15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi strax fram, að ég tala hér ekki fyrir hönd vestfirðinga, en aftur á móti er ég flugráðsmaður og mér þykir rétt að standa hér upp sem slíkur og draga athygli þingheims að þeirri staðreynd, sem mörgum gleymist kannske, að flugmálastjóri hefur varað við ástandi flugvalla úti á landi. Flugráð hefur rætt þessi mál á mörgum fundum og komist að þeirri niðurstöðu að þar er mjög mikilla úrbóta þörf, þ. e. a. s. á flugvöllum úti á landi.

Samgrh. hefur sett á laggirnar n. sem komst að þeirri niðurstöðu að öryggismálin — eingöngu aðeins brýnustu öryggismál — væru í því ásigkomulagi að það þyrfti að láta 5–6 milljarða á næstu 5 árum til að fullnægja lágmarksskilyrðum öryggismála úti á landsbyggðinni. Flugráð sjálft með sínum starfskrafti komst að þeirri niðurstöðu að í það þyrftu að fara 800–1000 millj. á ári næstu 5–6 árin, þannig að þessar tvær n., sem starfa á vegum og undir stjórn samgrh., komast að sömu niðurstöðu.

Vegna þeirra ummæla, sem hafa fallið á fundum flugráðs í þá átt og frá reyndum flugmönnum í innanlandsflugi, að öryggismál okkar séu í því ástandi að þeir eru aldrei öruggir um að vita með neinni vissu hvar þeir eru, nema þeir sjái ákveðin kennileiti, þ. e. a. s. ljós á sveitabæjum á þeim leiðum sem þeir fljúga, þá geta menn ímyndað sér hvernig er um öryggi farþeganna, sem eru þá flestir þeir sem kjósa aðra en þá sem eru þm. Reykjavíkur, svo við bindum ekki þetta tal við Reykjavík. En öryggismál Reykjavíkurvallar sem millilandaflugvallar eru ekkert betri ef í það er farið. Sem sagt, vegna þeirra ummæla, sem í flugráði hafa fallið frá reyndum flugmönnum, átti ég þátt í því að ganga milli ráðh. og rn. með flugmálastjóra, á fund fjmrh., á fund fjvn., og ræða um það í þingflokki Sjálfstfl. líka, og ég varð ekki var við að hv. 9. landsk. þm. tæki neitt sérstaklega undir málflutning minn þar. Árangurinn varð sá (SigurlB: Það er ekki rétt.) — að sú upphæð, sem flugráð fór fram á, var skorin niður um helming eða niður í 600 millj. í rn. samgöngumála og um helming aftur í fjvn., niður í 300 millj., og í því stendur framkvæmdafé flugráðs nú sem stendur. Það er rétt að þetta komi hér fram.