26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gílason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Ég held að þau hafi skýrt margt af því sem áður var óljóst. Það gefst auðvitað enginn tími til þess núna að fara að hefja hér almennar umr. um stóriðjumál og um samvinnu íslendinga við erlenda aðila um rekstur stóriðjuvera, enda kannske ekki svo að hæstv. ráðh. hafi gefið sérstaklega tilefni til þess. En þó verð ég að segja það, að ég hlýt að láta í ljós andstöðu mína gegn hugmyndum um frekari samvinnu á þessu sviði. Ég held að það sé nauðsynlegt að ef slíkar hugmyndir eru uppi, þá þurfi að ræða það miklu nánar innan stjórnarflokkanna og innan þingsins heldur en verið hefur. Ég tel fyrir mitt leyti að reynsla okkar af stóriðjuverum og aukin þekking okkar á starfsemi flestra slíkra fyrirtækja erlendis nú gefi til kynna að það sé óæskilegt fyrir íslendinga að sækjast eftir stóriðju í landinu.

Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að efla iðnað á Íslandi. En það er jafnnauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvaða iðnaður er okkur hentugur og hvaða iðnaður er okkur eftirsóknarverður. Ég tel að stóriðja sé ekki í flokki þess iðnaðar sem er okkur eftirsóknarverður, og mér finnst að frekari atvinnurekstur útlendinga eigi ekki að koma til greina.

Hvað snertir álver við Eyjafjörð sérstaklega, sem mjög hefur nú veri$ rætt um, þá er vitanlega jafn-óeftirsóknarvert að fá þangað slíkt iðnver eins og það væri að setja það niður einhvers staðar. Og ég þori að fullyrða það, og ég vil að það komi hér fram, að það er mjög lítill áhugi hjá fólki við Eyjafjörð að fá slíka sendingu, en hins vegar hygg ég að það sé talsvert mikil bein andstaða gegn því.

Mig langar að ræða svolítið um þær upplýsingar sem hæstv. ráðh. gaf um viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Þó að ekki sé tími til þess að hafa um það löng ræðuhöld, langar mig þó til að koma við almennum aths. Ég vil leyfa mér að koma því á framfæri, að n. af þessu tagi má aldrei verða of umsvifamikil eða allt of innilokuð í störfum sínum. Ég óttast þó að hvort tveggja hafi gerst. Hæstv. ráðh. taldi að þessi n. hefði verið skipuð árið 1971, og það er rétt að n. mun hafa hlotið það nafn þá. En ég hygg að sögulega hefði mátt rekja þessa n. allmiklu lengra aftur í tímann, sennilega 20 ár, ef ekki meira. Og af því að hæstv. ráðh. var hér með gagnlega sögulega upprifjun, þá hefði auðvitað verið full ástæða til þess að setja þessa n., sem nú starfar, í víðara sögulegt samhengi.

Ég sem sagt vil koma því alveg sérstaklega að hér, að ég tel að þessi n. eigi ekki að vera of umsvifamikil og hún eigi ekki að starfa of lengi og ekki of frjálst, og hún má síst af öllu vera svo innilokuð í störfum sínum sem mér virðist að hún hafi verið. A.m.k. er það alveg augljóst, að við, sem á þingi sitjum, höfum ekki haft mikið af störfum þessarar n. að segja. Við höfum ekki haft neinar reglubundnar fréttir af henni. Þess vegna held ég að það væri til mikilla bóta að koma á meiri trúnaði á milli þessarar n. og þingflokkanna eða einstakra þm., ef þessarar n. er talin þörf. Og ég held að það væri í rauninni lágmarkið að það bærist til þingsins og helst til einstakra þm. árleg skýrsla um störf þessarar n., úr því að hún hefur slíkt umboð að hún hefur eiginlega engan sérstakan umboðstíma, heldur er nánast skipuð ævilangt, að því er virðist. Ég held jafnvel að það væri æskilegt að svona skýrsla yrði rædd í Sþ. eins og ýmsar aðrar skýrslur sem berast þinginu. Ég held að það væri mjög æskilegt.

Ég vil þess vegna beina því alveg sérstaklega til hæstv. iðnrh., að hann taki þessa aths. til greina um það, að svo lengi sem þessi n. starfar, þá gefi hún reglubundnar skýrslur til þingflokka eða til einstakra þm., og ég gæti, eins og ég hef sagt, vel hugsað mér að slík skýrsla yrði rædd í þinginu. Ég held að það væri mjög gagnlegt ef við gætum opnað umr. um þessi mál.