15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Jón Árnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál. — Það er ekki rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þeir í flugráði hefðu 300 millj. aðeins til ráðstöfunar. Það eru 376 millj. Það voru 300 millj. þegar málið var lagt fyrir Alþ., en bætt var við 76 millj. og skyldi ráðstafa því fé eingöngu til kaupa á öryggistækjum.

Það er rétt, sem síðasti ræðumaður sagði, að það eru öryggismálin á flugvöllunum sem verður að leggja áherslu á, ekki bara á Vestfjörðum eða Ísafirði, heldur um land allt. Það vantar ábyggilega mikið á að sé búið að koma þessum málum í það horf sem nauðsynlegt er og viðunandi, og það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði líka og hafði eftir flugmönnunum — ég hef heyrt þetta — að þeir telji að það sé allt of mikið öryggisleysi í sambandi við flugið hér innanlands til þess að það sé viðunandi og sé mjög nauðsynlegt að gera verulegt átak í þessum efnum. Fjvn. hefur rætt þetta mál sérstaklega eftir að fjárlög voru afgreidd, m. a. vegna þess að nm. er ljóst þetta mikla vandamál sem nauðsynlegt er að leysa sem allra fyrst.

Ég vil aðeins benda á afgreiðslu fjárlaganna upp á 376 millj., að megnið af þeirri upptalningu, sem þar er um að ræða, er til tækjakaupa og öryggisútbúnaðar. Megnið af fjármagninu fer til þess. En það er því miður ekki hægt að verja 800 millj. á ári til flugmála, eins og hv. þm. taldi nauðsyn á.