15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

252. mál, samanburður á vöruverði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Fyrirspurn þessi var flutt af hv. varaþm. Eyjólfi Sigurðssyni þegar hann átti sæti hér um hríð fyrir áramót. Fsp. til samgrh. um tryggingamál sjómanna, á þessa leið:

„Hvað hefur samgrn. gert til að tryggja sjómönnum og fjölskyldum þeirra raunhæfar tryggingabætur vegna örorku eða dauðsfalls sjómanna við störf sín, í framhaldi af frv. til l. um breyt. á siglingalögum, nr. 66 1963, er vísað var til ríkisstj. 15. maí 1915?“

Forsaga þessa máls er sú, að Eyjólfur Sigurðsson átti hér einnig sæti sem varamaður snemma á árinu 1975 og flutti þá frv. til l. um breyt. á siglingalögum varðandi bætur til sjómanna. Í frv. hans var gert ráð fyrir verulegum hækkunum á dánarbótum sjómanna og einnig hækkunum á slysadagpeningum og örorkubótum. Tilgangi hans með flutningi frv. hygg ég að sé best lýst með þessum orðum, sem áttu að verða 3. mgr. í 1. gr. laganna samkv. frv. og hljóða svo, með leyfi forseta:

„Framangreindar upphæðir vegna dauðsfalls eða örorku skulu umreiknaðar samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar einu sinni á ári, eins og Hagstofa Íslands gefur hana út, fyrst 1. des. 1975.“

Þetta frv. fékk þá afgreiðslu að því var í maí 1975 vísað til ríkisstj. Efnið er sem sagt að reyna að láta dánarbætur, slysadagpeninga og örorkubætur sjómanna, sem látast við störf sín eða slasast, fylgja almennu kaupgjaldi og verðlagi í landinu. Ég vænti að hæstv. samgrh. hafi einhver jákvæð og góð svör við fsp. eins og hún er fram komin.