15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 110 er fsp. frá hv. 9. landsk. þm. um flugsamgöngur við Vestfirði. Þar er spurt: „Eru einhver áform á döfinni um það, hvernig stuðlað verði að tryggari flugsamgöngum við Vestfirði?“ Í öðru lagi: „Hafa verið athugaðir möguleikar á lengingu og endurbótum flugbrauta við Holt í Önundarfirði og Bolungarvík með tilliti til hinna sérstöku aðflugserfiðleika við Ísafjarðarflugvöll?“

Við þessari fsp. vil ég gefa svo hljóðandi svar: Með hliðsjón af almennt slæmu ástandi íslenskra flugvalla og því, að enginn heildarstefnumörkun hefur verið til um úrbætur og skipulega uppbyggingu flugvallakerfis landsins, var skipuð í jan. 1975 5 manna nefnd er hefði það verkefni að gera úttekt á íslenskum flugvalla- og flugöryggismálum í heild. Jafnframt skyldi n. gera till. um, hverjar úrbætur séu nauðsynlegar, og áætlun um það, á hve löngum tíma sé raunhæft að stefna að því að ljúka þeim úrbótum og í hvaða röð. Í upphafi nefndarstarfsins heimilaði rn. að n. beindi athygli sinni fyrst og fremst að þeim þáttum flugvalla- og flugöryggismála er lúta að starfrækslu mannvirkja, tækja og þjónustu fyrir reglubundið áætlunarflug og þeim nauðsynlegustu úrbótum sem stefna beri að á þeim vettvangi, án þess þó að um tæmandi úttekt yrði að ræða. Samkvæmt þessu fjallaði n. um 36 flugveili ýmist fyrir Fokker-flugvélar eða minni gerðir, auk þess sem athugaðir voru 66 aðrir flugvellir, þ. á m. eru sjúkraflugvellirnir, en Keflavíkurflugvöllur féll utan nefndarstarfsins af stjórnunarlegum ástæðum.

N. lauk störfum um mánaðamótin nóv. og des. s. l. og skilaði þá skýrslu til rn. um niðurstöður sínar og till. Með skýrslunni fylgdu auk þess möppur er geyma ljósmyndir og kort og nánari upplýsingar varðandi þá 36 flugvelli er n. fjallaði einkum um. Skýrslu n. var dreift hér á hv. Alþ. fyrstu daga desembermánaðar, jafnframt því sem eintak myndamöppu var afhent skrifstofu þingsins til afnota fyrir þm. og alla er þar vinna. Mun ég síðar afhenda hv. fjvn. eina slíka möppu, en hún var ekki til þegar þessi skýrsla var send.

Þann tíma, sem liðinn er frá því að skýrslan barst rn., hefur hún verið þar til athugunar. Að athugun lokinni hef ég í hyggju, ef óskað er, að kynna Alþingi skýrsluna formlega og jafnframt, ef væri talin ástæða til, að leita eftir afstöðu þingsins til hennar.

Hvað varðar spurningu hv. 9. landsk. þm. um einstaka flugvelli, þá tel ég ekki ástæðu til að fjalla um þá sérstaklega, enda hefur ekki verið unnið að því frekar en gert er í þessari skýrslu n. Hins vegar ef gera ætti þar sérstakar ráðstafanir yrði það að gerast í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og sérstök fjárveiting í slíku skyni til vallarins eða á annan hátt, sem samgrh. hefur að sjálfsögðu ekki yfir að ráða því að fjárlög fyrir árið 1977 eru löngu afgreidd og hafa markað þessu sem öðru sinn bás.