16.02.1977
Efri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

145. mál, framlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Frsm. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til laga um heimild til hækkunar framlags Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Hér er um það að ræða í fyrsta lagi að ríkisstj. sé heimilt að semja um hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 23 millj. sérstakra dráttarréttinda í 29 millj. sérstakra dráttarréttinda. Þýðing þessa er einkum sú, að við hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum aukast lántökumöguleikar landsins hjá sjóðnum, auk þess sem úthlutun sérstakra dráttarréttinda er ákveðin í hlutfalli við kvótann. Í öðru lagi er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að semja um hækkun á framlagi Íslands til Alþjóðabankans úr 18.4 millj. bandaríkjadollara í 22.2 millj. bandaríkjadollara miðað við gullgengi dollarans 1. maí 1944. Hér er ekki um það að ræða að þetta framlag verði greitt að fullu. 10% framlagsins verður greitt nú á næstunni og fram til ársins 1980, en 90% er ábyrgðarfé sem stendur til tryggingar á skuldbindingum bankans.

N. leggur til að frv. verði samþykkt. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Ragnar Arnalds og Axel Jónsson.