15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessu máli, en sé mig knúinn til þess, sérstaklega vegna þess að hér er um að ræða ráðningu á manni, Reykvíkingi, sem ég er búinn að þekkja nokkuð lengi og lengur en kannske flestir aðrir hér og dreg ekki í efa að hann er fullfær um að gegna þeirri stöðu sem hann er ráðinn til, hvort sem hann hefur verið borgarfulltrúi eða ekki þegar hann var skipaður í þá stöðu. Að vísu hefur hann gert mér margan óleikinn með skrifum sínum, bæði sem íþróttafréttaritari og pólitískur ritari. En það breytir því ekki, að hann hefur í flestum tilvikum kannske, þó að mér hafi ekki fundist það, haft nokkuð til síns máls í gagnrýni sinni. En ég held að það sé alveg óþarfi að gera hann tortryggilegan á hv. Alþ. á þann hátt sem hér er verið að gera. En þó að nafn hans slæðist hér inn í umr. og talað sé um hina 34 aðra, 34+1, þá er ekki víst að allir séu sammála um hver sé hæfastur af þeim sem ekki koma til greina. Og þegar hv. þm. Stefán Jónsson gerir það í nafni lýðræðis og í umboði umsækjenda að krefjast þess, að nöfn séu birt, vil ég gera þá sömu kröfu fyrir hönd þeirra, sem ekki vilja láta nafns síns getið. Ef mitt nafn er eitt af þessum 34, þá ætla ég að biðja ráðh. að birta það ekki, menn verða bara að giska á hvort það er þar eða ekki. Ég óska ekki eftir að það sé birt. (Gripið fram í: Ja, nú vandast málið.) Nú vandast málið. Já, málið er miklu flóknara en það, að einhverjir þm. geti gert kröfur til nafnbirtingar ef umsækjendur óska þess ekki sjálfir, og ráðh. hefur upplýst það.

Ég lít á þetta mál allt öðrum augum. Ég lít fram hjá þessu máli eins og það liggur fyrir og ráðningunni á Alfreð Þorsteinssyni borgarfulltrúa. Ég lít á þetta sem framhald af því tali, af þeim árásum, má segja, sem ráðh. hefur þurft að þola í mörgum málum og er komið miklu meira en nóg af. Og þá er ég kominn að ástæðunni fyrir því að ég stóð upp. Ég er orðinn þreyttur á því að sitja og hlusta á það, bæði hér á Alþ. og í útvarpi, og lesa um það í blöðum. Ráðh. hefur tæplega tíma til að stunda sína vinnu að því marki sem þjóðin krefst af honum vegna stanslausra árása úr öllum áttum, á ýmsan hátt og í mismunandi málum.

Ef við felum ráðh. að taka ákvörðun í svona máli, eins og t. d. að ráða framkvæmdastjóra fyrir einni ríkisstofnun, eigum við þá að elta hann uppi í ákvörðunum hans og henda ákvörðuninni á torg og segja: Almenningur á að geta metið hvort hann hefur gert rangt eða rétt? Hann gerir auðvitað rétt að hans eigin mati, hvað sem almenningur segir.

Ég vil segja það, að ég hef þekkt bæði ráðh. og Alfreð Þorsteinsson sem borgara hér. Ég hef átt þá sem félaga hér í bænum, og ég hef átt þá sem pólitíska andstæðinga í borgarstjórn, og ég sé enga ástæðu til að sitja hjá og hlusta á þær deilur sem hér hafa verið, bæði á Alþ. og opinberlega á öðrum vettvangi, án þess að standa upp og mótmæla því sem fram hefur komið. Ég veit af eigin reynslu, að ráðh. er nógu sterkur til að bera þetta, en þetta er kross sem enginn ráðh. á að þurfa að bera. Og ég segi við hann: Ég vona að þú látir ekki bugast og haldir áfram þeirra stefnu sem þú hefur tekið. En í guðanna bænum, hættu ekki fyrirgreiðslustarfseminni, því að fólk í borginni treystir á þig engu síður en borgarfulltrúa og aðra ráðamenn.