16.02.1977
Neðri deild: 50. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

159. mál, siglingalög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um breyt. á siglingalögum.

Eins og hv. 1. flm. vitnaði til voru gefin út 6. sept. á s.l. hausti brbl. um kaup og kjör sjómanna og með þeirri afgreiðslu lögfestir þeir samningar, sem samninganefndir sjómanna og útvegsmanna undirrituðu í febrúarlok á s. l. ári og 27. mars, 14. maí og síðast 28. júlí, og þeir voru prentaðir sem fylgiskjöl með þessum brbl. Það er eitt atriði í þessum samningum, sem voru lögfestir með brbl., sameiginlegt ákvæði fyrir vertíðarsamning, síldar- og loðnusamning og flutningasamning, þess efnis, að um líf- og örorkutryggingu færi samkvæmt ákvæðum framangreinds bráðabirgðaákvæðis siglingalaganna, með þeirri breytingu þó að dánarbætur hækkuðu úr 1 millj. í 2 millj. kr. og örorkubætur úr 3 millj. í 6 millj. kr. Ég vil láta það koma fram og leiðrétta misskilning hjá hv. 1. flm. þessa frv., að þessar bætur ná einnig til togarasjómanna. Um það urðu umr. á milli sjútvrn. og Landssambands ísl. útvegsmanna, að þeir sjómenn, sem ynnu samkvæmt þeim samningum, nytu þessa sama réttar. Og mér er kunnugt um það og hef það raunar staðfest í bréfi frá heildarsamtökum útvegsins, að tryggingar voru teknar í samræmi við þetta einnig fyrir þessa sjómenn. Þetta ákvæði nær því til allra fiskimanna. Hitt er annað mál, að það nær eðlilega ekki til farmanna þar sem lögfesting þessa skriflega samkomulags náði ekki til þeirra, enda fjallaði þetta mál í heild ekki um kjör þeirra, heldur eingöngu kjör fiskimanna.

Brbl. voru lögð í þingbyrjun fyrir hv. Ed., og það má segja að það hafi farið fram sérstök athöfn hér í Nd. í sambandi við þessi brbl. og langar umr. En ég held daginn eftir eða tveim dögum síðar fór fram umr. um þau í Ed. Ég hef því innt af hendi þá skyldu að leggja brbl. fyrir Alþ., gerði það þegar í byrjun á stjórnskipalegan hátt. Ed. hefur ekki afgreitt málið enn frá sér, en lögin eru í gildi frá því að þau voru gefin út og þau staðfesta m. a. þessi réttindi til handa sjómönnum sem ég tel að hafi verið mikils virði. Og þau fela ekki eingöngu í sér, eins og nokkur hópur manna hélt fram og hafði mjög hátt um og hóf undirskriftasafnanir til þess að mótmæla þessum lögum, að þau félög, sem samþykktu samningana á sínum tíma fá hækkun á bæði kaupi og aukin réttindi sem í þeim felast, sem annars hefðu ýmist verið bundin til síðustu áramóta eða verða bundin til 15. maí. Og mér fannst það í sjálfu sér broslegt — og þó ekki broslegt, heldur kannske alvarlegt — hvað hægt var að þyrla miklu moldviðri upp á stöðum sem höfðu gengið frá slíkum samningum, að það er mótmælt kjarabótum, sem brbl. tryggðu öllum, eins þeim sem gengið höfðu frá samningum. Hitt var svo annað atriði málsins sem um urðu deilur, að skiptaprósentan var lögfest samkv. því samkomulagi sem leiðtogar sjómanna höfðu ýmist skrifað undir einu sinni, tvisvar, þrisvar og jafnvel fjórum sinnum, sem þeir töldu sæmilega eða viðunandi lausn til þess að koma á samningum, en var fellt í fjölmörgum félögum sjómanna og á sumum stöðum ekki einu sinni haft við að bera það undir atkvæði sjómanna, þrátt fyrir skriflegar yfirlýsingar um það, að breyting sjóðakerfisins fæli í sér að allir aðilar, sem að breytingu sjóðakerfisins stæðu, kæmu sér saman um að vinna að því, hver á sínum vettvangi, að ná samkomulagi á þessum grundvelli.

Það má segja að ég sé kominn nokkuð út fyrir umræðuefni þessa máls. En ég vil aðeins benda á það, að brbl. tryggja fiskimönnum þennan rétt til 15. maí. Það eru úti samningar á stóru togurunum frá síðustu áramótum. Þar þori ég að fullyrða að engar breytingar verða gerðar í þessum efnum til lækkunar, það vita allir og því engin hætta þar á ferðum. Við þurfum að breyta almannatryggingalögunum og það ríkir allmikil óvissa um margvíslega útreikninga í þessu sambandi, eins og fyrsti flm. frv. gat réttilega um. Ég tel því best og ég hef ekki á móti því að þetta frv. fari til sjútvn. Það er um breyt. á siglingalögum og því eðlilegt, að það fari í þá n. En hér er auðvitað um mjög nána samvinnu að ræða væntanlega á milli heilbr.- og trn. og sjútvn. og almannatryggingalögin verða auðvitað fyrst og fremst að ráða ferðinni, en breytingin á siglingalögunum að vera svo aftur síðast eða jafnhliða til staðfestingar á þeirri stefnu sem þar er tekin. En þó getur annað komið til, að það er auðvitað hægt að semja í frjálsum samningum á milli atvinnurekenda og launþega um þessar bætur og staðfesta síðar með lögum. Það er nú unnið á öllum þessum vígstöðvum að þessum útreikningum, og þegar viðræður hefjast á milli aðila vinnumarkaðarins eða réttara sagt á milli sjómanna og útvegsmanna, þá koma e. t. v. fram skýrari kröfur og vel rökstuddar sem löggjafinn verður að taka mið af.

Hæstv. samgrh. svaraði hér fsp. í gær, sem hv. 1. flm. minnti á, og hann hefur sagt mér að hann væri tilbúinn með sínar till., en vitaskuld þyrftu þær að vera í samræmi við breytingar á almannatryggingalögunum.

Nú vitum við í sambandi við allar dánarbætur samkvæmt almannatryggingalögum að þar var fyrir allmörgum árum tekið upp nýtt bótafyrirkomulag, svokallað 8 ára bætur, sem hafa reynst þeim fjölskyldum ólíkt betur en að fá ákveðna upphæð greidda í einu lagi, því að þar er trygging fyrir það fólk, sem missir fyrirvinnuna, að fá bætur í 8 ár og uppbót eftir því sem bætur almannatryggingalaganna hækka á hverjum tíma. Þessar bætur eru að mörgu leyti mjög erfiðar í framkvæmd, ekki kannske beint fyrir Tryggingastofnunina, en þó verður að taka mið af þeim árlega, hvernig þær eru, og reikna þær út með jafnaðarhækkunum, að mig minnir á fjögurra ára fresti. Aftur eru bætur, sem ekki eru magnbætur, eins og í hinni svokölluðu frjálsu tryggingu eða hjá hinum frjálsu tryggingafélögum, mjög erfiðar í framkvæmd. Þar verða ákaflega miklar og stórstígar hækkanir á iðgjöldum. Ef bætur verða miklar á einn ári, ef þetta meðaltal hækkar verulega, þá verður samkvæmt lögum um vátryggingafélög, sem sett voru á árinu 1973, að mig minnir, auðvitað að taka tillit til aðstæðna tryggingafélagsins um leið. Þessi iðgjöld hafa því hækkað mjög verulega. T. d. urðu mjög þung bótaár 1973 og 1974, en aftur verið miklu minna á árinu 1976, þannig að nú verða hækkanir slysatrygginganna mun minni í framkvæmd á árinu 1977 heldur en verðbólgan gefur til kynna, vegna þess að það hefur dregið hlutfallslega úr tjónabótum.

Ég tel því að n., sem fær þetta frv. til athugunar og umfjöllunar, hljóti að taka mið af þessu öllu og þó alveg sérstaklega að fylgjast vel með því sem er að gerast í sambandi við breytingar á almannatryggingalögunum.