15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. samgrh. sagði síðast, að málið hefði verið afgreitt í fjvn. nú fyrir jólin, þá er það auðvitað rétt. En það var hækkað um nokkra tugi millj. í fjvn. og meðförum þingsins frá því sem hæstv. samgrh. lagði til í frv. að fjárlögum fyrir árið 1977. Það er þó staðreynd. Og ég vil minna hæstv. ráðh. á það, ef honum er farið að förlast minni, að bæði við afgreiðslu í fjárlaga fyrir árið 1976 og 1977 gerði ég að sérstöku umræðuefni einmitt þá stöðu — slæmu stöðu — sem flugmálin væru í, ekki síst að því er varðaði öryggisútbúnað á flugvöllum. Ég gerði sérstaklega grein fyrir þessu í umr. bæði við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1976 og 1977, þannig að það á ekki við hjá hæstv. ráðh. að því er mig varðar, að ég hafi ekki verið baráttumaður fyrir því að láta meira fjármagn í flugmálin en hæstv. ráðh. hefur viljað láta af hendi rakna sem æðsti yfirmaður þessara mála. (Grípið fram í.) Jú, jú, við getum farið lengra aftur í tímann. Það var farið betur með þessi mál í tíð fyrrv. ríkisstj., þó að hæstv. núv. samgrh. hafi þá verið fjmrh. Þá voru aðilar sem höfðu góð áhrif á hann í þeim herbúðum. Hinir, sem hafa tekið við síðar, hafa greinilega haft miklum mun verri áhrif á hæstv. ráðh. en var í fyrri tíð, og það ber að harma. Og mitt í þeim hópi er hv. þm. sem var hér að grípa fram í áðan, hv. þm. Lárus Jónsson. Hann hefur haft slæm áhrif á hæstv. samgrh. í þessu efni.

Hæstv. ráðh. talaði um að hér ætti ekki að verða afturfótafæðing. Ég tek undir það. En það virðist vera í sumum öðrum framkvæmdum sem afturfótafæðing má eiga sér stað. En væri farið að tala um það væri auðvitað höggvið nærri hæstv. samgrh., því að sumar þær framkvæmdir, sem eru í gangi og hafa verið settar á fót einmitt í hans kjördæmi, hefur borið að með afturfótafæðingu. En það á kannske bara að vera þar.