15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka hæstv. utanrrh. fyrir að hafa svarað spurningum mínum, þó ég verði að segja það hreinskilnislega, að mér virðist að gjörðir ráðh. séu jafnforkastanlegar eftir að svör hans liggja fyrir.

Ég hélt því aldrei fram í máli mínu áðan að ráðh. væri sekur um lögbrot, en ég sagði að vinnubrögð hans væru algjörlega óviðeigandi. Það var haft eftir deildarstjóra varnarmáladeildar rn. í Morgunblaðinu í morgun, að nafn Alfreðs Þorsteinssonar hefði ekki verið á þeim lista 34 manna sem rn. höfðu borist umsóknir, frá um þetta starf. Ráðh. skýrir þetta með þeim hætti að hann hafi persónulega tekið við umsókninni og að því er manni skilst hafi embættismenn rn. ekki um það vitað. Ef hæstv ráðh. hefði farið rétt að, þá hefði hann að sjálfsögðu afhent þessa umsókn til skráningar, þannig að hann væri ekki einn til vitnis um að þessi umsókn hefði borist með réttum hætti.

Ráðh. kvartaði yfir því að hann hefði ekki fengið að vita um þessar umr. með eðlilegum hætti, gat þess þó að hann hefði fengið skilaboð um það í morgun að umr. færu fram um þetta efni. Ég vil láta það koma hér fram, að þessi skilaboð voru að sjálfsögðu frá mér runnin, enda þótt svo virðist af frásögn ráðh. að þau hafi ekki verið alveg jafnítarleg og ég gerði ráð fyrir og vonaðist til að þau yrðu. En af þeim átti hann ekki að þurfa að vera í neinum vafa um hvað þessar fsp. mundu hljóða.

Ég spurði um það áðan á hvaða lagagrundvelli starfsemi þessarar stofnunar væri byggð. Ég tel ekki til of mikils mælst að ráðh, utanríkismála hafi á takteinum á hvaða grundvelli starfsemi þessarar stofnunar er rekin sem hann er að skipa forstöðumann fyrir. Hann staðfestir í máli sínu að þessi stofnun starfar ekki á neinum lagagrundvelli. Hann vildi hins vegar ekki gera neina aths. við það sem ég sagði áðan, að beinlínis mætti lesa það úr lögum að starfsemi þessi væri ólögleg. Hann sagði að starfsemi þessarar nefndar hefði ekkert breyst um árabil. Ég upplýsti hins vegar áðan, vissi það reyndar ekki sjálfur fyrr en í morgun, að þessi svonefnda sölunefnd, sem sett var á laggirnar fyrir nokkrum áratugum, var lögð niður fyrir nokkurn af þessum hæstv. ráðh. Hún hefur ekki starfað að undanförnu og mun ekki vera ætlað að starfa á næstunni. Ég heyrði ekki að ráðh. gerði neina aths. við þá fullyrðingu.

Varðandi þessi mál að öðru leyti vil ég aðeins segja það, að það er almenn regla að fólki sé gefinn kostur á að vita, hverjir sækja um tiltekna stöðu, til þess að það geti áttað sig á því hvort stöðuveitingin er réttlætanleg og á rökum reist eða ekki. Þegar hins vegar ráðh. neitar að upplýsa hverjir aðrir hafi sótt um stöðuna og það meira að segja þegar um 34 menn er að ræða, þá er hann að fótumtroða lýðræðisleg réttindi almennings. Þetta er ekki spurning um það, hvort viðkomandi menn óska eftir því að nöfn þeirra séu birt. Þetta er sjálfsögð krafa almennings, að fá að vita hvort stöðuveitingin hafi verið rétt og sanngjörn. Um það getur fólk ekki dæmt öðruvísi en að vita hverjir sóttu.

Ég vil svo að lokum segja það eitt, að ég hef ekki haldið því fram í þessum umr. að ekki sé hægt að ráða borgarfulltrúa úr Reykjavík til þessa starfs. Það hef ég aldrei sagt. En ég hef sagt það og segi það enn, að þessi staða er þess eðlis að það er lítt við hæfi að náin tengsl séu annars vegar milli slíkrar stöðu og svo hins vegar stjórnmálastarfsemi, að ég tali ekki um beina starfsemi í þágu stjórnmálaflokka.