tekjum sínum, bæði atvinnurekendur og einstaklingar, vegna þess að í stighækkun tekjuskatts fellst félagslega réttlát og nauðsynleg tekjujöfnun. Þessi rök höfðu fullt gildi meðan tekjuskattur var meginhluti af tekjum ríkissjóðs, og þau hafa enn fullt gildi þar sem svo stendur enn að tekjuskattur er meginhluti ríkissjóðstekna. En þau hafa misst gildi sitt smám saman eftir því sem þýðing tekjuskatts fyrir tekjuöflun ríkissjóðs hefur minnkað, og þýðing þessara raka er sáralítil orðin þegar svo er komið að tekjuskatturinn er ekki nema rúmlega 10% af tekjuöflun ríkissjóðs, eins og hér á sér stað. Áður fyrr var það og algeng regla, er víða enn, að skattþrepin eru mörg, þ. e. a. s. skatturinn fer stighækkandi — verulega stighækkandi í mörgum skattþrepum — með auknum tekjum. En hér á landi er nú svo komið að skattþrepin eru orðin aðeins tvö, og með fækkun skattþrepanna hefur að sjálfsögðu dregið úr tekjujöfnunaráhrifunum. Hér á landi hefur dregið úr tekjujöfnunaráhrifunum annars vegar vegna þess, að tekjuskatturinn hefur orðið síminnkandi hluti af heildartekjuöflun ríkissjóðs, og hins vegar vegna þess, að skattþrepunum hefur farið sífækkandi og eru, eins og ég sagði, nú orðin aðeins tvö. Til viðbótar þessu hefur sú þróun gerst, að hér var áður fyrr og víða annars staðar er tekjuútsvar stighækkandi, þ. e. að menn greiða ekki aðeins til ríkisins, heldur einnig til sveitarfélaga stighækkandi og þar með tekjujafnandi gjald af tekjum sínum, bæði atvinnurekstur og einstaklingar. En hér hafa öll tekjujafnandi áhrif verið afnumin að því er snertir greiðslu af tekjum atvinnurekstrar til sveitarfélaga. Svo sem kunnugt er greiða félög núna ekki tekjuútsvar til sveitarsjóðs, heldur aðstöðugjald til sveitarsjóðs, sem er veltuskattur. Og nú í nokkur ár, hefur tekjuútsvar einstaklinga ekki verið stighækkandi, heldur er nú orðið flatur brúttóskattur, 10–11% af brúttótekjum án tillits til þess hversu háar þær eru.

Í þriðja lagi er þess að geta, að áður fyrr, þegar tekjuskattar voru teknir upp, — og á það bæði við um Ísland og um nágrannalönd þar sem tekjuskattsheimta af tekjum er eldri en hér á Íslandi, — var yfirleitt ekki um að ræða aðrar tekjujöfnunaraðferðir en stighækkandi tekjuskatt og útsvar. Nú hefur það ekki aðeins gerst að tekjujöfnunaraðferðin hafi verið algjörlega afnumin hér á landi í sambandi við útsvarsinnheimtuna, heldur hefur það líka gerst, eins og ég sagði áðan, að tekjuskatturinn er síminnkandi hluti af tekjuöflun ríkissjóðs og skattþrepum hefur farið sífækkandi, þannig að nú eru aðeins tvö eftir. Hitt er þó miklu mikilvægara í sambandi við félagslega nauðsynlega tekjujöfnun, að á undanförnum áratugum hafa allt aðrar og miklu mikilvægari tekjujöfnunaraðferðir komið til skjalanna heldur en stighækkandi tekjuskattur. Nú hafa aðrar tekjujöfnunaraðferðir, sem komið hafa til skjalanna á undanförnum áratugum, jafnvel sumar hverjar á allra síðustu árum, margfalda þýðingu til tekjujöfnunar á við tekjujöfnunaraðferð tekjuskattsins. Í raun og veru er það ekki ofmælt, þó það sé nokkuð djúpt tekið í árinni, að tekjujöfnunaráhrif tekjuskattsins, eins og hann er núna, eru hégóminn einber í samanburði við tekjujöfnunaráhrif annarra mikilvægra hagstjórnar- og fjárstjórnartækja, tækja á félagsmálasviðinu, fyrst og fremst almannatrygginga, ókeypis skólagöngu, niðurgreiðslu o. s. frv. Sannleikurinn er sá, að tekjujöfnunaráhrif gildandi tekjuskattslaga eru þvílíkur hégómi í sambandi við tekjujöfnunaráhrif almannatrygginga, ókeypis skólagöngu, niðurgreiðslna o. s. frv., að sáralítill fjárhagslegur vandi væri að bæta að fullu þá minnkun tekjujöfnunar sem afnám tekjuskatts af venjulegum launatekjum hefði í för með sér, t. d. með aukningu barnabóta. Væri það að mínu viti langsamlega skynsamlegasta og réttlátasta leiðin til þess að tryggja að ekki drægi úr nauðsynlegri og sjálfsagðri tekjujöfnun í þjóðfélaginu þótt tekjuskattur af venjulegum tekjum væri afnuminn, en einmitt slíka tekjujöfnun teljum við þm. Alþfl. nauðsynlegt að efla, en láta hana ekki minnka.

Sannleikurinn er sá, að misræmið milli skattgreiðslu launþega og atvinnurekenda er orðið svo hróplegt misrétti í þessu þjóðfélagi að við það verður ekki lengur unað. Á það vil ég leggja áherslu, að ríkjandi misrétti milli tekjuskattsgreiðslu launþega og atvinnurekenda og nauðsyn þess að afnema þetta misrétti eru meginrökin fyrir því að tími sé kominn til að afnema tekjuskatt af venjulegum launatekjum. En á það ber í öðru lagi að leggja áherslu, að sannleikurinn er sá, að gildandi tekjuskattskerfi hefur lamandi áhrif á vinnuvilja. Þegar svo er komið að menn verða að greiða mjög verulegan hluta af umframtekjum sínum, yfir helming umframtekna sinna í tekjuskatt og útsvar, þó ekki um sé nema venjulegar launatekjur að ræða, þá þarf ekki að fara í neinar grafgötur um að slíkt hlýtur að hafa lamandi áhrif á vinnuviljann. Í þriðja lagi ber að nefna að tekjuskattur, sérstaklega stighækkandi tekjuskattur, þó stighækkunin sé ekki mikil, dregur úr sparnaði. En fátt er eins nauðsynlegt, sérstaklega í fátæku, fjármagnsvana landi eins og Íslandi, og að efla sparnað, en haga ekki fjárstjórn ríkisins þannig að úr honum dragi. Og í fjórða og síðasta lagi ber að nefna það, að við innheimtu tekjuskatts samkv. gildandi löggjöf og þeirri löggjöf, sem gilda mun ef þetta frv. næði fram að ganga, er óhæfilegur kostnaður. Hundruð ríkisstarfsmanna sitja við að taka á móti framtölum á tekjum af hálfu aðila sem síðan greiða e. t. v. engan tekjuskatt, ekki eyri, hvorki til ríkis né sveitarfélaga. Hundruð manna sitja við að leiðrétta og fara yfir þessi framtöl og síðan sjá um að skattur sé innheimtur með eðlilegum og réttlátum hætti. Starf þessara hundraða manna, sem eflaust vinna störf sín af mikilli samviskusemi, bera hörmulega lítinn árangur að því er snertir skattgreiðslu atvinnurekenda, eins og ég gat um áðan, þar sem 40–45% þeirra skila framtölum, sem sýna að þeir eru ekki skattskyldir samkv. gildandi lögum, og hinir, sem greiða skatt, greiða innan við 3 milljarða í tekjuskatt af 300 milljarða veltu.

Að sögðum þessum rökstuðningi fyrir því að afnema algjörlega tekjuskatt af venjulegum launatekjum er ekki nema eðlilegt að skynsamir menn spyrji: Er hægt að afnema tekjuskattinn? Er það framkvæmanlegt? Að sjálfsögðu mundum við ekki leggja fram till., um að afnema tekjuskatt af venjulegum launatekjum ef við hefðum ekki gengið úr skugga um að það væri framkvæmanlegt, og að því skal ég nú leiða rök.

Ég sagði áðan að í fyrra hefði þurft að útvega 7800 millj. kr. til þess að bæta ríkissjóði afnám alls tekjuskatts af launatekjum, að meðtöldum neikvæðum skattgreiðslum upp í útsvör. Þá er spurningin hvernig hægt væri að bæta ríkissjóði, miðað við rauntölu frá því í fyrra, þennan 7800 millj. kr. tekjumissi.

Í fyrsta lagi er þess að geta, að við gerum ekki ráð fyrir að hátekjumenn sleppi framvegis við að greiða tekjuskatt. Við gerum ráð fyrir að þeir, sem hafa tvöfaldar meðaltekjur kvæntra karlmanna á síðasta ári, haldi áfram að greiða tekjuskatt, eins konar hátekjuskatt. Auðvitað er mjög erfitt að áætla hversu miklu slíkur hátekjuskattur mundi skila í ríkissjóð. Þó höfum við leyft okkur að áætla að hann hefði í fyrra numið um það bil 800 millj. kr.

Við gerum ráð fyrir að söluskattur verði óbreyttur frá því sem nú er, þ. e. a. s. 20%. Við minnum á að 2 af þessum söluskattsstigum voru á sínum tíma lögð á vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum og á Norðfirði og þau áttu samkvæmt lagaákvæðum, sem um þau giltu, að falla niður þegar greiðslum vegna þessara náttúruhamfara væri lokið. Hins vegar varð það ekki. Ríkissjóður tók tekjurnar vegna þessara lagaákvæða, þessi 2 söluskattsstig, til almennra þarfa sinna. Við þm. Alþfl. greiddum atkv. gegn því á sínum tíma, minntum á og minnum enn á að í raun og veru hefði átt og ætti að lækka söluskattinn í 18 stig og draga úr útgjöldum ríkisins sem því svarar. Tekjur ríkissjóðs af hverju söluskattsstigi hafa numið 1400 millj. kr., svo að 2 söluskattsstig svara til um 2800 millj. kr. tekna. Með hliðsjón af því, að ríkisútgjöld voru í fyrra yfir 60 milljarða, en gert er ráð fyrir um 90 milljarða kr. ríkisútgjöldum á yfirstandandi ári, og ef jafnframt er höfð hliðsjón af því, að árið 1970 voru ríkisútgjöldin 30 milljarðar kr., þá ætti mönnum ekki að vaxa í augum nauðsyn þess að draga úr ríkisútgjöldum sem svarar tæpum 3 milljörðum kr. M. ö. o.: ríkisútgjöldin voru 30 milljarðar árið 1970, þau höfðu tvöfaldast í fyrra og nú í ár verða þau orðin þrisvar sinnum hærri en þau voru fyrir 7 árum. Aukning ríkisútgjaldanna á þessum áratug hefur m. ö. o. numið 60 milljörðum kr. Skyldu ekki í þessum 60 milljörðum einhvers staðar leynast útgjöld sem gera kleift, jafnvel gera nauðsynlegt af mörgum ástæðum, einnig almennum fjárhagsástæðum, að lækka ríkisútgjöldin um 2800 millj. kr., eða tæpa 3 milljarða, án þess auðvitað að skerða nauðsynleg útgjöld vegna þjónustu við almenning og nauðsynlegar framkvæmdir? Ég tel rétt að benda á að lækkun útgjalda ríkisins er nauðsynleg af almennum fjárhagsástæðum, sem þáttur í baráttunni gegn aukinni verðbólgu, ekki aðeins til að bæta ríkissjóði þann tekjumissi sem hann mundi verða fyrir af ákveðið yrði að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Þó er sjálfsagt að sýna fyllstu sanngirni, sýna raunsæl. Það er sjálfsagt að játa og það kann að vera erfitt að framkvæma í einum áfanga lækkun á ríkisútgjöldum, þó þau séu 90 milljarðar og þó ekki sé nema um 3 milljarða. Það ber heldur enga brýna nauðsyn til að afnema tekjuskatt af venjulegum launatekjum í einu lagi. Það mætti vel gera það í áföngum, á t. d. 2–3 árum, einungis ef markmiðinu væri slegið föstu. Það mætti afnema tekjuskatt á launatekjum á næstu tveim árum og ætti að vera algjörlega vandalaust að draga saman ríkisútgjöld sem svarar 2 söluskattsstigum, þ. e. að söluskatturinn yrði aðeins 18% á tímabili sem næmi 2–3 árum.

Framlög til trygginga-, heilbrigðis- og menntamála nema 40–50 millj. kr. Að sjálfsögðu kemur ekki til mála að lækka þessi útgjöld frá sjónarmiði okkar í þingflokki Alþfl. En bein rekstrarútgjöld á fjárlögum nema rúmum 10 milljörðum kr. Lækkun þeirra um t. d. 15%, sem engan veginn virðist vera ofætlun, mundi spara ríkissjóði 1500 millj. kr.

Þá er þess að geta, að fjárveitingar til opinberra framkvæmda og framlög til ýmissa fjárfestingarsjóða, sem hafa farið mjög vaxandi á þessum áratug og einkum á allra síðustu árum og mjög hæpið er að skattborgarar eigi að leggja fé til með þeim hætti sem nú á sér stað, nema tæpum 20 milljörðum. Á allra síðustu árum hefur sú regla verið tekin upp að veita fé beint á fjárlögum til ýmissa fjárfestingarsjóða og opinberra framkvæmda sem að réttu lagi og miðað við heilbrigðar aðstæður ætti að fjármagna á lánsfjármarkaðnum. En vegna þess, hversu óeðlilega fast hefur verið sótt á þann markað, hefur svo þrengt að frá því sem var, að farið hefur verið inn á þá braut að afla fjár til fjárfestingarsjóða og ýmiss konar opinberra framkvæmda með beinum framlögum af hálfu ríkisins, sem engum hefði dottið í hug að gera fyrir einum áratug, það leyfi ég mér að fullyrða. Þessi gjöld nema nú milli 20 og 30 milljörðum kr. Með lækkun á slíkum fjárveitingum væri hægt að spara ríkissjóði um 10% — væri hægt að spara ríkissjóði a. m. k. 2 milljarða kr.

Með þessum tveim ráðstöfunum, með því að lækka bein rekstrargjöld ríkisins um 15% og með því að lækka beinar fjárveitingar, sem telja má nýmæli og eru óeðlilegar, til fjárfestingarsjóða og ýmissa opinberra framkvæmda um 10%, mætti spara 31/2 milljarð eða mun meira en svarar til missis tekna af 2 söluskattsstigum.

Í þessu sambandi get ég ekki stillt mig um að minna á, að á þessu ári er gert ráð fyrir að útgjöld vegna útfluttra landbúnaðarafurða nemi hátt á þriðja milljarð króna. Auðvitað geri ég mér ljóst að þessar uppbætur verða ekki afnumdar í einu vetfangi. En brýna nauðsyn ber til þess af mörgum ástæðum, bæði vegna hagsmuna skattborgaranna og vegna hagsmuna landbúnaðarins sjálfs, að gera nú þegar áætlun um lækkun þessara gjalda. Ætti að vera unnt að lækka þær smám saman á móti tekjumissi ríkissjóðs vegna lækkunar tekjuskatts af almennum launatekjum.

Við gerum m. ö. o. ráð fyrir því, að samhliða afnámi tekjuskatts af almennum launatekjum verði söluskatturinn óbreyttur 20%, þó að hann ætti í raun og veru ekki að vera nema 18%, en að á 2–3 árum gangi tekjur af 2 söluskattsstigum, þeim sem ríkissjóður hefur tekið til sín, til að mæta hluta af tekjumissinum vegna afnáms skatts af launatekjum.

Þá höfum við bent á að reglum um fyrningarfrádrátt og vaxtafrádrátt í atvinnurekstri verði breytt svo og reglunum um tekjuskatt af söluhagnaði eigna. Lagðar eru til ýmsar breytingar á þessum atriðum í þessu frv., sem ég vona að séu til bóta þó að eftir sé að skoða þær mun nánar en þegar hefur verið gert í fjh.- og viðskn. beggja hv. d. Mér er til efs að í þessum reglum sé gengið eins langt og ganga mætti með fullri sanngirni. Við höfum leyft okkur að áætla að með breytingum á þessum reglum mætti auka tekjur ríkissjóðs um einhvers staðar á milli 600 og 1000 millj. kr. frá því sem á sér stað samkvæmt gildandi skattalögum.

Ef þessar upphæðir eru lagðar saman kemur í ljós að það, sem á vantar til þess að ríkissjóði séu bættar þær 7000 millj. kr. sem hann mundi missa við afnám tekjuskatts af launatekjum öðrum en hátekjum, nemur 3200–3700 millj. kr. — 3–4 milljörðum. En þess var áður getið, að heildarvelta allra atvinnufyrirtækja í landinu hafi í fyrra numið a. m. k. 300 milljörðum kr., en að 55–60% af þeim aðilum, einstaklingum og félögum, sem stunda atvinnurekstur, hafi ekki greitt í fyrra í tekjuskatt til ríkisins nema 2900 millj. kr. eða tæpa 3 milljarða. Þarf ekki að orðlengja um það, að slík tekjuskattsgreiðsla til ríkissjóðs af 300 milljarða veitu, eins og átt hefur sér stað samkvæmt gildandi lögum, er óeðlilega lítil. Þessi staðreynd sýnir, svo ekki verður um villst, að það er ekki hægt að láta einstaklinga og fyrirtæki, sem stunda atvinnurekstur, greiða réttlátan hluta sinn af skattbyrðinni með því móti að leggja á hagnað þeirra eða nettótekjur. Ég leyfi mér að fullyrða, þó að þetta frv. hafi ekki verið athugað til hlítar í fjh.- og viðskn., sem ég á sæti í, að ákvæði þessa frv. bæti ekki nægilega úr þessum grundvallarágalla sem í raun og veru hlýtur að fylgja tekjuskattskerfi af því tagi sem hér er um að ræða.

Þessa staðreynd, að það sé í raun og veru ekki hægt að láta atvinnurekstur greiða réttlátan skatt með því að skattleggja nettótekjur, hefur löggjafinn í raun og veru viðurkennt að því er snertir greiðslu af tekjum atvinnurekstrar til sveitarfélaga. Þau greiða ekki útsvar af tekjum sínum eins og einstaklingar, heldur aðstöðugjöld sem miðuð eru við veltu og eru mishá eftir ýmsum ástæðum og eftir því um hvers konar atvinnurekstur er að ræða. Tekjur sveitarfélaga af þessu aðstöðugjaldi voru í fyrra áætlaðar rúmlega 2000 millj. kr. — rúmlega 2 milljarðar kr. Ef lagður hefði verið í fyrra sérstakur veituskattur á fyrirtæki, sem stunda atvinnurekstur, og tekjur af slíkum veltuskatti verið látnar renna í ríkissjóð, hefði hann ekki þurft að nema 1% af veltunni, eins og hún var áætluð á því ári, til þess að tekjur af honum næmu þeim 3–4 milljörðum sem á vantar til þess að ríkissjóði yrði að fullu bættur sá tekjumissir, sem afnám tekjuskatts af venjulegum launatekjum hefði haft í för með sér á því ári, ef gert er ráð fyrir þeim sparnaði í rekstri ríkissjóðs, sem rætt var um að framan, þeim niðurskurði á fjárlögum til fjárfestingarsjóða og ýmissa opinberra framkvæmda og tekjuauka af hátekjuskatti og tekjuauka vegna breyttra reglna um fyrningarfrádrátt og vaxtafrádrátt.

Með þessu móti, með samræmdum aðgerðum til lítils háttar, leyfi ég mér að segja, — til lítils háttar sparnaðar í rekstri ríkissjóðs og með breyttum reglum um fyrningarfrádrátt og vaxtafrádrátt og með veitugjaldi á atvinnurekstur, sem ekki þyrfti að nema 1% af heildarveltunni, væri hægt að bæta ríkissjóði að fullu missi tekna af ranglátasta skatti sem ríkissjóður nú innheimtir, tekjuskatti af venjulegum launatekjum. Með þessu tel ég mig hafa sýnt fram á að það er ekki rétt, sem þó heyrist oft sagt, að afnám tekjuskatts af venjulegum launatekjum sé ekki framkvæmanlegt af fjárhagsástæðum, ríkissjóður geti ekki misst þær tekjur eða geti ekki aflað sér nýrra tekna í stað þeirra tekna sem hann mundi missa við þessa breytingu. En þetta er framkvæmanlegt. Sannleikurinn er sá, að slíkt spor, ef menn hafa kjark til að stíga það, er í raun og veru ekki mjög miklu stærra en það spor sem stigið var þegar útsvarinu var breytt úr stighækkandi tekjuskatti í hlutfallslegan brúttóskatt ásamt stórbreyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en um það var tekin ákvörðun fyrir nokkrum árum. Þessi breyting, sem við þm. Alþfl. leggjum til, er í raun og veru ekki mjög miklu stærra spor en það spor sem þá var stigið og var að vísu stórt, en var að mínu viti í réttlætisátt í grundvallaratriðum.

Þetta spor, sem við leggjum til að verði stigið og mér er ljóst að er gagnger breyting á skattheimtukerfi ríkissjóðs, er í raun og veru í grundvallaratriðum ekki miklu stærra en breytingin, sem lögð er til í þessu frv. og ég tel að vísu líka vera til bóta, fjallar um að einstaklingi, sem stundar atvinnurekstur, sem færir honum ekki eðlilegar tekjur, skuli áætlaðar tekjur, m. ö. o. það nýmæli þessa frv. að greint skuli milli einstaklinga sem hafa framreiknuð laun, annars vegar og einstaklinga, sem hafa framfæri sitt af atvinnurekstri, hins vegar. Það hefur verið till. okkar Alþfl.- manna á undanförnum árum að slíkt yrði gert. Nú loksins í þessu frv. sjáum við raunhæfar till. um að slíkt verði gert. Hér er í raun og veru um að ræða grundvallarbreytingu á reglum sem gilt hafa í áratugi og gilda annars staðar þar sem tekjuskattur er innheimtur af bæði launatekjum og atvinnurekstri. Þetta er róttæk breyting. Hún er að mínu viti til mikilla bóta. En að því er sagt er þykir þessi breyting svo róttæk að hún veldur stórdeilum hjá þeim sem standa að þessu frv., þ. e. a. s. stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj.. En þessi breyting á fullan stuðning þingflokks Alþfl., þó að sum framkvæmdaatriði þurfi að sjálfsögðu að athuga í þessu sambandi eins og fjölmörgum öðrum í sambandi við jafn víða mikla löggjöf og hér er um að ræða. En ég bendi á, að að því er grundvallaratriði snertir kemst þessi breyting nokkuð nálægt því að vera jafnróttæk grundvallarbreyting og það mundi vera að afnema að innheimta tekjuskatt af almennum launatekjum, en halda honum á hátekjum og halda honum á öllum atvinnurekstri.

Einmitt vegna þess að ríkisstj. hefur sem betur fer haft kjark til að leggja þessa grundvallarbreytingu til, þeim mun meira harma ég að hana skuli hafa brostið kjark til að stíga sporið til fulls og afnema algjörlega tekjuskattsskyldu almennra launatekna.

Þetta frv. hefur sem betur fer ýmsa kosti. Fyrsti kosturinn er að mínu viti sá, að þar er greint á milli þess, hvort skattgreiðandi er launþegi eða hefur tekjur af atvinnurekstri. Í öðru lagi er reglum um fyrningar, söluhagnað og vaxtafrádrátt breytt til bóta, til tvímælalausra bóta, að því er séð verður við fyrstu athugun, þó að nánari athugun í n. sé að sjálfsögðu nauðsynleg. Þetta eru meginbreytingarnar, sem í frv. eru til bóta, og þeim ber að fagna.

Gallar frv., auk þess að vera ekki það sem það ætti að vera, eins og ég sagði í upphafi, eru fyrst og fremst þrír. Í fyrsta lagi ber að nefna reglurnar um áframhaldandi samsköttun hjóna, þótt gert sé ráð fyrir helmingaskiptum á tekjum hjóna sem er mikilvæg breyting á grundvallaratriðum. Í öðru lagi vil ég nefna ákvæði frv. um skattlagningu tekna einstæðra foreldra, sem þurfa tvímælalaust nánari athugunar við og gera þarf breytingar á við meðferð málsins í nefnd. Og í þriðja lagi vil ég nefna ákvæði frv. um minnkun sjómannafrádráttar sem, ef að lögum yrðu, mundu tvímælalaust valda því að sjómenn gerðu meiri kaupkröfur í komandi samningum en aðrar launastéttir og það með réttu. Gildandi reglur um sjómannafrádrátt hafa verið hugsaðar sem bein kjarabót til sjómanna, og þeir láta að sjálfsögðu ekki svipta sig honum án þess að gera kröfu um bætur fyrir.

Af hálfu okkar þm. Alþfl. hafa verið margfluttar till. um sérsköttun hjóna. Þessar till. hafa aldrei fengið nokkurn hljómgrunn hér á hinu háa Alþ. fyrr en þær fá nú óbeinan hljómgrunn í till. hæstv. ríkisstj. um skiptingu tekna hjóna til helminga. Það má í raun og veru líta á þessar till. hæstv. ríkisstj. sem eins konar bergmál af málflutningi okkar þm. Alþfl. hér á hinu háa Alþ. um mörg ár, jafnvel í áratugi, þar sem við höfum stungið upp á ýmsum breytingum á gildandi reglum um algjöra samsköttun hjóna. Við munum þegar við þessa 1. umr. flytja ákveðna brtt. við ákvæði frv. um sérsköttun hjóna til þess að það komi í ljós hver stefna okkar í því máli er og til þess að hv. fjh.- og viðskn. beggja d. geti fengið ákveðnar till. til athugunar í þessu máli.

Það er alveg augljóst mál að skattamál hjóna eru eitt af fjórum megindeiluefnunum í sambandi við þetta frv. Hin eru ákvæðin um að greina á milli einstaklinga sem hafa launatekjur og stunda atvinnurekstur, ákvæðin um fyrningar, vaxtafrádrátt og söluhagnað eigna og ákvæða um sjómannafrádráttinn.

Segja má að þetta séu meginágreiningsefnin í frv. En við teljum að ýmsu leyti, að reglurnar um sérsköttun hjóna hafi sérstöðu, og viljum því flytja þegar við 1. umr. ákveðnar till. um sérsköttun hjóna. Þar mun verða gert ráð fyrir því að sérhver einstaklingur skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum sem hann aflar og eigi þetta einnig við um hjón sem eru samvistum, bæði varðandi tekjur af sératvinnu og séreign. Hafi annað hjóna ekki sérstakar tekjur af starfi utan heimilis skuli þeim aðila samt reiknaður persónuafsláttur einstaklings eins og hann að öðru leyti er ákveðinn í lögunum, þannig að hann njóti þess, þannig að gift kona, sem vinnur eingöngu heimastörf, njóti þess með sama hætti og einstaklingur, sem aflar sér sjálfstæðra tekna, að hún á rétt á persónuafslætti. Nýti hún sér ekki allan persónufrádráttinn, skal honum ráðstafað þannig, að hann komi til lækkunar á skattgreiðslu makans eða til lækkunar á útsvari.

Meginhugsunin í till. okkar og það, sem við eigum við með sérsköttun, er að fara skuli eins með alla einstaklinga í þjóðfélaginu, hvort sem um er að ræða karl eða konu og hvort sem þjóðfélagsstaða karlsins eða konunnar er þannig að þau búa saman í hjónabandi eða ekki, hver einstaklingur skuli vera sjálfstæður skattborgari án tillits til kynferðis eða þjóðfélagsstöðu, með gifta konu eða það hjóna, sem eingöngu vinnur innan heimilis, — það getur átt bæði við karlinn og konuna, — með það hjóna skuli farið eins og einstakling sem aflar sér tekna með venjulegum hætti í þjóðfélaginu. Á sá aðili þá auðvitað rétt á persónuafslætti og getur fengið að njóta þess ef persónuafslátturinn verður neikvæður, þannig að það kemur honum til hagsbóta, annaðhvort í greiðslu eða til lækkunar á útsvari. Um þetta munum við flytja sérstaka till. sem við munum leggja fram síðar í dag.

Í fjh.- og viðskn. munu fulltrúar Alþfl. einnig beita sér fyrir nánari skoðun og væntanlega breytingum á reglum frv. um sköttun einstæðra foreldra og um sjómannafrádráttinn. Fjölyrði ég því ekki meir um þessi efni við þessa 1. umr.

Að lokum vil ég leyfa mér að segja þetta, herra forseti, um þá gagngeru stefnubreytingu sem við í þingflokki Alþfl. berjumst fyrir í skattamálum ríkisins með till. okkar eða hugmyndum okkar um afnám tekjuskatts af beinum launatekjum:

Byrði beinna skatta er orðin óbærilega þung og álagning þeirra er að mörgu leyti mjög ranglát, auk þess sem hún er afar dýr í framkvæmd. Álagningarkerfið er orðið óeðlilega flókið og veitir skilyrði til margháttaðra undanbragða undan réttlátri skattgreiðslu, bæði löglegra og ólöglegra. Hlutfall tekjuskatts af tekjum er orðið svo hátt að almennir launþegar eru farnir að greiða frá þriðjungi og allt að helmingi tekna sinna í beina skatta af tekjum sínum. En samtímis verða þeir vitni þess að fyrirtæki, sem hafa gífurleg umsvif, greiða litla eða jafnvel alls enga tekjuskatta né útsvör vegna rekstrar síns. Þessi óhóflega skattheimta er í mörgum tilfellum og verður í fleiri fjötur á framtakssemi einstaklinga — á heilbrigða framtakssemi einstaklinga og heilbrigðan vinnuvilja og er því beinlínis orðin hemill á eðlilegan og nauðsynlegan vöxt þjóðartekna.

Gallar mjög víðtæks og flókins tekjuskattskerfis með mjög háum skattstigum er ekki einungis orðið vandamál á Íslandi, heldur einnig í nálægum löndum, þar sem um er að ræða víðtæka og vaxandi gagnrýni á slíka skattheimtu. Það er ekki bara hér á Íslandi sem hugmyndir eru uppi um að hverfa frá beinum sköttum yfir til óbeinna skatta. Um þá hreyfingu er að ræða mjög víða í nálægum löndum.

Þegar vitað er að um eða yfir helmingur viðbótartekna venjulegs launþega fer til greiðslu skatta af tekjunum, þá getur bókstaflega ekki hjá því farið að það hafi lamandi áhrif á framtakssemi og vinnuvilja, að ekki sé talað um þýðingu þess fyrir hvers konar kjarasamninga, enda hefur það verið svo og mun væntanlega verða svo í þeim kjarasamningum, sem nú standa fyrir dyrum, að launþegasamtökin munu leggja ríka áherslu á það, hvernig ríkisvaldið hagar skattheimtu sinni, ekki síður en hitt, hvernig peningalaun eða peningatekjur verða ákvarðaðar.

Ég minni að síðustu á það enn, að þegar tekjuskattur var upphaflega lögfestur hér og annars staðar, þá var hann eitt helsta tækið sem fyrir hendi var til þess að jafna tekjur. En síðan og það verður ekki nógsamlega sterklega eða oft undirstrikað — hafa fjölmargir aðrir möguleikar komið til skjalanna til þess að ná hinu sjálfsagða og réttláta tekjujöfnunarmarkmiði og þá fyrst og fremst almannatryggingakerfið, en einnig ókeypis eða ódýr þjónusta af hálfu hins opinbera á fjölmörgum sviðum, einkum á sviði heilbrigðis- og skólamála, og enn fremur margs konar niðurgreiðsla á neysluvörum almennings og nú á síðari árum, sem er nýmæli, trygging lámarkstekna og neikvæður tekjuskattur. Þess vegna er óhætt að fullyrða að álagning stighækkandi tekjuskatts hafi minni áhrif til tekjujöfnunar hér á landi en almannatryggingakerfið, ókeypis menntunarskilyrði og niðurgreiðslukerfið, og sáralítill fjárhagslegur vandi væri fólginn í því að bæta þá minnkun, sem yrði á tekjujöfnuninni, með einföldum ráðstöfunum, svo sem með hækkun barnabóta sem ég teldi fyrir mitt leyti vera réttlátustu og skynsamlegustu leiðina í því skyni. En tekjuskattskerfið er orðið lamandi afl í þjóðfélaginn. Auk þess er það ranglátt, þar sem reynslan hefur sýnt að fjölmargir aðilar koma sér undan að greiða þá skatta sem þeim ber samkvæmt kerfinu, bæði með því að hagnýta heimildir laga til frádráttar með vafasömum hætti og með beinum undandrætti skatta. Það er mjög mikilvæg röksemd í þessu sambandi, að þegar óbeinn skattur eins og söluskattur er greiddur, þá ræður skattgreiðandinn meira um það sjálfur, hversu mikið hann greiðir, með því að ákveða hvað og hversu mikið hann kaupir umfram nauðþurftir. Og enn og að síðustu má minna á að framkvæmd tekjuskattsheimtu er óhemjudýr og miklu dýrari en innheimta söluskatts.

Herra forseti. Lokaorð mín skulu vera þessi: Stefnubreyting í skattamálum, sú sem við þm. Alþfl. erum málsvarar fyrir, þ. e. a. s. afnám tekjuskatts af almennum launatekjum, samfara því að atvinnurekstur greiði bæði stighækkandi tekjuskatt og nokkurn veltuskatt í ríkissjóð, — þessi stefnubreyting er stórkostlegt réttlætismál frá sjónarmiði launþega og mundi afnema eitt alvarlegasta misréttið sem nú ríkir í íslensku þjóðfélagi. Þessi nauðsynlega og réttláta stefnubreyting er framkvæmanleg. Að því hef ég leitt rök í þessu máli mínu.