15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég frétti um það rétt fyrir hádegi að form. Alþb. hefði tilkynnt að hann ætlaði að hefja þessar umr. Ég er ekki frummælandi og þar af leiðandi tel ég ekki að það hafi verið mitt verk að tala við hæstv. ráðh., svo að enginn misskilningur þurfi um það að vera.

Hæstv. ráðh. bar fram þá eina afsökun á því að hann birtir ekki þessi nöfn, að sumir umsækjenda hafi beðið um að nöfn þeirra yrðu ekki birt og honum hafi fundist að það gæti verið óþægilegt fyrir þessa menn ef það væri gert opinbert að þeir hefðu sóst eftir starfinu. Þetta getum við á vissan hátt skilið. Það er mannlegt. En við skulum gera okkur grein fyrir að engu að síður felst í þessu mjög mikið óréttlæti, því hverjir eru það sem hafa aðstöðu til þess í þjóðfélaginu að biðja ráðh. um að hlífa sér við birtingum? Hverjir eru það sem hafa það ekki?

Það hefur tíðkast og það þekkjum við frá liðnum árum, að menn leggi umsóknir inn til ráðh„ sem þeir þekkja, og biðji hann að hafa þetta í vasanum og láta það ekki sjást, ef þeir fái ekki starfið. Það er sjálfsagt ekki hægt að koma að öllu leyti í veg fyrir þetta. En ég vil ítreka að þrátt fyrir óþægindi sumra eru bað sérréttindi manna, ef þeir geta fengið ráðh. til þess að birta ekki þá staðreynd að þeir hafi sótt um tiltekin störf.

Það stendur í umræddri lagagrein og er prentað í Morgunblaðinu að umsækjendur eða viðurkennd félög opinherra starfsmanna eigi rétt á að fá vitneskju um hverjir umsækjendur um starf eru. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðh. eigi við þessa tvo aðila þegar hann segir, að þegar krafa komi frá aðilum, sem rétt eigi á að fá að vita þetta, muni hann verða við því. Ef það hefði nokkurn tíma hvarflað að alþm., þegar þessi lög voru sett, að það þyrfti að setja það í lög að Alþ. eða alþm. ættu jafnan rétt á að vita svona hluti eins og umsækjendur eða félög opinberra starfsmanna, þá hefði það auðvitað verið sett í lög. En ég tel að það sé misvirðing við Alþ. að tala við það eins og það sé aðili sem eigi ekki rétt á að fá að vita þetta, af því að það stendur ekki beinum stöfum í víðkomandi lagagrein. Ég hafna því þessum skýringum, þó að ég viðurkenni að ráðh. haldi sig innan ramma þess sem heimilað er í gr., þó að ég telji, eins og ég sagði áður, túlkun hans, að þetta starf heyri undir utanríkisþjónustuna, vera hreinan útúrsnúning.

Ég vil loks skjóta því að, að varla sé svara að vænta núna, að ég hef minnst á hina voldugu húsbyggingu þessa fyrirtækis og tel að ástæða sé til að það mál verði skýrt opinberlega sem og annað er starfsemi fyrirtækisins varðar. Ég ítreka eindregin tilmæli mín til hæstv. ráðh. að hann breyti stefnu sinni, því að það er fyrst og fremst leyndin yfir þessu máli neitunin að verða við óskum blaðamanna um að fá lista yfir umsækjendur, sem vekur tortryggni. Ef á að halda slíkum skollaleik áfram er auðvitað enginn vandi fyrir blöðin að láta einhvern blaðamanninn leggja inn umsókn um allar stöður og síðan getur hann sem umsækjandi samkv. þessari lagagrein heimtað að fá að vita hverjir sæki á móti honum. Þetta þýðir að ef menn fara að hártoga svona greinar getur það leitt út í fásinnu, og best er að hafa þetta allt á hreinu og hætta þessu laumuspili.