14.02.1977
Neðri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. hefur þegar lýst afstöðu okkar Alþb.- manna til frv. í heild og hinna einstöku atriða þess. Ég ætla að einskorða mig í þessum umr. við þau ákvæði frv. sem varða tekjuskatt hjóna, helmingaskiptaregluna svokölluðu, og get sagt það strax að ég er henni ákaflega andvíg. Ég er andvíg henni fyrst og fremst vegna þeirrar grundvallarhugsunar sem að baki henni liggur.

Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, um leið og hann tók við embætti, að nú ætlaði hann að leggja fram frv. til nýrra skattalaga og þar ætti að koma á sérsköttun. Því oftar sem hæstv. ráðh. boðaði þetta frv. sitt því oftar sem hann talaði um það hér ár eftir ár, þá lýsti hann því nánar og betur hvernig framkvæmdin á þessu ætti að vera, og þá kom auðvitað í ljós að hér var ekki um neina sérsköttun að ræða, heldur gömlu stefnu Sjálfstfl. til margra ára, helmingaskiptaregluna. Það er meira en ár síðan ég benti hæstv. ráðh. á að hér væri ekki um sérsköttun að ræða, smám saman fór mönnum að skiljast það og eftir að þetta frv. er fram komið talar ekki einu sinni hæstv. ráðh. sjálfur um sérsköttun. Er það sannarlega framför að hann skuli þó hafa getað lært það í öllum þeim umr. sem fram hafa farið.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason lýsti því úr ræðustól áðan að Alþfl. hefði árum saman flutt till. um sérsköttun og hefði alla tíð verið forustuflokkur í þeim efnum. Það kom auðvitað fram í máli hans — hálfgert óviljandi — að hann var þrátt fyrir allt dálítið hrifinn af þessari helmingaskiptareglu Sjálfstfl., því að hún er nefnilega alveg samskonar og till. Alþfl. til margra ára. Ég held að þingskjöl tali sínu máli, því að síðasta till. Alþfl. um þetta mál var flutt á þinginu 1971–1972 og urðu þá einmitt mjög harðar umr. um helmingaskiptaregluna. En í þessari till. Alþfl. stendur svo með leyfi hæstv. forseta, um hvernig skuli fara með heimavinnandi húsmóður: „Vinni annar aðilinn utan heimilis skulu þeim, sem engar tekjur hefur, reiknaður til tekna hluti af tekjum hins, þó aldrei hærri fjárhæð en helmingur af tekjum hans.“ Þarna er sem sagt helmingaskiptareglan í fullum blóma, en engin sérsköttun, og ég ætla að vona að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason fari nú ekki að halda áfram þeirri sögufölsun sinni sem hann viðhafði hér áðan.

Sannleikurinn er sá, að það er Alþb. eitt sem hefur gert till. um hreina og fulla sérsköttun, eins og menn almennt skilja það orð. Ég flutti sjálf um það till. á þingi 1972, þar sem ég vildi fela þeirri n, sem vann að endurskoðun skattalaga, að koma á sérsköttun. Þáv. fjmrh. Halldór E. Sigurðsson, fór þess á leit við mig að ég drægi till. til baka, en hann lýsti því úr þessum ræðustól að n. skyldi vinna að þessu verkefni undir hans forustu. Þetta var skýlaus yfirlýsing frá hæstv. ráðh. Halldóri E. Sigurðssyni, og vænti ég að hann standi nú við það loforð sitt um stuðning við sérsköttun þó hann hafi aðeins skipt um stól.

Hæstv. fjmrh. hefur lýst því margoft að þetta sé eitthvert sérstakt jafnréttisfrv. Ég meira en dreg það í efa. Ég hafna því algjörlega. Ég tel að þarna komi fram meiri fyrirlitning á konum, giftum konum, bæði þeim, sem vinna eingöngu heima, og þeim, sem afla tekna utan heimilis, en ég hef í seinni tíð séð í nokkru öðru plaggi. Þegar um heimavinnandi húsmóður er að ræða, þá er hugsunin sú að störf hennar skuli metin eftir tekjum eiginmannsins. Menn ætla sér sem sagt að veita henni einhverja viðurkenningu fyrir störf hennar á heimilinu og gera það með þessu móti, að reikna henni helming af tekjum eiginmannsins. Það er eiginmaðurinn, karlmaðurinn, sem er þarna viðmiðunin. Þetta segi ég að sé andvígt öllum jafnréttishugmyndum.

Í öðru lagi yrði þarna auðvitað gífurlegt misræmi á mati heimilisstarfa, því að hátekjumanninum er auðvitað gert að greiða vinnu konu sinnar miklu dýrar en lágtekjumaðurinn. Það er því algerlega út í hött að halda því fram, að hér sé um að ræða mat á því starfi sem unnið er heima. Það er vitanlega hægt að hugsa sér, að slíkt starf sé metið. En þá verður að spyrja að því: Eru skattalög rétti vettvangurinn, eða eru það önnur lög eins og t. d. tryggingalögin? Ef aðili er bundinn heima við umönnun ungra barna eða sjúklinga, þá kæmi vel til greina að bæta það upp með tryggingagreiðslum. En þá er ég hrædd um að sú greiðsla yrði skattskyld. Og hér erum við komin að mínu mati að kjarna málsins og ástæðunni fyrir því, hvers vegna vefst svo fyrir mönnum hvernig fara skuli með gifta konu gagnvart skattalögum, því að heimilisstörf eru einfaldlega skattfrjáls. Það er alveg sama hve mikil verðmæti eða hve mikil verðmætaaukning verður á heimili, þar sem kona er heima, sá verðmætaauki er skattfrjáls. En ef við getum ekki viðurkennt þennan verðmætaauka, þá erum við um leið að fyrirlíta, hafa að engu þau störf sem unnin eru. En „viðurkenningin“ getur ekki komið fram í skattalögum. Ef það fer hins vegar svo, að menn sjá ekki þennan verðmætaauka, ef menn sjá hann ekki nema búa til einhverjar tölur sem miðist við starf mannsins og hans tekjur, þá er ekki von að menn viðurkenni þann kostnaðarauka sem verður á heimili við það að annar aðilinn fellur frá eða er einfaldlega ekki fyrir hendi, því að öðruvísi er ekki hægt að útskýra að skattar muni þyngjast á einstæðum foreldrum og þyngjast svona gífurlega fljótt samkv. helmingaskiptareglunni eða frv. ef konan hefur rétt miðlungstekjur. Þarna er auðvitað gífurlegt misræmi sem ég vænti að stjórnarsinnar hljóti að sjá.

Sú venja, að kvæntur karlmaður er skattgreiðandi fyrir hönd konu sinnar, á sögulega séð rætur í þeim hugsunarhætti að karlmaðurinn sé eina fyrirvinna heimilisins og í rauninni fjárhaldsmaður þess. Ein af ástæðunum fyrir því, að ógift kona er sjálfstæður skattgreiðandi, er bara einfaldlega sú, að „fyrirvinnuna“ vantar. Gagnvart skattalögum telst gift kona varla fjárráða. Henni er meinað að skýra sjálf frá efnahag sínum, en það gerir aftur á móti bóndi hennar fyrir hana. Hér er því fyrst og fremst um að ræða misrétti milli kvæntra karlmanna og giftra kvenna. Það er ekki um að ræða brot á almennu, óskilgreindu jafnrétti kynjanna og í því liggur hugsanavilla hæstv. fjmrh. En vegna þess að hugtakið jafnrétti virðist hafa verið túlkað eingöngu sem svo eða menn hafa talið að jafnrétti næðist eingöngu með því að búa til einhvers konar kynlaust frv., þá koma út hinir furðulegustu hlutir. Þá fara menn að hugsa sem svo, að ef gift kona, sem aflar tekna, verður sjálfstæður skattgreiðandi, hvað á þá að gera við gifta konu sem einvörðungu vinnur heima og er því tekjulaus? Menn gleyma því, að hún er tekjulaus af því að vinnan er skattfrjáls, og þá vefst fyrir mönnum framkvæmdin og þeir athuga ekki að galdurinn er einfaldlega fólginn í því að hún á sjálf að gera það sem maðurinn hefur hingað til gert fyrir hana. Hann hefur hingað til væntanlega án þess að blikna, sett núllið á skattskýrsluna, og það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að hún geri það sjálf og sé ábyrg þeirra gerða. Hins vegar er hægt að fara þá leið sem svíar gerðu á leið sinni til sérsköttunar og ég hef áður lýst á þessum stað, að ef persónuafsláttur félli af þessum sökum niður, þá er réttlætanlegt að færa það hinum aðilanum til tekna til þess að persónuafslátturinn nýtist heimilinu. Þetta er í rauninni afskaplega einfalt, og það er líklega of einfalt til þess að karlmenn geti skilið það.

Ég held að það væri stórhættulegt að taka upp þessa helmingaskiptareglu. Ég hef orðið vör við að menn hugsa sér að bæta þetta frv. með því að gera einhverja valkosti, hafa helmingaskiptaregluna sem aðalreglu og láta sérsköttunarheimild í núgildandi lögum halda sér. En ég held að það sé stórhættulegt að fara inn á þessa braut, því að út úr helmingaskiptareglunni verður afar erfitt að komast. Það sést best á dæminu í frv. hvílík áhrif hjúskaparstéttin hefur á tekjuskatt fólks, því að um leið og hjúskaparstéttin hreytist, um leið og menn færast úr hjónabandinu yfir í það að vera einhleypir, þá verður skattþyngingin alveg gífurleg. Ég hef raunar hér eitt dæmi sem bæði sýnir það, hvernig útkoman er, og líka hug þann til húsmóðurinnar sem kemur fram í þessu frv. Gefum okkur það, að húsbóndinn á heimilinu hafi 2 millj. í tekjur og konan vinni einvörðungu heima, og við skulum segja að þau eigi eitt barn. Samkv. frv. ættu þau að greiða í skatt 52.4 þús. kr. En ef konan fellur frá, þá þyngist skattur mannsins um hvorki meira né minna en 211.3 þús. kr. — yfir 200 þús. kr. þynging. Og það er raunar íhugunarvert að reyna að sjá einhverja ástæðu fyrir þessu, því að þeir, sem telja að konan geri eitthvert gagn heima hjá sér, hefðu haldið að það yrði einhver kostnaðarauki fyrir manninn ef vinnu hennar nyti ekki lengur við. En útkoman sýnir að hæstv. fjmrh. telur að það hafi verið svona afskaplega dýrt að hafa þessa konu á heimilinu. Öðruvísi er ekki hægt að skýra þá skattaívilnun, sem hún fær meðan hún vinnur heima.

Það mætti margt fleira segja um þetta frv. og það hefur margt verið sagt. Ég hef sagt flest þetta og meira til áður. Og líka vegna þess að ég var búin að lýsa því yfir við hæstv. fjmrh. að ég mundi ekki flytja langa ræðu, þá ætla ég að láta hér að mestu staðar numið vegna tímans.

En ég vil í lokin lýsa því yfir, að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að nú verði komið á sérsköttun, og þá á ég við sérsköttun í því formi að hver einstaklingur, sem orðinn er fullra 16 ára, skuli vera sjálfstæður skattþegn, hann skili framtali og hvort hjóna um sig telji fram eigið aflafé og séreign og greiði skatt í hlutfalli við það. Ég tel að alger sérábyrgð eigi að vera fyrir skattgreiðs]um af eigin tekjum og séreign. Þó held ég að það væri rétt varðandi ábyrgð á séreign að hafa þar einhvern varnagla, ef menn teldu að um óeðlilega millifærslu milli hjóna væri að ræða. Þá mætti undir vissum kringumstæðum krefja hinn aðilann um greiðsluna eða ganga að séreign, en hitt sé alger meginregla.

Ég tel ekki framkvæmanlegt á þessu stigi málsins að hafa algera sérsköttun á sameign. En ég tel rétt að sameign sé talin fram hjá því hjóna, sem hærri hefur tekjurnar, og að skattur skiptist af sameign í hlutfalli við tekjur. Og hvað sameign varðar, þá tel ég óhjákvæmilegt að hafa gagnkvæma ábyrgð á skattgreiðslu.

Ég tel að það eigi að auka barnabótaaukann verulega frá því sem er í frv., því að það er tvímælalaust svo mikill kostnaður því samfara að kaupa gæslu að það er ekki viðunandi annað en mið sé tekið af því og lágmarksviðmiðun sé a. m. k. gjald á opinberum dagvistunarstofnunum. Við vitum þó að hér í Reykjavík er þetta gjald miklu, miklu hærra, þar sem gæsla á einkaheimilum er orðin algeng. Þar getur gæslukostnaður farið upp í 40, ef ekki í 50 þús. kr.

Ég vænti þess að hv. fjh.- og viðskn. íhugi þessar hugmyndir mínar. Eðlilegast hefði mér þótt að það hefðu fylgt útreikningar varðandi sérsköttun. Það hefði auðveldað mjög allar umr. ef slíkir útreikningar hefðu fengist. En þeir lágu nú ekki á lausu, þeir voru ekki til. En þetta tel ég rétt að n. geri við áframhaldandi vinnu.