26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef beint til hæstv. iðnrh. fsp. í 5 liðum varðandi hugsanlegt álver við Eyjafjörð og ýmis atriði sem snerta orkufrekan iðnað almennt, en fsp. hljóða þannig:

„1. Eru uppi ráðagerðir hjá ríkisstj. um að auka stóriðjurekstur erlendra aðila á Íslandi?

2. Hefur verið gerð áætlun um að reisa álver við Eyjafjörð?

3. Eru hafnar náttúrufræðilegar rannsóknir í sambandi við slíka áætlun? Ef svo er, hver kostar áætlanirnar?

4. Hverjir eiga sæti í viðræðunefnd um orkufrekan iðnað?

5. Í hvers umboði starfar nefndin, hvert er verksvið hennar, umboðstími og fjárráð?“

1. spurningin er óneitanlega um allviðamikið mál, þar sem er hugsanleg ráðagerð um aukinn stóriðjurekstur útlendinga hér á landi. Sem stuðningsmaður ríkisstj. tel ég mikilvægt að fá svar við þessari fsp. Mér er ókunnugt um að við upphaf núverandi stjórnarsamstarfs hafi verið rætt um þess háttar aukningu erlends atvinnurekstrar, og ég veit ekki til að slíkt mál hafi verið borið undir Framsfl. síðar.

2. fsp. er um það, hvort gerð hafi verið áætlun um álver við Eyjafjörð. Ástæðan til þess, að svona er spurt, er sú að þriðjudaginn 21. sept. s.l. urðu umr. í bæjarstjórn Akureyrar þar sem fram kom að forseti bæjarstjórnarinnar hefði átt viðræður við fulltrúa fyrirtækisins Norsk Hydro um byggingu 100 þús. tonna álvers við Eyjafjörð, raunar ekki á bæjarlandi Akureyrar, heldur utan bæjarmarkanna.

Í fréttum frá bæjarstjórnarfundinum er skýrt frá því, að ýmsar náttúrufræðilegar rannsóknir séu hafnar eða í þann veginn að hefjast í þessu sambandi. Hefur þess verið getið, að Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Veðurstofa Íslands muni annast rannsóknirnar. því spyr ég í þriðja lagi, hvort rannsóknir séu hafnar og hver beri kostnað af þeim.

4. og 5. spurningin varða viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Er að því spurt, hverjir eigi sæti í henni, í hvers umboði hún starfi og hvert sé verksvið hennar, starfstími og fjárráð.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geti leyst úr þessum spurningum.