15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur nú komið hér fram, sem ég átti síst von á, að flugvallamál Vestfjarða væru komin í þann vanda að aðeins ljósmóðir gæti leyst úr, en þau störf treysti ég mér ekki til að taka að mér. Aftur á móti tel ég rétt þegar þessi mál eru rædd, að þá sé ekki gengið að því sem gefnu að Fokkervélar þær, sem Flugfélag Íslands hefur til umráða, séu einu vélarnar sem henta til innanlandsflugs. Ég vil vekja athygli á því, að norðmenn sömdu um kaup á vélum í Kanada á s.l. vetri sem gert er ráð fyrir að þurfi 600 m langar brautir og taki um 50 farþega. Við þær þröngu aðstæður, sem eru á Vestfjörðum, held ég að ætti alveg sérstaklega að taka það til athugunar hvort með öðrum tegundum af vélum er ekki hægt að halda uppi örari flugsamgöngum en nú er við Ísafjarðarflugvöll. Hitt viðurkenni ég, að í Holti í Önundarfirði væri að sjálfsögðu mjög æskilegt að byggja varavöll. En það eitt dugir ekki nema samgöngur við þann völl séu jafnframt tryggðar frá Ísafjarðarflugvelli.