15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

156. mál, jöfnun símgjalda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fsp. á þskj. 303 vil ég gefa svar. Mér skildist á ræðu hv. fyrirspyrjanda að ég þyrfti ekki að rekja fyrri aðgerðir í þessum efnum, heldur það sem gerst hefði við síðustu hækkun. Er það ekki rétt skilið? Annars get ég gert hitt ef ástæða er til. (Gripið fram í.) Það, sem gerðist við síðustu hækkun, var að skrefum á ársfjórðungi var breytt úr 525 í 600 í dreifbýlinu, en er óbreyttur á Reykjavíkursvæðinu, 300 skref í ársfjórðungsgjaldi á höfuðborgarsvæðinu, auk þess, sem hann tók svo fram, að næturtaxtinn og helgartaxtinn byrjar kl. 19 á kvöldin og gildir til kl. 8 á morgnana og byrjar kl. 19 á föstudagskvöldum og nær til kl. 8 á mánudagsmorgna. Þrátt fyrir þessar aðgerðir hefur ekki verið hægt að fá Hagstofuna eða þá, sem reikna út vísitölu, til að taka tillit til þessa, sem ég tel nú samt að komi þegnum landsins að notum. En þetta hvort tveggja var gert.

Þessu til viðbótar vil ég svo geta þess, að nú er verið að ganga frá skipun samstarfsnefndar póst- og símamálastjórnarinnar annars vegar og fulltrúa samtaka sveitarfélaga og munu verða þrír aðilar frá þeim sem vinna að þessu með póst- og símamálastjórninni. Enn fremur er verið að athuga að setja upp mælingu eða klukku á skrefafjöldann hér á þéttbýlissvæðinu. Þetta er mál sem hefur verið til umr. alllengi. Fjárhagur símans hefur verið erfiður, en lagaðist á s. l. ári og við vonum að geta haldið því, en það kostar þó nokkra fjárhæð að koma þessu upp. Þess vegna er nú verið að athuga þetta eins nákvæmlega og tök eru á, en það mundi breyta verulega miklu á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Að þessu og fleira hliðstæðu verður unnið af þessari n. sem nú er verið að ganga frá skipun á, þannig að það var ekki talið tímabært að fara inn á þetta núna og því látið nægja það sem var gert í haust, enda var það nokkurs virði. En að frekari aðgerðum er unnið, eins og ég hef þegar upplýst.