15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

258. mál, vetrarvegur um Breiðadalsheiði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Vestf. vil ég svara með þeim upplýsingum eða því svari sem mér hefur borist í hendur frá Vegagerð ríkisins, en það er svo hljóðandi :

Samkv. Vestfjarðaáætlun var áformað að á árunum 1965–1968 yrðu gerð 500 m löng jarðgöng á Breiðadalsheiði til þess að fá öruggari samgöngur milli byggðarlaga við Djúp og vestan heiðar. Jarðfræðilegar rannsóknir sýndu að berglög lágu þannig, miðað við legu jarðganga, að fara þyrfti gegnum mörg millilög. Tilraunaboranir og sprengingar við fyrirhugaða gangamunna leiddu í ljós, að bergið var svo feykið og millilögin svo laus í sér, að ef gera hefði átt jarðgöng á þessum stað hefði þurft að fóðra þau jafnóðum og þau voru sprengd. Hefði það gert gangagerðina bæði seinlega og mjög dýra. Var því fallið frá þessari lausn, a. m. k. í bili, meðan leitað væri annarra úrræða, en vegurinn í kinnunum beggja vegna breikkaður og hækkaður verulega.

Lausnir, sem m. a. eru taldar koma til greina og athugaðar hafa verið, eru þessar:

1. Að grafa og sprengja klauf niður í háskarðið og nota efnið, sem úr henni kemur, í vegfyllingu beggja vegna, byggja síðan þak yfir klaufina í hæfilegri hæð og fylla með jarðefni yfir. Má því segja að hér sé einnig um göng að ræða þó að með öðrum hætti sé fyrir komið en þeim sem áður voru hér ráðgerð. Áætlaður kostnaður á verðlagi dagsins í dag mundi vera um 800 millj. kr.

2. Vegsvalir yfir veginn í kinnunum annars vegar eða beggja vegna háskarðsins. Hér er um það að ræða að byggja yfir veginn þar sem snjóþyngsli og hætta af snjóflóðum eru mest. Áætlaður kostnaður er 450–560 millj. kr., eftir því hvort miðað er við einbreiðan eða tvíbreiðan veg. Kostnaðartölur þessar eru fyrir yfirbyggingu á 300 m kafla í suðurkinn.

3. Jarðgöng mun ofar en upphaflega var gert ráð fyrir með miklum fyllingum við gangamunnanna. Er með þessari lausn stefnt að því að komast með göngin í þykkari berglög og velja stefnuna þannig að ekki þurfi að fara í gegnum nema fá millilög. Áætlaður kostnaður við þessa lausn er um 580 millj. kr.

Allar þessar lausnir eru mjög dýrar og þörfnuðust frekari rannsókna, ef ákveðið yrði að fara í slíkar framkvæmdir.

Á undanförnum árum hefur verið kannað hvort hægt er í venjulegu árferði að halda veginum opnum að væntanlegu gangaopi. Niðurstaða þeirrar athugunar er í stuttu máli sú, að með bættum vélakosti til snjómoksturs og með minni háttar lagfæringum á veginum sjálfum er framkvæmanlegt að halda veginum opnum. Á hinn bóginn er það oft veðurofsi, en ekki snjómagn, sem hindrar snjómokstur og það jafnvel þótt blíðviðri sé á fjörðum niðri.

Í ljósi þess, hvað um háar upphæðir er að ræða í fyrrgreindum framkvæmdum, er það álít Vegagerðar ríkisins að það sé tilraunarinnar virði að reyna að gera veginn í kinnunum jafngóðan og aðra hluta leiðarinnar yfir Breiðadalsheiði. Í þessu skyni hafa verið settir upp snjóskermar á fjallbrúnina ofan við suðurkinn til þess að hafa áhrif á hengjumyndun í fjallinu og draga þannig úr snjóflóðahættu. Virðist svo sem þetta hafi tekist þótt óyggjandi sönnun sé enn ekki fengin vegna lítilla snjóa í vetur. Með þessu eykst bæði umferðaröryggi á heiðinni og opnunartími lengist á vetrum. Auk þessa er hægt að lækka veginn og færa hann framar frá fjallinu og hafa þannig áhrif á skaflamyndun á veginum sjálfum og lengja einnig þannig opnunartíma hans. Hefur þegar verið tekið úr hlíðinni í háskarðinu og sést strax jákvæð breyting á skaflamyndun við þessar aðgerðir. Ekki hefur verið gerð kostnaðaráætlun yfir fyrrnefndar aðgerðir, en líklegt er að með 100 millj. kr. megi gera veginn um háheiðina þannig úr garði að hann verði ekki verri en aðrir hlutar leiðarinnar.

Þetta er það svar sem ég get gefið hv. fyrirspyrjanda, og vona ég að það skýri nokkuð þetta mál og sýni að það hafi verið í athugun þó að betur þurfi þar að, framkvæma ef duga skal.