15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég ber hér fram á þskj. 110 svo hljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„1. Eru einhver áform á döfinni um það, hvernig stuðlað verði að tryggari flugsamgöngum við Vestfirði?

2. Hafa verið athugaðir möguleikar á lengingu og endurbótum flugbrauta við Holt í Önundarfirði og í Bolungarvík með tilliti til hinna sérstöku aðflugserfiðleika við Ísafjarðarflugvöll?“

Það er óhætt að segja að þróun flugmála á Íslandi hafi verið hröð frá því að hún á annað borð hófst fyrir u. þ. b. 30-40 árum. Um hundrað flugvellir eða nánar sagt 96 eru nú á landinu, að vísu harla misjafnir og sumir raunar varla meira en nafnið eitt. Tækja- og öryggisbúnaði er í flestum tilfellum alls ekki fyrir að fara og í næstum öllum mjög svo ábótavant. Af þeim 37 flugvöllum, sem notaðir eru annaðhvort til póstflugs eða áætlunarflugs, hafa aðeins 8 það fullkomna lýsingu að lending í myrkri sé möguleg. Þessir 8 vellir eru í Reykjavík, Keflavík, á Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Hornafirði og í Vestmannaeyjum.

Á öllum Vestfjörðum er enginn flugvöllur með næturlýsingu, þ. e. a. s. föstum brautarljósum. Vafalaust er þó þessi landshluti hvað verst settur hvað snertir samgöngur á vetrum, þegar samgöngur teppast langtímum saman af snjó og skipaferðir í algjöru lágmarki, á hálfs mánaðar eða þriggja vikna fresti. Þetta eru óþægilegar staðreyndir sem hafa í för með sér einangrun og öryggisleysi, bæði að því er snertir flutninga á fólki og vörum að og frá fjórðungnum og hvers konar þjónustu og þá ekki hvað síst sjúkra- og neyðarþjónustu.

Með þessu er þó ekki verið að gefa í skyn að Vestfirðir hafi beinlínis af ásetningi eða sérstakri vanrækslu verið settir hjá í þessu tilliti, miðað við aðra landshluta. Hér mun fremur um að kenna sérstaklega erfiðum aðstæðum frá náttúrunnar hendi. T. d. gera mjög háar fjallshlíðar kringum þröngan fjarðarbotn aðstæður allar til aðflugs á Ísafjarðarflugveili sérstaklega erfiðar, enda mun ekki ofmælt að sumum farþegum til Ísafjarðar er um og ó síðustu mínúturnar fyrir lendingu þar. Það eru einmitt þessi háu fjöll og þrengsli sem gera að verkum, segja talsmenn flugmálastjórnar, að útilokað má heita að koma við næturflugi til Ísafjarðar, nema þá hugsanlega með því að lýsa upp fjallshliðar og brúnir, sem mundi hafa óhæfilegan kostnað í för með sér. Við Patreksfjarðarflugvöll er svigrúm nokkru meira og telur flugmálastjórn þann flugvöll rétt á mörkunum að hægt sé að koma þar við lýsingu til næturflugs. Má ætla að hún hljóti að koma þar fyrr eða síðar. Það mundi að sjálfsögðu stórauka öryggi flugsamgangna til syðri hluta Vestfjarðakjálkans, en koma hins vegar nyrðri hlutanum að takmörkuðu gagni, bæði vegna mikilla fjarlægða og erfiðra fjallvega sem eru tepptir af snjó mánuðum saman á ári hverju.

En það er fleira en vöntun á brautarlýsingu sem veldur erfiðleikum við flug til Ísafjarðar og þá fyrst og fremst að vetrinum. Þar kemur einnig til vindátt og það á við allan ársins hring. Standi vindur t. d. af austri eða suðaustri þarf ekki nema andvara til að hamlað sé flugi dögum saman, jafnvel í mesta meinleysisveðri að öðru leyti. Af þessum orsökum er sérstaklega um það spurt í 2. lið fsp. minnar hvort athugaðir hafi verið möguleikar á lengingu og endurbótum á flugbrautum við Holt í Önundarfirði og í Bolungarvík, sem mundi þannig geta nýst Ísafjarðarflugi sem varabrautir þegar austanáttin eða suðaustanáttin hamlar lendingu á Ísafirði. Segja má að vísu að lending í Holti komi að takmörkuðu gagni fyrir Ísafjörð og nyrðri hluta Vestfjarða á meðan ekki er vetrarfær vegurinn yfir Breiðadalsheiði sem er að sjálfsögðu eitt af meginsamgöngumálum vestfirðinga sem verður að sinna nú af alvöru. En það gegnir nokkuð öðru máli með Bolungarvík, sem er í svo til stöðugu vegasambandi við Ísafjörð þótt Óshlíðin á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur sé raunar ekki alltaf árennileg til umferðar.

Á Þingeyri við Dýrafjörð er allgóð flugbraut þar sem áætlunarvélar Flugfélags Íslands geta lent, enda heldur félagið uppi áætlunarferðum þangað tvisvar í viku. Hefur Ísafjarðarvélin iðulega nú upp á síðkastið notað þann flugvöll þegar ólendandi er á Ísafirði. En þar er Breiðadalsheiðin aftur hinn þungi þrándur í götu á vetrum og vegalengdin til Ísafjarðar einnig allmiklu lengri og erfiðari en úr Holti.

Eins og hv. þm. er kunnugt setti flugráð s.l. haust nýjar og auknar takmarkanir á innanlandsflug Flugfélags Íslands á þá flugvelli þar sem lýsing er ófullkomin eða ekki fyrir hendi. Þessar nýju takmarkanir stytta enn flugtímann að vetrinum til. sem þó var stuttur fyrir, og vissulega munar um hvert kortérið þegar skammdegið stendur sem hæst, en samgönguþörfin á sama tíma hvað mest, í desembermánuði, bæði með tilliti til fólks og vöruflutninga. Að sjálfsögðu er veðurfarið hér hverju sinni stórafgerandi þáttur, og það fáum hvorki við alþm. né aðrir við ráðið né heldur breytt um hinar erfiðu náttúruaðstæður. Þeim mun nauðsynlegra er að leita annarra tiltækra leiða til aukins öryggis og úrbóta í þessum málum.

Það er nú svo, að bæði vestfirðingar og aðrir dreifbýlismenn þurfa ýmislegt og æðimargt til Reykjavíkur að sækja og hingað á höfuðborgarsvæðið, og það er dýrt spaug að þurfa að halda sér uppi hér dögum eða jafnvel vikum saman eftir að ferð hingað og erindi er lokið

Ég benti á í upphafi máls míns að Vestfirðir væru eini landshlutinn sem ekki hefði neinn upplýstan flugvöll. Ég vænti þess að ábendingar þær, sem í fsp. minni felast um hugsanlegar úrbætur eftir öðrum leiðum, fái jákvæðar undirtektir hjá hæstv. samgrh. sem fsp. er beint til.