15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

254. mál, innflutningur á frosnu kjöti

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 115 að leggja fram fsp. til hæstv. fjmrh. um innflutning á frosnu kjöti. Það er III. fsp. á því þskj. í fjórum liðum. Ég sé ekki ástæðu til að lesa fsp. upp, enda geri ég ráð fyrir að efni hennar komi fram í svari ráðh.

En ástæða þess, að ég ber þessa fsp. fram, er sú, að síðla í nóv. 1975 barst bréf frá tollgæslustjóra til áhafna verslunarskipa, sem þá voru í Reykjavík, og svo á næstu dögum og vikum til þeirra, sem til Reykjavíkur komu og líklega til annarra hafna, a. m. k. hér í nágrenninu, þar sem þeim var tilkynnt um það, að ef þær hefðu í farangri sínum frosna kjötvöru, þá mundi hún skilyrðislaust verða gerð upptæk. Nú vil ég skýrt undirstrika að það hefur og hafði verið þá um mjög langan tíma, í mörg ár, sú hefð að þessir starfsmenn mættu hafa slíkt með sér til heimilisnota, sérstaklega þó fyrir stórhátíðar, án þess að tollgæslan gerði nokkrar aths. við. Ég geri ráð fyrir að tollgæslan hafi ekki gert aths. við þetta m. a. vegna þess, að hún hafði séð að á þessu sviði einmitt voru ákvæði laga eða reglugerða þverbrotin, og þar á ég að sjálfsögðu við innflutning sendiráða og innflutning til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta var leyft í mörg ár, eins og ég segi, án þess að aths. væru gerðar við, en hins vegar ef farmenn gerðu þetta að innflutningi, þá var slík vara skilyrðislaust gerð upptæk.

Nú þóttu mér þetta heldur kaldar kveðjur, þegar þetta bréf kom frá þessum embættismanni. Í sjálfu sér mátti strax álíta að þarna væri verið að efna til ófriðar sem ástæðulítið þótti að efna til, þar sem í fyrsta lagi allflestir þessir áhafnamenn höfðu þegar hafið þá ferð, sem venjulegast kallast á sjómannamáli jólaferð, og áttu þess ekki kost að sjá þessa nýju framkvæmd laganna og auk þess var þeim enginn kostur gefinn á því að fara með þessa vöru til baka og skila henni til þeirra sem seldu þeim, sem í alflestum tilfellum voru sömu aðilar og seldu til sendiráðanna hér í Reykjavík sams konar vöru sem fór í gegn og til neyslu hér athugasemdalaust.

Ég álít að það sé ærin ástæða til að breyta reglum, sem um þetta munu gilda, og leyfa þetta áfram, einfaldlega vegna þess að þarna er um slíka vöru að ræða að útilokað er að hægt sé að telja að hún hafi neitt sem heitir skaða í för með sér, þótt til landsins komi, því að þannig er frá henni gengið. Það er hins vegar miklu frekar hægt að hugsa sér að aðrir skaðvaldar geti verið þar að verki.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri að þessu sinni, fyrr en þá máske þegar hæstv. ráðh. hefur lokið svari sínu.